Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 656. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1193  —  656. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Martin Eyjólfsson og Sesselju Sigurðardóttur frá utanríkisráðuneyti.
    Nefndin sendi málið til umsagnar hjá efnahags- og viðskiptanefnd og barst umsögn nefndinni 12. mars síðastliðinn. Þá bárust nefndinni frá utanríkisráðuneyti gögn og upplýsingar um starfsemi Útflutningsráðs.
    Tilgangur frumvarpsins er annars vegar að tryggja áframhaldandi fjármögnun Útflutnings- ráðs en heimild til innheimtu markaðsgjalds fellur niður frá og með 1. janúar 2008. Hins vegar eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi og skipan funda samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti og útflutningsaðstoð.
    Í umsögn efnahags- og viðskiptanefndar er lögð áhersla á að innheimta markaðsgjalds verði ekki framlengd lengur en til 1. janúar 2010. Jafnframt er vakin athygli á því að kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytis um frumvarpið er ekki í samræmi við efni þess þar sem umsögnin gerir ráð fyrir að markaðsgjald verði innheimt til frambúðar sem var upphaflega hugmyndin samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur fengið.
    Í nefndinni var rætt um hvort rétt væri að fela utanríkisráðherra svo víðtækt vald að ákveða upp á sitt eindæmi hverjir sætu í samráðsnefnd skv. 1. gr. laganna.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu: Í fyrsta lagi að í 1. gr. verði kveðið á um að fulltrúar heildarsamtaka atvinnulífsins á Íslandi skuli eiga sæti í samráðsnefndinni. Í öðru lagi leggur nefndin til að heimild ráðherra til að setja reglugerð um starfsemi nefndarinnar verði gerð skýrari og honum m.a. heimilað að útfæra nánar hvaða samtök það eru sem eigi aðild að henni á hverjum tíma. Í þriðja lagi er svo lagt til að innheimta markaðsgjalds verði aðeins framlengd til ársins 2010.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. mars 2007.Halldór Blöndal,


form., frsm.


Össur Skarphéðinsson.


Jón Kristjánsson.Drífa Hjartardóttir.


Jón Gunnarsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.Steingrímur J. Sigfússon.


Sæunn Stefánsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.