Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 443. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1197  —  443. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergdísi Ellertsdóttur og Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Kristján Sturluson, Sólveigu Ólafsdóttur og Helgu Þórólfsdóttur frá Rauða krossi Íslands, Guðrúnu D. Guðmundsdóttur og Brynhildi G. Flóvenz frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Árna Múla Jónasson frá Íslandsdeild Amnesty International.
    Málið var sent út til umsagnar og bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Flugmálastjórn, Hjálparstarfi kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty International, landlækni, Landssambandi lögreglumanna, Ljósmæðrafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossi Íslands, Samtökum heilbrigðisstétta, Samtökum hernaðarandstæðinga, Tollvarðafélagi Íslands og Trygginga-stofnun ríkisins. Auk þess bárust nefndinni athugasemdir frá Elíasi Davíðssyni.
    Þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum má rekja aftur til ársins 1950 þegar lögreglumenn fóru til starfa í Palestínu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og þátttaka Íslands í alþjóðlegri friðargæslu markvisst verið efld undanfarin ár. Af þeim sökum var orðið brýnt að setja lagaramma utan um starfsemina og kveða nánar á um í lögum hvaða verkefni heyra undir friðargæslu, um réttarstöðu friðargæsluliða, réttindi þeirra og skyldur o.fl. Markmið frumvarpsins er að skjóta styrkari lagastoðum undir þátttöku Íslands í alþjóðlegri friðargæslu og setja reglur um ýmis atriði sem til þeirrar starfsemi heyrir, m.a. um réttarstöðu starfsmanna.
    Ágreiningur varð í nefndinni fyrst og fremst um orðalag 1. gr. frumvarpsins en nefndin var að öðru leyti sammála um breytingartillögur við frumvarpið sem meiri hlutinn leggur til. Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að 6. gr. frumvarpsins verði felld brott. Sú breyting hefur fyrst og fremst í för með sér að almennar reglur 12. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eigi við þegar metið er hvort friðargæsluliði hafi í störfum sínum farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar. Ekki þótti ástæða til að lögfesta sérreglur að þessu leyti um starfsemi friðargæsluliða enda er ákvæði 12. gr. almennra hegningarlaga þannig orðað að þær sérstöku aðstæður sem friðargæsluliðar starfa við hljóta að koma til skoðunar hjá dómstólum við beitingu ákvæðisins. Til samræmis við breytingu á 6. gr. er lögð til breyting á 5. gr. Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við ákvæði í 7. gr., er verði 6. gr., þess efnis að þrátt fyrir ákvæði um þagnarskyldu í starfi hvíli sú skylda á friðargæsluliðum að upplýsa vinnuveitanda sinn, utanríkisráðuneytið, ef þeir verða varir við háttsemi sem talist geti mannréttindabrot. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að utanríkisráðuneyti fái skilyrðislaust upplýsingar ef slík háttsemi á sér stað á starfssvæði friðargæsluliða. Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til lagfæringar á 10. gr. frumvarpsins þess efnis að tiltekin ákvæði laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna, gildi ekki um friðargæsluliða en það er í samræmi við önnur ákvæði frumvarpsins um réttarstöðu friðargæsluliða. Loks leggur meiri hlutinn til smávægilegar lagfæringar á 11. og 12. gr. frumvarpsins.
         Í nefndinni var m.a. rætt um nauðsyn þess að setja friðargæsluliðum siðareglur en í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði sem skyldar friðargæsluliða til að undirgangast siðareglur sem utanríkisráðherra setur. Fyrir nefndina voru lögð drög að siðareglum fyrir friðargæsluliða. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vel verði vandað til gerðar siðareglna og þær settar sem fyrst eftir gildistöku laganna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 13. mars 2007.



Halldór Blöndal,


form., frsm.


Jón Kristjánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Sæunn Stefánsdóttir.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.