Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.

Þskj. 16  —  12. mál.Tillaga til þingsályktunar

um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að
styrkja stöðu barna og ungmenna.

(Lögð fyrir Alþingi á 134. löggjafarþingi 2007.)
    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2007– 2011, til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggjast meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

I. Almennar aðgerðir og samráð.

    Til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins skal skipaður samráðshópur fulltrúa félagsmála-, heilbrigðis- og tryggingamála-, dóms- og kirkjumála-, fjármála- og menntamálaráðherra. Skal formaður hópsins skipaður af félagsmálaráðherra.
    Samráðshópurinn skal yfirfara tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2003 varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2006 til aðildarríkja um stefnu til eflingar foreldrahæfni og drög að samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi. Skal samráðshópurinn gera tillögur um með hvaða hætti skuli bregðast við þessum alþjóðasamþykktum til að treysta stöðu barna og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.
    Jafnframt verði á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum verði litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, til dæmis vegna veikinda þeirra eða fötlunar.
    Í því skyni að tryggja hag barna og ungmenna sem best verði unnið að framkvæmd einstakra verkefna á vegum viðkomandi ráðuneyta og skal þá sérstaklega byggt á eftirfarandi aðgerðum:

II. Aðgerðir er bæta afkomu barnafjölskyldna.


     1.      Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, meðal annars með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna.
     2.      Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Skal höfð hliðsjón af niðurstöðum MUNNÍS- rannsóknarinnar og markmiðum gildandi heilbrigðisáætlunar.
     3.      Nemendur í framhaldsskólum skulu njóta stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum.
     4.      Skipuð verði nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.

III. Aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðningur í uppeldisstarfi.


     1.      Fæðingarorlof verði lengt í áföngum á kjörtímabilinu.
     2.      Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni með sérstökum námskeiðum sem hæfi mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins. Einkum skal leggja áherslu á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns, foreldra barna á unglingsaldri og foreldra barna með sérþarfir. Miðað skal við að þessi ráðgjöf og þjónusta standi foreldrum til boða óháð búsetu og að hún skuli skipulögð í tengslum við starfsemi heilsugæslustöðva, skóla og/eða félagsþjónustu sveitarfélaga.
     3.      Stefnt verði að því að starfsfólk í ungbarnaeftirliti, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eigi kost á þjálfun til að geta miðlað þekkingu til foreldra í uppeldismálum, þ.m.t. ráðgjöf vegna hegðunarerfiðleika barna.

IV. Almennar forvarnaaðgerðir.


     1.      Áhersla verði lögð á heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna. Lögð verði áhersla á fræðslu um offitu og forvarnir gegn ofþyngd og bætt úrræði til meðferðar. Aðgengi barna og ungmenna að hollum mat í leik og starfi verði aukið.
     2.      Stuðlað verði að reyklausu umhverfi barna og ungmenna og forvörnum gegn reykingum verður áfram sinnt vel. Ungmennum verður veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu ekki síður en ólöglegra vímuefna í samræmi við lögbundna fræðslu um tóbaksvarnir í grunnskólum auk þess sem hugað verði að aðgengi ungmenna undir lögaldri að áfengi.
     3.      Beitt verði forvörnum í vaxandi mæli til þess að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna. Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu er varða andlega og félagslega líðan. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, meðal annars á hollar tómstundir og uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar við leik og störf. Stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra einstaklinga er búa við veikan fjárhag.

V. Aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir
og þroskafrávik og langveikra barna.

     1.      Fyrirkomulag þjónustu við börn með geðraskanir og þroskafrávik verði skoðað með sérstakri áherslu á skipulag vegna greiningar og mats á þörfum fyrir úrræði. Leitað verði leiða til að efla sérhæft samstarf á milli ólíkra þjónustuaðila og stjórnsýslustiga og auka samvinnu allra þeirra er koma að því að veita eða nota þessa þjónustu.
     2.      Lokið verði úttekt á skipulagi fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu á mismunandi landsvæðum við börn og ungmenni með geð- og hegðunarraskanir. Á grundvelli úttektarinnar verði teknar ákvarðanir um skipulag samstarfs þar sem skýrt verður kveðið á um ábyrgð veitenda þjónustunnar gagnvart notendum hennar.
     3.      Þegar verði gripið til sérstakra aðgerða í því skyni að vinna á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Framkvæmdastjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss verði meðal annars falið að vinna að því verkefni þannig að betra jafnvægi náist milli eftirspurnar og framboðs á þjónustu.
     4.      Áhersla verði lögð á að efla eftirfylgni með börnum og ungmennum með geðraskanir á vegum heilsugæslunnar, skóla og sveitarfélaga að lokinni útskrift af göngudeild og legudeild barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss.
     5.      Þegar í stað verði gripið til sérstakra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, til dæmis með árangurstengdum samningum við tiltæka sérfræðinga með þekkingu og reynslu.
     6.      Unnið verði að bættri stöðu langveikra barna, meðal annars með það að leiðarljósi að efla sálfélagslegan stuðning við fjölskyldur og auka rétt langveikra barna til félagslegrar þjónustu til samræmis við rétt fatlaðra barna. Jafnframt verði áhersla lögð á að auka samhæfingu og efla samstarf hlutaðeigandi aðila.

VI. Aðgerðir í þágu barna og ungmenna með
hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda.

     1.      Fjölbreytni meðferðarúrræða fyrir börn og ungmenni með hegðunar- og vímuefnavanda verði aukin. Í því skyni verði komið á fót meðferð utan stofnana sem veitt skal á vettvangi fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi barnsins og verði Barnaverndarstofu nú þegar falið að annast framkvæmd þess.
     2.      Viðbragðsflýtir og markvissari íhlutun í mál ungmenna með vímuefnavanda verði aukin, meðal annars með ráðgjöf fyrir foreldra. Leitað verði eftir samningum við frjáls félagasamtök um að annast ráðgjöf sem veitt er símleiðis allan sólarhringinn.
     3.      Stuðningur við börn og ungmenni sem lokið hafa stofnanameðferð verði efldur.
     4.      Unnin verði heildstæð aðgerðaáætlun í forvörnum vegna vímuefnaneyslu barna, meðal annars í samstarfi við frjáls félagasamtök.

VII. Aðgerðir er vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum.

     1.      Forvarnastarf gegn kynferðisofbeldi, þ.m.t. barnaklámi, verði eflt, meðal annars með gerð aðgerðaáætlunar í samstarfi við frjáls félagasamtök. Aðgerðaáætlunin skal einkum taka til barna og ungmenna í áhættuhópum, til dæmis vegna fötlunar, og þeirra sem dveljast á stofnunum eða búa við veika félagslega stöðu.
     2.      Skoðað verði hvernig unnt sé að skapa lögreglu lagaleg skilyrði og starfsaðstæður til að grípa til aðgerða gegn þeim sem nálgast börn í kynferðislegum tilgangi á veraldarvefnum eða á annan hátt.
     3.      Teknar verði til skoðunar lagaheimildir svo gera megi öryggisráðstafanir eftir afplánun refsidóma gagnvart kynferðisafbrotamönnum með barnagirnd á háu stigi, þ.m.t. vöktun og aðrar eftirlitsráðstafanir.
     4.      Unnið verði að markvissri íhlutun í mál ungra gerenda og meðferðarúrræðum fyrir þann hóp, meðal annars með samvinnu réttarvörslukerfisins og barnaverndaryfirvalda.
     5.      Unnið verði að því að styrkja starfsemi Barnahúss sem þverfaglegrar miðstöðvar vegna kynferðisbrota gegn börnum, einkum að því er varðar skýrslutöku og faglega meðferð barna.

