Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1345  —  273. mál.





Frumvarp til laga



um landlækni.

(Eftir 2. umr., 17. mars.)



I. KAFLI
Markmið, skipun landlæknis og skilgreiningar.
1. gr.
Embætti landlæknis.

    Starfrækja skal embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra með það að markmiði að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigði landsmanna.

2. gr.
Skipun landlæknis.

    Ráðherra skipar landlækni til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar skv. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Hann skal hafa sérfræðimenntun í læknisfræði og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar. Landlæknir ræður starfsfólk embættisins. Við embættið skal starfa aðstoðarlandlæknir og skal gera sömu kröfur til hans um menntun og starfsreynslu og gerðar eru til landlæknis.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð svofellda merkingu:
     1.      Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga.
     2.      Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hlotið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
     3.      Heilbrigðisstofnun: Stofnun þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt.
     4.      Starfsstofur heilbrigðisstarfsmanna: Starfsstöðvar sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt með eða án greiðsluþátttöku ríkisins.

II. KAFLI
Hlutverk landlæknis.
4. gr.
Hlutverk landlæknis.

    Hlutverk landlæknis er m.a. eftirfarandi:
     a.      að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, heilbrigðisstarfsfólki og almenningi ráðgjöf um heilbrigðismál,
     b.      að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu,
     c.      að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum,
     d.      að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna,
     e.      að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu,
     f.      að fylgjast með heilbrigði landsmanna,
     g.      að vinna að gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustu,
     h.      að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu,
     i.      að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma,
     j.      að stuðla að rannsóknum á sviði heilbrigðisþjónustu,
     k.      að sinna öðrum verkefnum sem honum eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

5. gr.
Fyrirmæli, leiðbeiningar og ábendingar.

    Landlæknir getur gefið heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum almenn fagleg fyrirmæli um vinnulag, aðgerðir og viðbrögð af ýmsu tagi sem þeim er skylt að fylgja. Fyrirmælin skulu lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt.
    Landlæknir getur gefið út faglegar leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana, þar á meðal leiðbeiningar sem miða að nálgun og lausn vandamála í samræmi við bestu þekkingu á hverjum tíma. Leiðbeiningar landlæknis skulu kynntar heilbrigðisstarfsmönnum og vera aðgengilegar almenningi.
    Landlæknir getur komið á framfæri við almenning ábendingum og ráðgjöf um mál er snerta heilbrigði og heilbrigðisþjónustu.

6. gr.
Faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu.

    Ráðherra skal, að fengnum tillögum landlæknis og að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisstéttir, kveða í reglugerð á um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu á einstökum sviðum. Reglugerðin skal byggjast á þekkingu og aðstæðum á hverjum tíma og skal hún endurskoðuð reglulega. Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um lágmarkskröfur um mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað til reksturs heilbrigðisþjónustu.
    Þeir sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. ríkið og sveitarfélög, skulu tilkynna fyrirhugaðan rekstur til landlæknis. Með tilkynningunni skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar um starfsemina, svo sem um tegund heilbrigðisþjónustu, starfsmenn, búnað, tæki og húsnæði. Landlæknir getur óskað eftir frekari upplýsingum og gert úttekt á væntanlegri starfsemi telji hann þörf á því. Með sama hætti skal tilkynna landlækni ef meiri háttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu rekstraraðila. Sé rekstri heilbrigðisþjónustu hætt skal tilkynna landlækni um það.
     Landlæknir staðfestir hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfyllir faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf. Hið sama gildir þegar ráðherra endurnýjar samninga við heilbrigðisstofnanir. Óheimilt er að hefja starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu nema staðfesting landlæknis liggi fyrir. Landlækni er heimilt að gera frekari kröfur sé það talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um er að ræða. Staðfesting landlæknis verður jafnframt að liggja fyrir við meiri háttar breytingar skv. 2. mgr.
    Heimilt er að skjóta synjun landlæknis um staðfestingu skv. 3. mgr. til ráðherra. Sama á við um ákvörðun landlæknis um að gera frekari kröfur skv. 3. mgr. Sé um að ræða heilbrigðisþjónustu sem ríkið hyggst reka hefur ráðherra þó ávallt úrskurðarvald um það hvort skilyrði laga og faglegar kröfur skv. 1. mgr. eru uppfylltar.
    Landlæknir heldur skrá yfir rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu og skal hann tilkynna ráðherra um allar breytingar sem verða á skránni.
    Fyrir úttekt landlæknis skv. 2. mgr. og staðfestingu hans á því að faglegar kröfur séu uppfylltar, sbr. 3. mgr., er heimilt að taka gjald samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.

