Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 706. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1235  –  706. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992 og 102/1993.

Flm.: Sólveig Pétursdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Össur Skarphéðinsson,


Hjálmar Árnason, Ögmundur Jónasson, Magnús Þór Hafsteinsson.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Orðið „fasta“ í 1. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „umræðunum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: fundinum.
     c.      3. málsl. 2. mgr. orðast svo: Tillögurnar má bera upp munnlega, án nokkurs fyrirvara, og greiða má atkvæði um þær í einu lagi.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Við umræður um tillögur skv. 2. mgr. gilda sömu reglur og við 2. umræðu um lagafrumvörp.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Sérhver nýr þingmaður skal vinna svofellt drengskaparheit að stjórnarskránni undireins og búið er að viðurkenna að kosning hans sé gild, sbr. 47. gr. stjórnarskrárinnar: Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.
    Meðan þingmaður hefur ekki unnið heit samkvæmt þessari grein má hann ekki taka þátt í þingstörfum, sbr. þó 5. mgr. 5. gr.

3. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Rétt kjörinn forseti er sá er hefur hlotið meira en helming greiddra atkvæða. Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð við fyrstu kosningu skal kosið að nýju. Fái þá heldur enginn nógu mörg atkvæði skal kjósa um þá tvo þingmenn er flest atkvæði fengu við síðari kosninguna. Hafi við þá kosningu fleiri en tveir fengið jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Ef þeir fá jafnmörg atkvæði við þriðju kosninguna ræður hlutkesti hvor þeirra verður forseti.

4. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Kosning forseta, varaforseta, fastanefnda og alþjóðanefnda, sbr. 3., 13. og 35. gr., gildir fyrir allt kjörtímabilið. Þingið getur þó, hvenær sem er, kosið að nýju skv. 3., 13. og 35. gr. ef fyrir liggur beiðni meiri hluta þingmanna þar um og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.
    Fráfarandi forseti og varaforsetar skulu gegna störfum frá kjördegi og fram til þingsetningar hafi þeir verið endurkjörnir alþingismenn. Sé forseti ekki endurkjörinn gegnir störfum hans sá varaforseti sem næst honum gengur í röð endurkjörinna varaforseta, ella aldursforseti, sbr. 1. gr., sé enginn þeirra þingmaður lengur.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann skal sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga.
                  Forseti tekur við öllum erindum til Alþingis og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá þinginu eiga að fara. Forseti skýrir á þingfundi frá erindum sem send eru Alþingi og þingskjölum sem lögð eru fram meðan á þingfundi stendur.
                  Beina má fyrirspurnum til forseta á þingskjali og óska skriflegs svars um stjórnsýslu á vegum þingsins. Gilda þá ákvæði 49. gr. um meðferð fyrirspurna eins og við getur átt.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hann getur sett almennar reglur um fundarsköp nefndanna og starfsaðstöðu, að höfðu samráði við formenn nefnda og þingflokka.

6. gr.

    3. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Skrifstofustjóri ræður aðra starfsmenn þingsins.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Skrifstofustjóri Alþingis, eða fulltrúi hans, situr þingfundi og er forsetum til aðstoðar.
                  Alþingistíðindi, B-deild, eru gerðabók þingsins, sbr. fyrri málslið 2. mgr. 77. gr.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Í skjalasafni Alþingis skal varðveita erindi er þinginu berast, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 28. gr., svo og gerðabækur þess, fundargerðir nefnda og önnur skjöl er varða starfsemi þingsins og rekstur eða Alþingi er falið að varðveita, sbr. og 10. gr. stjórnarskrárinnar.

8. gr.

    Síðari málsgrein 13. gr. laganna orðast svo:
    Fastanefndir skal kjósa á fyrsta fundi Alþingis að afloknum alþingiskosningum, sbr. 68. gr.

9. gr.

    4. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Nefnd getur, hvenær sem er, kosið að nýju formann eða varaformann ef fyrir liggur beiðni meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram.

10. gr.

    Við 2. mgr. 17. gr. laganna bætist: nema þingflokkur hans ákveði annað. Skal þá fylgt reglum 3. mgr. um staðgengil. Ákvæði þetta á þó ekki við ef kosnir eru varamenn í nefndum. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda einnig við fráfall þingmanns eða afsögn.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Orðið „byggðamálum“ í 3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal allsherjarnefnd fjalla um skýrslu umboðsmanns Alþingis áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skila áliti um hana.

12. gr.

    Við 3. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal fjárlaganefnd fjalla um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skila áliti um hana.

13. gr.

    Við 26. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Í skýrslu frá nefnd má og gera tillögu til þingsályktunar og kemur tillagan til afgreiðslu við lok umræðunnar um skýrsluna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 44. gr.

14. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Á Alþingi starfa þessar alþjóðanefndir:
     1.      Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins, IPU.
     2.      Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
     3.      Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA.
     4.      Íslandsdeild NATO-þingsins.
     5.      Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
     6.      Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.
     7.      Íslandsdeild þings Vestur-Evrópusambandsins, VES.
     8.      Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE.
     9.      Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.
    Í alþjóðanefndir skal kjósa samhliða kosningu fastanefnda skv. 13. gr. Í Íslandsdeild Norðurlandaráðs skulu kosnir sjö aðalmenn og jafnmargir varamenn, í Vestnorræna ráðið sex aðalmenn og jafnmargir varamenn og í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA fimm aðalmenn og jafnmargir varamenn. Í aðrar alþjóðanefndir skal kjósa þrjá aðalmenn og jafnmarga varamenn.
    Alþjóðanefndir skulu kjósa sér formann og varaformann.
    Um fundarsköp alþjóðanefnda gilda sömu reglur og um fastanefndir eftir því sem við á.
    Hver alþjóðanefnd skal hafa ritara sem er henni til aðstoðar.
    Forseti getur sett almennar reglur um störf alþjóðanefnda þingmanna.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Forseti getur sett leiðbeiningarreglur um frágang lagafrumvarpa.
     b.      Orðin „nema með samþykki þingsins“ í 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „að meiri hluti þingmanna samþykki það“ í 2. mgr. kemur: að þingið samþykki það, sbr. 67. gr.

16. gr.

    Í stað síðari málsliðar 38. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Þá er þeirri umræðu er lokið gengur það til annarrar umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.

17. gr.

    Í stað síðari málsliðar 1. mgr. 39. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Síðan skal greiða atkvæði um greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær sem fram hafa komið, svo og um einstök atriði er þingmenn beiðast. Frumvarpið gengur síðan til 3. umræðu en þó skal leita atkvæða um það ef einhver þingmaður óskar þess.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Í stað síðari málsliðar 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Tillögur um vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra, tillögur um kosningu nefnda skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar, svo og tillögur nefnda, sbr. 2. mgr. 26. gr., skulu þó ræddar og afgreiddar við eina umræðu eftir reglum um síðari umræðu um þingsályktunartillögur. Sama gildir um tillögur um frestun á fundum Alþingis samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 23. gr. stjórnarskrárinnar.
     b.      Í stað 2. málsl. 3. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Er fyrri umræðu er lokið gengur tillagan til síðari umræðu og þeirrar nefndar er forseti leggur til. Atkvæða skal þó leitað ef einhver þingmaður óskar þess, svo og ef önnur tillaga kemur fram um til hvaða nefndar málið fari.
     c.      Í stað orðanna „þessari málsmeðferð“ í 3. málsl. 3. mgr. kemur: ræðutíma við fyrri umræðu.
     d.      Á eftir 3. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður er orðast svo: Séu engar breytingartillögur má þó bera tillöguna upp í heild.
     e.      Í stað orðanna „að meiri hluti þings samþykki það“ í 6. mgr. kemur: að þingið samþykki það, sbr. 67. gr.

19. gr.

    Orðin „skal samþykkja gerðabók frá síðasta fundi, sbr. 12. gr. Þar næst“ í 1. og 2. málsl. 3. mgr. 53. gr. laganna falla brott.


20. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 57. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tillagan kemur eigi til afgreiðslu fyrr en við lok umræðu.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein er verður 3. mgr. og orðast svo:
                  Forseti getur gert hlé á fundum þingsins, í samræmi við starfsáætlun þess, sbr. 10. gr. og 1. mgr. 72. gr., en þó er honum skylt að boða til fundar, ef ósk berst um það frá forsætisráðherra eða meiri hluta þingmanna, með þeirri dagskrá sem slíkri ósk fylgir.
     b.      3. mgr., er verður 4. mgr., orðast svo:
                  Forseti getur ákveðið, ef ósk liggur fyrir um það og enginn þingmaður andmælir því, að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef þau fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum. Gildir þá ræðutími sem um eitt mál. Séu mál ósamkynja gildir sá ræðutími sem rýmstur er.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „við nafnakall“ í síðari málslið 1. mgr. kemur: eða við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði.
     b.      2. mgr. fellur brott.

24. gr.

    Á eftir orðinu „ef“ í síðari málslið 65. gr. laganna kemur: þingflokkur eða.

25. gr.

    66. gr. laganna orðast svo:
    Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða úrslit máls séu ljós fyrir fram má hann lýsa yfir því að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað atkvæðagreiðslu. Um lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna verður forseti þó að viðhafa atkvæðagreiðslu.
    Atkvæðagreiðsla skal fara fram með rafeindabúnaði þar sem staðfest er hverjir taka þátt í henni og hvernig hver þingmaður greiðir atkvæði. Forseti skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar. Atkvæði hvers þingmanns við lokaafgreiðslu lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna skal skrásetja í þingtíðindum, svo og við aðrar atkvæðagreiðslur nema allir séu á einu máli. Skrifstofan varðveitir afrit allra atkvæðagreiðslna með rafeindabúnaði.
    Ef atkvæðagreiðsla getur eigi farið fram með rafeindabúnaði skal hún fara fram á þann hátt að hver þingmaður réttir upp hönd þegar forseti leitar atkvæða með eða móti máli eða hvaða þingmenn greiði ekki atkvæði. Forseti lætur telja atkvæðin, svo og þá sem greiða ekki atkvæði, og skýrir frá úrslitum.
    Forseti getur látið fara fram nafnakall í stað atkvæðagreiðslu skv. 2. eða 3. mgr. Honum er það og heimilt þótt atkvæðagreiðsla hafi áður farið fram ef hún hefur verið óglögg eða verið hreyft athugasemdum við hana, enda fari hin síðari atkvæðagreiðsla fram þegar í stað. Komi fram ósk um nafnakall skal við henni orðið. Við nafnakall skal farið eftir tölusettri nafnaskrá í stafrófsröð og hlutað um í hvert sinn á hverri raðtölunni skuli byrja nafnakallið. Við nafnakall greiðir forseti atkvæði síðastur.
    Atkvæðagreiðslu skv. 2. mgr. má endurtaka þótt úrslitum hennar hafi verið lýst ef forseti telur ástæðu til þess eða ósk berst um það frá þingmanni. Hin nýja atkvæðagreiðsla skal þá fara fram þegar í stað og áður en nokkur önnur ályktun er gerð eða nýtt mál tekið fyrir. Vilji þingmaður á fundi gera leiðréttingu eftir að atkvæði hafa verið greidd skv. 2. mgr. er honum heimilt að láta skrá hana í þingtíðindin en þó því aðeins að hann hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Leiðréttingin breytir ekki úrslitum atkvæðagreiðslunnar.

26. gr.

    Við 67. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skal þá telja atkvæði með og móti máli.

27. gr.

    Í stað 2. mgr. 71. gr. laganna komi tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Í þingflokki skulu vera a.m.k. þrír þingmenn.Tveir þingmenn geta þó myndað þingflokk enda sé til þingflokksins stofnað þegar að loknum kosningum og þingmennirnir kosnir á listum sama stjórnmálaflokks eða sömu stjórnmálasamtaka.
    Enginn þingmaður má eiga aðild að fleiri en einum þingflokki.

28. gr.

    73. gr. laganna orðast svo:
    Við upphaf hvers þings skal forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, en eftirrit af ræðunni skal afhent þingmönnum sem trúnaðarmál tveimur sólarhringum áður en hún er flutt.
    Forseti skal gera tillögu og leita samkomulags um fyrirkomulag umræðunnar, lengd hennar, umferðir og ræðutíma forsætisráðherra, þingflokka og einstakra þingmanna, svo og þingmanna utan flokka. Ef ekki tekst samkomulag skal forseti ákveða fyrirkomulag umræðunnar en þingflokkur getur þó krafist þess að um ákvörðun forseta séu greidd atkvæði á þingfundi.
    Eftirriti stefnuræðunnar skal fylgja yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu. Yfirlitið skal prenta í þingtíðindunum.

29. gr.

    74. gr. laganna orðast svo:
    Á síðari hluta þings skal fara fram almenn stjórnmálaumræða. Um fyrirkomulag hennar gilda ákvæði 2. mgr. 73. gr.
    

30. gr.

    Í stað VI. kafla laganna kemur ein ný grein, er verður 75. gr., er orðast svo:
    Útvarpa skal frá þingsetningu, stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana og almennri stjórnmálaumræðu.
    Útvarpa skal umræðu um vantraust ef þingflokkur krefst þess.
    Útvarpa skal umræðu um þingmál, eða hluta hennar, ef þingflokkur krefst þess og samkomulag er um það milli þingflokka eða forseti hefur ákveðið slíka umræðu eftir kröfu þingflokksins. Þingflokkurinn á rétt á, sé kröfu hans hafnað, að beiðni hans sé borin undir atkvæði á þingfundi.
    Um fyrirkomulag umræðu skv. 2. og 3. mgr. gilda ákvæði 2. mgr. 73. gr.
    Þegar segir að útvarpa skuli umræðum er skyldan bundin við Ríkisútvarpið.

31. gr.

    Við 87. gr. laganna, sem verður 76. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Að flutningi máls skv. 36. og 44. gr., svo og breytingartillagna við það, geta staðið þingmenn, ráðherrar, þingflokkar og fastanefndir, sérnefndir eða alþjóðanefndir, svo og forsætisnefnd.

32. gr.

    88. gr. laganna, sem verður 77. gr., orðast svo:
    Umræður á Alþingi og þingskjöl skal prenta í Alþingistíðindum. Skrifstofa Alþingis annast útgáfu Alþingistíðindanna.
    Í A-deild Alþingistíðinda skal prenta þingskjöl og í B-deild skal prenta allar umræður og auk þess dagskrár þingfunda, tilkynningar, atkvæðagreiðslur og hvað annað sem fram fer á þingfundum og geta þar afgreiðslu mála og málsatriða.
    Í Alþingistíðindunum má ekkert undan fella sem þar á að standa og fram hefur komið í þinginu og hljóðupptaka ber með sér. Engar efnisbreytingar má gera nema leiðrétta þurfi auðsæjar og sannanlegar villur. Engu má bæta inn í Alþingistíðindin, hvort sem það varðar menn eða málefni, nema þess sé óhjákvæmilega þörf eða í því felist sjálfsögð leiðrétting.
    Forseti getur sett nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda, þar á meðal um birtingu þeirra í rafrænum búningi.

33. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er niðurstaða starfs sem farið hefur fram að undanförnu á vegum forseta og formanna þingflokka. Flestar breytingarnar, sem hér er lagðar til, voru settar fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis árið 1998, þ.e. í 540. máli á 123. löggjafarþingi, en málið varð þá ekki útrætt.
    Upphafið má rekja til þess að þegar eftir breytingar á þingsköpunum 1991, í kjölfar þess að deildir þingsins voru afnumdar, var ákveðið að stefna að endurskoðun þingskapanna þegar nokkur reynsla hefði fengist af þeim í einni málstofu. Hefur því verið safnað saman á undanförum árum ýmsum atriðum sem hafa þyrfti hliðsjón af þegar til endurskoðunarstarfsins kæmi.
    Í eldra frumvarpinu, frá 123. löggjafarþingi, voru lagðar til gagngerar breytingar á þingsköpunum. Þá varð ágreiningur um ræðutíma og nefndaskipanina. Ákvæði um þau atriði eru lögð til hliðar að þessu sinni og eru í þessu frumvarpi eingöngu lagðar til tæknilegar breytingar og breytingar sem samkomulag er um.
    Þess skal sérstaklega getið að rætt var allítarlega um starfstíma Alþingis og þær hugmyndir sem fram hafa komið um að lengja hann. Samstaða varð ekki um annan þingsetningardag að hausti, t.d. um miðjan september, en áfram verður kannað hvort lengja megi starfstíma þingsins með öðrum hætti. Hefur í því sambandi verið nefnt að þingið gæti hagað þingfrestun að vori þannig að þingið kæmi saman á ný í september til að ljúka afgreiðslu ýmissa mála sem ekki hefði unnist tími til að afgreiða að vori, en hefðbundin þingsetning yrði áfram 1. október og þá hæfist nýtt löggjafarþing þar sem fjárlagafrumvarp og önnur ný þingmál yrðu lögð fram. Það væri þá í valdi þingsins hverju sinni hversu langan tíma það tæki sér að hausti til að starfa áður en nýtt löggjafarþing hæfist.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Við breytingar á þingsköpum árið 1991 var tekin upp sú skipan að aldursforseti skyldi sá þingmaður teljast er lengsta þingsetu hefur að baki, þ.e. starfsaldursforseti. Miðað er við lengsta „fasta þingsetu“, þingseta í varamannssæti er því ekki talin með. Það þykir óeðlilegt og því er lagt til í a-lið að breyting verði gerð. Þingseta samkvæmt þessu nýja orðalagi er því talin sá tími sem er frá kosningu þingmanns, eða þeim tíma sem hann tók fast sæti á Alþingi, auk þess tíma sem hann hefur setið sem varamaður á þinginu; er þá eðlilegast að miða við þann tíma sem þingmaður hefur notið þingfararkaups sem varamaður. Þingsetutíminn þarf ekki að vera samfelldur.
    Verkefni starfsaldursforseta á þingsetningarfundi geta verið margvísleg. Hann hefur allan sama rétt og skyldur sem forseti þangað til forseti þingsins er kosinn, sbr. 7. gr. þingskapa. Því þykir misvísandi að í 1. gr. þingskapa segir að hann stjórni „umræðunum“ sem sjaldnast eru nokkrar. Hann annast hins vegar afgreiðslu kjörbréfa og stjórnar forsetakjöri auk annarra fundarstarfa. Því er eðlilegra orðalag að segja að starfsaldursforseti stjórni þingsetningarfundinum þar til forseti er kjörinn. Það skýrir breytingu skv. b-lið.
    Í c-lið er um orðalagsbreytingu að ræða. Felld eru niður nokkur orð sem enga sjálfstæða þýðingu hafa, svo sem um atkvæðafjölda við afgreiðslu tillagna nefndarinnar, sbr. 64. gr. Í greinina er hins vegar bætt því ákvæði að tillögur nefndarinnar megi afgreiða í einu lagi, þ.e. að ekki þurfi að greiða atkvæði um hvert og eitt kjörbréf. Er það í samræmi við venju.
    Þá er 3. mgr. breytt þannig að umræður um tillögur nefndarinnar um afgreiðslu kjörbréfa (í lagatextanum er nú talað um „umræður á þingsetningarfundum“) fari fram eftir sömu reglum og gilda við 2. umræðu um lagafrumvörp (í stað tilvísunar í 55. gr.). Þykir það nákvæmara orðalag með hliðsjón af því að á þingsetningarfundi fer fleira fram en afgreiðsla kjörbréfa.
    

Um 2. gr.


    Tekinn er upp í greinina heitstafur sá sem löng venja er fyrir – og stjórnarskrárbundið – að alþingismenn undirriti er þeir taka sæti á Alþingi í fyrsta sinn, hvort sem það er sem aðalmaður eða varamaður. Verður orðalagi hans því ekki breytt nema með breytingu á þingsköpum. Í greininni er núverandi orðalagi haldið óbreyttu þótt það þyki nokkuð fornlegt.
    Jafnframt er í 2. mgr. kveðið afdráttarlaust á um það að þingmaður nýtur þá fyrst fullra þingmannsréttinda þegar hann hefur undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni. Svo hefur einnig verið viðhorf fræðimanna til þessa ákvæðis og er orðalag þess sniðið að skýringu þeirra.
    Ekki hefur reynt á svo vitað sé að kosinn þingmaður hafi neitað að vinna drengskaparheit að stjórnarskránni né dregið það óeðlilega. Slíkt er þó þekkt hjá nágrannaþingum. Þannig voru áþekk ákvæði sett í þingsköp danska þingsins fyrir um hálfri öld að gefnu tilefni. Þykir ástæða til að hafa skýr fyrirmæli í þingsköpum um þetta atriði.

Um 3. gr.


    Sú breyting var gerð á þingsköpum árið 1991 að hljóti enginn alþingismaður tilskilinn atkvæðafjölda við fyrstu kosningu um forseta þingsins skuli aðeins kjósa einu sinni aftur og þá milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu við fyrri kosninguna, en ekki kjósa aftur um þá sem í framboði voru eins og almennt gildir í viðlíka tilfellum, og ef enginn hlýtur þá meiri hluta atkvæða sé kosið bundið um þá tvo sem flest atkvæði fengu við síðari kosninguna. Á ákvæðið hefur ekki reynt síðan það var sett 1991. Með hliðsjón af því að þingsköp Alþingis eru um margt fyrirmynd almennra fundarskapa þykir eðlilegt að færa ákvæði þetta í fyrra horf, enda er það almenn regla þegar kosinn er einn maður sem þarf að fá meiri hluta greiddra atkvæða að kjósa tvívegis óbundið ef ekki næst tilskilinn meiri hluti. Þess ber að geta að á grundvelli þessa ákvæðis fara fram aðrar kosningar í þinginu þegar kosið er um einn mann, svo sem umboðsmann Alþingis o.fl. Rétt er að geta þess að með orðunum „meira en helming greiddra atkvæða“ er átt við að sá sé rétt kjörinn sem hlýtur samtals fleiri atkvæði en aðrir sem atkvæði fá og eru þá ekki taldir með auðir seðlar. Loks ber að geta þess að um kosningu forseta gildir nú að hún er ekki lengur óbundin eins og áður, fyrir 1991, heldur eru þeir einir í framboði sem gerð er bein tillaga um og hafa samþykkt það.

Um 4. gr.


