Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 9  —  9. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukna hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

Flm.: Magnús Stefánsson, Birkir J. Jónsson, Guðni Ágústsson, Bjarni Harðarson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka hið fyrsta upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum.

Greinargerð.


    Mörg sveitarfélög búa við erfiða fjárhagsstöðu af ýmsum ástæðum og mörgum þeirra hefur reynst erfiðara og erfiðara að standa undir lögbundnum verkefnum sínum vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Hins vegar er fjárhagsstaða sveitarfélaganna í landinu misjöfn, m.a. eftir landsvæðum. Tekjur sumra hafa minnkað eða nánast staðið í stað samanborið við aukinn rekstrarkostnað undanfarin ár. Þetta á fyrst og fremst við um sveitarfélög á landsbyggðinni.
    Ekki er útlit fyrir að hagur margra þeirra muni batna á næstunni, frekar er útlit fyrir að erfiðleikar þeirra verði enn meiri vegna fyrirsjáanlegrar þróunar í sjávarútvegi. Sveitarfélög sem byggja afkomu sína að miklu leyti á útsvarstekjum frá sjávarútvegi og þjónustu við hann sjá nú fram á erfiða tíma vegna samdráttar í þorskveiðum. Því er brýnt að leita leiða til þess meðal annars að koma til móts við þau og mikilvægt að tryggja að tekjuskattur ríkis og sveitarfélaga sé í samræmi við verkaskiptingu þessara stjórnvalda. Eðlilegt er að kannað verði hvort vænlegra sé að fjármagna sveitarfélög að hluta til með öðrum tekjustofnum en þau hafa nú, svo sem með hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Í því sambandi má nefna að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað ályktað um það að sveitarfélögin fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti. Eftir að byrjað var að innheimta fjármagnstekjuskatt hafa tekjur ríkissjóðs af honum vaxið mikið ár frá ári. Það er því eðlilegt að stjórnvöldin, ríkisvaldið og sveitarfélögin, taki upp viðræður um málið og komist að niðurstöðu um það, svo og um eðlilega leið til að deila fjármunum með þeim hætti að illa stödd sveitarfélög geti betur staðið undir lögbundnum hlutverkum sínu. Í þeim viðræðum verði jafnframt hugað að jöfnun fjárhagslegs aðstöðumunar milli sveitarfélaga með því að styrkja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sérstaklega til þess verkefnis.