7. gr.
Eftirlit með heilbrigðisþjónustu.

    Landlæknir skal hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Landlæknir hefur heimild til að krefja heilbrigðisstarfsmenn, heilbrigðisstofnanir og aðra sem veita heilbrigðisþjónustu um upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu og er þeim skylt að verða við slíkri kröfu. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna til eftirlits samkvæmt lögum þessum.
    Telji landlæknir að heilbrigðisþjónusta uppfylli ekki faglegar kröfur skv. 6. gr. eða önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf skal hann beina tilmælum um úrbætur til rekstraraðila. Verði rekstraraðili ekki við slíkum tilmælum ber landlækni að skýra ráðherra frá málinu og gera tillögur um hvað gera skuli. Getur ráðherra þá tekið ákvörðun um að stöðva rekstur tímabundið, þar til bætt hefur verið úr annmörkum, eða stöðva rekstur að fullu.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits af hálfu landlæknis.

8. gr.
Skýrslugerð og heilbrigðisskrár.

    Landlæknir skal, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, skipuleggja og halda skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Tilgangur skránna er að afla þekkingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu, hafa eftirlit með þjónustunni, tryggja gæði hennar og meta árangur þjónustunnar, ásamt því að nota þær við gerð áætlana um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum. Hann skal einnig, í samráði við ráðuneytið, vinna upplýsingar úr heilbrigðisskrám til notkunar við áætlanagerð, stefnumótun og önnur verkefni ráðuneytisins og gefa út heilbrigðisskýrslur. Upplýsingar í skrám landlæknis skulu vera ópersónugreinanlegar, sbr. þó 2. mgr., nema fyrir liggi samþykki hinna skráðu.
    Í eftirtaldar heilbrigðisskrár sem landlæknir skipuleggur er heimilt að færa upplýsingar um nöfn sjúklinga, kennitölur og önnur tiltekin persónuauðkenni án samþykkis sjúklinga:
     1.      Fæðingaskrá.
     2.      Skrá um hjarta- og æðasjúkdóma.
     3.      Skrá um taugasjúkdóma.
     4.      Krabbameinsskrá.
     5.      Slysaskrá.
     6.      Vistunarskrá heilbrigðisstofnana.
     7.      Samskiptaskrá heilsugæslustöðva.
     8.      Samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga.
    Persónuauðkenni í skrám landlæknis skv. 2. mgr. skulu dulkóðuð. Ráðherra mælir nánar fyrir um það í reglugerð, að fenginni umsögn Persónuverndar, hvaða persónuupplýsingar og heilsufarsupplýsingar megi færa í skrárnar og um dulkóðun þeirra og í hvaða tilvikum heimilt sé að afkóða þær.
    Landlæknir er ábyrgðarmaður þeirra skráa sem hann skipuleggur.
    Heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skulu veita landlækni þær upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til að halda heilbrigðisskrár skv. 1. og 2. mgr. Landlæknir gefur heilbrigðisstofnunum, heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu fyrirmæli um lágmarksskráningu upplýsinga í þessu skyni og hvernig staðið skuli að skráningu og miðlun upplýsinganna til embættisins. Fyrirmæli landlæknis skulu lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt. Aðrar stofnanir sem heyra undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og safna upplýsingum á heilbrigðissviði, svo sem Lyfjastofnun, Tryggingastofnun ríkisins og Lýðheilsustöð, skulu jafnframt veita landlækni aðgang að upplýsingum sem aflað er í starfsemi þeirra og eru nauðsynlegar til að halda heilbrigðisskrár skv. 1. og 2. mgr. eða til að sinna eftirliti samkvæmt lögum þessum. Skulu þessar stofnanir hafa samráð við landlækni við söfnun og skráningu þessara upplýsinga og miðlun þeirra til landlæknis. Upplýsingar samkvæmt ákvæði þessu skulu veittar landlækni án endurgjalds.
    Landlæknir getur, með leyfi ráðherra, falið heilbrigðisstofnunum og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum, eða öðrum aðilum, umsjón tiltekinna skráa sem hann skipuleggur skv. 1. og 2. mgr. Gera skal skriflegan samning um slíkar skrár þar sem m.a. er kveðið á um hver sé umsjónarmaður skrárinnar, starfsreglur og öryggiskröfur, innihald, úrvinnslu, ráðstöfunarrétt, notkun og dreifingu upplýsinga, gildistíma samnings svo og endurskoðunarákvæði. Umsjónarmanni ber að upplýsa landlækni um öll atriði er varða rekstur skrár þegar þess er óskað og veita honum allar upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna lögboðins hlutverks síns. Skulu þær upplýsingar veittar landlækni án endurgjalds.
    Landlækni er heimilt að taka gjald fyrir úrvinnslu og afhendingu upplýsinga úr heilbrigðisskrám samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Um aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum úr heilbrigðisskrám skv. 2. mgr. vegna vísindarannsókna fer skv. 3. mgr. 15. gr. laga um réttindi sjúklinga.
    Söfnun og meðferð upplýsinga samkvæmt ákvæði þessu skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og skal uppfylla kröfur Persónuverndar um öryggi persónuupplýsinga í skrám á heilbrigðissviði.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um gerð og vinnslu heilbrigðisskráa, miðlun upplýsinga og útgáfu heilbrigðisskýrslna.

