Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 277. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1325  —  277. mál.




Frumvarp til laga



um opinber innkaup.

(Eftir 2. umr., 17. mars.)



    Samhljóða þskj. 287 með þessum breytingum:

    2. gr. hljóðar svo:

Orðskýringar.


    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem yfirvöld hafa sérstaklega falið einu eða fleiri fjarskiptafyrirtækjum að veita.
     2.      Almennt fjarskiptanet: Kerfi fyrir almenn fjarskipti sem gerir kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     3.      Almennt útboð: Innkaupaferli þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur lagt fram tilboð.
     4.      Bjóðandi: Fyrirtæki sem lagt hefur fram tilboð í útboði, svo sem í almennu eða lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum.
     5.      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að hluta eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um almenna fjarskiptanetið með fjarskiptaaðferðum öðrum en hljóðvarpi eða sjónvarpi.
     6.      Fyrirtæki: Samheiti, notað til einföldunar, yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjónustu.
     7.      Gagnvirkt innkaupakerfi: Fyllilega rafrænt ferli við algeng innkaup sem mögulegt er að gera á almennum markaði þannig að kröfum kaupanda sé fullnægt, enda sé ferlið tímabundið og, meðan á því stendur, opið öllum fyrirtækjum sem fullnægja skilyrðum fyrir þátttöku í kerfinu og lagt hafa fram kynningarboð í samræmi við skilmála.
     8.      Hönnunarsamkeppni: Ferli sem gerir kaupanda kleift að afla áætlunar eða hönnunar, einkum á sviði skipulags lands og bæja, húsagerðarlistar og verkfræði eða gagnavinnslu, sem valin hefur verið af dómnefnd eftir samkeppni sem farið hefur fram með eða án verðlauna.
     9.      Lokað útboð: Innkaupaferli þar sem aðeins þau fyrirtæki sem valin hafa verið af kaupanda geta lagt fram tilboð en hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í.
     10.      Miðlæg innkaupastofnun: Opinber aðili skv. 3. gr. sem aflar vöru og/eða þjónustu fyrir aðra kaupendur eða gerir verksamninga eða rammasamninga um verk, vörur eða þjónustu ætlaða öðrum kaupendum.
     11.      Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar eru fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
     12.      Opinber aðili eða kaupandi: Ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og samtök og aðrir opinberir aðilar skv. 3. gr.
     13.      Opinberir samningar: Allir samningar sem falla undir 1. mgr. 4. gr.
     14.      Rafrænar aðferðir: Notkun rafræns búnaðar til að vinna (þar á meðal með stafrænni samþjöppun) og geyma gögn sem eru send, er miðlað og tekið við með rafþræði, útvarpi, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     15.      Rafrænt uppboð: Endurtekið ferli þar sem ný og lægri verð, og/eða ný verðgildi fyrir ákveðin atriði í tilboðum, eru sett fram með rafrænum hætti, eftir að kaupandi hefur tekið fulla afstöðu til þeirra í upphafi, þannig að unnt er að meta þau með sjálfvirkum aðferðum.
     16.      Rammasamningur: Samningur sem einn eða fleiri kaupendur skuldbinda sig til að gera við eitt eða fleiri fyrirtæki í þeim tilgangi að slá föstum skilmálum einstakra samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og fyrirhugað magn, ef við á.
