Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 395. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1278  —  395. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um Vatnajökulsþjóðgarð.

Frá umhverfisnefnd.



     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „getur með reglugerð friðlýst“ í 1. mgr. komi: friðlýsir með reglugerð.
     2.      Við 3. gr. Á eftir orðinu „Svæðisráð“ í 2. mgr. komi: sbr. 7. gr.
     3.      Við 4. gr. Í stað 3. og 4. málsl. komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Í stjórn skulu sitja sjö fulltrúar: formenn allra svæðisráða þjóðgarðsins, einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum og tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra án tilnefningar, þ.e. formaður og varaformaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum skal eiga áheyrnaraðild að fundum stjórnar.
     4.      Við 7. gr.
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                     Í svæðisráði skulu sitja sex fulltrúar: þrír fulltrúar tilnefndir af sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem eru á viðkomandi rekstrarsvæði, einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af ferðamálasamtökum á viðkomandi svæði, einn fulltrúi tilnefndur af útivistarsamtökum og einn fulltrúi tilnefndur af umhverfisverndarsamtökum. Svæðisráð kýs sér formann úr hópi sveitarstjórnarmanna og varaformann.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Svæðisráð.
     5.      Við 8. gr. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni og starfsemi svæðisráða Vatnajökulsþjóðgarðs.
     6.      Við 12. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Verndaráætlun skal unnin fyrir Vatnajökulsþjóðgarð svo sem nánar greinir í þessu ákvæði.
               b.      Í stað orðanna „ og aðgengi ferðamanna að svæðinu “ í 2. mgr. komi: aðgengi ferðamanna að svæðinu og veiðum.
               c.      2. málsl. 3. mgr. falli brott.
     7.      Við 13. gr. 2. mgr. orðist svo:
             Mannvirkjagerð, stíga- og slóðagerð og hvers konar efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn. Í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdin raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari eða landslagi í Vatnajökulsþjóðgarði. Ekki þarf sérstakt leyfi samkvæmt lögum þessum fyrir þeim framkvæmdum sem er gert ráð fyrir í verndaráætlun. Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga þessara, reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og verndaráætlunar og að farið sé að þeim skilyrðum sem viðkomandi framkvæmd voru sett í verndaráætlun. Að öðru leyti gilda ákvæði náttúruverndarlaga um framkvæmdir í Vatnajökulsþjóðgarði.
     8.      Við 14. gr. Á undan orðunum „verja lífríki“ í 3. málsl. komi: endurheimta landgæði.
     9.      Við 15. gr. Í stað orðsins „vetrarakstursleiðum“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: vetraraksturssvæðum.
     10.      Við 19. gr.
          a.      Í stað orðanna „og umhverfisverndarsamtök“ 1. málsl. 2. mgr. komi: umhverfisverndarsamtök og útivistarsamtök.
          b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem verði 3. málsl., svohljóðandi: Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði.
          c.      3. málsl. 2. mgr. orðist svo: Samtök skv. 2. og 3. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
     11.      Við 21. gr. Orðið „þó“ í 4. málsl. falli brott.
     12.      Við ákvæði til bráðabirgða bætist tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     1.      Eigi síðar en tveimur árum eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs skal lokið gerð verndaráætlunar fyrir þjóðgarðinn. Skal tillaga svæðisráða, sbr. 3. mgr. 12. gr. send stjórn þjóðgarðsins eigi síðar en 18 mánuðum eftir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.
     2.      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 13. gr. getur stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs veitt leyfi fyrir framkvæmdum í Vatnajökulsþjóðgarði þar til verndaráætlun hefur tekið gildi. Leita skal umsagnar Umhverfisstofnunar áður en slíkt leyfi er veitt. Við veitingu slíks leyfis eða í verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að framkvæmdin raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum eða landslagi í Vatnajökulsþjóðgarði. Viðkomandi þjóðgarðsvörður hefur eftirlit með því að við framkvæmdir séu virt ákvæði laga þessara og reglugerðar um Vatnajökulsþjóðgarð og að farið sé að þeim skilyrðum sem sett voru við útgáfu leyfis. Auglýsa skal á vefsíðu þjóðgarðsins og með öðrum áberandi hætti leyfi stjórnar sem veitt eru samkvæmt ákvæði þessu.