Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 591. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1329  —  591. mál.
Breytingartillögurvið frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

Frá Einari Oddi Kristjánssyni.     1.      Við 3. gr. Við bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Arðgreiðslur úr veiðifélagi hjá manni sem hefur búrekstur eða annan rekstur á jörð með höndum skulu ekki teljast til atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi hans og heimilast enginn frádráttur frá slíkum tekjum.
     2.      Á eftir 5. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  3. mgr. 66. gr. laganna orðast svo:
                  Tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skal vera 10% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljast í þessu sambandi tekjur skv. 1.–8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Til fjármagnstekna utan rekstrar skulu jafnframt teljast arðgreiðslur úr veiðifélagi hjá þeim einstaklingi sem hefur búrekstur eða annan rekstur á jörð með höndum.

Greinargerð.


    Tilgangur breytingartillagnanna er að lögfesta breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem fela það í sér að arður eftir veiðirétt sem menn fá greiddan frá veiðifélögum fái sams konar skattalega meðhöndlun hjá einstaklingum, óháð því hvort viðkomandi einstaklingur hefur með höndum búrekstur eða annan rekstur á jörð eða ekki. Í framkvæmd hefur verið mismunur á skattlagningu eftir því hvort jarðareigandi telst stunda atvinnurekstur á jörð er slík hlunnindi fylgja eða ekki. Einstaklingar í rekstri hafa þannig greitt tekjuskatt í almennu skattþrepi af slíkum tekjum en aðrir jarðareigendur, sem talist hafa utan rekstrar, hafa greitt 10% fjármagnstekjuskatt af sams konar tekjum. Ekki verður séð að málefnalegar ástæður búi að baki slíkri mismunun, sem aukist hefur verulega undanfarin ár vegna ásóknar manna í eignarhald á jörðum utan búrekstrar. Er brýnt að bæta úr þessari mismunun með tiltækum ráðum. Með breytingartillögum þessum er leitast við að jafna þennan mismun, enda eiga ekki sömu sjónarmið við að því er varðar tekjur af þessum eignum og öðrum eignum sem teljast rekstrareignir. Í þessu sambandi má vísa til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 566/1999, sem kveðinn var upp 20. október 1999, þar sem réttilega kemur fram að veiðifélög eru lögskipaður félagsskapur veiðiréttareigenda með lögbundið hlutverk og þegar litið sé til þeirrar sérstöðu verði þeim ekki skipað á bekk með almennum atvinnufélögum.