Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 3  —  3. mál.
Tillaga til þingsályktunarum viðurkenningu Íslands á ríkisstjórn Palestínu.

    Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Katrín Jakobsdóttir,
Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna réttkjörna ríkisstjórn á heimastjórnarsvæði Palestínu og taka upp við hana eðlileg samskipti. Jafnframt beiti hún sér á alþjóðavettvangi fyrir því að önnur ríki geri slíkt hið sama.

Greinargerð.


    Í kjölfar almennra kosninga á yfirráðasvæði Palestínumanna í janúar 2006 tók við völdum ríkisstjórn Hamas, sem þá hafði hlotið meiri hluta í kosningum sem alþjóðlegir eftirlitsaðilar úrskurðuðu að hefðu í aðalatriðum farið lýðræðislega fram. Ísrael neitaði að viðurkenna úrslit kosninganna og hefur með stuðningi Bandaríkjanna reynt að fá alþjóðasamfélagið til þess að sniðganga nýkjörna stjórn. Ísraelsstjórn hefur fryst greiðslur til Palestínu og heldur eftir skatttekjum sem henni ber að skila til heimastjórnarsvæðanna. Þetta ófremdarástand hefur bætt gráu ofan á svart og aukið enn á þrengingar á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna og var þó ekki á bætandi.
    Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður og miklu spennu í samskiptum höfuðfylkinga Palestínumanna, Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar, hefur þó tekist þar samkomulag um myndun þjóðstjórnar og er það framlag Palestínumanna til þess að reyna að öðlast viðurkenningu alþjóðasamfélagsins og fá lífsnauðsynlega aðstoð og stuðning til að lina þjáningar og skort íbúa Palestínu. Í kjölfar þessa reið norska ríkisstjórnin á vaðið, viðurkenndi ríkisstjórn Palestínu og lýsti því yfir að hún hyggðist taka upp við hana eðlileg samskipti. Tillagan sem hér er flutt gengur út á að Ísland fylgi í kjölfar Noregs og taki jafnframt upp baráttu fyrir því á alþjóðavettvangi að tekin verði upp eðlileg samskipti við réttkjörin stjórnvöld í Palestínu.
    Palestínumenn eru kúguð og undirokuð þjóð er sætt hefur harðræði, ólöglegu hernámi og landtöku af hálfu hernaðarstórveldisins Ísraels, með stuðningi Bandaríkjanna, um meira en hálfrar aldar skeið. Forsenda þess að brugðið geti til betri tíðar og friður komist á er að sjálfsögðu að forsvarsmenn þjóðanna sem búa við botn Miðjarðarhafs séu viðurkenndir og geti komið fram sem talsmenn þeirra í öllum samskiptum og þá ekki síst í friðarumleitunum.