     17.      Ritaður eða skriflegur: Hvers konar tjáning sem samanstendur af orðum eða tölum sem lesa má, kalla má fram og miðla, þar á meðal upplýsingar sem miðlað er og varðveittar eru með rafrænum aðferðum.
     18.      Sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV): Tilvísunarflokkunarkerfi sem gildir um opinbera samninga og var samþykkt með reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (EB) nr. 2195/2002 ásamt því sem samræmi við aðrar gildandi skrár var tryggt. Ef upp kemur mismunandi túlkun um gildissvið laga þessara vegna ósamræmis milli þessarar skrár og NACE-skrárinnar, sbr. I. viðauka tilskipunarinnar, eða vegna ósamræmis milli skrárinnar og CPC-skrárinnar, sbr. II. viðauka tilskipunarinnar, skulu NACE-skráin og CPC-skráin hafa forgang.
     19.      Samkeppnisviðræður: Innkaupaferli sem hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í og felst í því að kaupandi stýrir viðræðum við þau fyrirtæki sem valin hafa verið til að taka þátt í ferlinu, allt með það að markmiði að þróa einn eða fleiri valkosti sem mætt geta kröfum hans, enda séu þessar kröfur lagðar til grundvallar þegar umsækjendum er boðið að leggja fram tilboð.
     20.      Samningskaup: Þegar kaupandi ræðir við fyrirtæki sem hann hefur valið samkvæmt fyrirframákveðnu ferli og semur um skilmála samnings við eitt eða fleiri fyrirtæki.
     21.      Sérleyfissamningur um verk: Verksamningur þar sem endurgjald fyrir verk felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér verkið eða í rétti til að nýta sér verkið ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
     22.      Sérleyfissamningur um þjónustu: Þjónustusamningur þar sem endurgjald fyrir þjónustu felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér þjónustuna eða í rétti til að nýta sér þjónustuna ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
     23.      Staðall: Forskrift sem samþykkt er af viðurkenndri staðlastofnun og beita má endurtekið og að staðaldri án þess að skylt sé að fara eftir henni. Staðall er opinbert skjal og ætlaður til frjálsra afnota.
     24.      Tilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga frá 31. mars 2004, eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006 sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2006.
     25.      Verksamningar eða opinberir verksamningar: Allir samningar sem falla undir 2. mgr. 4. gr.
     26.      Verktaki, seljandi vöru og veitandi þjónustu: Einstaklingur eða lögaðili, þar á meðal opinberir aðilar, eða hópur slíkra einstaklinga og/eða aðila sem bjóða fram á markaði framkvæmd verks, vöru og/eða þjónustu.
     27.      Vörusamningar eða opinberir vörusamningar: Allir samningar sem falla undir 3. mgr. 4. gr.
     28.      Þátttakandi: Fyrirtæki sem leitar eftir því að taka þátt í lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum.
     29.      Þjónustusamningar eða opinberir þjónustusamningar: Allir samningar sem falla undir 4. mgr. 4. gr.
     30.      Örútboð: Innkaupaferli þar sem kaupandi leitar, með hæfilegum fyrirvara, skriflegra tilboða meðal tiltekinna rammasamningshafa um skilmála sem ekki hefur verið mælt fyrir um í viðkomandi rammasamningi og lýkur jafnan með samningi við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli þeirra valforsendna sem fram koma í útboðsskilmálum rammasamningsins.

