Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 10. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 15  —  10. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, sbr. lög nr. 74/1992, 102/1993 og 68/2007.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Nauðsynlegt hefði verið að fara eftir gildandi lögum um þingsköp og kjósa starfsnefndir Alþingis í samræmi við þau. Þeir þingmenn sem styðja ríkisstjórnina, aukinn meiri hluti þingmanna, kaus að samþykkja afbrigði frá þingskapalögum, en með því var loku fyrir það skotið að kosið væri í nokkrar starfsnefndir Alþingis. Sú afstaða meiri hlutans var óeðlileg. Þar sem meiri hluti þingsins neytti þessa aflsmunar eru engar þingnefndir starfandi í mörgum mikilvægum málaflokkum. Engin starfsnefnd þingsins um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, viðskiptamál eða heilbrigðismál hefur verið kjörin.
    Það er mat okkar í Frjálslynda flokknum að brýnt sé að kjósa í framangreindar starfsnefndir Alþingis sem allra fyrst. Af hálfu talsmanna flokksins á Alþingi hefur ítrekað verið reynt að fá starfsnefndir þingsins kosnar samkvæmt þingsköpum en án árangurs. Hvað svo sem líður efnislegum andmælum gegn þeim starfsaðferðum sem viðhafðar hafa verið af stjórnarflokkunum þá eru þær staðreynd og viðfangsefnið nú er að fá sem fyrst virkar starfsnefndir þingsins í þeim mikilvægu málaflokkum sem að framan greinir. Það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að mikilvægar starfsnefndir þingsins séu ekki starfandi. Ábyrgð á því bera stjórnarflokkarnir. Það er hins vegar skylda þingsins að bæta úr svo fljótt sem verða má.
    Þrátt fyrir efnisleg mótmæli gegn vinnubrögðum meiri hlutans telur 2. minni hluti það svo miklu máli skipta að starfsnefndir þingsins séu kjörnar og taki til starfa að mælt er með samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 5. júní 2007.



Jón Magnússon.