Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.

Þskj. 1  —  1. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.

(Lagt fyrir Alþingi á 134. löggjafarþingi 2007.)




1. gr.

    Eftirtaldar breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „félagsmálaráðuneyti“ í 1. mgr. kemur: félags- og tryggingamálaráðuneyti.
     b.      Orðin „Hagstofa Íslands“ í 1. mgr. falla brott.
     c.      Í stað orðanna „heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneyti“ í 1. mgr. kemur: heilbrigðisráðuneyti.
     d.      Orðið „landbúnaðarráðuneyti“ í 1. mgr. fellur brott.
     e.      Í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneyti“ í 1. mgr. kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
     f.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands.

2. gr.

    Orðin „og hagstofustjóri“ í 1. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Við 3. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við ef starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er boðið annað starf innan Stjórnarráðsins.

4. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta, sbr. 8. gr., og skal þá bjóða hlutaðeigandi starfsmönnum að sinna þeim áfram í því ráðuneyti er tekur við málefninu. Við flutninginn verða ekki breytingar á starfskjörum starfsmanna. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eiga ekki við um ráðstöfun starfa samkvæmt þessari grein.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi að frátöldum a–e-lið 1. gr. og 2. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.
    Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók til starfa 24. maí síðastliðinn. Við þá stjórnarmyndun var ákveðið að sameina tvö ráðuneyti, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, í eitt og breyta Hagstofu Íslands úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun. Jafnframt voru ákveðnar tilfærslur málaflokka milli ráðuneyta.
    Þessi áform kalla á breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, og er frumvarp þetta flutt í því skyni. Í kjölfarið verður reglugerð um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, breytt. Tilfærsla verkefna kallar enn fremur á breytingar á ýmsum sérlögum og verður frumvarp þess efnis lagt fram á haustþingi.
    Skipurit ráðuneyta og stofnana sem í hlut eiga verður lagað að þessum breytingum sem og önnur atriði eins og húsnæðismál.
    Allar þessar breytingar miða að því að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta betur að þörfum nútímans. Ráðuneyti verði þannig öflugar einingar þar sem skyldum málaflokkum er skipað saman undir eina stjórn. Hyggst ríkisstjórnin halda áfram á sömu braut og undirbúa enn frekari hagræðingu í skipulagi og rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana.

Breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands.
    Skipting Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti er ákveðin í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1969. Hefur það ákvæði staðið óbreytt frá byrjun nema hvað ákveðið var með lögum nr. 3/1990 að setja nýtt ráðuneyti á fót, umhverfisráðuneytið. Þá segir í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1969 að ekki megi setja ráðuneyti á stofn né leggja af nema með lögum.
    Framangreindar breytingar, sem ný ríkisstjórn hefur ákveðið, kalla á breytingar á 1. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1969. Þannig er lagt til með frumvarpi þessu að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti verði sameinuð í eitt, Hagstofa Íslands verði lögð niður sem ráðuneyti frá og með árslokum 2007 og nöfnum félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis breytt til samræmis við tilfærslu verkefna.
    Þá er með frumvarpi þessu lagt til að heimilað verði að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta. Að óbreyttum lögum yrði ekki hægt að hrinda slíkri breyttri skipan í framkvæmd því heiti ráðuneyta og fjöldi er bundinn í lög. Er því lögð til sú einfalda breyting að með forsetaúrskurði megi ákveða sameiningu tveggja eða fleiri ráðuneyta í eitt. Þessi breyting, verði hún að lögum, veitir því eingöngu svigrúm til fækkunar ráðuneyta frá því sem nú er og er hún í fullu samræmi við anda núgilandi laga um að ekki megi fjölga ráðuneytum án beinnar lagaheimildar.
    Enn fremur er með frumvarpi þessu lagt til að heimilað verði að bjóða starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið, annað starf innan Stjórnarráðs Íslands án opinberrar auglýsingar. Er nánari grein gerð fyrir þessari tillögu í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Hér er lögð til breyting á 1. mgr. 4. gr. laganna þar sem ráðuneytin eru talin upp. Breytingin er fólgin í því að sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti eru sameinuð í eitt ráðuneyti undir heitinu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Þá er heitum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis breytt til samræmis við flutning verkefna á sviði almannatrygginga frá hinu fyrrnefnda til hins síðarnefnda. Þá verður Hagstofu Íslands breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða stofnun. Þessar breytingar munu þó ekki öðlast gildi fyrr en í ársbyrjun 2008, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Vinnst því tími til að endurskoða lög um Hagstofu Íslands, nr. 24/1913, og undirbúa þá breytingu meðal annars að því er varðar réttarstöðu starfsmanna en gert er ráð fyrir að breytingin hafi engin áhrif á hana.
    Þá er lagt til að heimilt verði að sameina tvö eða fleiri ráðuneyti í eitt með úrskurði forseta. Slíkan úrskurð mundi forseti gefa út samkvæmt tillögum forsætisráðherra, sbr. 15. gr. laga nr. 73/1969. Í úrskurðinum yrði eftir atvikum kveðið á um heiti hins sameinaða ráðuneytis og önnur atriði sem taka þyrfti á við sameininguna.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að heimilt verði að bjóða starfsmanni, sem ráðinn er ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, laust starf innan Stjórnarráðsins án þess að um ráðstöfun þess starfs fari eftir 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
    Tillagan á rætur að rekja til umræðu sem lengi hefur farið fram innan Stjórnarráðs Íslands um að æskilegt væri að auka hreyfanleika starfsmanna og skapa betri forsendur fyrir því að ráðuneytin vinni saman sem ein heild. Eitt af því sem stendur slíkri þróun í vegi er að ekki er hægt samkvæmt gildandi lögum að auglýsa laus störf eingöngu innan Stjórnarráðsins. Þannig segir í 2. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, að auglýsa beri önnur störf en embætti opinberlega. Þetta gerir það að verkum að þegar störf losna innan Stjórnarráðsins er óheimilt að leita fyrst til annarra fastráðinna starfsmanna, þess heldur verður að auglýsa starfið opinberlega. Slík heimild væri þó til bóta og í samræmi við það sem tíðkast hjá flestum stærri fyrirtækjum. Eftir sem áður yrði að sjálfsögðu heimilt að auglýsa laus störf á almennum markaði og yrði það í öllum tilfellum gert ef ekki fyndist hæfur starfsmaður innan Stjórnarráðsins eða ef æskilegt væri talið að fá starfsmann með ný viðhorf og nýja reynslu í viðkomandi starf. Á heildina litið ætti þessi breyting ekki að leiða til þess að draga úr möguleikum manna til að fá vinnu hjá Stjórnarráðinu því það gefur auga leið að fylla þarf í skörð þeirra sem munu færa sig til í starfi á grundvelli nýju heimildarinnar.
    Rétt er að taka fram að lagabreyting þessi snertir eingöngu starfsmenn aðra en embættismenn. Um embættismenn gilda sérstakar reglur. Samkvæmt 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og 36. gr. laga nr. 70/1996 er heimilt að flytja embættismenn (þ.e. í tilfelli Stjórnarráðsins ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra) úr einu embætti í annað og það án þeirra samþykkis.
    Verði þessi breyting að lögum er ljóst að fleira þarf til að koma til að auka hreyfanleika starfsmanna milli ráðuneyta. Er mikilvægt að stjórnendur innan Stjórnarráðs Íslands tileinki sér breytt viðhorf um að ráðuneytin eigi að vinna að vissu marki saman sem ein heild og hvetja eigi starfsmenn frekar en letja til að afla sér reynslu úr fleiri en einu ráðuneyti standi hugur þeirra til þess. Gera má ráð fyrir að í kjölfar lagabreytingar þessarar, hljóti hún samþykki, verði settar reglur innan Stjórnarráðsins um það með hvaða hætti eigi að stuðla að auknum hreyfanleika starfsmanna, þar með talið varðandi verklag við auglýsingu starfa innan Stjórnarráðsins.

Um 4. gr.


    Hér er kveðið á um réttindi starfsmanna við flutning stjórnarmálefna milli ráðuneyta. Við þann flutning breytist ekki réttarstaða starfsmanna og réttindi sem þeir kunna að hafa áunnið sér haldast. Ekki er skylt að auglýsa ráðstöfun starfa samkvæmt greininni.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum


um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.


    Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi tvö ráðuneyti, þ.e. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, sameinuð í eitt. Í öðru lagi verður Hagstofu Íslands breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun. Í kjölfar frumvarpsins verður lögð fram reglugerð um ákveðnar tilfærslur málaflokka á milli ráðuneyta.
    Ekki er gert ráð fyrir að breyting á Hagstofu Íslands hafi áhrif á starfsemi og starfsfólk hennar þannig að það leiði af sér kostnaðarauka. Hins vegar gæti sameining ráðuneyta og tilfærsla á verkefnum á milli ráðuneyta leitt til útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð. Áætlað er að sameining og tilfærsla verkefna snerti samtals 41 starfsmann í stjórnsýslunni. Gert er ráð fyrir að öllum verði boðin sambærileg staða og því ætti ekki að koma til útgjalda vegna biðlauna. Þó má, í sumum tilvikum, gera ráð fyrir stofnkostnaði vegna uppsetningar aðstöðu fyrir starfsmenn á nýjum stað í Stjórnarráðinu. Áætlað er að slíkur kostnaður gæti numið um 20 m.kr. Er þá ekki gert ráð fyrir að ráðist verði í breytingar á húsnæði.