    7. gr. hljóðar svo:

Samningar stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu.


    Lögin taka ekki til samninga sem undanþegnir eru tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sbr. 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti Stjórnartíðinda ESB nr. 44/2006, sbr. 2. mgr. 5. gr., 19. gr., 26. gr. og 30. gr. sömu tilskipunar.
    Ákvæði XIV. og XV. kafla laga þessara gilda um samninga sem þeir kaupendur gera sem reka eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar sem um ræðir í 1. mgr. og eru gerðir vegna reksturs þeirrar starfsemi. Að öðru leyti taka lögin ekki til innkaupa þessara aðila.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um innkaup þeirra aðila sem greinir í 1. mgr., til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum milliríkjasamningum.

    8. gr. hljóðar svo:

Samningar á sviði fjarskipta.


    Lögin taka ekki til samninga sem hafa það að meginmarkmiði að stofna til eða reka almennt fjarskiptanet eða bjóða almenningi eina eða fleiri tegundir fjarskiptaþjónustu.

    18. gr. hljóðar svo:

Samningar bundnir við ákveðna hópa.


    Heimilt er að takmarka rétt til þátttöku í útboði við verndaða vinnustaði eða miða samning við að framkvæmd hans fari fram samkvæmt áætlun um verndaða vinnustaði þar sem flestir starfsmenn eru fatlaðir þannig að þeir geta ekki sinnt starfi á venjulegum vinnumarkaði vegna starfsorkuskerðingar.
    Ef innkaup eru yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 3. þátt, skal vísa til 19. gr. tilskipunarinnar í tilkynningu um innkaup.

    19. gr. hljóðar svo:
    Ákvæði þessa þáttar taka til opinberra innkaupa undir þeim viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins sem birtar eru í reglugerð skv. 78. gr.
    Ákvæði þessa þáttar taka ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr., eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér. Þessum aðilum er þrátt fyrir þetta ávallt heimilt að beita reglum þessa þáttar í heild eða að hluta við innkaup sín. Sveitarfélög skulu setja sér reglur um innkaup sín, enda hafi þau ekki ákveðið að kaupa inn samkvæmt reglum þessa þáttar í heild.
    Ákvæði þessa þáttar taka ekki til gerðar sérleyfissamninga undir þeim viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins sem birtar eru í reglugerð skv. 78. gr. Ráðherra er þó heimilt í reglugerð að setja reglur um gerð sérleyfissamninga undir þessum viðmiðunarfjárhæðum, m.a. ákveða að þá skuli gera að undangengnu tilteknu innkaupaferli. Um gerð sérleyfissamninga yfir framangreindum viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins gilda ákvæði 80. gr. og þær reglur sem þar er vísað til.
    Um framkvæmd hönnunarsamkeppni gilda ákvæði 37. gr.

    21. gr. hljóðar svo:

Þjónusta sem undanskilin er útboðsskyldu.


    Samninga um kaup á þjónustu sem tilgreind er í II. viðauka B tilskipunarinnar er ekki skylt að bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um í V. kafla laganna. Við kaup á þessari þjónustu skal þó ávallt gæta jafnræðisreglu 14. gr. svo og ákvæða 40. gr. um tækniforskriftir.
    Nú hefur samningur það að markmiði að afla þjónustu sem tilgreind er bæði í II. viðauka B tilskipunarinnar og í II. viðauka A tilskipunarinnar og er þá skylt að fylgja ákvæðum laga þessara um útboð og aðrar innkaupsaðferðir ef sá þáttur samningsins sem fellur undir II. viðauka A tilskipunarinnar er verðmætari en sá þáttur samningsins sem fellur undir II. viðauka B tilskipunarinnar. Að öðrum kosti er aðeins skylt að gæta ákvæða 40. gr. um tækniforskriftir svo og jafnræðisreglu 14. gr.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum sé skylt að bjóða út innkaup sín eða gera þau í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um V. kafla laganna.

    22. gr. hljóðar svo:
     Innkaup undir innlendum viðmiðunarfjárhæðum.
    Við innkaup undir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem birtar eru í auglýsingu skv. 20. gr. skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður bréflega eða með rafrænni aðferð. Við þessi innkaup skal virða jafnræðisreglu 14. gr. svo og ákvæði 40. gr. um tækniforskriftir.

    31. gr. hljóðar svo:

Samkeppnisviðræður.


