Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 524. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1236  —  524. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um þátttöku banka í óskyldum samkeppnisrekstri.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er skoðun ráðherra á því að bankar sem eru undanþegnir virðisaukaskatti taki virkan þátt í samkeppnisrekstri á öðrum sviðum en eiginlegri bankastarfsemi?
     2.      Er ástæða til að ætla að þátttaka fjármálastofnana í óskyldri atvinnustarfsemi geti leitt til óeðlilegrar samkeppni með tilfærslu fjármuna og fjárfestinga þeirra sem undanþegnir eru virðisaukaskattgreiðslum eins og bankarnir?


    Markmið samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins, sbr. 1. gr. laganna. Markmiðinu skal náð með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum. Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.
    Í 18. gr. laganna er kveðið á um að telji Samkeppniseftirlitið að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laganna og torveldi frjálsa samkeppni í viðskiptum skuli vekja athygli ráðherra á því áliti.
    Fyrirspurn þingmannsins lýtur að mati ráðherra að skattareglum, túlkun þeirra og framkvæmd, sem almennt fellur ekki undir verksvið viðskiptaráðuneytisins eða Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið getur þó og hefur með stoð í 18. gr. samkeppnislaga vakið athygli skattyfirvalda ef eftirlitið telur skattareglur eða túlkun þeirra fara í bága við markmið laganna.
    Það er almenn afstaða viðskiptaráðuneytisins að öll mismunun í skattlagningu á fyrirtæki sem starfa á sama samkeppnismarkaði sé til þess fallin að raska samkeppni á viðkomandi markaði. Slík mismunun fer því gegn markmiði samkeppnislaga sem er að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins.