Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 12. máls.
134. löggjafarþing 2007.
Nr. 2/134.

Þskj. 39  —  12. mál.


Þingsályktun

um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna.


    Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2007– 2011, til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggjast meðal annars á rétti þeirra eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

I. Almennar aðgerðir og samráð.

    Til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins skal skipaður samráðshópur fulltrúa félagsmála-, heilbrigðis- og tryggingamála-, dóms- og kirkjumála-, fjármála- og menntamálaráðherra. Skal formaður hópsins skipaður af félagsmálaráðherra.
    Samráðshópurinn skal yfirfara tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2003 varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2006 til aðildarríkja um stefnu til eflingar foreldrahæfni og drög að samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi. Skal samráðshópurinn gera tillögur um með hvaða hætti skuli bregðast við þessum alþjóðasamþykktum til að treysta stöðu barna og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.
    Jafnframt verði á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum verði litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, til dæmis vegna veikinda þeirra eða fötlunar.
    Í því skyni að tryggja hag barna og ungmenna sem best verði unnið að framkvæmd einstakra verkefna á vegum viðkomandi ráðuneyta og skal þá sérstaklega byggt á eftirfarandi aðgerðum:

II. Aðgerðir er bæta afkomu barnafjölskyldna.


     1.      Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, meðal annars með hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna.
     2.      Tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna. Skal höfð hliðsjón af niðurstöðum MUNNÍS- rannsóknarinnar og markmiðum gildandi heilbrigðisáætlunar.
     3.      Nemendur í framhaldsskólum skulu njóta stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum.
     4.      Skipuð verði nefnd er fjalli um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra.

III. Aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðningur í uppeldisstarfi.


     1.      Fæðingarorlof verði lengt í áföngum á kjörtímabilinu.
     2.      Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni með sérstökum námskeiðum sem hæfi mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins. Einkum skal leggja áherslu á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns, foreldra barna á unglingsaldri og foreldra barna með sérþarfir. Miðað skal við að þessi ráðgjöf og þjónusta standi foreldrum til boða óháð búsetu og að hún skuli skipulögð í tengslum við starfsemi heilsugæslustöðva, skóla og/eða félagsþjónustu sveitarfélaga.
     3.      Stefnt verði að því að starfsfólk í ungbarnaeftirliti, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eigi kost á þjálfun til að geta miðlað þekkingu til foreldra í uppeldismálum, þ.m.t. ráðgjöf vegna hegðunarerfiðleika barna.

IV. Almennar forvarnaaðgerðir.


     1.      Áhersla verði lögð á heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, meðal annars með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna. Lögð verði áhersla á fræðslu um offitu og forvarnir gegn ofþyngd og bætt úrræði til meðferðar. Aðgengi barna og ungmenna að hollum mat í leik og starfi verði aukið.
     2.      Stuðlað verði að reyklausu umhverfi barna og ungmenna og forvörnum gegn reykingum verður áfram sinnt vel. Ungmennum verður veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu ekki síður en ólöglegra vímuefna í samræmi við lögbundna fræðslu um tóbaksvarnir í grunnskólum auk þess sem hugað verði að aðgengi ungmenna undir lögaldri að áfengi.
     3.      Beitt verði forvörnum í vaxandi mæli til þess að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna. Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu er varða andlega og félagslega líðan. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, meðal annars á hollar tómstundir og uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar við leik og störf. Stefnt verði að því, í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög, að bæta aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra einstaklinga er búa við veikan fjárhag.

V. Aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir
og þroskafrávik og langveikra barna.

     1.      Fyrirkomulag þjónustu við börn með geðraskanir og þroskafrávik verði skoðað með sérstakri áherslu á skipulag vegna greiningar og mats á þörfum fyrir úrræði. Leitað verði leiða til að efla sérhæft samstarf á milli ólíkra þjónustuaðila og stjórnsýslustiga og auka samvinnu allra þeirra er koma að því að veita eða nota þessa þjónustu.
     2.      Lokið verði úttekt á skipulagi fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu á mismunandi landsvæðum við börn og ungmenni með geð- og hegðunarraskanir. Á grundvelli úttektarinnar verði teknar ákvarðanir um skipulag samstarfs þar sem skýrt verður kveðið á um ábyrgð veitenda þjónustunnar gagnvart notendum hennar.
     3.      Þegar verði gripið til sérstakra aðgerða í því skyni að vinna á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Framkvæmdastjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss verði meðal annars falið að vinna að því verkefni þannig að betra jafnvægi náist milli eftirspurnar og framboðs á þjónustu.
     4.      Áhersla verði lögð á að efla eftirfylgni með börnum og ungmennum með geðraskanir á vegum heilsugæslunnar, skóla og sveitarfélaga að lokinni útskrift af göngudeild og legudeild barna- og unglingageðdeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss.
     5.      Þegar í stað verði gripið til sérstakra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, til dæmis með árangurstengdum samningum við tiltæka sérfræðinga með þekkingu og reynslu.
     6.      Unnið verði að bættri stöðu langveikra barna, meðal annars með það að leiðarljósi að efla sálfélagslegan stuðning við fjölskyldur og auka rétt langveikra barna til félagslegrar þjónustu til samræmis við rétt fatlaðra barna. Jafnframt verði áhersla lögð á að auka samhæfingu og efla samstarf hlutaðeigandi aðila.

