Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1268, 133. löggjafarþing 366. mál: hafnalög (gjaldskrár, neyðarhafnir, EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 28 23. mars 2007.

Lög um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.


1. gr.

     1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
     Skipulag hafnarsvæðis skal miðast við þarfir hafnar. Hafnarstjórn gerir tillögu um skipulag hafnarsvæðis til skipulagsnefndar eða sveitarstjórnar að höfðu samráði við Siglingastofnun Íslands um gerð þess. Viðkomandi sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi fyrir nýjum hafnarmannvirkjum.

2. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Hafnir skulu birta gjaldskrár sínar með skýrum og aðgengilegum hætti, svo sem á netinu. Höfnum sem reknar eru skv. 1. og 2. tölul. 8. gr. er heimilt að birta gjaldskrár sínar í B-deild Stjórnartíðinda.

3. gr.

     Síðari málsliður 11. gr. laganna orðast svo: Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðun gjalda.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Höfnum er heimilt samkvæmt kafla þessum að innheimta eftirtalin gjöld sem renna til hvers kyns uppbyggingar hafna og reksturs þeirra, sbr. 5. tölul. 3. gr.:
    1. Hafnargjald sem nánar sundurliðast á eftirfarandi hátt:
      1. Skipagjöld sem skiptast í bryggjugjöld og lestargjöld og eru lögð á skip og báta er nota viðkomandi höfn og miðast við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
      2. Vörugjöld, þ.m.t. aflagjald, af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfn.
      3. Hafnsögugjöld og gjöld fyrir þjónustu hafnarbáta.
      4. Leigugjald fyrir svæði til lestunar og losunar á vöru.
      Hafnargjald samkvæmt þessum tölulið skal standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, hafnarbáta og hafnsögu þar sem það á við. Skipstjóra, útgerðarmanni og eiganda skips ber að greiða til hafnar gjöld skv. a-, c- og d-lið en móttakandi vöru sem kemur til hafnar og sendandi vöru sem flutt er úr höfn greiða gjöld skv. b-lið. Ef margir eiga vörur sem fluttar eru með sama skipi skal farmflytjandi sjá um innheimtu á gjöldum skv. b-lið hjá sendanda og móttakanda, eftir því sem við á, og standa höfn skil á þeim.
    2. Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu á aðstöðu og búnaði fyrir farþega og bifreiðar, sem og kostnaði við rekstur og viðhald.
    3. Geymslugjald fyrir geymslu vöru og gáma innan húss á hafnarsvæði og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu, viðhald, endurnýjun og rekstur á geymsluaðstöðunni.
    4. Leigugjald fyrir afnot af mannvirkjum eða tækjum hafnarinnar, þ.m.t. upptökumannvirkjum og löndunarkrönum. Gjaldið skal standa undir kostnaði við uppbyggingu, rekstur, viðhald og endurnýjun mannvirkjanna.
    5. Leyfisgjald fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið skv. 5. gr. Gjaldið skal standa straum af undirbúningskostnaði veittra leyfa.
    6. Lóðargjald og lóðarleigu fyrir leigu á svæðum innan hafnarinnar.
    7. Festargjald sem nota skal til að greiða kostnað við festarþjónustu sem höfnin veitir.
    8. Gjöld fyrir endursölu á vatni og rafmagni og kostnaði er því fylgir.
    9. Sorpgjöld sem skulu standa straum af kostnaði við sorphirðu frá skipum og fyrirtækjum á hafnarsvæði, sem og eyðingu sorpsins.
    10. Vigtar- og skráningargjald sem skal standa straum af kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun hafnarvogar.
    11. Umsýslugjald til þess að standa straum af kostnaði við umsýslu og yfirstjórn, t.d. laun og skrifstofuhald. Heimilt er að láta umsýslugjaldið samkvæmt þessum tölulið vera innifalið í gjaldtöku skv. 1.–10. tölul. með sérstöku álagi á viðkomandi gjald.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðum gjalda.


