Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 14  —  10. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992, 102/1993 og 68/2007.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.    Frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um þingsköp Alþingis og eru flutningsmenn frumvarpsins eingöngu þingflokksformenn stjórnarmeirihlutans. Áratugahefð er fyrir því á Alþingi að leitað sé eftir samkomulagi allra þingflokka og mynduð þverpólitísk samstaða um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Sú hefð hefur nú verið rofin og því blað verið brotið í sögu löggjafarþingsins.
     Fyrsti minni hluti allsherjarnefndar gagnrýnir vinnubrögð meiri hluta nefndarinnar og bendir á að þau eru í hróplegu ósamræmi við yfirlýsingar formanna ríkisstjórnaflokkanna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en í henni segir: „Ríkisstjórnin mun leitast við að eiga gott samstarf við alla flokka á Alþingi og standa vörð um sjálfstæði Alþingis og eftirlitshlutverk þess.“
    Í fyrsta lagi telur 1. minni hluti að vinna eigi að málinu og skoða frumvarpið samhliða frumvarpi um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, (1. mál, þskj. 1) eða afgreiða eigi það frumvarp á undan því frumvarpi sem hér um ræðir.
    Í öðru lagi telur 1. minni hluti óforsvaranlegt annað en fjallað verði sameiginlega um frumvörpin með venjubundnum hætti, þau send til umsagnar fagaðila og hagsmunasamtaka, þar á meðal stéttarfélaga starfsmanna. 1. minni hluti mótmælir sérstaklega þeim ámælisverðu vinnubrögðum meiri hlutans að ljúka umfjöllun um málið á einum stuttum nefndarfundi í kvöldmatarhléi, hafna öllum óskum um eðlilega þinglega meðferð og taka málið órannsakað úr nefnd með afli atkvæða meiri hlutans.
    Í þriðja lagi vill 1. minni hluti árétta að endanleg verkefnaskipting á milli ráðuneyta er enn óljós með öllu og forsendur málsins allar í þoku eins og það ber að Alþingi. Framkvæmdarvaldið er hér að leggja til að Alþingi breyti starfsskipulagi sínu fyrir fram á grundvelli áforma ríkisstjórnar um breytta verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Litlar sem engar upplýsingar fást um hvað felst í samkomulagi stjórnarflokkanna eða hvað á eftir að semja um og því óeðlilegt að Alþingi breyti sínu skipulagi án þess að efnisleg niðurstaða um færslu á viðfangsefnum milli ráðuneyta hafi verið útkljáð. Hið eina rétta er því að kjósa á sumarþingi í fastanefndir Alþingis samkvæmt gildandi þingskapalögum, eins og stjórnarandstaðan lagði til að gert yrði á þingsetningardegi, en taka svo til skoðunar breytingar á þingskapalögum og nefndatilhögun á Alþingi þegar endanleg niðurstaða liggur fyrir um breytta verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Röksemdafærslan fyrir þessu blasir við þar sem fram kemur í greinargerð frumvarpsins: „Skipan og heiti fastanefnda Alþingis hafa tekið mið af heitum ráðuneyta og skiptingu málaflokka milli þeirra og er í 1. mgr. 23. gr. þingskapa kveðið á um að vísa skuli frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu“, og: „Með þessu frumvarpi verður því samræmi milli heita ráðuneyta og fastanefnda þingsins og málaflokka.“ Með vinnubrögðum meiri hlutans er verið að breyta skipan fastanefnda Alþingis áður en ljóst er hver heiti ráðuneyta verða og skipting málaflokka milli þeirra og þannig farið þvert gegn greinargerð frumvarpsins og eðlilegum vinnubrögðum.
    Í ljósi þess sem að framan greinir flytur 1. minni hluti eftirfarandi tillögu að

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Í ljósi þess að frumvarpið er vanreifað og fékk enga skoðun í þingnefnd, ekki hefur verið leitað samstöðu um efni þess með hefðbundnum hætti þó þingskapalög eigi í hlut og áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á verkaskiptingu innan stjórnarráðsins eru enn mjög óljós samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 5. júní 2007.Atli Gíslason,


frsm.


Siv Friðleifsdóttir.