Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 21  —  2. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Undirritaður telur verulega á skorta að sannfærandi og fullnægjandi rök hafi verið færð fyrir því að nauðsynlegt sé að beita aðlögunarákvæði samningsins um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. að fyrsta aðlögunartímabilið verði nýtt til fulls og íslenskum vinnumarkaði lokað fyrir ríkisborgurum Búlgaríu og Rúmeníu þar til 1. janúar 2009.
    Eðlilegt er að gera kröfu til þess að stjórnvöld rökstyðji með fullnægjandi hætti hvers vegna þau telja nú nauðsynlegt að beita þessum ákvæðum þótt við hinn sameiginlega evrópska vinnumarkað bætist 8 milljónir Búlgara og 22 milljónir Rúmena, vinnumarkað sem þegar telur 500 milljónir. Aðlögunarfrestum var að vísu beitt í tvö ár þegar tíu ný ríki fengu aðild að Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu árið 2004 en fyrir ári síðan var ákveðið að framlengja þá aðlögunarfresti ekki. Erfitt er að sjá hvers vegna er ástæða til að beita aðlögun nú gagnvart þessari viðbótarstækkun Evrópusambandsins úr því að þessi varð niðurstaðan vorið 2006. Einnig vantar frekari útskýringar og rökstuðning fyrir því hvernig menn hyggjast nota aðlögunartímann fram til 1. janúar 2009 og hverju það á að breyta að beita frestunarheimild gagnvart frjálsri för fólks frá Rúmeníu og Búlgaríu.
    Aðlögunartíminn frá 2004 var ekki notaður nægjanlega vel og enn skortir markvissa heildarstefnu og miklu markvissari aðgerðir í málefnum innflytjenda sem koma hingað til lands til vinnu til lengri eða skemmri tíma. Á þeim málum þarf að taka óháð því hvaða stöðu ríkisborgarar Rúmeníu og Búlgaríu hafa hér á vinnumarkaði næstu tvö árin. Frestun á frjálsri för þeirra hingað dregur ekki á nokkurn hátt úr þörfinni fyrir að íslensk stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins beiti sér með miklu markvissari og beittari hætti en gert hefur verið hingað til gegn því að erlent launafólk sæti félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Því er nauðsynlegt að ríkisstjórnin skýri betur hvaða markmið hún hefur sett sér um vinnu í þessum málaflokki á aðlögunartímanum gagnvart Búlgaríu og Rúmeníu. Meðan á þessum tíma stendur munu Búlgarar og Rúmenar sem hingað koma væntanlega fyrst og fremst starfa á vegum starfsmannaleigna með enn lakari stöðu gagnvart íslenskum kjarasamningum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði en ella væri.
    Með hliðsjón af framangreindu mun undirritaður sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. júní 2007.



Steingrímur J. Sigfússon.