    Með nýrri 1. mgr. er stefnt að því að styrkja embætti forseta og koma meiri festu á störf þingsins með því að láta kosningu embættismanna og nefnda gilda allt kjörtímabilið. Er það og í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á skipulagi þingsins 1991 og fólust m.a. í því að tryggja meiri samfellu í þingstörfum þannig að þingið situr að formi til allt árið og þingnefndir starfa í vaxandi mæli utan þingtíma.
    Reynslan sýnir að litlar breytingar verða jafnan á skipan nefnda, þar á meðal forsætisnefndar, ef stjórnarsamstarf helst óbreytt. Í þingsköpum, 16. gr., er hins vegar að finna rúma heimild fyrir þingflokka til að hafa mannaskipti í nefndum ef þeim sýnist svo.
    Nauðsynlegt þykir þó að hafa ákvæði í þingsköpum sem veitir meiri hluta þingsins rétt til þess að kjósa á ný embættismenn, fastanefndir og alþjóðanefndir. Eru þá einkum höfð í huga stjórnarskipti eða breytingar á stjórnarsamstarfi á kjörtímabilinu. Þannig getur nýr meiri hluti á Alþingi hvenær sem er kosið á ný embættismenn og til nefnda, allra eða til einstakra nefnda, þegar talin er pólitísk nauðsyn á því.
    Í þingsköpum er nú ákvæði í 2. mgr. 6. gr. um að hverjum forseta þingsins sé heimilt að leggja niður störf ef meiri hluti leyfir. Ekki þykir lengur ástæða til að binda afsögn forseta þessum skilyrðum. Ákvæðið mun eiga sér rætur í því að forsetar voru áður án atkvæðisréttar og þá gat skipt máli, ef fylkingar voru jafnstórar, hver gegndi forsetastörfum. Nú mun það vera almennt viðhorf að vilji forseti leggja niður störf geti hann gert það án nokkurra skilyrða. Enn fremur er lagt til að brott falli ákvæði um að Alþingi geti vikið forseta frá með samþykki 2/ 3 hluta allra alþingismanna, þ.e. 42 alþingismanna af 63. Samkvæmt síðari málslið nýrrar 1. mgr. getur meiri hluti þingsins tekið upp kosningar til trúnaðarstarfa og ekki þykir rétt að veita forseta frekari vörn ef hann nýtur ekki trausts meiri hlutans.
    Í nýrri 2. mgr. greinarinnar er gerð tillaga um hver gegna skuli þeim störfum sem á forseta hvíla, bæði störfum varðandi stjórnsýslu Alþingis og öðrum störfum hans, þar á meðal skv. 8. gr. stjórnarskrárinnar, frá kjördegi og til þess að nýkjörið þing kemur saman í fyrsta sinn. Nú er enga reglu að finna um þetta efni, aðra en þá sem ráða má af 1. mgr. 6. gr., en eðlilegast þykir að þessi störf séu í höndum þess forseta sem síðast var kjörinn til þess embættis, en sé hann ekki endurkjörinn alþingismaður gegni varaforsetar þeim störfum fram til þess að Alþingi er sett. Óeðlilegt þykir að fráfarandi forseti, sem er hættur þingstörfum, sinni stjórnsýslustörfum á Alþingi eða fari með forsetavald sem einn handhafa í fjarveru forseta Íslands. Hér er fylgt þeirri reglu að varaforsetar gegni þessum störfum, ef forseti hefur ekki verið kosinn á ný þingmaður, eftir þeirri röð sem þeir voru kjörnir, 1. varaforseti að frágengnum forseta, 2. varaforseti að frágengnum forseta og 1. varaforseta o.s.frv. Ef svo vill til að enginn varaforseta er kjörinn er eðlilegast að aldursforseti gegni þessum störfum.

Um 5. gr.


    Í 8. gr. þingskapa er sú grundvallarregla að forseti stjórni umræðum og sjái um að allt fari fram með góðri reglu. Felst í því bæði réttur hans til agavalds og skylda til að sjá um að störf þingsins séu ávallt í samræmi við stjórnarskrá, þingsköp og önnur lagafyrirmæli. Þykir rétt að gera þetta ákvæði skýrara og taka fram berum orðum að honum sé skylt að sjá til þess að ákvæði stjórnarskrár séu haldin í störfum þingsins, svo og ákvæði þingskapa og annarra laga. Hefur það að sjálfsögðu verið óskrifuð regla fram að þessu. Þá þykir fara betur að 2. og 3. málsl. 1. mgr. séu sjálfstæð málsgrein. Tekið skal fram að með orðunum „erindum til Alþingis“ er átt við erindi sem beint er til Alþingis sem slíks, en ekki erindi sem nefndum þingsins berast, sbr. 28. gr. Þau eru á forræði nefndanna sjálfra og tengjast flest afgreiðslu þeirra á þingmálum. Um þetta hafa skapast fastar venjur og er ekki ætlunin að gera þar breytingu á. Erindi til Alþingis er venja að „leggja fram á lestrarsal“, þ.e. þau eru öllum aðgengileg á skrifstofu þingsins.
    Þá er lagt til það nýmæli að þingmenn geti lagt fram á þingskjali fyrirspurn til forseta um stjórnsýslu á vegum þingsins og óskað skriflegs svars. Verður málsmeðferð slíkra fyrirspurna í samræmi við ákvæði 49. gr. eins og við getur átt. Þar sem hugtakið stjórnsýsla hefur víðtæka merkingu, sbr. ákvæði 9. gr. þingskapa, og upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um Alþingi, sbr. 1. gr. þeirra laga, er talið eðlilegt að forseti taki mið af ákvæðum 5. gr. upplýsingalaga ef spurt er um einkahagsmuni starfsmanna þingsins sem sanngjarnt og eðlilegt þykir að leynt fari. Í fyrri málslið 5. gr. er kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á.
    Í 3. mgr. 8. gr. þingskapa er nú ákvæði þar sem forseta er gert að hafa umsjón með starfi þingnefndanna. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa á undanförnum árum verið settar ýmsar almennar reglur um störf nefndanna, svo sem um ferðir þeirra, sérfræðilega aðstoð, aðgang að gögnum þeirra o.fl. Rétt þykir að styrkja þetta ákvæði og hlutverk forseta í þessu sambandi og veita honum almenna heimild til þess að setja starfsreglur fyrir nefndirnar. Í ákvæðinu er áskilið að forseti hafi samráð við nefndaformenn og formenn þingflokka um efni slíkra reglna því að mikilvægt er að um þær sé víðtæk samstaða.

Um 6. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum ræður forseti starfsmenn Alþingis að tillögu skrifstofustjóra. Lagt er til að þessu ákvæði verði breytt þannig að skrifstofustjóri annist ráðningu starfsmanna þingsins og er breytingin í samræmi við þá framkvæmd sem verið hefur í mörg ár. Er sú skipan sem gerð er tillaga um enn fremur í samræmi við meginstefnu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, að forstöðumenn stofnana ráði starfsmenn þeirra.

Um 7. gr.


    Í 1. og 2. mgr. 12. gr. þingskapa eru ákvæði um gerðabók þingsins og samþykkt hennar á þingfundi. Ákvæðið um gerðabók þarfnast endurskoðunar, enda eru nú allar samþykktir þingsins og allt sem fram fer á þingfundi prentað í ræðuparti Alþingistíðinda. Síðan ræðuparti þingtíðindanna var breytt 1972 og byrjað að gefa hann út í réttri tímaröð, í stað þess að umræður væru flokkaðar eftir málum, hefur þýðing gerðabókarinnar stórminnkað, og er nú nánast aldrei leitað til hennar um upplýsingar. Tölvuvinnsla og gagnagrunnur þingsins gerir færslu gerðabókar því sem næst óþarfa. Um nokkurt skeið hefur gerðabókin verið tölvufærð og prentuð út á lausum blöðum, en áður var hún handfærð í þykka bók.
    Í 2. mgr. a-liðar greinarinnar er lagt til að Alþingistíðindi, B-deild, verði gerðabók þingsins. Færslu hefðbundinnar gerðarbókar verði þar með hætt.
    Með breytingu á greininni fellur niður 3. mgr. um að forseti geti kvatt til tvo þingmenn til að telja saman atkvæði við atkvæðagreiðslur. Slík talning á aðeins við ef ekki er unnt að nota atkvæðagreiðslukerfi, svo og við nafnakall. Venja hefur skapast fyrir því, síðan hætt var að kjósa skrifara úr hópi þingmanna árið 1991, að starfsmenn þingsins annist slíka talningu. Málsgreinin er því óþörf.
    Í b-lið er lagt til að sett verði nánari ákvæði í þingsköp um varðveislu skjala Alþingis. Notkun á skjalagögnunum er mjög mikil í tengslum við störf þingsins. Með því að lögfesta ákvæði um skjalasafnið hvílir sú skylda á Alþingi að búa sem best að safninu og tryggja örugga varðveislu skjalagagna. Þá er þess að geta að í 10. gr. stjórnarskrárinnar er ákvæði þess efnis að Alþingi varðveiti annað eintak af tveimur af eiðstaf forseta Íslands en Þjóðskjalasafnið hitt.

Um 8. gr.


