Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 704. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1200  —  704. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um minningu tveggja alda afmælis Jóns Sigurðssonar forseta.

Flm.: Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


Jón Sigurðsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra,


Steingrímur J. Sigfússon,     Guðjón A. Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa hvernig minnast eigi þess að 17. júní 2011 verða liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta.
    Stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi tilnefni hver um sig einn í nefndina, forseti Alþingis einn og Hrafnseyrarnefnd einn.
    Forsætisráðuneyti láti nefndinni í té starfsaðstöðu.
    Nefndin geri fyrstu tillögur eigi síðar en í árslok 2008 en vinni síðan að undirbúningi hátíðarhalda á árinu 2011. Nefndin leiti enn fremur eftir tillögum frá stofnunum og samtökum sem tengjast minningu Jóns Sigurðssonar forseta.

Greinargerð.


    Jón Sigurðsson forseti fæddist að Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811. Hann þótti einn lærðasti stjórnmálamaður Íslands á sinni tíð og sennilega mun enginn stjórnmálamaður nokkurrar þjóðar hafa látið sögu lands síns þjóna málstað nútíðarinnar af slíkri kostgæfni og með jafnríkum árangri og Jón Sigurðsson.
    Jón dvaldist lengstan hluta ævi sinnar í Kaupmannahöfn. Þangað sigldi hann árið 1833 og dvaldist þar óslitið við nám og störf til ársins 1845. Tveimur árum eftir komuna til Kaupmannahafnar tengdist Jón Árnasafni þar sem þjóðargersemar Íslendinga, handritin, voru geymdar. Átti hann eftir að starfa þar meira og minna alla tíð síðan, enda varð hann með tímanum helsti sérfræðingur 19. aldar í íslenskum miðaldahandritum. Auk starfa við Árnasafn vann Jón geysimikið fyrir ýmsar aðrar stofnanir og félög á sviði íslenskra fræða, en þau urðu ævistarf hans utan stjórnmálanna. Aldrei hafði hann þó að föstu starfi að hverfa.
    Jón Sigurðsson hóf stjórnmálastarfsemi sína um þrítugsaldur þegar hann og nokkrir félagar hans réðust í útgáfu Nýrra félagsrita sem urðu höfuðmálgagn hans í 30 ár. Vorið 1845 hélt Jón áleiðis til Íslands til að sitja fyrsta þing hins endurreista Alþingis fyrir Ísafjarðarsýslu. Frá endurreisn Alþingis varð Jón Sigurðsson forustumaður í öllum störfum þess. Skoðanir hans og stefnumál mótuðu þingið fyrstu árin og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags. Hann var tíu sinnum kjörinn forseti þingsins og hefur enginn maður gegnt þeirri stöðu jafnlengi.
    Þó að Jón sé nú best þekktur fyrir þátt sinn í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var hann einnig með mestu fræðimönnum landsins á sínum tíma. Sú skoðun er almenn að enginn hafi verið betur að sér um allt það er viðkom sögu landsins að fornu og nýju en Jón Sigurðsson. Fljótlega eftir komuna til Kaupmannahafnar gekk Jón í Hið íslenska bókmenntafélag og fékk mikinn áhuga á starfsemi þess. Í Bókmenntafélaginu var hann kosinn til forustu árið 1851, sama ár og þjóðfundurinn var haldinn, og strax þá jókst bókaútgáfa og umsvif Bókmenntafélagsins.
    Jón Sigurðsson varð fyrsti formaður Þjóðvinafélagsins, og virðist hann hafa séð að mestu leyti um Almanak þess meðan hann lifði, eða árgangana 1875–1880.
    Eiginkona Jóns var Ingibjörg Einarsdóttir. Þau voru gefin saman í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík haustið 1845.
