Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 496. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1249  —  496. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um dómstóla, nr. 15 25. mars 1998, og lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Gunnar Narfa Gunnarsson frá dómsmálaráðuneyti, Eyþóru Geirsdóttur frá Stéttarfélagi lögfræðinga, Kolbrúnu Benediktsdóttur frá Félagi löglærðra fulltrúa ákæruvalds, Ólaf Eiríksson frá Lögmannafélagi Íslands, Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélagi Íslands, Helga I. Jónsson frá Héraðsdómi Reykjavíkur, Eggert Óskarsson og Hjördísi Hákonardóttur frá Dómarafélagi Íslands, Símon Sigvaldason frá dómstólaráði, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd og Barböru Björnsdóttur og Pálma Másson, fulltrúa löglærðra aðstoðarmanna dómara. Umsagnir bárust um málið frá ríkissaksóknara, Persónuvernd, Ríkisútvarpinu, réttarfarsnefnd, Félagi löglærðra fulltrúa ákæruvalds, Blaðamannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Héraðsdómi Reykjavíkur, Stéttarfélagi lögfræðinga, dómstólaráði, Lögmannafélagi Íslands og löglærðum aðstoðarmönnum dómara. Einnig bárust nefndinni minnisblöð frá dómsmálaráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á dómstólalögum sem lúta helst að því að dómstjóra héraðsdómstóls verði veitt heimild til að fela löglærðum aðstoðarmönnum héraðsdómara heimild til að fara með dómstörf að afmörkuðu leyti. Markmið frumvarpsins er að nýta kosti aðstoðarmannakerfisins til fullnustu, en einnig að endurheimta kosti dómarafulltrúakerfisins sem lagt var niður árið 1998. Eitt þeirra starfa sem aðstoðarmanni dómara gæti verið falið samkvæmt ákvæðum frumvarpsins er að kveða upp svokallaða rannsóknarúrskurði á borð við úrskurði um gæsluvarðhald. Þá eru í frumvarpinu ákvæði um að tryggja starfsöryggi aðstoðarmanna með því að fella störf þau sem þeir vinna undir ákvæði IV. kafla dómstólalaga sem fjallar um réttindi og skyldur dómara. Einnig er lagt til í frumvarpinu að dómurum verði fjölgað um tvo, að myndatökur og aðrar upptökur verði bannaðar í dómhúsum og að dómar Hæstaréttar varðandi úrskurði um hleranir, leitir og gæsluvarðhald verði ekki birtir fyrr en mánuður er liðinn frá uppkvaðningu þeirra.
    Nefndin ræddi ákvæði frumvarpsins ítarlega á fundum sínum.
    Eitt þeirra atriða sem til umfjöllunar kom var ákvæði 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins sem breytir 11. gr. dómstólalaga. Þar er gert ráð fyrir að tiltekna dóma Hæstaréttar sem kveðnir eru upp í þágu rannsóknar lögreglu skuli ekki gefa út fyrr en að liðnum mánuði frá uppkvaðningu þeirra eins og greint er frá hér að framan. Þessari sérreglu er ætlað að vernda rannsóknarhagsmuni þar sem þessir dómar hafa iðulega að geyma upplýsingar um málavexti sem óheppilegt getur verið að gera opinberar strax að dómi gengnum. Meiri hlutinn telur að þeir hagsmunir gangi framar því upplýsingagildi sem dómar í slíkum málum kunna að hafa. Í þessu sambandi bendir meiri hlutinn einnig á að þekkt eru dæmi um að upplýsingar sem hefði átt að taka út úr dómum fyrir birtingu hafi engu síður verið birtar. Með samþykkt sérreglunnar er dregið verulega úr hættunni á að slíkt endurtaki sig.
    Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að héraðsdómurum verði fjölgað úr 38 í 40. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að markmiðið með fjölguninni er öðrum þræði að draga úr tímabundnum setningum dómara. Meiri hlutinn tekur undir þörfina á því að fjölga dómurum um tvo, enda er mikið álag á héraðsdómstólunum. Störf dómara verða sífellt vandasamari og veruleg fjölgun hefur orðið á sakamálum þar sem dómur er fjölskipaður. Hins vegar fær meiri hlutinn ekki séð að með fjölguninni verði dregið úr setningum dómara, að svo miklu leyti sem frumvarpið er á þeirri forsendu byggt. Setning dómara þjónar þeim tilgangi að dagskrá sem dómari hefur ákveðið í fjölda mála raskist ekki þrátt fyrir tímabundin forföll hans eða leyfi. Þeir tveir dómarar sem gert er ráð fyrir að verði skipaðir samkvæmt frumvarpinu munu fá til meðferðar mál til afgreiðslu rétt eins og aðrir dómarar. Þannig verða þeir ekki í stakk búnir til að taka við auknu álagi með setningu fyrir annan dómara nema með þeim afleiðingum að fyrirframákveðin dagskrá raskist verulega.