9. gr.
Skráning óvæntra atvika.

    Heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skulu halda skrá um óvænt atvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.
    Heilbrigðisstarfsmönnum sem hlut eiga að máli, faglegum yfirmönnum þeirra og öðru starfsfólki heilbrigðisstofnana, eftir því sem við á, er skylt að skrá öll óvænt atvik skv. 1. mgr.
    Heilbrigðisstofnanir, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem veita heilbrigðisþjónustu skulu reglulega senda landlækni yfirlit um öll óvænt atvik skv. 1. mgr. eftir nánari ákvörðun landlæknis.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um skráningu óvæntra atvika með reglugerð.

10. gr.
Tilkynningarskylda.

    Heilbrigðisstofnunum, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem veita heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna landlækni án tafar um óvænt atvik sem valdið hefur eða hefði getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni, svo sem dauða eða varanlegum örkumlum. Jafnframt skal upplýsa sjúkling um hið óvænta atvik án ástæðulausra tafa og nánustu aðstandendur hans þegar það á við.
    Landlæknir skal rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Veita skal landlækni þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg við rannsókn málsins. Landlæknir skal eiga greiðan aðgang að heilbrigðisstofnunum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna í þágu rannsóknar.
    Verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnun eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks við meðferð eða forvarnir vegna sjúkdóms, skal auk tilkynningar til landlæknis skv. 1. mgr. tilkynna það til lögreglu í samræmi við ákvæði laga um dánarvottorð, krufningar o.fl.
    Landlæknir skal halda samtímaskrá um óvænt atvik skv. 9. gr.
    Landlæknir skal árlega senda ráðherra samantekt um óvænt atvik, niðurstöður rannsókna og afdrif mála.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um tilkynningarskyldu, viðbrögð, rannsókn mála, skrá landlæknis um óvænt atvik og birtingu slíkra upplýsinga.

11. gr.
Áætlun um gæðaþróun.

    Landlæknir gerir áætlun um gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustunnar og skal hún lögð fyrir ráðherra til staðfestingar. Áætlun um gæðaþróun skal miða að því að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að framþróun hennar.
    Heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn skulu við gerð gæðaáætlana taka mið af staðfestri áætlun landlæknis um gæðaþróun.
    Landlæknir metur gæði og árangur innan heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt mælikvörðum sem settir eru af ráðherra með reglugerð. Samanburðarhæfar niðurstöður gæða- og árangursmælinga skulu birtar í heilbrigðisskýrslum skv. 8. gr.

12. gr.
Kvörtun til landlæknis.

    Landlækni er skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar.
    Heimilt er að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustunnar jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.
    Kvörtun skal vera skrifleg og þar skal koma skýrt fram hvert sé tilefni hennar.
    Kvörtun skal borin fram við landlækni án ástæðulauss dráttar. Séu meira en tíu ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar er landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar.
    Landlæknir skal að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Er viðkomandi sérfræðingum, svo og landlækni sjálfum, rétt að kalla sjúkling til skoðunar ef sérstök ástæða þykir til. Um meðferð kvartana gilda að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir skriflegt álit. Landlæknir skal í áliti sínu tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu sinni. Aðalniðurstöðu skal draga saman í lok álits.
    Heimilt er að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæði þessu til ráðherra.

