Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 28  —  28. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðaáætlun um íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra gerð áætlunar um að efla íslenskukennslu fyrir innflytjendur hér á landi. Við gerð áætlunarinnar, sem verði til fimm ára, verði efnt til samráðs við fulltrúa allra skólastiga, verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur og símenntunarmiðstöðvar um land allt. Vinnu við áætlunina skal lokið 1. mars 2008.
    Markmið áætlunarinnar verði:
     1.      að efla símenntunarmiðstöðvar til að kenna innflytjendum íslensku og miðstöðvunum verði jafnframt gert kleift að halda námskeið um íslenska menningu og fjölmenningu,
     2.      að efla íslenskukennslu á vinnumarkaði í því augnamiði að tryggja lágmarkskunnáttu erlendra starfsmanna í tungumálinu með áherslu á það mál sem talað er í starfsumhverfi þeirra,
     3.      að tryggja að börn innflytjenda og foreldrar þeirra fái allar nauðsynlegar upplýsingar um réttindi sín og skyldur um leið og skólaganga hefst og slíkt gildi um öll skólastig. Þarf þar sérstaklega að gæta réttar ungmenna á aldrinum 16–18 ára,
     4.      að efla kennslu í íslensku sem öðru máli í íslensku- og kennslufræðideildum háskóla landsins,
     5.      að grunnmarkmið íslenskunáms fyrir innflytjendur verði vel skilgreind og tryggt að allir innflytjendur eigi rétt á gjaldfrjálsri íslenskukennslu í samræmi við þau grunnmarkmið.

Greinargerð.


    Hér á landi eru nú um 18.000 erlendir ríkisborgarar miðað við hagtölur fyrir árið 2006 og ljóst að þeir sem eru á vinnumarkaði þurfa allir að eiga veruleg samskipti við Íslendinga í starfi sínu, hvort sem það er byggingarvinna, umönnun, afgreiðsla eða strætóakstur. Síðastliðið vor veittu stjórnvöld 100 millj. kr. til íslenskukennslu fyrir innflytjendur og kom strax í ljós að ásóknin í námið var miklu meiri en búist hafði verið við. Óljósar hugmyndir gerðu ráð fyrir því að um 1.000 manns mundu sækja námskeiðin. Raunin varð sú að 70 umsóknir bárust um styrki að upphæð 144 millj. kr. fyrir tæplega 5.000 nemendur. 60 umsóknir fengu úthlutun og alls skráðu fræðsluaðilar um 4.200 nemendur á námskeiðin. Kennslan var margs konar, ýmist úti á vinnustöðum eða á hefðbundnum námskeiðum fyrir einstaklinga. Dreifðust nemendur þannig að um helmingur var á höfuðborgarsvæðinu og um helmingur úti á landi. Þegar ljóst var hversu mikil þörfin var í raun veittu stjórnvöld að nýju 100 millj. kr. í verkefnið í ágústmánuði 2007 og var tilkynnt um þetta á heimasíðu menntamálaráðuneytisins 7. ágúst sl.
    Nú er ljóst að fjöldi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði er viðvarandi og dugir ekki lengur að gera tímabundið átak í íslenskukennslunni. Nauðsynlegt er að semja aðgerðaáætlun, t.d. til fimm ára. Slík áætlun þarf að ná yfir íslenskukennslu úti á vinnumarkaði sem og hjá símenntunarmiðstöðvum um land allt. Nú þegar liggja fyrir margs konar upplýsingar um stöðuna, gerðar hafa verið greiningar á ástandinu og ekki þörf á frekari undirbúningsvinnu. Verkefnið er fyrst og fremst fólgið í því að ákveða aðgerðir í samræmi við þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir.
    Ljóst er að fræðslusjóðir verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda, eins og Landsmennt og Starfsafl, hafa veitt verulegan hluta sinna styrkja í íslenskukennslu, eða um 46% árið 2006, og áttu því minna til skiptanna í önnur bráðnauðsynleg verkefni. Nauðsynlegt er að stjórnvöld taki aukna ábyrgð á sínar herðar í þessum efnum til frambúðar en í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2007 var upphaflega gert ráð fyrir 19,6 millj. kr. framlagi í íslenskukennslu. Í meðförum fjárlaganefndar var framlagið hækkað um 100 millj. kr. Samkvæmt fjárlögum 2007 voru veittar 119,6 millj. kr. í íslenskukennslu. Í ágúst veitti svo ríkisstjórnin vilyrði fyrir öðrum hundrað milljónum í málaflokkinn. Þessir fjármunir hafa svo sannarlega komið að góðum notum en ljóst er að skipuleggja þarf þetta starf lengra fram í tímann svo að fjármunirnir nýtist sem best. Einnig þarf að skilgreina hvernig samstarfi hins opinbera við fulltrúa verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ólíkra skólastiga verður háttað.
    Nauðsynlegt er að huga að íslenskukennslu fyrir börn innflytjenda á öllum skólastigum, en einnig er mikilvægt að áætlunin feli í sér leiðir til að auðvelda börnum svokallað menningarlæsi til að auðvelda þeim að aðlagast samfélaginu. Miklu skiptir í þessum efnum að kennsla í fjölmenningarfræðum sé fléttuð saman við kynningu á innlendri menningu. Þannig lagar samfélagið sig að innflytjendum í ríkara mæli en það hefur gert hingað til þar sem áherslan hefur frekar verið á að innflytjendur lagi sig einhliða að samfélaginu.
    Huga þarf að því sérstaklega hversu ólíkir innflytjendur eru innbyrðis og hversu ólíkar þarfir þeirra eru. Sérstaklega þarf að sinna ungmennum á aldrinum 16–18 ára. Hætta er á því að þessi aldurshópur lendi milli skips og bryggju og verði út undan í samfélaginu, ekki síst börn frá svæðum þar sem hefðbundin menntun er mjög ólík því sem gerist í íslensku skólakerfi. Tryggja þarf þessum hópi öfluga íslenskukennslu og að honum standi til boða tækifæri til frekari menntunar.
    Árétta þarf að það er sitthvað að kenna íslensku sem móðurmál fólks og íslensku sem annað mál. Hér á landi er nýlega farið að kenna kennslufræði íslensku sem annars máls á háskólastigi og þá kennslu þarf að efla sérstaklega, bæði í íslenskunámi á háskólastigi og í kennslufræðideildum allra háskóla sem bjóða upp á nám í kennslufræðum.
    Það er mat flutningsmanna að mikilvægt sé að menntamálaráðuneytið eigi skipulegt samráð við fulltrúa allra skólastiga, atvinnurekendur, verkalýðshreyfinguna og símenntunarmiðstöðvar um land allt, skilgreini ákveðin grunnmarkmið íslenskunáms fyrir innflytjendur og tryggi að allir innflytjendur njóti gjaldfrjálsrar íslenskukennslu í samræmi við þau grunnmarkmið. Þar með yrði öllum tryggð jöfn staða og jafnt aðgengi að þessari bráðnauðsynlegu menntun sem skiptir ekki aðeins innflytjendur máli heldur einnig allt íslenskt samfélag.