Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Prentað upp.

Þskj. 36  —  13. mál.
Leiðréttur texti.




Nefndarálit



um frv. til l. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Frumvarpinu er ætlað að lögfesta 6..viðaukasamning við upphaflegan samning íslenska ríkisins og Alcan en með viðaukasamningnum er starfsemi álversins í Straumsvík felld undir íslenskt skattakerfi. Byggist þetta á heimildarákvæði í upphaflegum samingi aðila.
    Verði frumvarpið samþykkt fellur úr gildi samkomulag milli ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar (frá 16. nóvember 1995) um hlutdeild bæjarfélagsins í framleiðslugjaldi í stað venjulegra fasteignaskatta og lóðarleigu.
    Minni hlutinn gerir ekki athugasemdir við þessar breytingar sem leiða til þess að Alcan mun eftir lögfestingu frumvarpsins lúta íslenskum lögum og reglum í stað sérreglna. Hins vegar gagnrýnir minni hlutinn vinnubrögð ríkisins í málinu.
    Þess var ekki nógsamlega gætt að hafa bæjarstjórn Hafnfirðinga með í ráðum enda þótt í 5. gr. áðurnefnds samnings milli bæjarfélagsins og ríkisins sé ákvæði um að komi fram ósk frá ISAL, nú Alcan, um að falla að íslenskum skattalögum skuli Hafnarfjarðarbær eiga „fulla aðild“ að viðræðum um aðlögun að íslenskum skattalögum.
    Þannig virðist ýmislegt í samningnum hafa komið sveitarfélaginu í opna skjöldu, einkum það er lýtur að gjöldum Alcan til hafnarinnar. Ljóst er að hagsmunir hafnarinnar geta verið í verulegri óvissu og jafnvel uppnámi eftir árið 2014 ef 3. gr. viðaukasamningsins helst óbreytt. Misvísandi skilningur á þessu atriði endurspeglast enn fremur í nefndaráliti meiri hlutans annars vegar og hins vegar minnisblaði frá hafnarstjóra Hafnarfjarðarhafnar, dags. 12. júní 2007.
    Þá hefur Hafnarfjarðarbær ítrekað leitað eftir því að gildistaka nýs viðbótarsamnings um breytt skattaumhverfi verði í samræmi við upphaflegan samning, þ.e. 1. janúar 2004, þar sem óvéfengt er að Alcan sendi formlega beiðni um breyttar skattareglur fyrir 1. júní 2003. Við gildistöku ári síðar, þ.e. 1. janúar 2005, verður Hafnarfjarðarbær af tæplega 100 millj. kr. greiðslu frá Alcan fyrir fasteignaskatta og lóðarleigu. Yfirlýst er að bæjarfélagið telur sig eiga endurkröfu á hendur ríkinu vegna þessa.
    Eðlilegast hefði verið að ríkið leysti úr ágreiningi við Hafnarfjarðarbæ með samningum og legði málið að því búnu fyrir Alþingi.
    Með tilvísun til þessa tekur minni hlutinn ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. júní 2007.



Álfheiður Ingadóttir.