Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1351  —  388. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 17. mars.)



1. gr.

    Í stað orðanna „15 km á klst.“ í c-lið orðskýringarinnar Reiðhjól í 2. gr. laganna kemur: 25 km á klst.

2. gr.

    51. gr. laganna orðast svo:
    Ökuskírteini eru tvenns konar, bráðabirgðaskírteini og fullnaðarskírteini.
    Bráðabirgðaskírteini er gefið út til byrjanda og gildir í þrjú ár.
    Fullnaðarskírteini gildir þar til hlutaðeigandi er fullra 70 ára. Ráðherra getur ákveðið að ökuskírteini til að mega stjórna ökutækjum skv. 50. gr. skuli gilda skemur.
    Ráðherra setur reglur um gildistíma ökuskírteinis sem gefið er út til þess sem er fullra 70 ára. Ráðherra getur enn fremur ákveðið að ökuskírteini skuli, ef aðstæður mæla með því, gilda skemur en ákveðið er í 3. mgr.
    Endurnýja má ökuskírteini að loknum gildistíma enda fullnægi hlutaðeigandi enn skilyrðum til að fá ökuskírteini útgefið. Ráðherra getur sett reglur um að próf skuli tekið að nýju.
    Fullnaðarskírteini til byrjanda má gefa út, fullnægi hann eftirtöldum skilyrðum:
     a.      hafi haft bráðabirgðaskírteini samfellt í eitt ár, farið í akstursmat og fengið að því loknu staðfestingu ökukennara þar að lútandi,
     b.      hafi ekki á síðustu 12 mánuðum fengið punkt í punktakerfi vegna umferðarlagabrots eða á sama tíma verið án ökuréttar vegna akstursbanns eða sviptingar.
    Fullnægi byrjandi ekki skilyrðum b-liðar 6. mgr. má endurnýja bráðabirgðaskírteini að loknum gildistíma þess. Fullnægi hann hins vegar skilyrðum b-liðar 6. mgr. og fari í akstursmat, sbr. a-lið 6. mgr., má gefa út fullnaðarskírteini.
    Hafi bráðabirgðaskírteini byrjanda verið endurnýjað, sbr. 7. mgr., getur hann fengið fullnaðarskírteini, fullnægi hann skilyrðum a- og b-liða 6. mgr.

3. gr.

    Á eftir 2. mgr. 53. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Byrjandi, sem hefur fengið bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn skv. 51. gr. og sviptur er ökurétti, öðlast eigi ökurétt að nýju að loknum sviptingartíma fyrr en hann hefur sótt sérstakt námskeið skv. 106. gr. a og staðist ökupróf að nýju.

4. gr.

    Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 64. gr. a laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Réttur til einkamerkis gildir í átta ár. Skráður eigandi ökutækis skal fram að 65 ára aldri greiða sama gjald vegna endurnýjunar á rétti til einkamerkis.

5. gr.

    Við 72. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Ráðherra getur sett reglur um flokkun og notkun viðurkennds hlífðarfatnaðar og annars hlífðarbúnaðar ökumanna og farþega bifhjóla. Í þeim reglum skal m.a. kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til slíks búnaðar.

6. gr.

    Á eftir 4. mgr. 100. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
    Við ákvörðun sektar vegna brots gegn 37. og 38. gr. skal höfð hliðsjón af aukinni áhættu sem hraðabrotið hefur í för með sér. Á vegi þar sem hámarkshraði má vera 80 km á klst. eða meiri skal sekt ákveðin hærri en ella. Sama gildir um ákvörðun sektar vegna hraðabrota við akstur:
     a.      bifreiðar innan við 3.500 kg að heildarþyngd með eftirvagn eða tengitæki, þ.m.t. tjaldvagn og hjólhýsi,
     b.      vörubifreiðar,
     c.      hópbifreiðar,
     d.      vagnlestar þar sem eru ökutæki sem falla undir b- eða c-lið með skráningarskyldan eftirvagn eða tengitæki,
     e.      liðvagns og
     f.      bifhjóls með hliðarvagni eða skráningarskyldum eftirvagni eða tengitæki.
    Við ákvörðun sektar vegna brota gegn 37. og 38. gr., sbr. 5. mgr., skal sekt ákveðin hærri en ella þegar hraðinn er 140 km á klst. eða meiri.
    Við ákvörðun sektar vegna brota gegn 37. og 38. gr., sbr. 5. mgr., skal sekt ákveðin mun hærri en ella þegar ekið er meira en tvöfalt hraðar en heimilt er.

7. gr.

    Á eftir 3. mgr. 101. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Þegar ekið er meira en tvöfalt hraðar en heimilt er skal svipting ökuréttar eigi ákvörðuð skemur en í þrjá mánuði.

8. gr.

     a.      Á eftir 106. gr. laganna kemur ný grein, 106. gr. a, sem orðast svo:
                      Lögreglustjóri skal banna byrjanda, sem hefur fengið bráðabirgðaskírteini í fyrsta sinn, að aka hafi hann fengið fjóra eða fleiri punkta samkvæmt punktakerfi vegna umferðarlagabrota. Akstursbanni skal eingöngu beitt einu sinni á gildistíma bráðabirgðaskírteinis.
                      Með akstursbanni eru afturkölluð ökuréttindin sem bráðabirgðaskírteinið veitir. Akstursbannið gildir þar til byrjandinn hefur sótt sérstakt námskeið og staðist ökupróf að nýju. Ráðherra setur reglur um tilhögun námskeiðs.
                      Þegar skilyrði akstursbanns eru fyrir hendi skal svo fljótt sem unnt er banna byrjanda að aka. Ákvörðun um akstursbann má bera undir dómstóla samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála og skal lögreglustjóri leiðbeina byrjanda um þann rétt þegar ákvörðun er birt.
     b.      Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: Akstursbann.

9. gr.

     a.      Á eftir 107. gr. laganna kemur ný grein, 107. gr. a, sem orðast svo:
                      Þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er að ræða, sem ekki fellur undir 2. mgr. þessarar greinar, stórfelldan eða ítrekaðan akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða manns sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brotið nema það sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður og með sömu skilyrðum má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið, enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.
                      Gera skal ökutæki upptækt þegar eigandi þess hefur verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna eða undir áhrifum áfengis sem hefur í för með sér sviptingu ökuréttar og vínandamagn í blóði er 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum eða meira, og viðkomandi hefur tvisvar síðustu þrjú árin fyrir brotið verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis þar sem vínandamagn í blóði hefur mælst 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér hefur numið 0,60 milligrömmum eða meira og sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar. Gera skal ökutæki upptækt enda þótt það hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.
                      Víkja má frá ákvæði 2. mgr. í undantekningartilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með því.
                      Ökutæki sem gert er upptækt skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal hann þó eiga forgang til andvirðisins ef bætur fást ekki á annan hátt.     
     b.      Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: Upptaka ökutækja.

10. gr.

    Við 114. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr., svohljóðandi:
    Við ákvörðun gjalda skv. 1. mgr. skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu umferðar- og umferðaröryggismála auk ferða og uppihalds. Fjárhæð gjalda skal taka mið af þeim kostnaði sem almennt hlýst af þeirri þjónustu sem Umferðarstofa veitir.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 27. apríl 2007.