VIII. Aðgerðir í þágu barna innflytjenda.


     1.      Unnið verði að því að stjórnvöld, atvinnulíf og samfélagið allt taki höndum saman í baráttu gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum með sérstakri aðgerðaáætlun, hvort sem þeir fordómar byggjast á uppruna þeirra eða öðrum þáttum.
     2.      Tryggt verði að vel sé tekið á móti fólki sem flytur hingað til lands og því auðveldað að verða þátttakendur í íslensku samfélagi og að rækta menningu sína. Órjúfanlegur þáttur í því starfi er að styrkja stöðu barna innflytjenda. Þar gegnir menntakerfið lykilhlutverki, einkum íslenskunám sem er lykill innflytjenda að virkri þátttöku í samfélaginu. Það er meðal annars hlutverk skóla að hjálpa börnum frá öðrum menningarsvæðum til að ná þessum markmiðum.
     3.      Unnið verði að því að í aðalnámskrá grunnskóla verði tekið sérstaklega á málefnum barna er hafa íslensku sem annað tungumál. Í því felst þjálfun í íslensku og þátttöku í menningarlífi og viðhald læsis og þekkingar í öllum námsgreinum ásamt eflingu námsþroska.
     4.      Unnið verði að því að skilgreina rétt leikskólabarna af erlendum uppruna til að læra íslensku og til að fá viðeigandi málörvun.
     5.      Unnið verði að því að skólar móti úrræði er veiti foreldrum og forráðamönnum af erlendum uppruna tækifæri til að taka þátt í foreldrastarfi og styðja þannig menntun barna sinna. Áhersla verði lögð á foreldrasamvinnu vegna barna af erlendum uppruna á öllum skólastigum og mótaðar verði starfsreglur fyrir skóla um móttöku barna innflytjenda.
     6.      Stefnt verði að því að framhaldsskólar beiti sér fyrir stuðningskennslu í einstökum námsgreinum fyrir börn innflytjenda.
     7.      Unnið verði að því að stutt verði við þróun og útgáfu á námsgögnum til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli á öllum skólastigum og jafnframt að nemendum með annað móðurmál en íslensku í grunn- og framhaldsskólum verði auðvelduð próftaka á íslensku.
     8.      Gert verði ráð fyrir því í fyrirhuguðu átaki í íslenskukennslu fyrir útlendinga að huga sérstaklega að stöðu foreldra af erlendum uppruna.
     9.      Mótuð verði sérstök áætlun á heilsugæslustöðvum um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit sem taki mið af þörfum foreldra sem eru af erlendu bergi brotnir.
     10.      Gerð verði sérstök áætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri.
     11.      Efnt verði til sérstaks samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga með það í huga að efla félagsþjónustu við börn og fjölskyldur innflytjenda.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ríkisstjórnin hefur í samræmi við stefnuyfirlýsingu frá 23. maí 2007 samþykkt að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir markvissum aðgerðum í þágu barna og barnafjölskyldna á Íslandi. Með þingsályktunartillögu þessari er lögð fram heildstæð aðgerðaáætlun í þágu barna og ungmenna er byggist meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meginatriði aðgerðaáætlunarinnar eru eftirfarandi:
          Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði meðal annars styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda þeirra eða fötlunar.
          Flutt verði frumvarp á kjörtímabilinu um lengingu fæðingarorlofs í áföngum þannig að það verði tólf mánuðir þegar það er komið að fullu til framkvæmda.
          Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, meðal annars með því að hækka barnabætur til tekjulágra fjölskyldna; tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna; nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum; stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra er búa við veikan fjárhag.
          Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu.
          Aukinn verði stuðningur við langveik börn og börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik.
          Það verði forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í þessari aðgerðaáætlun að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum á því sviði.
          Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin með því að koma á fót meðferð utan stofnana, á vettvangi fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi barnsins.
          Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.
          Áhersla verði lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.
          Forvarnastarf gegn kynferðislegu ofbeldi verði eflt og stuðningur jafnframt aukinn við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.
          Skipuð verði nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.
    Þingsályktunartillaga þessi um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna er unnin af starfshópi fulltrúa ráðuneyta félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála. Samráðshópur fulltrúa þessara ráðuneyta, undir forustu félagsmálaráðuneytisins, mun samræma og fylgja eftir þeim aðgerðum sem kveðið er á um í áætluninni.

Athugasemdir við einstaka kafla þingsályktunartillögu þessarar.


Um I. kafla.


