Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 561. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1207  —  561. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rögnvaldsson, Ingva Má Pálsson og Lilju Sturludóttur frá fjármálaráðuneyti og Þóreyju S. Þórðardóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Einnig bárust umsagnir um frumvarpið.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Breytingarnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar í tilefni af samkomulagi Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um samræmingu lífeyrisréttinda samkvæmt lífeyrisreglum ríkisstarfsmanna. Er í samkomulaginu stefnt að því að samhæfa útreikning lífeyrisréttinda með tilliti til mismunandi lífeyriskerfa. Í öðru lagi er lagt til að starfsmönnum alþjóðastofnana, sem Ísland á aðild að samkvæmt lögum eða alþjóðlegum samningum, verði að vissum skilyrðum uppfylltum veittur réttur til að greiða iðgjald til B-deildar sjóðsins meðan á starfstíma þeirra erlendis stendur. Í þriðja lagi lúta þær breytingar sem í frumvarpinu felast að því að lækka iðgjaldaprósentu sveitarfélaga vegna kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Er gert ráð fyrir að iðgjaldið lækki úr 9,5% í 7,5% en heildariðgjald sveitarfélaga vegna starfsmanna grunnskóla sem eru í B-deild hækkaði úr 15,5% í 17,5% með tilkomu laga nr. 167/2006 þar sem kveðið er á um að mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð hækki úr 6% í 8%. Í samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um kostnaðar- og tekjufærslu vegna flutnings grunnskólans var svo um samið á sínum tíma að sveitarfélögin bæru ekki frekari ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum vegna kennara og er því þessi breyting nauðsynleg til að koma í veg fyrir að útgjöld sveitarfélaga hækki vegna hækkaðs mótframlags í B-deild sjóðsins.
    Fram kom í umsögn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um frumvarpið að sú lækkun sem hér sé lögð til hefði þýtt 1,7 milljörðum kr. lægri eignir sjóðsins nú ef reiknað væri með 7,5% viðbótarframlagi í stað 9,5% á árunum 1997–2006. Einnig kom fram að sé einungis litið til iðgjaldagreiðslna á árinu 2006 hefði lægra iðgjald haft í för með sér um 100 millj. kr. lægri eignastöðu sjóðsins og þá samsvarandi hækkun á bakábyrgð ríkissjóðs.
    Nefndin bendir á að sú hækkun á iðgjaldi vinnuveitenda í lífeyrissjóð sem kveðið er á um í lögum nr. 167/2006 sem öðluðust gildi 1. janúar 2007 var almenn og stafaði annars vegar af auknu langlífi þjóðarinnar og hins vegar af aukinni örorku í þjóðfélaginu. Nefndin telur að eðlilegt hefði verið að fara aðra leið en þá sem hér er lögð til og hvetur til þess að áðurnefnt samkomulag, sem gert var vegna flutnings grunnskólans, verði endurskoðað.
    Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Er annars vegar lagt til að lokamálsliður 1. gr. frumvarpsins falli brott enda er slíkt ákvæði þegar í 1. mgr. 7. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þar sem fram kemur að stjórn sjóðsins setji samþykktir í samræmi við lög sjóðsins og önnur lög um lífeyrissjóði. Hins vegar er lagt til að sá hluti gildistökuákvæðisins sem kveður á um afturvirkni 2. gr. verði í ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið enda er um tímabundið ákvæði að ræða. Tilgangur þess er sá að sveitarfélögin fái endurgreitt það sem þau hafa greitt frá áramótum, umfram það sem samið var um á sínum tíma, þ.e. við flutning grunnskólans.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. Lokamálsliður falli brott.
     2.      Við 5. gr. Greinin orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi.
     3.      Við bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 34. gr. laganna skal hlutfallið vera 7,5% frá 1. janúar 2007.

    Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Katrín Júlíusdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 11. mars 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Katrín Júlíusdóttir,


með fyrirvara.


Dagný Jónsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Ágúst Ólafur Ágústsson,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.



Sæunn Stefánsdóttir.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.