    Í nýrri 6. gr. laganna, samkvæmt þessu frumvarpi, gildir kosning fastanefnda fyrir allt kjörtímabilið. Því er fellt niður ákvæði í gildandi lögum um að kosningin gildi til upphafs næsta þings.

Um 9. gr.


    Í 4. mgr. 14. gr. þingskapa er nú ákvæði um að formaður og varaformaður nefndar geti lagt niður störf ef nefnd leyfir. Það þykir óeðlilegt að setja því skilyrði að formaður eða varaformaður leggi niður störf, heldur geti þeir gert það ef þeim sýnist svo. Ákvæði þetta er hliðstætt því sem gildir um forseta og varaforseta þingsins en lagt er til í 4. gr. um breytingar á 6. gr. laganna að því verði einnig breytt. Ákvæðum núgildandi 4. mgr. um frávikningu formanns og varaformanns er því til samræmis breytt þannig að liggi fyrir ósk meiri hluta nefndar um að kosið sé á ný til embættisstarfa í nefndinni er það sett á dagskrá og fellur þá fyrri kosning úr gildi. Með orðalaginu „meiri hluta nefndarmanna“ er átt við fimm nefndarmenn í níu manna nefndum og sex í ellefu manna. Með nefndarmönnum er átt við þá sem eiga þar seturétt, þ.e. eru kosnir skv. 13. gr. eða sitja í nefndinni skv. ákvæðum 16. gr. eða 2. og 3. mgr. 17. gr. laganna.

Um 10. gr.


    Lengi hefur tíðkast að varaþingmaður taki sæti í þeim nefndum sem aðalmaður á aðild að en gegni þó að jafnaði ekki embættisstörfum hans, formennsku eða varaformennsku. Það getur þó stundum reynst óheppilegt, t.d. ef varamaður, sem ekki hefur átt þess kost að fylgjast með störfum þingsins eða þingflokks, tekur sæti í nefnd sem er að ljúka afgreiðslu viðamikils máls. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er aukið vald og svigrúm þingflokks til að ákveða hvort varaþingmaðurinn eða annar þingmaður flokksins taki um stundarsakir sæti í nefndinni.
    Bætt er við málslið um að varaþingmenn taki ekki sæti í nefndum þar sem kosnir eru varamenn. Gildir það einnig um alþjóðanefndir. Jafnframt er í síðasta málslið tekið fram að sömu reglur gildi fyrir þingmann sem tekur fast sæti við fráfall eða afsögn aðalmanns.

Um 11. gr.
              

    Lagðar eru til breytingar á 23. gr. þingskapa sem lúta annars vegar að því að fella brott málaflokkinn byggðamál úr upptalningu mála sem vísa skal til allsherjarnefndar þar sem byggðamál heyra nú undir iðnaðarráðuneytið og slíkum málum er því vísað til iðnaðarnefndar. Hins vegar er lagt til að allsherjarnefnd fjalli um skýrslu umboðsmanns Alþingis, sbr. 1. mgr. 12. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skila áliti um skýrsluna.

Um 12. gr.

    Lögð er til sú breyting á 25. gr. þingskapa, í samræmi við breytingar á 23. gr., að fjárlaganefnd fjalli um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar, sbr. 12. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, áður en hún kemur á dagskrá þingsins og skila áliti um skýrsluna.

Um 13. gr.


    Lögð er til sú breyting á 26. gr. laganna að í skýrslu frá nefnd megi gera tillögu til þingsályktunar sem rædd skuli og afgreidd við eina umræðu og vísast í því sambandi til athugasemda við 16. gr. frumvarpsins um breytingar á 2. mgr. 44. gr. laganna.

Um 14. gr.


    Með greininni er verið að festa í þingsköp þá venju sem komst á 1999 að kjósa í alþjóðanefndir á sama hátt og sama tíma og í fastanefndir þingsins. Forsætisnefnd setti sama ár reglur um alþjóðanefndir, þar á meðal um fjölda nefndarmanna. Þau ákvæði eru nú felld inn í þingsköp.
    Að öðru leyti er efni greinarinnar óbreytt. Þrjár nýjar Íslandsdeildir hafa verið stofnaðar frá 1991, þ.e. þær sem sinna málefnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), málefnum Vestur-Evrópusambandsins (VES) og málefnum norðurskautsins, og er þeim bætt við í upptalningu nefndanna.
    Við greinina er bætt nýrri málsgrein, 4. mgr., þar sem segir að sömu reglur gildi um alþjóðanefndir og fastanefndir almennt. Á það við um boðun funda, ályktunarbæran fund, fundatíma, forföll o.s.frv. Sérstaklega er hnykkt á því að þingflokkar geti haft mannaskipti í alþjóðanefndum eins og fastanefndum. Hverfi t.d. aðalmaður í alþjóðanefnd af þingi getur þingflokkur hans tilnefnt nýjan aðalmann samkvæmt reglum 16. gr.
    Samkvæmt 6. mgr. er forseta heimilt að setja almennar reglur um störf alþjóðanefnda. Í því felst m.a. að setja reglur um þátttöku af Íslands hálfu í alþjóðaþingum og ráðstefnum sem tengjast starfi hverrar nefndar, um skiptingu fjár til nefndanna, þátttöku formanns, aðalmanna og varamanna í starfi alþjóðasamtaka, setu á nefndafundum þeirra, skýrslur um störf nefndanna o.fl.

Um 15. gr.


    Þótt í þingsköpum segi að lagafrumvörp eigi að vera með „lagasniði“ er ekki að finna nánari skrifaðar reglur um hvað við er átt með því orði. Hefð er engu síður rík í þessum efnum og býsna löng. Hugmyndir hafa komið fram um að gera mætti lagafrumvörp aðgengilegri, bæði fyrir þingmenn og almenning, einkum þannig að betur komi fram hverju verið er að breyta hverju sinni. Ekki er talið heppilegt að setja í þingsköp nákvæmari fyrirmæli en þar eru nú um frágang lagafrumvarpa og því er lagt til að forseti geti sett reglur sem séu til leiðbeiningar þeim sem semja frumvörp.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að felld verði brott orðin „nema með samþykki þingsins“ þannig að ljóst sé að um frávik frá þeirri málsmeðferð gildi ákvæði 90. gr. um afbrigði frá þingsköpum. Er þessi breyting í samræmi við þá túlkun og framkvæmd sem fylgt hefur verið þótt um hafi verið deilt.
    Lagt er til í c-lið greinarinnar að 2. mgr. 36. gr. verði breytt þannig að skýrara verði en nú er að taka megi lagafrumvarp á dagskrá þótt því sé útbýtt eftir að liðnir eru sex mánuðir frá þingsetningu ef það er samþykkt eftir venjulegum reglum, þ.e. með meiri hluta atkvæða á ályktunarbærum fundi.

Um 16. gr.


    Samkvæmt breytingunni ganga mál til 2. umræðu og nefndar án atkvæðagreiðslu nema einhver þingmaður óski þess að hún fari fram. Afar fátítt er að þingmenn greiði atkvæði gegn því að frumvörp gangi til 2. umræðu. Þykir eðlilegt að mál fái athugun í nefnd og að efnisleg afstaða til máls sé tekin við 2. umræðu. Þess eru þó dæmi að þingmenn hafa greitt atkvæði gegn því að mál gangi til 2. umræðu, og jafnvel að mál sé fellt frá 2. umræðu. Með breytingu á greininni er ekki verið að girða fyrir slíkt heldur fækka atkvæðagreiðslum um atriði sem eru ágreiningslaus.

Um 17. gr.