    Þegar um er að ræða sérlega flókna samninga og kaupandi telur að notkun almenns eða lokaðs útboðs sé því til fyrirstöðu að unnt sé að gera samning er heimilt að beita ákvæðum þessarar greinar. Um „sérlega flókinn samning“ í skilningi þessarar greinar er að ræða þegar ekki er mögulegt með hlutlægum hætti að skilgreina þau tæknilegu atriði sem fullnægt geta þörfum eða markmiðum kaupanda, sbr. b-, c- og d-lið 3. mgr. 40. gr., og/eða kaupandi getur ekki skilgreint lagalega eða fjárhagslega gerð framkvæmdar. Ákvörðun um gerð samnings skal eingöngu tekin á grundvelli forsendna fyrir vali fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.
    Kaupandi skal birta opinberlega útboðsauglýsingu þar sem fram koma þarfir og kröfur kaupanda, en þessi atriði skal skilgreina nánar í auglýsingunni sjálfri og/eða skýringargögnum.
    Kaupandi hefur viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið til þátttöku í samræmi við ákvæði VII. kafla og 56. gr., með það fyrir augum að slá föstu með hvaða hætti þörfum hans verður best fullnægt. Í þessum viðræðum er heimilt að ræða öll atriði væntanlegs samnings við útvalda þátttakendur.
    Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt meðal þátttakenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upplýsingar sem gera stöðu sumra þátttakenda betri en annarra. Kaupanda er óheimilt að upplýsa þátttakanda um lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem annar þátttakandi hefur sett fram, án samþykkis viðkomandi.
    Kaupandi getur ákveðið að ferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka þeim lausnum sem fjallað er um. Slík fækkun lausna skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða skýringargögnum. Taka skal fram í tilkynningu eða skýringargögnum að þessi háttur kunni að vera hafður á.
    Kaupandi skal halda viðræðum áfram þar til hann hefur afmarkað þá lausn eða þær lausnir sem geta fullnægt þörfum hans, eftir atvikum eftir að hafa borið þær saman, ef það reynist nauðsynlegt.
    Þegar kaupandi hefur lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt það þátttakendum skal hann gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð með hliðsjón af þeirri lausn eða lausnum sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll þau atriði sem nauðsynleg eru til að hrinda samningi í framkvæmd. Heimilt er þátttakendum að skýra, skilgreina og laga til tilboð sín eftir beiðni kaupanda. Slíkar skýringar, skilgreiningar og lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs, eða tilkynningu til bjóðenda um að gera tilboð, þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
    Kaupandi skal meta tilboð á grundvelli þeirra forsendna fyrir vali tilboðs sem fram komu í upphaflegri útboðsauglýsingu eða skýringargögnum og skal velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 72. gr. Kaupanda er heimilt að óska eftir því að sá þátttakandi sem átt hefur hagkvæmasta boð skýri atriði í tilboði sínu eða staðfesti tilteknar skuldbindingar sem þar hafa komið fram, enda leiði það ekki til þess að grundvallarþáttum í tilboðinu, eða útboðsauglýsingu, sé breytt þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
    Kaupanda er heimilt að kveða á um verðlaun eða greiða þátttakendum fyrir þátttöku sína í viðræðum.

    37. gr. hljóðar svo:

Tilhögun hönnunarsamkeppni.


