Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 280. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1327  —  280. mál.




Frumvarp til laga



um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

(Eftir 2. umr., 17. mars.)



I. KAFLI
Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
1. gr.
Stjórnsýsla.

    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.

2. gr.
Hlutverk og starfsemi.

    Hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu. Í þessu felst að:
     a.      miðla þekkingu og veita stuðningsþjónustu fyrir frumkvöðla og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki,
     b.      stunda tæknirannsóknir, þróun, greiningar, prófanir, mælingar og vottanir.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal enn fremur annast önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal í starfsemi sinni taka mið af stefnu Vísinda- og tækniráðs.

3. gr.
Forstjóri og aðrir starfsmenn.

    Ráðherra skipar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar og daglegan rekstur. Hann ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og ákveður starfssvið þeirra.

4. gr.
Þjónusta við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.

    Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal veita upplýsingar og leiðsögn er varðar stofnun og rekstur sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Í boði skal vera fjölbreytt þjónusta og stuðningsverkefni sem hvetja til vöruþróunar, nýsköpunar, hagnýtingar hönnunar og mótunar viðskiptahugmynda.
    Nýsköpunarmiðstöðin skal sinna eftirfarandi verkefnum:
     a.      eiga frumkvæði að samstarfi þeirra opinberu aðila sem mynda stoðkerfi nýsköpunar fyrir atvinnulífið,
     b.      móta sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja,
     c.      starfrækja frumkvöðlasetur,
     d.      annast miðlun hvers konar hagnýtrar þekkingar um stofnun og rekstur fyrirtækja,
     e.      auka veg hönnunar í íslensku efnahagslífi og vekja fyrirtæki til vitundar um mikilvægi hönnunar í nýsköpun og vexti,
     f.      vera tengiliður við þá sem stunda grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir er leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu,
     g.      efla samstarf á milli rannsóknastofnana, háskóla, fyrirtækja, fjárfesta og atvinnuþróunarfélaga,
     h.      miðla þekkingu um innlendar og erlendar tækninýjungar og aðgerðir sem auka framleiðni,
     i.      annast samstarf við innlendar og erlendar stofnanir sem gegna sambærilegu hlutverki.

5. gr.
Íslenskar tæknirannsóknir.

    Rannsóknastarfsemi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands skal starfrækt undir heitinu Íslenskar tæknirannsóknir. Starfsemin skal taka mið af ályktunum Vísinda- og tækniráðs en áhersla skal vera á hagnýtar rannsóknir og vöruþróun í þágu nýsköpunar atvinnulífsins og grunnrannsóknir á afmörkuðum sviðum sem hafa þjóðhagslega þýðingu. Starfsemin skal stuðla að tækniyfirfærslu og aðlögun þekkingar til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf.
    Íslenskar tæknirannsóknir skulu sinna eftirfarandi verkefnum:
     a.      tæknirannsóknum sem leitt geta til aukinnar nýsköpunar, aukinnar framleiðni og betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins,
     b.      tækniþróun, tækniyfirfærslu og aðlögun tækni í nánu samstarfi við fyrirtæki og atvinnugreinar,
     c.      hafa yfir að ráða aðstöðu og færni til að takast á við rannsóknir á nýjum fræðasviðum sem hafa eða munu hafa afgerandi áhrif á framþróun íslensks atvinnulífs,
     d.      ráðgjöf, mælingum, prófunum og vottunarstarfsemi.

6. gr.
Ráðgjafarnefnd.

    Við Nýsköpunarmiðstöð Íslands skal vera starfandi átta manna ráðgjafarnefnd sem iðnaðarráðherra skipar til þriggja ára í senn. Einn nefndarmanna skal vera tilnefndur af Samtökum iðnaðarins, einn af Samtökum atvinnulífsins, einn af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af Alþýðusambandi Íslands, einn af tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, einn af Verkfræðingafélagi Íslands, einn af menntamálaráðherra og loks skipar ráðherra einn án tilnefningar. Nefndin kýs sér formann. Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og fulltrúi Íslenskra tæknirannsókna skulu sitja fundi nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að vera ráðherra og forstjóra ráðgefandi um fagleg málefni sem tengjast stefnumótun í tæknirannsóknum og vali á helstu verkefnum, ásamt því að vera tengiliður hennar við hagsmunaaðila.

7. gr.
Eignarhlutir í rannsókna- og þróunarfyrirtækjum.

    Nýsköpunarmiðstöð Íslands er heimilt að stofna, eiga, reka og selja félög sem stunda ráðgjöf, rannsóknir, þróun og framleiðslu á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði. Heimildin er takmörkuð við hlutafélög eða annars konar form með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna.

8. gr.
Heimildir til gjaldtöku.

    Til að standa straum af kostnaði við rannsóknir, ráðgjöf, námskeiðahald og vottun er Nýsköpunarmiðstöð Íslands heimilt að innheimta þjónustugjald.

9. gr.

Tekjur.

    Tekjur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands eru:
     a.      framlög úr ríkissjóði eins og ákveðin eru í fjárlögum hverju sinni,
     b.      þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar,
     c.      fjármagnstekjur,
     d.      tekjur af sölu hlutdeildar í félögum,
     e.      aðrar tekjur.