    Í b-lið 5. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði þess efnis að dómari sem telur á sig hallað með ákvörðun dómstjóra skv. 16. gr. dómstólalaga geti leitað álits dómstólaráðs um ákvörðunina. Meiri hlutinn leggur til að þetta ákvæði verði fellt brott þar sem hann telur að það úrræði sem lagt er til sé þegar fyrir hendi í dómstólalögum.
    Í 6. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði varðandi löglærða aðstoðarmenn dómara. Þar er lagt til að þeir hafi minnst tveggja ára starfsreynslu og verði ráðnir til sex ára í senn með möguleika á einni endurráðningu. Þá er tilgreint að dómstjóri geti falið aðstoðarmanni að annast hvers konar dómsathafnir, en þó ekki fara með og leysa að efni til úr einkamálum, þar með töldum ágreiningsmálum um fullnustugerðir eða þinglýsingar, þar sem vörnum er haldið uppi eða opinberum málum frá því þau koma til meðferðar. Loks er tilgreint að um störf þau sem aðstoðarmanni eru falin fari skv. IV. kafla dómstólalaga um réttindi og skyldur dómara.
Meiri hlutinn gerir verulegar athugasemdir við ákvæðið. Í fyrsta lagi lítur meiri hlutinn svo á að ástæðulaust sé að lögfesta þá reglu að aðstoðarmenn dómara skuli hafa að minnsta kosti tveggja ára starfsreynslu. Að jafnaði sækir nokkur hópur hæfra umsækjenda um störf sem auglýst eru. Vilji dómstjóri leggja áherslu á starfsreynslu af öðrum vettvangi þegar hann ræður til sín aðstoðarmann er honum í lófa lagið að gera það með því að ráða þann umsækjanda sem uppfyllir þau skilyrði. Í öðru lagi telur meiri hlutinn óþarft að binda starfstíma aðstoðarmanna í lög og telur eðlilegt að sömu ákvæði gildi um þá og aðra ríkisstarfsmenn hvað þetta varðar. Í þriðja lagi telur meiri hlutinn að heimild 2. mgr. 6. gr. varðandi þau störf sem unnt er að fela aðstoðarmönnum sé óþarflega rúm. Af henni leiðir að hægt er að fela aðstoðarmönnum að fara með rannsóknarúrskurði á sviði opinbers réttar og m.a. úrskurða einstaklinga í gæsluvarðhald. Með hliðsjón af því að dómarafulltrúakerfið var lagt af af þeirri ástæðu að staða þeirra væri ekki nægjanlega tryggð að lögum til að uppfyllt væru skilyrði um sjálfstæði dómsvaldsins, m.a. vegna stöðu þeirra í tengslum við gæsluvarðhaldsúrskurði, telur meiri hlutinn rétt að takmarka heimildir aðstoðarmanna frekar en frumvarpið gerir ráð fyrir. Við umræðu um þetta atriði kynnti nefndin sér sambærilegt ákvæði frumvarps sem flutt var á 132. löggjafarþingi (670. mál), en þar eru talin upp öll þau störf sem dómstjóra er heimilt að fela aðstoðarmanni. Meiri hlutinn leggur til að þeirri upptalningu verði bætt inn í greinina með þeirri undantekningu þó að allir úrskurðir sem varða rannsóknarhagsmuni verða undanskildir. Þarna verður því eingöngu um að ræða svokölluð ágreiningslaus mál, á borð við þingfestingu og meðferð almennra einkamála þar til greinargerð hefur verið skilað og dómkvaðningu matsmanna. Í fjórða lagi telur meiri hlutinn óþarft að aðstoðarmenn dómara hafi sömu réttarstöðu og þeir skv. IV. kafla dómstólalaga, en með hliðsjón af því að meiri hlutinn leggur til að þeir fari ekki með eiginlegt dómsvald fellur það um sjálft sig. Með hliðsjón af framangreindu gerir meiri hlutinn tillögu um verulegar breytingar á 6. gr. frumvarpsins.
    Loks leggur meiri hlutinn til að ákvæði 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um bann við myndatökum og hljóð- og myndupptökum í dómhúsum sem þó megi víkja frá í einstök skipti með leyfi dómstjóra falli brott. Ekki náðist samstaða í nefndinni um að gera jafnveigamikla breytingu og hér er lögð til, en mikil andstaða kom fram við hana frá fjölmiðlum. Meiri hlutinn bendir á að myndatökur í dómhúsum í óþökk þeirra sem þær beinast að eru ekki algengt vandamál þótt einstök tilvik hafi komið upp og telur því rétt að skoða málið betur.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Björgvin G. Sigurðsson og Guðrún Ögmundsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu með sama fyrirvara og að framan greinir.

Alþingi, 15. mars 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.


Birgir Ármannsson.



Guðrún Ögmundsdóttir,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Sigurjón Þórðarson.