    Í kaflanum er lögð áhersla á mikilvægi þess að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins. Því er lagt til að skipaður verði samráðshópur fulltrúa félagsmála-, heilbrigðis- og tryggingamála-, dóms- og kirkjumála-, fjármála- og menntamálaráðherra og skal formaður hópsins skipaður af félagsmálaráðherra. Það er talið mikilvægt að skipa slíkan samráðshóp er fundi reglubundið um aðgerðir innan ramma hvers fagráðuneytis er sérstaklega beinist að börnum og ungmennum því slíkan samráðsvettvang hefur skort í stjórnsýslunni. Það er einkar mikilvægt að slíkur vettvangur skapist því margt er unnið innan ramma hvers fagráðuneytis er sérstaklega snýr að þessum hópi í samfélaginu. Einnig eru mörg málefni þess eðlis, hvað þennan hóp varðar, að þau snerta fleiri en eitt fagráðuneyti og í slíkum málum getur verið óljóst hvar ábyrgð í einstökum málum liggur sem er bagalegt fyrir framgang mála. Hlutverk hópsins skal einnig vera að fylgja eftir aðgerðaáætlun þessari.
    Í 2. mgr. I. kafla er lagt til að samráðshópurinn skuli yfirfara tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2003 varðandi framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálans) á Íslandi, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins (2006) til aðildarríkja um stefnu til að efla foreldrahæfni og drög að samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi. Hlutverk samráðshópsins verði að gera tillögur um með hvaða hætti brugðist skuli við þessum alþjóðasamþykktum til að treysta stöðu barna og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti fer með samræmingarhlutverk þegar kemur að framkvæmd barnasáttmálans og hefur yfirumsjón með samningu skýrslna íslenskra yfirvalda til barnaréttarnefndarinnar. Skal samráðshópurinn skila tillögum sínum um aðgerðir í tilefni tilmæla barnaréttarnefndarinnar tímanlega til dóms- og kirkjumálaráðuneytis áður en íslensk stjórnvöld skila 3. og 4. skýrslu um framkvæmd barnasáttmálans til barnaréttarnefndarinnar, en hana skal leggja fram eigi síðar en 26. maí 2008. Samhliða því sem unnið er að þessum tillögum vegna framkvæmdar barnasáttmálans skal dóms- og kirkjumálaráðuneytið semja greinargerð um stöðu hans að íslenskum lögum og reifa álitamál sem tengjast lögfestingu hans.
    Í 3. mgr. er lagt til að á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Samráðshópurinn skoði hvernig megi til að mynda tryggja að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, til dæmis vegna veikinda þeirra eða fötlunar. Markmið slíkrar fjölskyldustefnu fyrirtækja skal vera að styðja og styrkja fjölskylduna í verkefnum sínum og auka líkur á því að foreldrum verði kleift að eyða meiri tíma með börnum sínum, til að mynda vegna veikinda eða fötlunar.
    Í tillögum að aðgerðaáætlun þessari hafa verið sett fram ákveðin markmið er heyra undir ráðuneyti félagsmála, heilbrigðis- og tryggingamála, dóms- og kirkjumála, fjármála og menntamála. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að hverju ráðuneyti verði falið að útfæra aðgerðaáætlunina nánar og útfæra einnig nánar verkefni samráðshópsins.

Um II. kafla.


    Hér er kveðið á um aðgerðir sem sérstaklega eiga að beinast að bættri fjárhagsafkomu fjölskyldna. Spornað verði við fátækt barna, meðal annars með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna og tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna og í því skuli sérstaklega höfð hliðsjón af niðurstöðum MUNNÍS-rannsóknarinnar og markmiðum heilbrigðisáætlunar. Þegar hefur verið stigið fyrsta skrefið í þessa átt og er nú þriggja og tólf ára börnum boðið gjaldfrjálst eftirlit og tannvernd.
    Barnabætur eru hluti af skattkerfinu. Þær skiptast í tvo þætti: Tekjutengdar barnabætur og ótekjutengdar. Barnabætur sem ekki eru tengdar tekjum greiðast vegna barna sem eru yngri en sjö ára en tekjutengdar barnabætur með börnum til 18 ára aldurs. Tekjutengdar barnabætur fara bæði eftir hjúskaparstöðu foreldra og fjölda barna. Barnabætur eru gerðar upp eftir á við álagningu en helmingur þeirra er greiddur fyrir fram. Árið 2007 eru greiddar bætur með börnum sem fædd eru á tímabilinu 1989–2006. Markmiði með hækkun barnabóta til tekjulágra fjölskyldna verður náð með hækkun tekjutengdra barnabóta.
    Í aðgerðum sem bæta eiga afkomu barnafjölskyldna er einnig lagt til að nemendur í framhaldsskólum njóti stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum. Að síðustu verði skipuð nefnd er sérstaklega fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.