    Með orðalagsbreytingu þessari er rýmkuð heimild forseta til þess að láta greiða atkvæði um margar greinar frumvarps í einu, svo sem tíðkast hefur mjög lengi, ef enginn ágreiningur er um þær. Enn fremur hefur forseti rýmri heimild samkvæmt hinu nýja orðalagi til þess að bera upp saman breytingartillögur við fleiri greinar en eina, en samkvæmt núgildandi ákvæði er ekki gert ráð fyrir slíku.
    Forsetar hafa hagað atkvæðagreiðslum þannig undanfarin þing ef breytingartillögur hafa verið margar og ekki hefur verið ágreiningur um þær að þær hafa verið bornar upp í einu lagi og síðan þær greinar, sem þær hafa átt við, svo breyttar.
    Samkvæmt 65. gr. þingskapa ræður forseti því hvernig atkvæðagreiðsla fer fram, en byggt er á því hér að forseti láti jafnan fara fram sérstakar atkvæðagreiðslur um greinar og breytingartillögur eftir óskum þingmanna þannig að greinilega komi fram ágreiningur og afstaða einstakra þingmanna.
    Í síðari málslið breytingartillögunnar segir að aðeins skuli greiða atkvæði um hvort mál gangi til 3. umræðu ef einhver þingmaður óskar þess. Að jafnaði er ekki ágreiningur um að mál fari milli umræðna og er þessu ákvæði ætlað að fækka atkvæðagreiðslum um formsatriði. Sérhver þingmaður á þó rétt á að krefjast slíkrar atkvæðagreiðslu ef hann vill að afstaða hans til þessa atriðis komi fram eða hann telur að meiri hluti sé ekki fyrir því að málið gangi lengra.


Um 18. gr.


    Lögð er til sú breyting í a-lið að þingsályktunartillögur frá nefndum verði afgreiddar við eina umræðu. Reynslan hefur sýnt að tillögur sem nefndir flytja hafa hlotið fullnaðarumræðu í nefndinni og þess vegna verið óþarfi að hafa um þær tvær umræður með nefndavísun á milli, svo sem annars er um tillögur ríkisstjórnar eða einstakra þingmanna. Ef þörf reynist á nánari athugun í nefnd eftir að umræða er hafin má nýta heimild 1. mgr. 23. gr. um að gera hlé á umræðunni og vísa málinu til nefndar. Með breytingu þessari verður jafnframt einfaldara fyrir nefndir sem nýta sér heimild 26. gr. að koma áliti sínu og ályktunartillögu til umræðu og afgreiðslu í þinginu eftir athugun og umfjöllun um mál eða skýrslur.
    Að öðru leyti er ekki um efnisbreytingu að ræða; þó er bætt við að ekki þurfi nema eina umræðu um tillögur um skipan rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Eðlilegt þykir að þingið ákveði með einni umræðu hvort slíka nefnd eigi að skipa hverju sinni fremur en að nefndir þingsins fjalli um slík álitamál. Slíkt er þó ekki útilokað, sbr. áðurgreind ákvæði 1. mgr. 23. gr. þingskapa.
    Þá er í b-lið hliðstæð breyting og á 38. og 39. gr., þ.e. að ekki skuli fara fram atkvæðagreiðsla um vísun tillögu til síðari umræðu nema einhver þingmaður óski þess að hún fari fram.
    Í c-lið er einvörðungu um orðalagsbreytingu að ræða til þess að skýra betur hvað í málsliðnum felst.
    Í d-lið er lagt til að séu engar breytingartillögur við þingsályktunartillögu megi bera hana upp í einu lagi. Kemur þá ein atkvæðagreiðsla í stað þriggja eins og nú er. Þetta ákvæði er aðeins heimild fyrir forseta en berist ósk um að skipta tillögutexta upp við atkvæðagreiðslu er venja að verða við slíkri ósk.
    Loks er lagt til að 6. mgr. 44. gr. verði breytt þannig að skýrara sé en nú er að taka megi þingsályktunartillögu á dagskrá þótt henni hafið verið útbýtt eftir að liðnir eru sex mánuðir frá þingsetningu ef það er samþykkt eftir venjulegum reglum, þ.e. með meiri hluta atkvæða á ályktunarbærum fundi.

Um 19. gr.


    Í greininni eru felld brott ákvæði 53. gr. þingskapa um gerðabókina.

Um 20. gr.


    Í greininni eru felld brott ákvæði 57. gr. þingskapa um gerðabókina.

Um 21. gr.


    Í 62. gr. þingskapa segir að heimilt sé þingmanni að krefjast þess að gengið sé til atkvæða um eitthvert þingmál umræðulaust, en það skuli því aðeins gert að tveir þriðju hlutar fundarmanna séu því samþykkir. Ákvæði þetta er frá 1915 þegar störf Alþingis voru með talsvert öðru sniði en nú er. Það var sett til að koma í veg fyrir óþægilegar og óviðeigandi umræður um fjárveitingar til einstaklinga, rithöfunda og listamanna sem tillögur voru gerðar um að fengju fjárstyrk. Á því hefur borið á seinni árum að ákvæðið hafi verið misskilið, að í því felist heimild til þess að ljúka umræðum um þingmál, þótt mælendaskrá sé ekki tæmd, og hefja þegar í stað atkvæðagreiðslu. Slík heimild er hins vegar í 57. gr. þingskapa. Ákvæðið þykir því óþarft og er lagt til í a-lið að það falli brott.
    Breyting í b-lið felur í sér staðfestingu á þeirri venju sem ríkt hefur, að tillögur um rökstudda dagskrá skuli koma til afgreiðslu við lok umræðu, með öðrum orðum að ekki er hægt fremur en venja er til að ljúka umræðum um þingmál með því að flytja rökstudda dagskrá. Eins og áður er getið felst heimild til að stytta umræður eða ljúka þeim í 57. gr. þingskapa. Þessi nýi málsliður er aðeins settur inn til að festa í sessi þá venju sem verið hefur um afgreiðslu dagskrártillagna.

Um 22. gr.


    Í a-lið er að finna heimild fyrir forseta þingsins til að gera hlé á þingstörfum í samræmi við þá starfsáætlun sem forsætisnefnd, í samráði við þingflokka, hefur samþykkt hverju sinni. Hlé á þingstörfum samkvæmt þessari heimild á sér því annan grundvöll og hefur aðra þýðingu en frestun á fundum Alþingis skv. 23. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt þykir eðlilegt að í þingsköpum sé ákvæði sem tryggi að forseti geti ekki dregið óeðlilega að boða til þingfundar gegn vilja ríkisstjórnar eða meiri hluta þingmanna. Ef á slíkt reyndi þyrfti að liggja fyrir hver dagskrá slíks fundar yrði.
    Með breytingu í b-lið er lagt til að forseti geti ákveðið að umræður fari fram um tvö eða fleiri dagskrármál í einu ef fyrir liggur ósk um það. Samkvæmt gildandi ákvæði er það einvörðungu flutningsmaður sem getur borið slíka ósk fram en með breytingunni er öðrum gert það mögulegt. Í því felst að forseti geti líka, að eigin frumkvæði, lagt til að umræðu um tvö eða fleiri mál verði þannig háttað. Þá eru líka sett skýr ákvæði um ræðutíma en þau hefur skort. Er meginreglan sú að umræðan fer fram eins og um eitt mál væri að ræða. Séu mál ósamkynja, sem hentugt þykir að ræða saman, gildir rýmsti ræðutíminn. Ef t.d. á að ræða saman lagafrumvarp og þingsályktunartillögu gildir ræðutími um lagafrumvörp. Gert er ráð fyrir að þessu ákvæði megi beita við hverja umræðu sem er, eða einstaka umræðu, þ.e. að ekki sé skyldugt að ræða tvær tillögur saman við síðari umræðu þótt svo hafi verið gert við hina fyrri. Atkvæðagreiðslur fara þó fram um mál hvert í sínu lagi.

Um 23. gr.


