Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 566. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1234  —  566. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um meginreglur umhverfisréttar.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Aðalheiði Jóhannsdóttur dósent við lagadeild Háskóla Íslands, og Sigrúnu Ágústsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Nefndinni hafa einnig borist umsagnir um málið.
    Með frumvarpinu er lagt til að nokkrar af mikilvægustu meginreglum umhverfisréttarins verði lögfestar. Markmið frumvarpsins er að stuðla að sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu umhverfis, auðvelda samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum ákvarðana sem varða umhverfið. Að öllu þessu er stefnt með hag núlifandi og komandi kynslóða að leiðarljósi. Til að vinna að þessu markmiði skal útfæra meginreglurnar nánar við setningu og framkvæmd laga og reglna sem áhrif hafa á umhverfið og beita þeim þegar undirbúnar og teknar eru ákvarðanir sem áhrif hafa á umhverfi.
    Með því að hafa í einum lagabálki nokkrar af mikilvægustu reglum umhverfisréttarins má auðvelda undirbúning og töku ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi. Hið sama á við um undirbúning nýrrar löggjafar, reglugerða o.s.frv. Í frumvarpinu er leitast við að skýra meginreglurnar og gera grein fyrir helstu röksemdum sem að baki þeim búa.
    Rætt var um það í nefndinni hvort ganga ætti lengra en nú er gert í því að heimila einstaklingum sem ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls að kæra ákvarðanir sem lúta að umhverfinu. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að þeir aðilar sem geti kært en teljast ekki hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls séu umhverfis- og útivistarsamtök með að lágmarki 30 meðlimi, sem eru opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur og hafa endurskoðað bókhald. Nefndin telur vert að skoða hvort útvíkka ætti þennan rétt enn frekar en ekki gafst ráðrúm til að gaumgæfa þetta betur á þeim stutta tíma sem nefndin hafði frumvarpið til meðferðar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 15. mars 2007.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form., frsm.


Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Guðjón Ólafur Jónsson.



Mörður Árnason,


með fyrirvara.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.



Kjartan Ólafsson.


Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.