Um III. kafla.


    Hér er fjallað um aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðning í uppeldisstarfi. Það skal gert með lengingu fæðingarorlofs í áföngum á gildistíma aðgerðaáætlunar þessarar þannig að það verði tólf mánuðir. Í þessum kafla er jafnframt kveðið á um að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni á sérstökum námskeiðum sem hæfi mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins. Mikilvægt er að slík námskeið standi foreldrum til boða gjaldfrjálst. Á slíkum námskeiðum skal leggja áherslu á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns, foreldra barna á unglingsaldri og foreldra barna með sérþarfir. Miðað skal við að þessi ráðgjöf og þjónusta standi foreldrum til boða óháð búsetu og að hún skuli skipulögð í tengslum við starfsemi heilsugæslustöðva, skóla og/eða félagsþjónustu sveitarfélaga og annarra stofnana sem hlut eiga að máli. Þetta er mikilvæg þjónusta og nokkur stærri sveitarfélög bjóða foreldrum nú þegar gjaldfrjálsa þátttöku í slíkum námskeiðum. Lagt er til að á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga verði fjallað um útfærslu slíkra námskeiða. Þá er stefnt að því með þessari tillögu að starfsfólk í ungbarnaeftirliti, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eigi kost á þjálfun til að geta miðlað þekkingu til foreldra í uppeldismálum, þ.m.t. ráðgjöf vegna hegðunarerfiðleika barna.

Um IV. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um almennar forvarnaaðgerðir og að áhersla verði lögð á heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna. Sérstaklega verði hugað að fræðslu um offitu og forvörnum gegn ofþyngd og bættum úrræðum til meðferðar en rannsóknir Lýðheilsustöðvar hafa bent til aukinnar offitu meðal barna og ungmenna á síðustu árum. Því er lagt til að aðgengi barna og ungmenna að hollum mat í leik og starfi verði aukið.
    Talið er einkar mkilvægt að stuðlað verði að reyklausu umhverfi barna og ungmenna og að forvörnum gegn reykingum verði áfram sinnt vel. Ungmennum verður veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu, ekki síður en ólöglegra vímuefna, í samræmi við lögbundna fræðslu um tóbaksvarnir í grunnskólum auk þess sem hugað verði að aðgengi ungmenna undir lögaldri að áfengi. Beitt verði forvörnum í vaxandi mæli til þess að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna.
    Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu hvað varðar andlega og félagslega líðan. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, meðal annars hollar tómstundir og uppbyggilega nýtingu frítíma, og samveru fjölskyldunnar við leik og störf. Stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að jafna aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra einstaklinga er búa við veikan fjárhag. Lögð er á það áhersla að unnið verði að framgangi þessara markmiða í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Um V. kafla.