    Ákvæði þessarar greinar gilda um hönnunarsamkeppni þar sem samanlagt virði verðlauna og/eða annarra greiðslna til þátttakanda er yfir viðmiðunarfjárhæðum vegna þjónustukaupa skv. 20. gr.
    Þegar hönnunarsamkeppni er haldin sem liður í kaupum á þjónustu skal taka tillit til heildarvirðis samnings, án virðisaukaskatts, auk þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. mgr. Þegar hönnunarsamkeppni er haldin og kaupandi hefur ekki afsalað sér heimild til að gera þjónustusamning með samningskaupum skv. 3. mgr. 33. gr. að aflokinni hönnunarsamkeppni skal einnig taka tillit til heildarvirðis mögulegs þjónustusamnings, án virðisaukaskatts, auk þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. mgr. Um hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum, sem fram koma í reglugerð skv. 78. gr., fer skv. 81. gr. og þeim reglum sem þar er vísað til.
    Óheimilt er að takmarka aðgang að hönnunarsamkeppni með vísan til þjóðernis eða búsetu á ákveðnu svæði eða einskorða aðgang við annaðhvort lögaðila eða einstaklinga.
    Kaupandi sem hyggst halda hönnunarsamkeppni skal birta opinberlega auglýsingu um hana. Í auglýsingu eða skýringargögnum, sem vísað er til í auglýsingu, skulu koma fram upplýsingar um tilhögun keppninnar, forsendur fyrir vali þátttakenda, ef fjöldi þeirra er takmarkaður, og forsendur fyrir vali áætlunar eða tillögu. Við gerð auglýsingar og birtingu skal að öðru leyti farið eftir reglum um útboðsauglýsingar og birtingu þeirra, eftir því sem við á.
    Tilkynna skal þátttakendum í hönnunarsamkeppni um niðurstöður keppninnar. Ef birting upplýsinga mundi hindra löggæslu, vera andstæð almannahagsmunum eða stofna í hættu lögmætum viðskiptahagsmunum tiltekins fyrirtækis, hvort heldur er einkarekins eða í opinberri eigu, eða gæti hindrað samkeppni milli veitenda þjónustu er ekki skylt að birta upplýsingar.
    Ef ákveðið er að takmarka fjölda þátttakenda í hönnunarsamkeppni við ákveðinn fjölda skal gæta jafnræðis með því að setja fram málefnalegar forsendur fyrir vali þátttakenda. Fjöldi þátttakenda skal alltaf vera nægilegur til að tryggja raunhæfa samkeppni.
    Dómnefnd skal aðeins skipuð einstaklingum sem eru óháðir þátttakendum í samkeppni. Þar sem tiltekinnar menntunar eða starfshæfni er krafist af þátttakendum skal a.m.k. einn þriðji hluti dómnefndarmanna hafa þá menntun eða sambærilega starfshæfni.
    Dómnefnd skal vera sjálfstæð í ákvörðunum og áliti sínu. Hún skal kanna áætlanir og tillögur, sem þátttakendur leggja fram, eingöngu á grundvelli forsendna sem eru tilgreindar í tilkynningu um samkeppni, sbr. 4. mgr. Dómnefnd skal færa fundargerð, sem allir dómnefndarmenn skulu undirrita, þar sem fram kemur mat á hverri tillögu ásamt athugasemdum eða atriðum sem talin eru þarfnast skýringar. Heimilt er að gefa þátttakendum kost á að svara spurningum sem dómnefnd hefur áður fært til bókar í því skyni að skýra atriði í tillögu. Spurningar dómnefndar og svör þátttakenda skulu koma fram í endanlegri fundargerð dómnefndar.

    40. gr. hljóðar svo:

Tækniforskriftir.


