Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Þskj. 32  —  11. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar og lögum um málefni aldraða.

Frá minni hluta heilbrigðisnefndar.



    Minni hluti heilbrigðisnefndar er ósammála þeirri leið sem farin er í frumvarpi þessu og telur að hag bæði aldraðra og öryrkja verði fremur borgið með því að hækka frítekjumarkið í b-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og b-lið 1. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, úr 300.000 kr. í 960.000 kr. á ári. Með þessari hækkun frítekjumarksins geta elli- og örorkulífeyrisþegar unnið sér inn 80.000 kr. á mánuði án þess að lífeyrisgreiðslur þeirra samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða fjárhæð vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, skerðist. Mun sá kostnaður sem leiðir af þessum breytingum vera 490 millj. kr. Minni hlutinn leggur auk þess til að fjármagni verði varið í að draga úr tekjutengingu lífeyrisþega við tekjur maka þannig að heildarkostnaðurinn af framangreindum breytingum verði á bilinu 690–745 millj. kr.
    Með þessu móti verður ekki aðeins komið til móts við ellilífeyrisþega og vistmenn 70 ára og eldri eins og mælt er fyrir um í frumvarpi þessu, heldur einnig örorkulífeyrisþega. Þá verður ellilífeyrisþegum heldur ekki mismunað eftir því hvort þeir eru yngri en 70 ára eða eldri eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ber í þessu sambandi að benda á að samkvæmt lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, er aldraður einstaklingur sá sem hefur náð 67 ára aldri. Minni hlutinn leggur áherslu á að eitt skuli yfir alla ganga meðal aldraðra og bendir á að einstaklingar á aldrinum 67–69 ára eru að jafnaði betur í stakk búnir til að afla sér atvinnutekna en þeir sem eru 70 ára og eldri. Minni hlutinn telur að framangreind hækkun frítekjumarksins muni auka möguleika lífeyrisþega til þátttöku á vinnumarkaðnum en slíkt mun skila sér bæði til einstaklinganna sjálfra og samfélagsins.
    Minni hlutinn leggur áherslu á að þessi leið sé aðeins fyrsta skrefið af mörgum í átt að því að bæta stöðu aldraðra og öryrkja og stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu. Næsta skref verður að afnema að fullu tekjutengingu bóta við tekjur maka og skoða hvort nýta megi hluta frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóðum.
    Guðjón A. Kristjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 11. júní 2007.



Þuríður Backman,


frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Álfheiður Ingadóttir.