    Í þessum kafla er lögð á það áhersla að forgangsmál sé að vinna á biðlistum á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss með aðgerðum í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna. Skoðað verði fyrirkomulag þjónustu við börn með geðraskanir og þroskafrávik með sérstakri áherslu á skipulag vegna greiningar og mats á þörfum fyrir úrræði. Leitað verði leiða til að efla sérhæft samstarf á milli ólíkra þjónustuaðila og stjórnsýslustiga og auka samvinnu allra þeirra er koma að því að veita eða nota þessa þjónustu. Lokið verði úttekt á skipulagi fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni með geð- og hegðunarraskanir á mismunandi landsvæðum. Á grundvelli úttektarinnar verða teknar ákvarðanir um skipulag samstarfs þar sem skýrt verður kveðið á um ábyrgð veitenda þjónustunnar gagnvart notendum hennar. Lögð er áhersla á að vinna á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans – háskólasjúkrahúss. Framkvæmdastjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss verði meðal annars falið að vinna að því verkefni þannig að betra jafnvægi náist milli eftirspurnar og framboðs á þjónustu.
    Áhersla skal lögð á að efla eftirfylgni með börnum og ungmennum með geðraskanir á vegum heilsugæslunnar, skóla og félagsþjónustu sveitarfélaga að lokinni útskrift af göngu- eða legudeild barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Í þessu skyni hefur meðal annars heilsugæslan verið efld á umliðnum missirum bæði á Reykjavíkursvæðinu og úti á landi. Börn með geð- og hegðunarraskanir þurfa oft á tíðum þjónustu úr mismunandi þjónustukerfum og er þá bæði átt við þjónustu á ábyrgð ríkisins og sveitarfélaga. Mikilvægt er að eflt verði upplýsingaflæði og aukin samvinna milli þessara aðila til að samfella náist og sem bestur árangur í þjónustu við þennan hóp barna og fjölskyldna þeirra.
    Í aðgerðaáætluninni er kveðið á um að þegar í stað verði gripið til sérstakra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, til dæmis með árangurstengdum samningum við tiltæka sérfræðinga með þekkingu og reynslu. Á vegum Greiningarstöðvarinnar hefur undanfarið verið unnið að endurskipulagningu á starfseminni, meðal annars í samvinnu við sveitarfélög, leikskóla, heilsugæslu, aðrar heilbrigðisstofnanir og fleiri aðila. Mikilvægt er að nýta og efla þær leiðir sem flýtt geta fyrir greiningu og þar með tryggt þá þjónustu sem börn og ungmenni eiga rétt á á öllum skólastigum og á vegum félagsþjónustu sveitarfélaga og Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra um land allt.
    Árið 2000 samþykkti þáverandi ríkisstjórn stefnu í málefnum langveikra barna sem unnið hefur verið eftir. Staða langveikra barna verði nú tekin til skoðunar, meðal annars í því skyni að efla sálfélagslegan stuðning við fjölskyldur og auka rétt langveikra barna til félagslegrar þjónustu til samræmis við rétt fatlaðra barna. Hér á hið sama við og um börn með geð- og hegðunarraskanir og mikilvægt er að þjónustuaðilar í mismunandi kerfum og á mismunandi stjórnsýslustigum efli samstarf sitt til að sem bestur árangur náist.

Um VI. kafla.


    Í kaflanum er kveðið á um að auka beri fjölbreytni í meðferð barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og vímuefnavanda. Sérstaklega er kveðið á um að þetta beri að gera með því að innleiða sérhæfða meðferð sem veitt er utan stofnana, á vettvangi fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi barnsins. Um er að ræða heildstæða meðferð sem veitt er öllum fjölskyldumeðlimum, ekki síst með áherslu á að efla hæfni foreldra til að fást við hegðunarvanda barnsins. Þetta er verkefni sem dregur úr kostnaði þegar til lengri tíma er litið þar sem það er til þess fallið að draga úr innlögnum á stofnanir og er ekki eins útgjaldafrekt úrræði og stofnanarekstur er yfirleitt. Gert er ráð fyrir að Barnaverndarstofa hefjist strax handa við að undirbúa framkvæmd málsins.
    Foreldrar og aðrir aðstandendur barna í vímuefnavanda hafa löngum kallað eftir auknum viðbragðsflýti hjálparkerfisins þegar óskað er eftir aðstoð. Foreldrahúsið og Vímulaus æska hafa veitt mikilvæga símaráðgjöf sem æskilegt væri að efla verulega þannig að slík þjónusta gæti orðið öflugri og veitt allan sólarhringinn. Önnur félagasamtök, til dæmis Rauði krossinn, koma hér jafnframt til greina. Miklu skiptir að foreldum sé veitt viðeigandi aðstoð strax svo unnt sé að beina málum barnanna til réttra aðila frá upphafi.
    Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga við meðferð barnaverndarmála og vistunar utan heimilis er með þeim hætti að ríkinu (Barnaverndarstofu) er ætlað að veita meðferð en að henni lokinni er barnaverndarnefndum sveitarfélaga ætlað að veita eftirfylgd og stuðning þeim börnum sem lokið hafa meðferð. Í aðgerðaáætlun þessari er kveðið á um að fyrirkomulag eftirfylgdar verði endurskoðað með það fyrir augum að gera það markvissara svo tryggt sé að ungmenni sem lokið hefur stofnanameðferð fái viðeigandi stuðning að henni lokinni.
    Að síðustu er kveðið á um að unnin verði heildstæð aðgerðaáætlun í forvörnum vegna vímuefnaneyslu barna, meðal annars í samstarfi við frjáls félagasamtök.

