Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1367, 133. löggjafarþing 279. mál: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (hlutverk og starfsemi sjóðsins).
Lög nr. 53 27. mars 2007.

Lög um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá er sjóðnum heimilt að veita lán og ábyrgðir, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Í starfsemi sinni skal Nýsköpunarsjóður taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs. Loks starfrækir sjóðurinn tryggingardeild útflutningslána skv. II. kafla.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað orðsins „Sjóðnum“ í 2. mgr. kemur: Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.


3. gr.

     Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Engan skal þó skipa oftar en fimm sinnum í stjórnina.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 5. tölul. orðast svo: Ákvarðanir um þátttöku sjóðsins í fjárfestingum, veitingu lána og ábyrgða, auk ákvarðana um tryggingar og kjör.
  2. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skal setja sér reglur um mat á fjárfestingartækifærum, auk umsókna um lán og ábyrgðir, sem ráðherra staðfestir.
         Ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Síðari málsliður 1. mgr. orðast svo: Stjórn sjóðsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og veitingu lána og ábyrgða.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Nýsköpunarsjóði er heimilt að semja við aðra aðila um tiltekna þjónustu honum til handa.


6. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Eigið fé Nýsköpunarsjóðs skal að lágmarki vera 3.000 millj. kr. Lágmarksfjárhæð þessi skal taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2007. Eigið fé, sem ekki er bundið í verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr., skal ávaxtað samkvæmt fjárfestingarstefnu sem mælt er fyrir um í reglugerð. Nýsköpunarsjóður skal semja við aðila, sem hefur leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um vörslu og ávöxtun eigin fjár sem ekki er bundið í verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr. Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins setur nánari reglur um fjárfestingarstefnu, sem ráðherra staðfestir.
     Nú nær eigið fé ekki lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. og skal þá ávaxta eigið fé samkvæmt fjárfestingarstefnu þar til lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. er náð.

7. gr.

     Við 8. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Nýsköpunarsjóði er heimilt að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum sem stunda fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, enda nemi eignarhlutur Nýsköpunarsjóðs minna en 50%. Leita skal samþykkis iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra fyrir þátttöku Nýsköpunarsjóðs í samlagssjóðum eða samlagshlutafélögum, sé hluta af söluandvirði Landssíma Íslands, sbr. lög nr. 133/2005, ráðstafað til að standa undir hlutdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í slíkum sjóðum.
     Þegar ekki er talið mögulegt að mati stjórnar Nýsköpunarsjóðs að taka þátt í verkefni með hlutafjárkaupum er sjóðnum heimilt að veita lán til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja með breytirétti í hlutafé eða með kauprétti hlutafjár. Þá er Nýsköpunarsjóði heimilt að veita ábyrgðir til þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur þegar fjárfest í eða veitt lán, enda sé slík ábyrgðarveiting liður í sameiginlegri ákvörðun meðfjárfesta um slíka fjármögnun.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Samhliða ákvörðunum um fjárfestingar, lán eða ábyrgðir skal ákveða framlög á afskriftareikninginn.
  2. Í stað orðanna „eigið fé hans“ í síðari málslið 2. mgr. kemur: lágmarks eigið fé, sbr. 7. gr.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nýsköpunarsjóði er heimilt að gera afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu.
  2. 2. mgr. fellur brott.


10. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Ársreikningi skal fylgja skrá yfir hlutafjárkaup Nýsköpunarsjóðs, þátttöku í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum, lán og ábyrgðir.

11. gr.

     15. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

12. gr.

     19. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

13. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Eigið fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs skal teljast hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, sbr. 7. gr. laganna.
     Útboðnar einingar af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. skulu leystar upp innan tíu ára eftir að þær eru boðnar út og telst andvirði þeirra til eigin fjár Nýsköpunarsjóðs.

Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.