5. gr.

     2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
     Gjaldtaka hafnar samkvæmt þessum kafla skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar, stofnkostnaði og kostnaði við viðhald hennar, auk þess sem heimilt er að taka tillit til arðsemi á endurmetnu eigin fé. Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðun gjalda.

6. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Skylt er að taka á móti skipum í höfn eftir því sem rými og aðstaða leyfir. Hafnarstjórn er þó heimilt að synja skipi um aðgang að höfn ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess til hafnar. Höfn, sem telst neyðarhöfn í samræmi við áætlun um að liðsinna nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu Íslands, sem Siglingastofnun Íslands gerir að höfðu samráði við viðkomandi höfn, Landhelgisgæslu Íslands og Umhverfisstofnun, er skylt að taka á móti skipum í sjávarháska eftir því sem nánar er kveðið á um í áætluninni. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um áætlunina og neyðarhafnir í reglugerð.
     Skipagjöld eru tryggð með lögveði í viðkomandi skipi eða vátryggingarfé. Gengur það veð í tvö ár fyrir samningsveðskuldum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á skipum vegna vanefnda á skipagjöldum án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms og án þess að þörf sé á undangenginni áskorun til eiganda.
     Höfn er heimilt að krefjast frekari trygginga fyrir greiðslu skipagjalda og fyrir kostnaði við að fjarlægja og/eða farga skipi séu taldar verulegar líkur á að það lendi í reiðileysi innan hafnar.
     Eigandi eða umráðamaður skips, báts, flutningstækja á landi eða annars búnaðar á hafnarsvæði ber ábyrgð á að viðkomandi eign sé ávallt í lagi og valdi ekki óþrifnaði og/eða hættu á hafnarsvæðinu. Verði um slíkt að ræða, að mati hafnar, getur hún fyrirskipað að úrbætur skuli gerðar innan ákveðins frests. Sinni eigandi eða umráðamaður ekki slíkum fyrirmælum er höfn heimilt að láta fjarlægja hlutinn á kostnað og ábyrgð eiganda eða umráðamanns og færa hann í vörslur viðkomandi eða selja hlut á nauðungaruppboði án þess að þörf sé á undangenginni áskorun til eiganda eða umráðamanns.
     Höfn skal birta auglýsingu um uppboð skv. 4. mgr. með mest fjögurra vikna og minnst viku fyrirvara í dagblaði eða á annan samsvarandi hátt. Jafnframt skal höfn tilkynna eiganda eða umráðamanni bréflega um fyrirhugað uppboð og hvar og hvenær það fer fram. Það stendur ekki í vegi fyrir nauðungarsölu þótt tilkynningu verði ekki við komið vegna þess að eigandi eða umráðamaður er ekki þekktur eða finnst ekki. Skipagjöld sem njóta lögveðsréttar greiðast af söluandvirði með forgangsrétti næst á eftir kostnaði við nauðungarsölu. Um úthlutun söluandvirðis og framkvæmd uppboðs fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um nauðungarsölu eftir því sem við á.
     Vitji eigandi eða umráðamaður ekki þess sem afgangs er við nauðungarsölu skv. 4. mgr. eða ráðstöfun skv. 5. mgr. innan árs frá sölu eða ráðstöfunardegi rennur andvirðið í ríkissjóð.

7. gr.

     Á eftir orðunum „b-lið 2. mgr. 24. gr.“ í 3. tölul. 3. mgr. 26. gr. laganna kemur: eða tjón á upptökumannvirkjum.

8. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo:
     Ráðherra skal í síðasta lagi árið 2010, eða fyrr ef nauðsyn krefur, skipa sérstaka skoðunarnefnd sem hafi það hlutverk að meta hvort töluleg viðmið 24. gr. þurfi breytinga við í ljósi reynslunnar.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. skal ekki gripið til aðgerða á grundvelli þessa ákvæðis fyrr en 1. janúar 2012.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2007.