    Í gildandi ákvæði 1. mgr. 64. gr. laganna segir að þingmaður sem er á fundi og greiðir ekki atkvæði við nafnakall teljist taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Nú fara atkvæðagreiðslur flestar fram með rafeindabúnaði og hefur verið litið svo á að þingmaður, sem ekki greiðir atkvæði við slíka atkvæðagreiðslu, þ.e. „situr hjá“, teljist taka þátt í henni. Rétt þykir að festa þennan skilning í þingsköp.
    Í b-lið er gert ráð fyrir að 2. mgr. 64. gr. falli brott. Orðalag málsgreinarinnar hefur oft valdið misskilningi enda má rekja uppruna hennar til þess tíma er fyrirkomulag atkvæðagreiðslna var öðru vísi, þ.e. þegar meiri hluti fundarmanna, alþingismanna á fundi, þurfti að samþykkja ályktun (tillögu) til að hún teldist lögmæt. Þurftu þá fleiri að vera með máli en þeir sem samtals voru á móti eða „sátu hjá“. „Hjáseta“, það að greiða ekki atkvæði, hafði þá sömu áhrif og að segja „nei“ við atkvæðagreiðslu. Þessu fyrirkomulagi var breytt árið 1936 og hefði þá mátt fella þessa málsgrein brott (var áður 2. mgr. 45. gr.). Málsgreinin hefur ekki heldur sjálfstæða þýðingu vegna þess að í 1. mgr. eru ákvæði um ályktunarbæran fund (e. quorum) og í 67. gr. eru svo ákvæði um úrslit atkvæðagreiðslu, sjá athugasemdir við breytingu á þeirri grein. Efni 2. mgr. leiðir af 1. mgr. 64. gr. og 67. gr. Nokkur orðalagsbreyting var gerð á málsgreininni við breytingar á þingsköpum 1991 til að skýra efni hennar, en nú þykir heppilegast að hún falli brott.

Um 24. gr.


    Breytingin á greininni lýtur að því að auka rétt þingflokka og veita þeim rýmri heimildir til að koma sjónarmiðum sínum að. Þess ber þó að geta að venja er að forseti verði við óskum þingmanna um skiptingu atkvæðagreiðslu án þess að reyni á ákvæði þessarar greinar.

Um 25. gr.


    Samkvæmt greininni eru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum þingskapa um atkvæðagreiðslur. Er þar annars vegar byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur af atkvæðagreiðslum með rafeindabúnaði, atkvæðagreiðslukerfinu, síðan 1991 og hins vegar eru nokkrar efnisbreytingar sem miða að því að flýta atkvæðagreiðslum sem taka oft mjög drjúgan tíma á þingfundum.
    Rýmkaðar eru heimildir forseta til þess að láta yfirlýsingu koma í stað atkvæðagreiðslu ef hann hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða að úrslit máls séu ljós fyrir fram. Jafnframt er fellt brott úr greininni ákvæði um að atkvæðagreiðsla skuli fara fram við allar umræður, sbr. 38.–40. og 44. gr. þingskapa. Þessi heimild felur í sér að gera má ályktun (samþykkja grein eða breytingartillögu) með yfirlýsingu í stað atkvæðagreiðslu enda séu allir á einu máli eða ljóst af fyrri atkvæðagreiðslum hver úrslit verða.
    Þá eru gildandi ákvæði þingskapa um atkvæðagreiðslu með handauppréttingu einfölduð, enda aðeins til þeirra gripið ef ekki er unnt að koma við atkvæðagreiðslu með rafeindabúnaði. Jafnframt er gerð sú breyting að fari atkvæðagreiðsla fram með handauppréttingu leiti forseti ekki aðeins eftir atkvæðum þeirra sem segja já og þeirra sem segja nei, heldur telji einnig þá sem ekki vilja greiða atkvæði. Hér er um nýbreytni að ræða því að áður fyrr, þegar atkvæðagreiðslur fóru fram með handauppréttingu, voru aðeins talin já- og nei-atkvæði og grípa þurfti til nafnakalls ef ekki náðust svo mörg atkvæði að fundurinn væri ályktunarbær. Eftir að atkvæðagreiðslur hófust með atkvæðagreiðslukerfinu hafa þeir þingmenn verið taldir sem ekki greiða atkvæði í þau skipti sem atkvæðagreiðslukerfið hefur bilað og gripið hefur verið til handauppréttingar við atkvæðagreiðslur. Breytingin er því í samræmi við framkvæmd atkvæðagreiðslna á síðari árum, svo og í samræmi við það sem tíðkast í nágrannaþingum við sömu aðstæður.
    Tekin eru saman í eina málsgrein ákvæði greinarinnar um nafnakall og gerðar nokkrar orðalagsbreytingar.
    Þá er enn fremur staðfest sú venja sem gilt hefur frá 1991 að atkvæðagreiðslur fari að jafnaði fram með rafeindabúnaði. Jafnframt er sett í málsgreinina ákvæði um að ekki sé nauðsynlegt að prenta ávallt sundurliðuð úrslit allra atkvæðagreiðslna, heldur aðeins við lokaatkvæðagreiðslur um mál, svo og þegar atkvæði skiptast, þ.e. ekki ef atkvæði falla samhljóða, en þá eru aðeins prentaðar niðurstöður. Skrifstofunni er samt sem áður falið að varðveita afrit allra atkvæðagreiðslna með rafeindabúnaði þannig að þær séu tiltækar þingmönnum eða öðrum sem vilja kanna hverjir tóku þátt í atkvæðagreiðslu ef sundurliðun hennar er ekki prentuð í þingtíðindunum.
    Loks er sett inn ákvæði um hvenær endurtaka má atkvæðagreiðslu eftir að úrslitum hennar hefur verið lýst. Reynslan sýnir að oft getur verið þörf á að endurtaka atkvæðagreiðslur en mikilvægt þykir að hafa um slíkt skýr fyrirmæli, einkum hvaða takmarkanir skuli vera á því. Í tillögunni er byggt á þeirri reglu að endurtaka megi atkvæðagreiðslu sé það gert þegar í stað, áður en nokkurt annað málsatriði hefur verið tekið fyrir. Enn fremur er staðfest sú venja, sem skapast hefur og gildir í mörgum öðrum þjóðþingum, að þingmanni sé heimilt, ef honum verður á að ýta á rangan hnapp við atkvæðagreiðslu, að skrá leiðréttingu í þingtíðindin. Er það oft gert til þess að ekki þurfi að endurtaka atkvæðagreiðslu. Slík leiðrétting er þó bundin því skilyrði að þingmaðurinn hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni; þingmaður sem ekki nær að ýta á hnapp við atkvæðagreiðslu getur enga leiðréttingu gert. Leiðréttingar af þessu tagi, sem skráðar eru sem athugasemdir í þingtíðindin, breyta engu um úrslit atkvæðagreiðslu eins og forseti hefur lýst þeim á fundi. Ef forseti tilkynnir hins vegar, um leið og hann lýsir úrslitum atkvæðagreiðslu, að þingmaður leiðrétti atkvæði sitt eða að þingmaður, sem ekki nær að ýta á hnapp, segi já, nei eða greiði ekki atkvæði kemst atkvæði þingmannsins eða afstaða hans til skila á þingfundinum og gæti þannig haft áhrif á úrslit atkvæðagreiðslu. Í slíkum tilvikum hafa starfsmenn þingsins gert leiðréttingu í gagnagrunni þingsins í samræmi við orð forseta á fundi.

Um 26. gr.


    Í 67. gr. er lögfest sú grundvallarregla að afl atkvæða ráði úrslitum mála og málsatriða, nema öðruvísi sé ákveðið í stjórnarskrá eða þingsköpum. Í reglunni felst að til þess að mál eða málsatriði sé samþykkt þurfi fleiri já-atkvæði en nei-atkvæði. Ákvæði þetta hefur stundum valdið misskilningi en með þeirri viðbót sem gerð er tillaga um í greininni er reynt að bæta þar úr með því að skilgreina nánar hvað felst í orðunum „afl atkvæða“, þ.e. já-atkvæði og nei-atkvæði ráða úrslitum mála, en atkvæði þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslu en greiða ekki atkvæði („sitja hjá“) verða hvorki talin með né á móti máli og ráða því ekki úrslitum. „Hjáseta“ í atkvæðagreiðslu getur þó eigi að síður orðið til þess að ályktun verði lögmæt með því að þannig hafi meira en helmingur þingmanna tekið þátt í atkvæðagreiðslu, sbr. 1. mgr. 64. gr.

