Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.

Þskj. 11  —  11. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um almannatryggingar
og lögum um málefni aldraðra.

(Lagt fyrir Alþingi á 134. löggjafarþingi 2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. b-liðar 2. mgr. bætist: sbr. þó 4. mgr.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þá teljast ekki til tekna atvinnutekjur 70 ára og eldri þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr. eða vasapeninga skv. 48. gr.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Þá teljast ekki til tekna atvinnutekjur ellilífeyrisþega 70 ára og eldri.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 2. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Þá teljast ekki til tekna atvinnutekjur vistmanna 70 ára og eldri.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 27. maí 2007 um bættan hag aldraðra og öryrkja. Í stefnuyfirlýsingunni er lögð áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja með því að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Þar segir m.a. að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga skuli að fullu afnumin. Frumvarpið gerir ráð fyrir að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeninga og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, einnig að atvinnutekjur vistmanna 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðsluþátttöku þeirra í dvalarkostnaði á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
    Með frumvarpi þessu er verið að stíga eitt skref af mörgum í átt að þeim vilja ríkisstjórnarinnar að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja að því er varðar bætur almannatrygginga. Til viðbótar því sem felst í frumvarpi þessu segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins og að samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verði skoðað sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Enn fremur segir í stefnuyfirlýsingunni að dregið verði úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu, m.a. að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verði afnumin og að skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Þá segir að stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir aldurshópinn 67 til 70 ára og að almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%. Að lokum segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að stefnt skuli að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóði og mun frumvarp þess efnis verða lagt fram á haustþingi 2007.
    Frumvarp þetta breytir ákvæðum 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 26. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Í þessum ákvæðum eru skilgreindar þær tekjur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vistunarframlags, vasapeninga og greiðsluþátttöku vistmanna. Þar segir að tekjur ellilífeyrisþega og vistmanna af atvinnu skuli hafa áhrif við útreikning á fjárhæðum þessara bóta og greiðsluþátttöku. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir undantekningu að því er varðar atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna sem eru 70 ára eða eldri. Munu atvinnutekjur þeirra frá 1. júlí 2007 ekki hafa áhrif á útreikning ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeninga og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins og greiðsluþátttöku vistmanna í dvalarkostnaði á stofnunum fyrir aldraða, sbr. 1. og 2. gr. frumvarpsins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

     Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007,
um almannatryggingar, og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

    Markmiðið með frumvarpinu er að bæta hag ellilífeyrisþega með því að draga úr vægi viðmiðunartekna gagnvart greiðslum lífeyristrygginga. Með frumvarpinu er lagt til að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga. Þetta verður nánar útfært í reglugerð.
    Áætlað er að árlegur kostnaður við frumvarpið verði á bilinu 560–700 m.kr. Kostnaðarbilið felst m.a. í þeirri óvissu um hversu margir gætu sótt um greiðslur frá Tryggingastofnun sem annars hefðu ekki átt rétt á þeim. Í kostnaðarmatinu er reiknað með að atvinnutekjur 70 ára og eldri hafi hvorki áhrif á eigin lífeyrisgreiðslur né hugsanlegar lífeyrisgreiðslur maka frá Tryggingastofnun. Þar sem gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí 2007 má gera ráð fyrir að um það bil helmingur af áætluðum kostnaði falli til á þessu ári.