    Tækniforskriftir eins og þær eru nánar skilgreindar í 1. lið VI. viðauka tilskipunarinnar skulu koma fram í útboðsgögnum, svo sem útboðsauglýsingu, útboðsskilmálum eða fylgigögnum með þeim. Þar sem því verður við komið skal skilgreina þessar forskriftir þannig að tekið sé tillit til viðmiða um aðgengi fatlaðra eða miðað við hönnun fyrir hvers konar notendur.
    Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jöfn tækifæri. Þær mega ekki leiða til ómálefnalegra hindrana á samkeppni við opinber innkaup.
    Að svo miklu leyti sem annað kemur ekki fram í óundanþægum innlendum reglum, sem eru í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, skal kveða á um tækniforskriftir á einhvern eftirgreindan hátt:
     a.      Með tækniforskrift eins og það hugtak er skilgreint í VI. viðauka tilskipunarinnar ásamt tilvísun til einhvers af eftirfarandi í þeirri forgangsröð sem hér greinir:
                  1.      innlendra staðla sem fela í sér innleiðingu á evrópskum stöðlum,
                  2.      evrópsks tæknisamþykkis,
                  3.      sameiginlegra tækniforskrifta,
                  4.      alþjóðlegra staðla,
                  5.      annarra tæknilegra tilvísunarkerfa sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót.
             Ef framangreind gögn eru ekki fyrir hendi er heimilt að vísa til íslenskra staðla, íslensks tæknisamþykkis eða íslenskra tækniforskrifta sem tengjast hönnun, útreikningi og framkvæmd verks og notkun vöru. Hverri tilvísun skal fylgja orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.
     b.      Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, þar á meðal kröfum til eiginleika sem tengjast umhverfinu. Slík viðmið verða þó að vera nægilega nákvæm til að gera bjóðendum kleift að gera sér grein fyrir efni samnings og gera kaupanda mögulegt að gera upp á milli tilboða.
     c.      Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, sbr. b-lið, þó þannig að tækniforskriftir sem fjallað er um í a-lið séu notaðar til að kanna hvort kröfum um þessi atriði sé fullnægt.
     d.      Með því að vísa til forskrifta, sbr. a-lið, um suma eiginleika og með því að vísa til frammistöðu eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið, um aðra.
    Ef kaupandi nýtir heimild í a-lið 3. mgr. getur hann ekki vísað frá tilboði á þeim grundvelli að vara eða þjónusta sem boðin er fram sé í ósamræmi við tækniforskriftir, enda sýni bjóðandi fram á, með einhverjum viðeigandi hætti, að lausnir hans fullnægi með sambærilegum hætti þeim kröfum sem leitast er við að fullnægja með hlutaðeigandi tækniforskriftum. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
    Ef kaupandi nýtir sér heimild í 3. mgr. til að slá föstum tækniforskriftum með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar getur hann ekki vísað frá tilboði í verk eða þjónustu sem er í samræmi við innlenda staðla sem innleiða evrópska staðla eða í samræmi við evrópskt tæknisamþykki, sameiginlegar tækniforskriftir, alþjóðlegan staðal eða önnur tæknileg tilvísunarkerfi sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, enda fjalli þessar forskriftir um þá virkni eða kröfur um hagnýtingu sem kaupandi hefur slegið fastri. Í tilboði sínu verður bjóðandi að sýna fram á það með viðeigandi hætti, þannig að kaupandi telji það fullnægjandi, að verk, vara eða þjónusta sem er í samræmi við staðal fullnægi kröfum kaupanda um frammistöðu og hagnýtingu. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
    Ef kaupandi gerir kröfu um eiginleika sem tengjast umhverfinu með tilliti til virkni eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið 3. mgr., getur hann notast við sérstakar tækniforskriftir, eða hluta slíkra forskrifta, sem skilgreindar eru með evrópskum, alþjóðlegum eða innlendum umhverfismerkjum eða öðrum umhverfismerkingum, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
     a.      Að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem er efni samnings.
     b.      Að þær kröfur sem liggja til grundvallar umhverfismerki byggist á vísindalegum upplýsingum.
     c.      Að umhverfismerking sé veitt á grundvelli málsmeðferðar sem allir sem eiga hagsmuna að gæta, svo sem ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifendur og umhverfissamtök, geta tekið þátt í.
     d.      Að umhverfismerking sé aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum.
    Kaupandi getur kveðið svo á að gert sé ráð fyrir að vara og þjónusta sem hefur umhverfismerkingu fullnægi tækniforskrift sem fram kemur í útboðsskilmálum. Kaupandi verður þó einnig að taka til greina aðra sönnun um að þessum kröfum sé fullnægt, svo sem tæknilega lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
    Með viðurkenndum stofnunum í skilningi þessarar greinar er átt við rannsóknar- og kvörðunarstofur og vottunar- og eftirlitsstofnanir sem fullnægja þeim evrópsku stöðlum sem við eiga. Kaupandi skal taka til greina vottorð frá viðurkenndri stofnun í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
    Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar gerðar, framleiðanda, sérstakrar vinnslu, vörumerkja, einkaleyfa, tegundar, uppruna eða framleiðslu með þeim afleiðingum að hlutur ákveðinna fyrirtækja er gerður betri en annarra eða ákveðin fyrirtæki eru útilokuð frá þátttöku í opinberum innkaupum, enda helgist slík tilvísun ekki beinlínis af efni samnings. Í undantekningartilvikum er tilvísun sem þessi heimil þegar lýsing á efni samnings er ekki möguleg skv. 3. og 4. mgr., enda fylgi slíkri tilvísun orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.

