Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 15. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 15  —  15. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson,


Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon.



1. gr.

    Á eftir orðinu „Persónuafsláttur“ í 7. tölul. 28. gr. laganna kemur: sérstakur persónuafsláttur.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 67. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Sé tekjuskattsstofn manns skv. 1. og 3. tölul. 61. gr. 1.800.000 kr. eða lægri fær hann sérstakan persónuafslátt jafnháan samanlögðum álögðum tekjuskatti skv. 66. gr. og álögðu útsvari skv. IV. kafla laganna um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, að frádregnum persónuafslætti skv. 1. mgr. Sérstakur persónuafsláttur lækkar hlutfallslega með hækkandi tekjuskattsstofni frá 1.800.000 kr. árstekjum og fellur niður við 3.000.000 kr. Fjárhæðir í málsgreininni taka í upphafi hvers árs sömu breytingum og persónuafsláttur skv. 1. mgr.
     b.      Á eftir 2. mgr., er verður 3. mgr., kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                  Með sérstakan persónuafslátt skal fara eins og kveðið er á um persónuafslátt í 3. mgr. að öðru leyti en því að óráðstafaður sérstakur persónuafsláttur gengur ekki til maka.
     c.      Við bætist ný málsgrein, 6. mgr., svohljóðandi:
                  Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um ráðstöfun sérstaks persónuafsláttar launamanna á móti staðgreiðslu á tekjuári samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra skatta.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að bæta verulega hag lágtekjufólks með því að taka upp sérstakan persónuafslátt sem kemur til viðbótar núverandi persónuafslætti. Tekjur manns að 150 þús. kr. á mánuði verða skattfrjálsar, en skattleysismörk eru nú rétt tæplega 90 þús. kr. á mánuði. Nái frumvarpið fram að ganga munu skattar lækka um 21.400 kr. á hverjum mánuði hjá þeim sem hefur 150 þús. kr. á mánuði. Á heilu ári nemur kjarabótin fyrir lágtekjufólk allt að 257 þús. kr.
    Skattar munu einnig lækka hjá þeim sem hafa tekjur frá 150 þús. kr. til 250 þús. kr. á mánuði, en við þau tekjumörk fellur sérstaki persónuafslátturinn niður. Gert er ráð fyrir að sérstaka persónuafslættinum verði eins og persónuafslættinum ráðstafað til greiðslu tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts og falli niður það sem þá er enn óráðstafað. Hins vegar verður sérstaki persónuafslátturinn ekki millifæranlegur til maka.
    Ráðherra er falið að setja í reglugerð ákvæði um ráðstöfun sérstaka persónuafsláttarins á móti staðgreiðslu á tekjuári samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda þannig að hann nýtist þá strax eins og kostur er, en eðli málsins samkvæmt verður sérstaki persónuafslátturinn ákvarðaður endanlega við álagningu skatta þegar skattframtal liggur fyrir.
    Verði frumvarpið að lögum mun það bæta kjör elli- og örorkulífeyrisþega sérstaklega en þeir eru fjölmennir í tekjulægstu hópunum í þjóðfélaginu. Þannig er t.d. talið að nærri þriðjungur aldraðra hafi tekjur lægri en 120 þús. kr. á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá landssambandi eldri borgara hefur þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna 1988–2007 hjá ellilífeyrisþega sem ekki býr einn verið fjarri því að halda í við kaupmáttaraukninguna hjá almenningi á sama tíma. Hefur hækkunin hjá ellilífeyrisþeganum verið aðeins tæplega 20% en 60% hjá almenningi.
    Afdrifaríkast fyrir lágtekjufólk hefur verið lækkun skattleysismarka á þessum tíma. Skattleysismörkin eru aðeins rétt tæplega 90 þús. kr. á mánuði en væru um 120 þús. kr. ef þau hefðu fylgt verðlagi og nærri 150 þús. kr. nú ef þau hefðu fylgt launavísitölu. Vegna þessarar þróunar hefur skattlagning á tekjur lægri en 150 þús. kr. á mánuði farið vaxandi. Fyrir ellilífeyrisþega sem greiddi ekki skatt af tekjum sínum við upphaf staðgreiðsluskattkerfisins þýðir lækkun skattleysismarkanna síðan þá minnkandi ráðstöfunartekjur eftir skatta og nú er svo komið að af sambærilegum tekjum og voru 1988 fara ein mánaðarlaun í skatta til ríkisins og lífeyrisþeginn er verr staddur sem því nemur.
    Þessi þróun kemur skýrt fram þegar skoðuð er skattbyrði einstakra tekjuhópa og framteljendum skipt í tíu jafnstóra hópa. Í lægstu tíund eru 10% tekjulægstu framteljendurnir og þannig koll af kolli. Borin er saman skattbyrði árin 1994 og 2004 og þá kemur í ljós að skattbyrðin hefur vaxið í öllum tíundarhópunum nema þeim hæsta þar sem hún hefur lækkað. Skattbyrðin hefur hins vegar þyngst mest í lægstu tekjuhópunum, um 14% í lægstu tíundinni og 15,3% í næstlægstu. Meðaltalshækkun skattbyrðarinnar hjá öllum tekjuhópunum er um 4,5% samkvæmt gögnum sem Stefán Ólafsson prófessor hefur látið taka saman.
    Í heildina hafa heildarskatttekjur hins opinbera aukist um 10% af landsframleiðslu frá 1995 til 2004, meðal annars með því að skatttekjur af lágum tekjum hafa aukist á tímabilinu.
    Fer ekki á milli mála að lækkun skattleysismarka á verulega sök á þessari þróun þar sem saman hefur farið raunlækkun persónuafsláttarins og lækkun tekjuskattsprósentunnar sem léttir sköttum mun meira af háum tekjum en lágum. Afleiðingin verður vaxandi ójöfnuður milli þjóðfélagshópanna sem sést best á þróun svonefnds Gini-stuðuls.
    Tilgangur frumvarpsins er að rétta hlut þeirra sem lágar tekjur hafa og gera hann svipaðan og var við upphaf staðgreiðsluskattkerfisins með því að færa skattleysismörkin upp í 150 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem hafa þær tekjur og lægri. Á tekjubilinu frá 150 þús. kr. upp í 250 þús. kr. verða einnig hærri skattleysismörk vegna sérstaka persónuafsláttarins og verða þau frá 150 þús. kr. og að 90 þús. kr. á mánuði eins og þau eru nú og fara lækkandi með vaxandi tekjum. Sem dæmi mundi sá sem hefur 2.400.000 kr. í árstekjur eða 200 þús. kr. á mánuði vera með 120 þús. kr. í skattleysismörk í stað 90 þús. kr. nú.
    Frumvarpið mun bæta kjör tuga þúsunda framteljenda ef það nær fram að ganga.