III. KAFLI
Eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum.
13. gr.
Eftirlit landlæknis með heilbrigðisstarfsmönnum.

    Landlæknir hefur eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á.
    Landlæknir getur krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist undir rannsókn sérfræðinga telji hann það nauðsynlegt til að meta hvort hann sé hæfur til að gegna starfi sínu. Leiki grunur á að heilbrigðisstarfsmaður sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við störf sín er landlækni heimilt að krefjast þess að hann gangist þegar í stað undir nauðsynlegar rannsóknir til að ganga úr skugga um hvort svo sé.

14. gr.
Áminning.

    Nú verður landlæknir var við að heilbrigðisstarfsmaður vanrækir starfsskyldur sínar, fer út fyrir verksvið sitt eða brýtur í bága við ákvæði í heilbrigðislöggjöf landsins og skal hann þá beina tilmælum til hans um úrbætur og áminna hann eftir atvikum. Verði heilbrigðisstarfsmaður ekki við tilmælum landlæknis, sem veitt eru án áminningar, skal landlæknir áminna hann.
    Við veitingu áminningar skal gætt ákvæða stjórnsýslulaga. Áminning skal vera skrifleg og rökstudd og ætíð veitt vegna tilgreinds atviks eða tilgreindra atvika. Áminning skal veitt án ástæðulauss dráttar. Landlæknir sendir afrit áminningar til ráðherra.
    Ákvörðun landlæknis um veitingu áminningar sætir kæru til ráðherra.

15. gr.

Svipting og brottfall starfsleyfis.

    Komi áminning heilbrigðisstarfsmanns skv. 14. gr. ekki að haldi ber landlækni að skýra ráðherra frá málinu og gera tillögur um hvað gera skuli. Getur ráðherra þá ákveðið að viðkomandi skuli sviptur starfsleyfi að fullu eða tímabundið.
    Ráðherra getur svipt heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi, án undangenginnar áminningar að fenginni tillögu landlæknis, ef viðkomandi er talinn ófær um að gegna starfi sínu svo forsvaranlegt sé, svo sem vegna alvarlegra andlegra erfiðleika, andlegs eða líkamlegs heilsubrests, neyslu fíkniefna eða sambærilegra efna, misnotkunar áfengis eða skorts á faglegri hæfni. Sama gildir ef heilbrigðisstarfsmaður brýtur alvarlega gegn starfsskyldum sínum, svo sem með því að gefa út röng og villandi vottorð, með því að veita umsagnir að órannsökuðu máli, með því að gefa út ranga og villandi reikninga, með því að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvílir, með því að sýna alvarlegt hirðuleysi í störfum sínum eða með öðru atferli sem fer í bága við lög.
    Séu skilyrði sviptingar starfsleyfis fyrir hendi er ráðherra heimilt að fenginni tillögu landlæknis að takmarka starfsréttindi tímabundið. Gera skal skýra grein fyrir í hverju takmarkanir eru fólgnar, hver gildistíminn skuli vera og hvernig eftirliti skuli háttað.
    Málsmeðferð við töku ákvörðunar um sviptingu starfsleyfis eða takmörkun starfsleyfis fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu starfsleyfis séu fyrir hendi og að töf á sviptingu geti haft hættu í för með sér fyrir sjúklinga er landlækni þó heimilt að svipta heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi þegar í stað þar til endanleg ákvörðun í málinu skv. 1. og 2. mgr. hefur verið tekin. Landlæknir skal tilkynna ráðherra um bráðabirgðasviptingu án tafar. Hafi ráðherra ekki tekið endanlega ákvörðun um sviptingu skv. 1. mgr. innan þriggja mánaða fellur bráðabirgðasvipting niður.
    Byggi heilbrigðisstarfsmaður starfsréttindi sín hér á landi á starfsleyfi sem útgefið er í öðru landi falla starfsréttindi hans hér á landi niður ef hann er sviptur starfsleyfi í því landi.
    Starfsréttindi heilbrigðisstarfsmanns falla niður sé hann sviptur lögræði eða hann uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem krafist var þegar hann fékk starfsréttindi.

16. gr.
Afsal starfsleyfis.

    Heilbrigðisstarfsmaður getur afsalað sér starfsleyfi með skriflegri tilkynningu til ráðherra. Það kemur þó ekki í veg fyrir að veitt sé áminning skv. 14. gr., þegar það á við, né formlega sviptingu skv. 15. gr. ef um er að ræða brot í starfi sem varðað geta sviptingu.