Um 27. gr.


    Árið 1991 voru í fyrsta sinn tekin upp í þingsköp bein ákvæði um þingflokka, þar á meðal um lágmarksfjölda þingmanna innan þeirra. Var það í samræmi við þá venju sem skapast hafði, þ.e. að a.m.k. tveir þingmenn yrðu að eiga aðild að þingflokki, sbr. og ákvæði þágildandi laga um sérfræðilega aðstoð fyrir þingflokka.
    Í þingsköpum eru þingflokkum fengin margvísleg og afar mikilvæg verkefni við stjórn þingsins og í störfum þess. Sum hver hafa þingflokkar samkvæmt þingvenjum, einkum samráð við forseta um þingstörf, enda beinlínis gert ráð fyrir að samkomulag sé milli þingflokka um forustu þingsins í 3. gr. þingskapa. Má segja að þingflokkar séu, auk forsætisnefndar þingsins, helsta „stjórntæki“ Alþingis. Réttur þeirra í umræðum er mikill og ræðutíma oft skipt milli þeirra. Í samræmi við þetta hlutverk, sem þingflokkar hafa, er lagt til að í þingflokki séu a.m.k. þrír þingmenn. Styðst það að nokkru leyti við reynslu í kosningum á undanförnum árum en fámennustu þingflokkar hafa, eftir kosningar, verið þriggja manna (Samtök um kvennalista 1983 og 1995), en undantekning er þó frá því (Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1974 og Frjálslyndi flokkurinn 1999; tveir þingmenn). Með hliðsjón af því þykir eðlilegt að fái stjórnmálasamtök, sem bjóða fram við alþingiskosningar, aðeins tvo þingmenn geti þeir starfað sem þingflokkur. Eftir breytingar, sem urðu á kosningakerfinu 1999, er þó enn líklegra að minnstu þingflokkar séu a.m.k. þriggja manna, þ.e. flokkurinn nái hið minnsta 5% fylgi og eigi þá rétt til jöfnunarsæta, þótt annað sé ekki útilokað. Greinin felur þó í sér að til nýrra þingflokka er ekki stofnað nema þeir séu a.m.k. þriggja manna.

Um 28. gr.


    Í greininni er ákvæði um að við upphaf hvers þings skuli forsætisráðherra flytja stefnuræðu fyrir hönd ríkisstjórnarninnar, en eftirrit af ræðunni skuli afhent þingmönnum sem trúnaðarmál tveimur sólarhringum áður en hún er flutt. Hér er ekki bein efnisbreyting heldur aðeins breyttir tímafrestir, sumpart samkvæmt venju. Með hliðsjón af þeirri venju sem skapast hefur um fyrirkomulag stefnuræðu forsætisráðherra og útvarpsumræðu á síðustu árum er lagt til að þingflokkar komi sér saman um fyrirkomulag umræðunnar. Forseta er þó ætlað að skera úr ef ágreiningur er milli þingflokka. Jafnframt er gert ráð fyrir að forseti hafi skyldu til þess að gera tillögu um fyrirkomulag umræðunnar og leita samkomulags um það ef skoðanir eru skiptar. Ef slíkt samkomulag næst ekki ber forseta að ákveða hvernig umræðan fer fram. Er á því byggt að hann hafi hliðsjón af óskum þingflokka og venju og fari með vald sitt af sanngirni. Þó er hverjum þingflokki veitt heimild til þess að fá ákvörðun forseta borna undir þingfund.
    Loks er í greininni ákvæði um að stefnuræðunni skuli fylgja yfirlit um þau mál sem einstakir ráðherrar hyggjast leggja fram. Venja hefur verið að slíkur listi fylgi stefnuræðunni þegar hún hefur verið afhent þingmönnum. Slíkur listi er afar mikilvægur fyrir stjórn þinghaldsins og því er lagt til að hann verði prentaður í Alþingistíðindum.

Um 29. gr.

    Lagt er til að sama fyrirkomulag gildi um almenna stjórnmálaumræðu að vori og um stefnuræðu forsætisráðherra, sbr. þá tillögu sem gerð er um nýja 2. mgr. 73. gr. þingskapa.

Um 30. gr.


    Með þessari breytingu er felldur brott VI. kafli þingskapa, Útvarp umræðu, 75.–86. gr., svo og 74. gr. sem er efnislega tengd þeim kafla. Ákvæði þessi voru sett í þingsköp árið 1936, í árdaga útvarps hér á landi, en þykja nú að mörgu leyti úrelt þegar útvarpsstöðvum hefur fjölgað, sjónvarpað er reglulega frá þingfundum og umræður á þingfundum eru sendar út á netið.
    Venja hefur skapast um það að undanförnu að þingflokkar komi sér saman um fyrirkomulag útvarpsumræðu og er á því byggt í 4. mgr. og vísað til nýs ákvæðis 2. mgr. 73. gr.
    Með þessari breytingu á þingsköpum eru þó aðeins tvö efnisatriði, sem varða rétt þingflokka, felld brott, þ.e. réttur þingflokks til útvarps umræðu sem ekki er samkomulag um, sbr. núgildandi 78. gr., svo og ákvæði í núgildandi 79. og 80. gr. um lengd ræðutíma og skiptingu hans milli þingflokka. Hið fyrra atriði þykir nú að mörgu leyti úrelt, svo sem rakið hefur verið, en í greininni er byggt á því að komi fram krafa um útvarp umræðu sé annaðhvort leitað samkomulags eða samþykkis forseta. Verði ekki samkomulag um umræðuna á þingflokkurinn sem slíka kröfu ber fram rétt á að bera beiðni sína undir atkvæði þingmanna á þingfundi. Reiknað er með að um fyrirkomulag umræðu, ræðutíma o.fl. sé gert samkomulag milli þingflokka, sbr. 4. mgr., svo sem löng venja er fyrir.

Um 31. gr.


    Ákvæði þetta er tekið í þingsköp í samræmi við þá venju sem skapast hefur um flutning mála, þ.e. lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna, með tveimur nýmælum þó. Annars vegar er þingflokkum veitt heimild til að standa sem slíkir að flutningi máls, ýmist einn eða fleiri, og er þá óþarft að tilgreina á skjali hvaða þingmenn eiga aðild að þingflokknum, og hins vegar er forsætisnefnd heimilt samkvæmt málsgreininni að standa að flutningi máls eins og fastanefndum, sérnefndum og alþjóðanefndum. Þykir eðlilegt, ef forsætisnefnd flytur þingmál, að hún geri það í sínu nafni fremur en að á skjali séu tilgreind nöfn forseta og varaforseta. Þá er rétt að geta þess að skv. 32. gr. þingskapa gilda sömu reglur um sérnefndir og fastanefndir. Um flutning annarra mála gilda sérstakar reglur, svo sem fyrirspurnir og skýrslur.

Um 32. gr.


    Með breytingum á greininni er orðalagi vikið til svo að betur samræmist þeirri tækni sem nú er notuð við hljóðupptökur af þingfundum og þeim ritstjórnarreglum sem tíðkast hafa um margra áratuga skeið.
    Forseti hefur nú heimild til að setja nánari reglur um útgáfu Alþingistíðinda en samkvæmt hinu nýja orðalagi greinarinnar verður sérstaklega tilgreint að slíkar reglur megi fjalla um birtingu Alþingistíðindanna á netinu. Samkvæmt greininni verður áfram skylt að prenta þingtíðindin en þau eru nú samhliða birt á netinu, bæði skjöl og umræður. Engin sérstök vandkvæði hafa skapast við þá útgáfu en rétt þykir að forseti hafi heimild til að setja um þessa útgáfu nánari reglur ef þörf krefur.

Um 33. gr.


    Ráðgert er að breytingar á þingsköpum samkvæmt frumvarpi þessu taki gildi þegar í stað, en á þær reynir ekki úr þessu fyrr en á nýju þingi, sbr. þó nýja 2. mgr. 6. gr. (4. gr. frumvarpsins).