VI. Aðgerðir í þágu barna og ungmenna með
hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda.

     1.      Fjölbreytni meðferðarúrræða fyrir börn og ungmenni með hegðunar- og vímuefnavanda verði aukin. Í því skyni verði komið á fót meðferð utan stofnana sem veitt skal á vettvangi fjölskyldunnar og í nánasta umhverfi barnsins og verði Barnaverndarstofu nú þegar falið að annast framkvæmd þess.
     2.      Viðbragðsflýtir og markvissari íhlutun í mál ungmenna með vímuefnavanda verði aukin, meðal annars með ráðgjöf fyrir foreldra. Leitað verði eftir samningum við frjáls félagasamtök um að annast ráðgjöf sem veitt er símleiðis allan sólarhringinn.
     3.      Stuðningur við börn og ungmenni sem lokið hafa stofnanameðferð verði efldur.
     4.      Unnin verði heildstæð aðgerðaáætlun í forvörnum vegna vímuefnaneyslu barna, meðal annars í samstarfi við frjáls félagasamtök.

VII. Aðgerðir er vernda börn og ungmenni gegn kynferðisbrotum.

     1.      Forvarnastarf gegn kynferðisofbeldi, þ.m.t. barnaklámi, verði eflt, meðal annars með gerð aðgerðaáætlunar í samstarfi við frjáls félagasamtök. Aðgerðaáætlunin skal einkum taka til barna og ungmenna í áhættuhópum, til dæmis vegna fötlunar, og þeirra sem dveljast á stofnunum eða búa við veika félagslega stöðu.
     2.      Skoðað verði hvernig unnt sé að skapa lögreglu lagaleg skilyrði og starfsaðstæður til að grípa til aðgerða gegn þeim sem nálgast börn í kynferðislegum tilgangi á veraldarvefnum eða á annan hátt.
     3.      Teknar verði til skoðunar lagaheimildir svo gera megi öryggisráðstafanir eftir afplánun refsidóma gagnvart kynferðisafbrotamönnum með barnagirnd á háu stigi, þ.m.t. vöktun og aðrar eftirlitsráðstafanir.
     4.      Unnið verði að markvissri íhlutun í mál ungra gerenda og meðferðarúrræðum fyrir þann hóp, meðal annars með samvinnu réttarvörslukerfisins og barnaverndaryfirvalda.
     5.      Unnið verði að því að styrkja starfsemi Barnahúss sem þverfaglegrar miðstöðvar vegna kynferðisbrota gegn börnum, einkum að því er varðar skýrslutöku og faglega meðferð barna.

VIII. Aðgerðir í þágu barna innflytjenda.


     1.      Unnið verði að því að stjórnvöld, atvinnulíf og samfélagið allt taki höndum saman í baráttu gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum með sérstakri aðgerðaáætlun, hvort sem þeir fordómar byggjast á uppruna þeirra eða öðrum þáttum.
     2.      Tryggt verði að vel sé tekið á móti fólki sem flytur hingað til lands og því auðveldað að verða þátttakendur í íslensku samfélagi og að rækta menningu sína. Órjúfanlegur þáttur í því starfi er að styrkja stöðu barna innflytjenda. Þar gegnir menntakerfið lykilhlutverki, einkum íslenskunám sem er lykill innflytjenda að virkri þátttöku í samfélaginu. Það er meðal annars hlutverk skóla að hjálpa börnum frá öðrum menningarsvæðum til að ná þessum markmiðum.
     3.      Unnið verði að því að í aðalnámskrá grunnskóla verði tekið sérstaklega á málefnum barna er hafa íslensku sem annað tungumál. Í því felst þjálfun í íslensku og þátttöku í menningarlífi og viðhald læsis og þekkingar í öllum námsgreinum ásamt eflingu námsþroska.
     4.      Unnið verði að því að skilgreina rétt leikskólabarna af erlendum uppruna til að læra íslensku og til að fá viðeigandi málörvun.
     5.      Unnið verði að því að skólar móti úrræði er veiti foreldrum og forráðamönnum af erlendum uppruna tækifæri til að taka þátt í foreldrastarfi og styðja þannig menntun barna sinna. Áhersla verði lögð á foreldrasamvinnu vegna barna af erlendum uppruna á öllum skólastigum og mótaðar verði starfsreglur fyrir skóla um móttöku barna innflytjenda.
     6.      Stefnt verði að því að framhaldsskólar beiti sér fyrir stuðningskennslu í einstökum námsgreinum fyrir börn innflytjenda.
     7.      Unnið verði að því að stutt verði við þróun og útgáfu á námsgögnum til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli á öllum skólastigum og jafnframt að nemendum með annað móðurmál en íslensku í grunn- og framhaldsskólum verði auðvelduð próftaka á íslensku.
     8.      Gert verði ráð fyrir því í fyrirhuguðu átaki í íslenskukennslu fyrir útlendinga að huga sérstaklega að stöðu foreldra af erlendum uppruna.
     9.      Mótuð verði sérstök áætlun á heilsugæslustöðvum um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit sem taki mið af þörfum foreldra sem eru af erlendu bergi brotnir.
     10.      Gerð verði sérstök áætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri.
     11.      Efnt verði til sérstaks samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga með það í huga að efla félagsþjónustu við börn og fjölskyldur innflytjenda.

Samþykkt á Alþingi 13. júní 2007.