17. gr.
Endurveiting starfsleyfis.

    Ráðherra getur að tillögu landlæknis veitt heilbrigðisstarfsmanni, sem sviptur hefur verið starfsleyfi eða hefur afsalað sér því, starfsleyfi að nýju enda hafi viðkomandi sýnt fram á að hann uppfylli skilyrði laga fyrir endurveitingu starfsleyfis og að þær ástæður sem leiddu til sviptingar eða afsals eigi ekki lengur við. Ráðherra getur ákveðið að endurveitt starfsleyfi skuli vera tímabundið eða takmarkað, sbr. 15. gr.

IV. KAFLI
Ávísanir lyfja.
18. gr.
Eftirlit með ávísunum lyfja.

    Landlæknir hefur almennt eftirlit með ávísun lyfja og fylgist með þróun lyfjanotkunar.
    Landlæknir skal hafa sérstakt eftirlit með ávísunum lækna og tannlækna á ávana- og fíknilyf, þar á meðal ávísunum þeirra á ávana- og fíknilyf til eigin nota. Landlæknir skal hafa samráð við Lyfjastofnun við framkvæmd eftirlits með ávísunum lyfja. Lyfjastofnun skal tilkynna landlækni telji hún rökstudda ástæðu til sérstaks eftirlits með ávísunum á lyf og þá einkum á ávana- og fíknilyf. Um aðgang landlæknis að upplýsingum í lyfjagagnagrunni, vegna eftirlits með ávísunum lyfja, fer samkvæmt lyfjalögum.

19. gr.
Svipting réttar til að ávísa lyfjum.

    Verði læknir eða tannlæknir uppvís að því að ávísa lyfjum í bága við lög eða stjórnvaldsfyrirmæli eða þannig að óhæfilegt megi teljast skal landlæknir áminna hann. Komi áminning landlæknis skv. 14. gr. ekki að haldi ber landlækni að skýra ráðherra frá málinu og gera tillögur um hvað gera skuli. Getur ráðherra þá ákveðið að svipta viðkomandi lækni eða tannlækni leyfi til þess að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, enda þyki ekki ástæða til að svipta hann starfsleyfi skv. 15. gr.
    Málsmeðferð við töku ákvörðunar um sviptingu réttar til þess að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Séu ríkar ástæður til að ætla að skilyrði fyrir sviptingu réttar til að ávísa lyfjum séu fyrir hendi og talið að töf á sviptingu geti haft hættu í för með sér fyrir sjúklinga er landlækni heimilt, án undangenginnar áminningar, að svipta lækni eða tannlækni rétti til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, þegar í stað, þar til tekin hefur verið endanleg ákvörðun í málinu skv. 1. mgr. Landlæknir skal tilkynna ráðherra um bráðabirgðasviptingu án tafar. Hafi ráðherra ekki tekið endanlega ákvörðun um sviptingu skv. 1. mgr. innan þriggja mánaða fellur bráðabirgðasvipting niður.

20. gr.
Endurveiting réttar til að ávísa lyfjum.

    Ráðherra getur að tillögu landlæknis afturkallað sviptingu réttar skv. 19. gr. til að ávísa lyfjum, öllum eða einstökum flokkum, enda hafi viðkomandi sýnt fram á að þær ástæður sem leiddu til sviptingar eigi ekki við lengur.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
21. gr.
Tilkynningar.

    Tilkynna skal sviptingu, afsal eða takmörkun starfsleyfis og sviptingu réttar til að ávísa lyfjum, svo og endurveitingu þessara réttinda, sbr. 15.–17. gr. og 19. og 20. gr., til landlæknis, Tryggingastofnunar ríkisins, Lyfjastofnunar, vinnuveitenda og annarra þeirra sem málið kann að varða, svo og til þeirra ríkja sem Íslandi er að þjóðarétti skylt að tilkynna.

22. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2007.

24. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Læknalög, nr. 53/1988, með síðari breytingum.
                  a.      18. gr. laganna orðast svo:
                      Læknir er háður eftirliti landlæknis í samræmi við ákvæði laga um landlækni.
                  b.      18. gr. a laganna fellur brott.
                  c.      IV. kafli laganna, Ávísanir lyfja, fellur brott.
                  d.      27. gr. laganna orðast svo:
                      Um áminningu og sviptingu starfsleyfa, sem veitt eru á grundvelli laga þessara, fer samkvæmt ákvæðum laga um landlækni.
                  e.      28. og 29. gr. laganna falla brott.
                  f.      1. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
                      Brot gegn ákvæðum laga þessara varða auk sviptingar lækningaleyfis samkvæmt lögum um landlækni, sbr. 27. gr., sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
     2.      Hjúkrunarlög, nr. 8/1974, með síðari breytingum.
                      7. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með hjúkrunarfræðingum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni. Sama á við um þá sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á hjúkrunarleyfi skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
     3.      Lög nr. 75/1977, um iðjuþjálfun, með síðari breytingum.
                  a.      10. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með iðjuþjálfum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                  b.      Orðin „um sviptingu starfsleyfis og um endurveitingu leyfis“ í 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna falla brott.
     4.      Lög um þroskaþjálfa, nr. 18/1978.
                  a.      Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
                      1.      1. mgr. orðast svo:
                              Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hafa prófi frá þroskaþjálfabraut Kennaraháskóla Íslands.
                      2.      Í stað orðanna „Þroskaþjálfaskóla Íslands“ í 2. mgr. kemur: þroskaþjálfabrautar Kennaraháskóla Íslands.
                  b.      7. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með þroskaþjálfum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um þroskaþjálfa og um refsingar fyrir brot í starfi.
     5.      Lög um lífeindafræðinga, nr. 99/1980, með síðari breytingum.
                      8. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með lífeindafræðingum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um lífeindafræðinga og um refsingar fyrir brot í starfi.
     6.      Lög um sjóntækjafræðinga, nr. 17/1984, með síðari breytingum.
                      Í stað 1. mgr. 9. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                      Um eftirlit með sjóntækjafræðingum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um sjóntækjafræðinga og um refsingar fyrir brot í starfi.
     7.      Ljósmæðralög, nr. 67/1984, með síðari breytingum.
                      8. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með ljósmæðrum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni. Sama á við um þá sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ljósmæðraleyfi skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um ljósmæður og um refsingar fyrir brot í starfi.
     8.      Lög um tannlækningar, nr. 38/1985, með síðari breytingum.
                  a.      12. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með tannlæknum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni. Sama á við um þá sem fengið hafa staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á tannlækningaleyfi skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr.
                  b.      2. mgr. 15. gr. laganna fellur brott.
                  c.      Orðin „nr. 80 frá 23. júní 1969“ í 16. gr. laganna falla brott.
     9.      Lög um félagsráðgjöf, nr. 95/1990.
                      8. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með félagsráðgjöfum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um félagsráðgjafa og um refsingar fyrir brot í starfi.
     10.      Lög um sjúkraþjálfun, nr. 58/1976, með síðari breytingum.
                  a.      10. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með sjúkraþjálfurum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                  b.      1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um sjúkraþjálfara og um refsingar fyrir brot í starfi.
     11.      Lög um sálfræðinga, nr. 40/1976, með síðari breytingum.
                      Í stað 4.–6. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
                      Um eftirlit með sálfræðingum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um sálfræðinga.
     12.      Lög um sjúkraliða, nr. 58/1984, með síðari breytingum.
                      7. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með sjúkraliðum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um sjúkraliða og um refsingar fyrir brot í starfi.
     13.      Lög um lyfjafræðinga, nr. 35/1978, með síðari breytingum.
                      Í stað 13. og 14. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
                      Um eftirlit með lyfjafræðingum, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um lyfjafræðinga og um refsingar fyrir brot í starfi.
     14.      Lög um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, nr. 24/1985, með síðari breytingum.
                      6. gr. laganna orðast svo:
                      Um eftirlit með þeim starfsstéttum sem falla undir lög þessi, veitingu áminningar og sviptingu starfsleyfa eða takmörkun starfsréttinda sem veitt eru samkvæmt lögum þessum og endurveitingu slíkra réttinda gilda ákvæði laga um landlækni.
                      Ákvæði læknalaga gilda að öðru leyti eftir því sem við getur átt um þær starfsstéttir sem falla undir lög þessi og um refsingar fyrir brot í starfi.
     15.      Lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, með síðari breytingum.
                  a.      2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
                       Heilbrigðisstarfsmaður: Einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar.
                  b.      2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
                      Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun til landlæknis.