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um aðgerðir er stuðlað geta að öflugri vernd barna gegn kynferðisbrotum. Er þar lögð áhersla á að efla forvarnastarf, meðal annars með aðgerðaáætlunum sem gerðar verði í samráði við frjáls félagasamtök. Skal aðgerðaáætlunin sérstaklega taka til barna í áhættuhópum, til dæmis vegna fötlunar, barna á stofnunum eða þeirra sem búa við veika félagslega stöðu.
    Þá er gert ráð fyrir að á vegum dómsmálaráðuneytisins verði skoðað hvernig unnt verði að skapa lögreglu lagaleg og starfsleg skilyrði til að grípa til aðgerða gegn þeim sem leggja snörur fyrir börn í kynferðislegum tilgangi á veraldarvefnum eða á annan hátt. Um síðastliðin áramót var gerð breyting á lögregluumdæmum landsins. Eitt af markmiðum breytinganna var að efla starfsemi lögreglunnar og getu hennar við rannsókn mála, meðal annars með aukinni sérhæfingu lögreglumanna. Hefur svo dæmi sé tekið verið stofnuð sérstök deild sem eingöngu sinnir rannsókn kynferðisbrota. Þá á ríkislögreglustjóri samstarf við Barnaheill en samtökin reka ábendingarlínu á netinu þar sem borgararnir geta tilkynnt um vefsíður með barnaklámi. Innan lögreglunnar er svo unnið að því að auka sérþekkingu lögreglumanna til að geta betur fylgst með því sem fram fer á veraldarvefnum. Hefur verið hugað að gerð upplýsingagrunns um einstaklinga sem leita á börn.
    Þá er ráðgert að á vegum dómsmálaráðuneytisins verði teknar til skoðunar lagaheimildir er varða beitingu öryggisráðstafana eftir afplánun refsidóma gagnvart kynferðisbrotamönnum með barnagirnd á háu stigi. Hefur dómsmálaráðuneytið farið þess á leit við refsiréttarnefnd að hún taki til endurskoðunar VII. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar meðal annars um öryggisráðstafanir og er málið þar til skoðunar. Mun ráðuneytið taka til athugunar hvort rétt sé að beina til refsiréttarnefndar að skoða sérstaklega lagaheimildir er varða beitingu öryggisráðstafana eftir afplánun refsidóma. Þá er hjá Fangelsismálastofnun ríkisins unnið að skoðun á því hvernig haga megi eftirliti með mönnum sem fengið hafa reynslulausn. Þá er hér lagt til að meðal annars með samvinnu réttarvörslukerfisins og barnaverndaryfirvalda verði unnið markvisst að því að taka á málum ungra gerenda með viðeigandi meðferðarúrræðum.
    Þá er gert ráð fyrir að styrkja starfsemi Barnahúss sem þverfaglegrar miðstöðvar vegna kynferðisbrota á börnum, einkum að því er varðar skýrslutöku á börnum og meðferð þeirra. Að beiðni dómsmálaráðherra hefur réttarfarsnefnd unnið að endurskoðun laga um meðferð opinberra mála. Hefur endurskoðunin meðal annars tekið til ákvæða er varða yfirheyrslu barna utan dómhúss og er þar lagt til að dómari geti ákveðið að skýrsla af barni yngra en 15 ára verði tekin í sérútbúnu húsnæði utan dómhúss. Er þar átt við aðstöðu eins þá sem er fyrir hendi í Barnahúsi.