    57. gr. hljóðar svo:

Frestur til að skila tilboðum.


    Frestur til að skila tilboðum skal vera nægjanlega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð.

    72. gr. hljóðar svo:

Mat á hagkvæmasta boði.


    Við val á tilboði skal gengið út frá hagkvæmasta boði. Hagkvæmasta tilboð er það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum, sbr. 45. gr.
    Óheimilt er að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum, sbr. 45. gr.
    Heimilt er að velja fleiri en eitt tilboð sé kaupum skipt í fleiri sjálfstæða hluta í útboðsgögnum.

    75. gr. hljóðar svo:

Tilkynning og rökstuðningur höfnunar tilboðs og annarra ákvarðana.


    Kaupandi skal tilkynna þátttakendum eða bjóðendum um ákvarðanir um gerð rammasamnings, val tilboðs eða aðgang að gagnvirku innkaupakerfi, eins fljótt og mögulegt er. Í tilkynningu skal koma fram, eftir því sem við á, rökstuðningur fyrir ákvörðun um að gera ekki rammasamning, taka engu tilboði þrátt fyrir útboð eða hefja að nýju útboð eða stofna til gagnvirks innkaupakerfis. Þegar val tilboðs hefur grundvallast á öðrum forsendum en verði eingöngu skal í tilkynningu koma fram nafn þess bjóðanda sem var valinn og upplýsingar um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi með hliðsjón af valforsendum útboðsgagna. Þennan rökstuðning skal kaupandi veita skriflega ef þess er óskað.
    Eftir beiðni skal kaupandi, eins fljótt og mögulegt er, veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni sem hér segir:
     a.      Upplýsa ber þátttakanda, sem ekki hefur verið valinn til að gera tilboð, um ástæður þess að umsókn hans var hafnað.
     b.      Upplýsa ber bjóðanda um ástæður þess að tilboði hans var hafnað. Ef tilboði hefur verið hafnað með vísan til þess að tilboð var í ósamræmi við tækniforskriftir, sbr. 4. og 5. mgr. 40. gr., skal rökstyðja hvers vegna tilboð telst ekki fullnægja kröfum tækniforskrifta eða hvers vegna það er ófullnægjandi með tilliti til krafna um virkni og hagnýtingu.
     c.      Upplýsa skal bjóðanda, sem lagt hefur fram gilt tilboð, um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi og nafn bjóðanda sem var valinn eða rammasamningshafa.
    Beiðni um rökstuðning skv. 2. mgr. skal bera fram innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun og skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs. Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem vísað er til í 1. mgr. varðandi val tilboðs, gerð rammasamnings eða aðgengi að gagnvirku innkaupakerfi ef upplýsingagjöf gæti torveldað löggæslu. Sama á við ef upplýsingagjöf gengur að öðru leyti gegn almannahagsmunum eða mundi skaða lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, einkarekinna eða opinberra, eða samkeppni milli þeirra.

    81. gr. hljóðar svo:

Hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.


    Við framkvæmd hönnunarsamkeppni vegna verðgildis sem er jafnt eða yfir viðmiðunarfjárhæð vegna slíkrar samkeppni, sbr. reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir sem sett er skv. 78. gr., skal fylgja ákvæðum 66.–74. gr. tilskipunarinnar.

    90. gr. hljóðar svo:

Ábyrgðarmaður innkaupa.


    Ráðuneyti og stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins skulu skipa sérstakan starfsmann sem skal vera ábyrgðarmaður innkaupa. Honum ber að fylgjast með að innkaup viðkomandi ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtækis séu í samræmi við gildandi lög og reglur um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins.

    107. gr. hljóðar svo:

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi lög nr. 94/2001, um opinber innkaup, með síðari breytingum.
    Ákvæði 2. og 3. málsl. 2. mgr. 19. gr. skulu öðlast gildi 1. janúar 2008.



Fylgiskjal.

TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/18/EB
frá 31. mars 2004
um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga


    Breytt skv. brtt. á þskj. 1054.