    Jón Sigurðsson andaðist í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 eftir nokkurra mánaða erfið veikindi. Ingibjörg, kona hans, sem hafði verið við sjúkrabeð manns síns, lést svo níu dögum síðar en hann. Þau hjón hvíla í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Á silfursveig sem Íslendingar í Höfn settu á kistu Jóns standa þessi fleygu orð: Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.
    Alþingi samþykkti á lýðveldisárinu 1944 þingsályktun þar sem nefnd þeirri sem fela átti að undirbúa hátíðarhöld við lýðveldisstofnunina var jafnframt falið að „rannsaka og gera tillögur um nauðsynlegar framkvæmdir á Rafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar“. Ári síðar samþykkti Alþingi áskorun til ríkisstjórnarinnar um að skipa nefnd til að stýra framkvæmdum á Rafnseyri. Hrafnseyrarnefnd tók til starfa árið 1945 og skipa hana fimm einstaklingar og er formaður skipaður af forsætisráðherra sem skipar aðra nefndarmenn samkvæmt tilnefningu.
    Á vegum Hrafnseyrarnefndar var árið 1980 opnað safn til minningar um Jón Sigurðsson. Þar er að finna ljósmyndasýningu um líf og starf Jóns Sigurðssonar. Sama ár var vígð á Hrafnseyri minningarkapella Jóns Sigurðssonar. Þá beitti nefndin sér fyrir endurgerð á gamla torfbænum á Hrafnseyri, fæðingarbæ Jóns, sem var upphaflega reistur um aldamótin 1800 af afa hans og alnafna. Bærinn var tekinn formlega í notkun árið 1997. Einnig gengst nefndin fyrir hátíðarhöldum á Hrafnseyri hinn 17. júní á ári hverju.
    Jónshús í Kaupmannahöfn hefur verið í eigu Alþingis frá árinu 1967 er Carl Sæmundsen stórkaupmaður gaf það í minningu Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur. Þau hjón bjuggu í húsinu frá árinu 1852 allt til dauðadags, 1879. Húsið er við Øster Voldgade, númer 12. Árið 1970 hófst rekstur í húsinu. Þar er nú félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn, minningarsafn um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu, bókasafn o.fl. Einnig hafa Stúdentafélagið, Íslendingafélagið, íslenski söfnuðurinn og sendiráðspresturinn og fleiri aðstöðu í húsinu. Þá er íbúð umsjónarmanns í húsinu, en þar var áður íbúð sendiráðsprests meðan hann gegndi jafnframt stöðu umsjónarmanns hússins. Stjórn Jónshúss ber ábyrgð á rekstri Jónshúss í umboði forseta Alþingis og forsætisnefndar.
    Árið 2011 verða 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Gerð er tillaga um að Alþingi álykti af því tilefni að fela forsætisráðherra að skipa nefnd til að undirbúa hvernig minnast eigi þeirra tímamóta. Lagt er til að í nefndina tilnefni stjórnmálaflokkar á Alþingi einn fulltrúa hver, forseti Alþingis einn og Hrafnseyrarnefnd einn.
    Lagt er til að forsætisráðuneytið láti nefndinni í té starfsaðstöðu. Gert er ráð fyrir því að nefndin geri fyrstu tillögur eigi síðar en í árslok 2008 en vinni síðan að undirbúningi hátíðarhalda á árinu 2011. Nefndinni ber að leita eftir tillögum frá stofnunum og samtökum sem tengjast minningu Jóns Sigurðssonar forseta.
    Á árinu 2011 verða jafnframt liðin 100 ár frá stofnun Háskóla Íslands, en skólinn var stofnaður á aldarafmæli Jóns forseta. Þess má vænta að Háskólinn efni til hátíðarhalda af því tilefni. Það kemur þá í hlut þeirrar nefndar, sem hér er gerð tillaga um, að leita eftir samstafi við Háskólann ef það þykir henta.
    Meðal þess sem nefndinni er ætlað að huga að í aðdraganda hátíðarhaldanna á árinu 2011 er að efla kynningarstarf um þjóðfrelsishetjuna Jón Sigurðsson, huga að framtíðaruppbyggingu á Hrafnseyri og bæta umhverfi staðarins. Enn fremur að ráðast í endurbætur á safni Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri sem staðið hefur óbreytt í 26 ár. Loks er að nefna endurnýjun safns Jóns Sigurðssonar og konu hans Ingibjargar Einarsdóttur í Jónshúsi Kaupmannahöfn.