II. KAFLI
Tækniþróunarsjóður.
10. gr.
Hlutverk.

    Tækniþróunarsjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir iðnaðarráðherra. Fagleg umsýsla Tækniþróunarsjóðs skal falin óháðum aðila samkvæmt samningi.
    Hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóði er heimilt að fjármagna nýsköpunarverkefni í samræmi við meginstefnu Vísinda- og tækniráðs með því að:
     a.      styrkja tækniþróun og tengdar rannsóknir í þágu nýsköpunar atvinnulífsins, m.a. í samstarfi við stofnanir, háskóla og fyrirtæki,
     b.      styrkja uppbyggingu sprotafyrirtækja og eiga aðild að þeim á frumstigi nýsköpunar,
     c.      fjármagna átaksverkefni og markáætlanir á einstökum tæknisviðum til að treysta tæknilegar undirstöður atvinnuveganna, einstakar greinar þeirra eða þvert á greinaskiptingu þeirra,
     d.      styrkja lítil verkefni á vegum einstaklinga og smáfyrirtækja sem eru líkleg til að verða atvinnu- og tekjuskapandi og arðbær þrátt fyrir áhættu í upphafi,
     e.      greiða kostnað við greiningu á stöðu nýsköpunar og gerð áætlana til styrktar henni.

11. gr.

Tekjur.


    Tekjur Tækniþróunarsjóðs eru:
     a.      fjárveitingar í fjárlögum,
     b.      tekjur af sölu hlutdeildar í sprotafyrirtækjum sem sjóðurinn hefur eignast aðild að,
     c.      framlög frá innlendum og erlendum samstarfsaðilum,
     d.      önnur framlög.

12. gr.
Stjórn.

    Í stjórn Tækniþróunarsjóðs sitja sjö menn sem iðnaðarráðherra skipar til þriggja ára í senn. Tveir þeirra skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn samkvæmt tilnefningu tækninefndar Vísinda- og tækniráðs, einn samkvæmt tilnefningu landbúnaðarráðherra, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, en ráðherra skipar einn án tilnefningar.
    Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Iðnaðarráðherra velur formann og varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.

13. gr.
Hlutverk stjórnar og fagráða Tækniþróunarsjóðs.

    Stjórn Tækniþróunarsjóðs ákveður áherslur sjóðsins samkvæmt skilgreindu hlutverki hans, sbr. 10. gr. Stjórnin tekur ákvarðanir um fjárveitingar úr sjóðnum að fengnum umsögnum fagráða sem tækninefnd Vísinda- og tækniráðs skipar til tveggja ára í senn. Fagráðin eru ráðgefandi um fagleg málefni við úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Jafnframt eru fagráðin ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess eftir því sem óskað er.
    Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef henni þykir þurfa. Þeir sem skipaðir eru í fagráð skulu hafa víðtæka reynslu af tækniþróun og nýsköpun. Þeir skulu hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn Tækniþróunarsjóðs.
    Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Tækniþróunarsjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
    Kostnaður við mat á umsóknum og rekstur sjóðsins skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé hans.
    Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr Tækniþróunarsjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

14. gr.
Úthlutunarreglur.

    Úthlutunarstefna Tækniþróunarsjóðs skal fylgja áherslum Vísinda- og tækniráðs. Stjórn Tækniþróunarsjóðs setur reglur um umsóknir, mat þeirra og málsmeðferð. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.

III. KAFLI
Önnur ákvæði.

15. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, starfsemi og rekstur Tækniþróunarsjóðs og framkvæmd laga þessara.

16. gr.
Gildistaka og brottfall laga.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2007. Á sama tíma falla úr gildi VII. kafli laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, með síðari breytingum, lög um Iðntæknistofnun Íslands, nr. 41/1978, með síðari breytingum, og lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, nr. 4/2003.

17. gr.

Breytingar á öðrum lögum.


    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna: Orðin „Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins“ í 1. mgr. 9. gr. laganna falla brott.
     2.      Lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002: Í stað orðsins „Iðntæknistofnunar“ í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur: Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
     3.      Lög um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987: Í stað orðanna „Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins“ í 1. gr. laganna kemur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     4.      Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997: Í stað orðanna „Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins“ í 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
     5.      Lög um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, nr. 53/1980: 10. gr. laganna fellur brott.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Starfsmenn Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins sem eru í starfi við gildistöku laganna skulu eiga rétt á starfi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands með sömu ráðningarkjörum og áður giltu. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

II.


    Nýsköpunarmiðstöð Íslands tekur við eignum, réttindum og skyldum Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins.
    Tækniþróunarsjóður heldur eignum og skuldbindingum Tækniþróunarsjóðs, sem starfræktur er skv. 4.–8. gr. laga nr. 4/2003, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.

III.


    Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. er ráðherra heimilt að skipa nú þegar forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og skal forstjórinn hafa heimild til að undirbúa gildistöku laganna, þ.m.t. að bjóða starfsmönnum Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins starf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands frá 1. ágúst 2007, sbr. ákvæði til bráðabirgða I.

IV.


    Iðnaðarráðherra skal skipa nefnd sem meta skal rekstrarform Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, þ.e. hvort annað rekstrarform en beinn ríkisrekstur kunni að vera heppilegra fyrir starfsemi stofnunarinnar í heild eða að hluta. Nefndin skal ljúka störfum fyrir árslok 2009.