Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 24  —  1. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson, lögfræðing hjá forsætisráðuneyti, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Þórveigu Þormóðsdóttur frá Félagi starfsmanna Stjórnarráðsins, Ólaf G. Kristjánsson frá Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Hallgrím Snorrason hagstofustjóra, Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands, Helga Laxdal og Magnús Magnússon frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Björgu Thorarensen prófessor, Sigurlaugu K. Jóhannsdóttur og Björn Rögnvaldsson frá starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Karl Steinar Guðnason, Sigurð Grétarsson og Sigríði Lillý Baldursdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins, Borgþór Kjærnested, Helga Hjálmsson og Margréti Margeirsdóttur frá Landssambandi eldri borgara og Sigurstein Másson frá Öryrkjabandalagi Íslands.
    Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér breytingar á heitum ráðuneyta í samræmi við stefnumörkun nýrrar ríkisstjórnar. Í öðru lagi er lagt til að heimilt sé með forsetaúrskurði að sameina ráðuneyti, í þriðja lagi að heimilt verði að bjóða starfsmönnum Stjórnarráðsins störf innan þess án þess að starfið sé auglýst opinberlega og í fjórða lagi eru lögð til ákvæði til að tryggja réttindi starfsmanna vegna tilfærslu verkefna á milli ráðuneyta.
    Meiri hluti nefndarinnar styður þær skipulagsbreytingar sem lagðar eru til í 1. gr. frumvarpsins um breytingar á ráðuneytum og telur að þær séu til bóta.
    Í f-lið 1. gr. frumvarpsins segir að forseti Íslands geti með úrskurði sameinað ráðuneyti. Með þeirri breytingu er gert kleift að fækka ráðuneytum án þess að lagabreytingu þurfi til. Heimildin er þó háð þeirri takmörkun að áfram verður óheimilt að fjölga ráðuneytum án lagaheimildar. Þess má geta að í nágrannalöndunum er fyrirkomulag með mismunandi hætti og sums staðar tíðkast að skipulag og verkaskipting ráðuneyta sé alfarið á hendi framkvæmdarvaldsins. Með þeirri breytingu sem um ræðir í frumvarpinu er ekki gengið svo langt en svigrúm framkvæmdarvaldsins þó aukið að þessu leyti.
    Þá er með frumvarpinu áformað að breyta Hagstofunni í sjálfstæða ríkisstofnun. Enginn ágreiningur er um þá breytingu enda hefur Hagstofan ekki lengur verkefni sem telja má að eigi að heyra undir ráðuneyti, hvorki stjórnvaldsákvarðanir né pólitíska stefnumörkun.
    Nefndin ræddi sérstaklega um 3. gr. frumvarpsins er fjallar um heimild til að bjóða starfsmönnum Stjórnarráðsins laust starf innan þess án þess að starfið sé sérstaklega auglýst samkvæmt almennum reglum. Með þeirri breytingu er verið að auka sveigjanleika í rekstri og stjórnun hjá þessum hluta ríkisins, stuðlað að auknum hreyfanleika starfsmanna og þar með möguleikum þeirra til að þróast í starfi og kemur til viðbótar öðrum ráðstöfunum í þessa veru eins og vistaskiptum milli ráðuneyta sem hafa staðið til boða í nokkur ár. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt gildandi lögum er allmikið svigrúm til að færa starfsmenn milli starfa innan einstakra ráðuneyta, meðal annars með því að ráða sérfræðinga í stöður deildarstjóra, án þess að stöðurnar séu sérstaklega auglýstar. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu er með breytingunni sem hér er lögð til verið að útvíkka þetta svigrúm þannig að það nái til alls Stjórnarráðsins. Er því um að ræða ákveðið skref í þá átt að gera Stjórnarráðið að einum vinnustað.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á frumvarpinu að við 3. gr. bætist nýr málsliður þar sem kveðið verði á um það að forsætisráðherra skuli setja reglur sem mæli fyrir um tilhögun auglýsinga innan Stjórnarráðsins um laus störf og önnur atriði er varða framkvæmd þessa ákvæðis. Með því verður tryggt að um notkun framangreindrar heimildar gildi ákveðnar reglur, til dæmis að því er varðar form tilkynninga innan Stjórnarráðsins um laus störf og mat á umsækjendum. Hér er um að ræða heimild og geta því stjórnendur kosið að auglýsa laus störf strax með almennri auglýsingu, t.d. ef talin er þörf á umsækjendum með reynslu utan Stjórnarráðsins. Með þessu er í sjálfu sér ekki dregið úr möguleikum almennings til að fá störf hjá Stjórnarráðinu, því að jafnaði ætti tilflutningur starfsmanns innan Stjórnarráðsins að leiða til þess að eldri staða hans yrði laus til umsóknar þannig að á endanum má ætla að fjöldi þeirra starfa sem auglýst eru opinberlega verði sá sami. Nefndin áréttar jafnframt að ákvæði stjórnsýslulaga gilda um allar stjórnvaldsákvarðanir, þar á meðal um ráðningu í störf hjá Stjórnarráðinu.
    Í 4. gr. er sérstaklega fjallað um réttindi þeirra starfsmanna sem flytjast vegna tilfærslu verkefna milli ráðuneyta. Nefndin telur að ásamt ákvæðum annarra laga tryggi greinin að starfsmenn njóti sömu réttinda og verið hefur samkvæmt gildandi rétti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. júní 2007.



Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Ellert B. Schram.


Ólöf Nordal.


Karl V. Matthíasson.