Um VIII. kafla.


    Þessi kafli beinist sérstaklega að aðlögun barna og ungmenna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Hér er lagt til að stjórnvöld, atvinnulíf og samfélagið allt taki höndum saman um að berjast gegn fordómum. Kaflinn fjallar einnig um aðgerðir, bæði almennar og sértækar, til þess að tryggja fólki af erlendum uppruna sem flytur hingað til lands góðar móttökur og auðvelda því að taka þátt í íslensku samfélagi um leið og það ræktar sína eigin menningu. Í þessum tilgangi verði í menntakerfinu unnið skipulega að því að styrkja stöðu barna innflytjenda með markvissri íslenskukennslu og móttökuáætlunum skólanna þar sem tekið verði heildstætt á þörfum hvers og eins.
    Í aðalnámskrá grunnskóla sem væntanlega verður gefin út á þessu ári verður kafli þar sem lýst er markmiðum kennslu í íslensku sem öðru tungumáli fyrir alla bekki grunnskólans. Í námskránni verði lýst þeim aðferðum sem notaðar verða til að gera nemendum af erlendum uppruna auðvelt að samlagast íslensku þjóðfélagi og menningu.
    Í endurskoðuðum lögum um leikskóla verði skilgreindur réttur leikskólabarna af erlendum uppruna til þess að læra íslensku og kynnast íslensku samfélagi eftir því sem þroski þeirra leyfir.
    Þeir skólar, sem þegar hafa mótað áætlanir til að taka á móti börnum af erlendum uppruna, sem gefist hafa vel, verði fyrirmyndir annarra skóla, mótaðar verði starfsreglur og allir skólar geri slíkar áætlanir í samræmi við þær. Einnig verði tryggt að skólar hvetji foreldra barnanna til þess að taka þátt í foreldrasamstarfi skólanna og foreldrarnir verði þátttakendur í þeim áætlunum sem samdar verða til að auðvelda börnunum aðlögunina. Foreldrasamstarf er einnig mikilvægt fyrir innflytjendur þar sem þeir ná með því tengslum við íslenska foreldra og þar með þjóðfélagið.
    Í aðalnámskrá framhaldsskóla sem væntanlega verður gefin út á þessu ári verði kafli þar sem lýst er markmiðum kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Á framhaldsskólastigi verði auk þess hlutast til um stuðningskennslu í einstökum námsgreinum þar sem meðal annars verði lögð áhersla á hugtakaskilning.
    Ljóst er að ekki eru til nægilega fjölbreytt námsgögn til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli og því verði lögð á það áhersla að efla útgáfu á námsgögnum til þessarar kennslu fyrir öll skólastig. Tekið verði tillit til sérstöðu nemenda, sem hafa annað móðurmál en íslensku, þegar kemur að prófum og settar reglur um hvernig megi auðvelda þeim próftöku þar til þau hafa náð fullum tökum á íslensku.
    Eins og fram kemur hér að framan er mikilvægt fyrir menntun og aðlögun barna að foreldrar þeirra geti fylgst með skólastarfinu, tekið þátt í umræðum um stöðu barna sinna og stutt við nám þeirra. Til þess að auðvelda foreldrum þetta mikilvæga hlutverk verði tekið sérstakt tillit til þeirra í því átaki sem hafið er í íslenskukennslu fyrir útlendinga.
    Vaxandi fjöldi fólks hér á landi sem ekki hefur íslensku að móðurmáli kallar á nýja þjónustu, meðal annars innan heilsugæslunnar, ekki síst við mæðraeftirlit og ungbarnavernd. Til að bregðast við þessari þróun er lagt til að mótuð verði sérstök áætlun á heilsugæslustöðvum um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit sem taki mið af þörfum foreldra af öðru þjóðerni.
    Í kaflanum er lagt til að unnin verði sérstök áætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri til að auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi og efnt verði til sérstaks samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga með það í huga að efla félagsþjónustu við börn og fjölskyldur innflytjenda.