Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1416, 133. löggjafarþing 707. mál: lögheimili og brunavarnir (skráning í atvinnuhúsnæði, ólögmæt búseta).
Lög nr. 67 28. mars 2007.

Lög um breytingu á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, og lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990.

1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Við síðari málslið 3. mgr. bætist: og á skipulögðu iðnaðar-, athafna- og hafnarsvæði og öðru svæði innan þéttbýlis sem skipulagt er fyrir atvinnustarfsemi nema búseta sé þar heimil samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
  2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. má heimila tímabundna skráningu lögheimilis í starfsmannabústað.


2. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari fyrirmæli um skráningu lögheimilis.

II. KAFLI
Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna:
  1. B-liður orðast svo: gera úttekt á mannvirkjum í notkun og starfsemi í þeim, með tilliti til brunavarna, og á lóðum og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar úrgangs eða geymslu eldfimra efna, og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir.
  2. Á eftir b-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: hafa, í samvinnu við byggingarfulltrúa, eftirlit með því hvort fólk tekur sér búsetu í atvinnuhúsnæði án þess að leyfi sveitarfélagsins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum hafi verið veitt fyrir breyttri notkun þess og grípa til viðeigandi þvingunarúrræða skv. VIII. kafla laga þessara og VI. kafla skipulags- og byggingarlaga ef þörf krefur. Ef ljóst þykir að hætta skapist af slíkri búsetu skal enn fremur kæra málið til lögreglu.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Ef breytingar eru gerðar á atvinnuhúsnæði með það að markmiði að nýta það til búsetu ber eiganda að afla sér tilskilinna leyfa áður en fólk tekur sér þar búsetu.


5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Ef ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim eru brotin skal slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Byggingarfulltrúi eða eftir atvikum heilbrigðisfulltrúi viðkomandi sveitarfélags aðstoðar slökkviliðsstjóra til að knýja eiganda og eftir atvikum forráðamann mannvirkis til úrbóta.
  3. Á eftir orðinu „notkun“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: starfsemi í því eða á lóðum og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar sorps og annars úrgangs eða geymslu eldfimra efna.
  4. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Sé ákvæðum 2. mgr. beitt skal eigandi eða umráðamaður mannvirkis eða lóðar bera kostnað af eftirliti með því að farið hafi verið að kröfum um úrbætur. Sveitarfélag skal setja sér gjaldskrá um fjárhæð gjalda fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein og um innheimtu þeirra. Gjöld skulu ekki vera hærri en nemur kostnaði við framkvæmd eftirlitsins. Gjöldum samkvæmt þessari málsgrein fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð og má innheimta gjaldfallin gjöld með fjárnámi.


6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
  1. Orðin „að fengnu samþykki sveitarstjórnar“ í 1. málsl. falla brott.
  2. Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Slökkviliðsstjóri tekur ákvörðun um að leggja á dagsektir samkvæmt þessari grein.


7. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
     Ef í ljós kemur að atvinnuhúsnæði er í óleyfi nýtt til búsetu er slökkviliðsstjóra heimilt að krefjast þess, í samvinnu við byggingarfulltrúa, að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum í húsnæðinu til að tryggja öryggi fólks þrátt fyrir að búseta sé þar óheimil samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Eigi síðar en 1. janúar 2009 skulu eigendur slíks húsnæðis hafa aflað sér leyfis samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fyrir breyttri notkun húsnæðisins þannig að búseta verði þar heimil. Fáist ekki slíkt leyfi skal eigandi eigi síðar en 1. mars 2009 rýma húsnæðið og láta af hinni ólögmætu notkun, enda hafi slökkviliðsstjóri ekki fyrir þann tíma fyrirskipað lokun þess skv. 31. gr. Þótt ekki fáist leyfi fyrir búsetu í húsnæðinu á eigandi mannvirkis ekki rétt á skaðabótum vegna kostnaðar hans af úrbótum skv. 1. málsl.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. mars 2007.