Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 281. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1321  —  281. mál.
Frumvarp til lagaum Náttúruminjasafn Íslands.

(Eftir 2. umr., 17. mars.)I. KAFLI
Markmið og hlutverk.
1. gr.

    Náttúruminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins. Safnið er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Kostnaður af rekstri Náttúruminjasafnsins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

2. gr.

    Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.
    Náttúruminjasafnið safnar munum sem henta starfsemi þess, skráir þá og varðveitir. Safnið aflar upplýsinga sem veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru. Safnið skal miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings. Safnið annast rannsóknir á starfssviði sínu.
    Náttúruminjasafn Íslands veitir öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu þeirra hér á landi og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða.
    Náttúruminjasafnið skal eiga samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir á sviði náttúrufræða á vegum ríkisins og annarra aðila.

3. gr.

    Náttúrufræðistofnun Íslands er vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins. Stofnanirnar skulu hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra.
    Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands er ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess.

II. KAFLI
Skipulag og yfirstjórn.
4. gr.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn Náttúruminjasafns Íslands.

5. gr.

    Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands, safnstjóra, til fimm ára í senn. Skal safnstjóri hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins. Safnstjóri situr í safnaráði samkvæmt stöðu sinni.
    Safnstjóri er stjórnandi safnsins og mótar stefnu þess. Hann er ábyrgur gagnvart ráðherra fyrir fjárhagslegum rekstri og starfsemi safnsins.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
6. gr.

    Safninu er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu og fjölföldun hvers konar til þess að standa straum af kostnaði. Gjaldskrá fyrir þessa þjónustu skal háð samþykki menntamálaráðherra.

7. gr.

    Menntamálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á safnalögum, nr. 106/2001: 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Náttúruminjasafn Íslands annast söfnun gripa, skrásetningu þeirra og varðveislu, kynnir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda með sýningum og fræðslustarfi og annast rannsóknir á starfssviði sínu.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Gripir, sem við gildistöku laga þessara tilheyra Náttúrufræðistofnun Íslands og hafa fyrst og fremst sýningargildi, skulu eftir gildistöku laga þessara vera á forræði Náttúruminjasafns Íslands samkvæmt samkomulagi stofnananna, sbr. 3. gr.