Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 31. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 31 —  31. mál.




Frumvarp til laga



um brottfall laga um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Sigurður Kári Kristjánsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



1. gr.

    Lög um búnaðargjald, nr. 84/1997, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.
    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995:
     a.      B-liður 5. gr. laganna fellur brott.
     b.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
                  1.      Í stað „c-lið“ í a-lið kemur: b-lið.
                  2.      Orðin „allt framlag skv. b-lið 5. gr.“ í b-lið falla brott.
                  3.      Í stað „c-lið“ í b-lið kemur: b-lið.
     c.      3. mgr. 7. gr. laganna fellur brott.
     d.      2. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

Greinargerð.


    Frumvarp sama efnis var flutt á 132. og 133. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Flutningsmenn hafa notið aðstoðar Snorra Stefánssonar lögfræðings og nefndasviðs Alþingis við samningu frumvarpsins.
    Tilgangur frumvarpsins er að fella niður skyldu bænda til að greiða búnaðargjald, sem er annars vegar félagsgjald til lögbundinna stéttarfélaga bænda, Bændasamtaka Íslands, ýmissa búnaðarsambanda og búgreinasambanda og hins vegar iðgjald til sérstaks tryggingasjóðs, Bjargráðasjóðs.
    Búnaðargjaldið var ákveðið 2,65% frá ársbyrjun 1998 og tók við af flóknu kerfi gjalda. Það lækkaði í 2,55% í ársbyrjun 2000 þegar Framleiðsluráð landbúnaðarins var lagt niður og aftur í 2,00% frá ársbyrjun 2003. Enn var það lækkað á 132. löggjafarþingi í 1,20% þar sem Lánasjóður landbúnaðarins hafði verið seldur.
    Afkoma bænda hefur því miður ekki verið góð undanfarna áratugi og því hefðu bændur flestir vel getað ráðstafað þessum fjármunum sjálfir. Búnaðargjaldið nemur 1,2% af heildartekjum bús óháð afkomu. Það getur því verið miklu hærra hlutfall af tekjum hvers einstaks bónda og mjög erfitt tekjulágum bændum. Ef þetta frumvarp yrði samþykkt mundi samt ekkert banna bændum að greiða félagsgjald til þeirra stéttarfélaga sem þeir vilja vera félagar í eða greiða iðgjald til Bjargráðasjóðs kæri þeir sig um.
    Eftirfarandi rök eru fyrir því að afnema skyldu bænda til að greiða búnaðargjald og eru þau rædd ítarlegar seinna í greinargerðinni:
     .      Innheimta ríkissjóðs á búnaðargjaldi og kvöð á fjármálaráðherra að standa skil á því skv. 6. gr. laganna brýtur gegn 41. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“
     .      Búvörugjaldið hefur öll einkenni skatts þótt það renni til félags einstaklinga. Það er lagt á og innheimt af innheimtumönnum ríkissjóðs og ríkisvaldið stendur með fullum þunga að baki innheimtunni.
     .      Skyldugreiðsla félagsgjalds vekur upp spurningar um tjáningarfrelsið sem tryggt er í 73. gr. stjórnarskrárinnar.
     .      Lögin skylda bændur óbeint til að taka þátt í félagi öndvert við ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um frelsi til að standa utan félaga.
     .      Spurningar vakna varðandi jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Bændum er gert skylt að greiða gjald af þessu tagi en ekki öðrum stéttum, t.d. vörubílstjórum. Hvers á bóndi að gjalda sem vinnur við hlið vörubílstjóra?
     .      Gjaldið er 1,2% af heildartekjum búsins óháð afkomu þannig að ekki er jafnræði á milli bænda með góða afkomu og mjög laka.
     .      Upplýsingagjöf ríkisskattstjóra til Bændasamtaka Íslands skv. 5. mgr. 5. gr. laganna vekur upp spurningar um friðhelgi einkalífsins sem tryggð er í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.
     .      Miklar breytingar hafa orðið í landbúnaði og afnám búnaðargjaldsins væri liður í þeirri þróun.

Markaðir tekjustofnar og stjórnarskráin.
    41. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Lög sem kveða á um greiðslu úr ríkissjóði, önnur en fjárlög eða fjáraukalög, hljóta því að vera í andstöðu við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og því ógild. Þing sem setur slík lög um árlega ráðstöfun á fjármunum ríkissjóðs er búið að binda hendur allra þinga þaðan í frá hvað varðar greiðslur þessara gjalda því lögin hljóta að eiga að gilda eins og önnur lög frá Alþingi. Síðari þing þurfa árlega að taka fram í fjárlögum að þetta gjald skuli renna til verkefnisins og hafa því ekki óskorað fjárveitingarvald. Farist fyrir að geta um útgjöldin í fjárlögum kemur upp sú staða að lögin kveða á um að greiða skuli fé úr ríkissjóði sem stjórnarskráin bannar.
    Lagasafnið hefur að geyma fjölmörg lög af þessu tagi. Oft er um að ræða skatta, tekjur sem renna eiga til ákveðinna verkefna eða aðila og eru slíkar tekjur ríkissjóðs oft nefndar „markaðar tekjur“. Dæmi um slíkar tekjur eru búnaðargjaldið, sem rennur aðallega til stéttarsamtaka bænda, iðnaðarmálagjald, sem rennur til Samtaka iðnaðarins, fiskiræktargjald, sem rennur til Fiskiræktarsjóðs, sem veitir m.a. styrki til fiskeldis og fiskiræktar, höfundaréttargjöld (t.d. 1% af verði tölva) og STEF-gjöld, sem renna til einstaklinga (tónskálda).
    Þegar litið er á lög um markaða tekjustofna virðist sem hópur manna hafi fengið löggjafann til þess að innheimta fyrir sig gjöld og nota þannig ægivald ríkisins til að ná fénu skilyrðislaust. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um búnaðargjald skuli 0,5% af óskiptum tekjum af búnaðargjaldi renna í ríkissjóð sem undirstrikar að litið hefur verið á þessa starfsemi sem innheimtu og þessi 0,5% eru eins konar innheimtuþóknun. Í því sambandi er rétt að benda á að umrædd gjöld verða að skatti og skil á gjöldunum verða að ríkisútgjöldum með því að lögbinda innheimtuna og fela hana ríkinu. Um hvort tveggja hefur stjórnarskráin mjög nákvæmar leiðbeiningar eins og hér hefur verið drepið á.
    Í 2. og 3. mgr. 6. gr. laganna um búnaðargjald segir að fjármálaráðherra standi skil á gjaldinu mánaðarlega, þó aldrei lægri fjárhæð en nemur 6,67% af álagningu næstliðins árs, og að af óskiptum tekjum búnaðargjalds skuli 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna. Af þessum ákvæðum er greinilegt að þessar tekjur ríkisins eru ekki til ráðstöfunar fyrir ríkið, þrátt fyrir fyrrnefnt ákvæði 41. gr. stjórnarskrárinnar. 6. gr. laganna brýtur því greinilega gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar, sérstaklega sú kvöð á fjármálaráðherra að standa skil á gjaldinu mánaðarlega.

Skattur.
    Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi að þeim lögum sem hér er lagt til að felld verði úr gildi segir: „Helstu kostir þessa nýja fyrirkomulags samkvæmt frumvarpinu eru að innheimtan verður einföld, fellur inn í hið opinbera skattkerfi og snertir eingöngu hagsmunaaðila. Gjaldstofninn liggur þegar fyrir hjá greiðendum og kostnaður þeirra er óverulegur.“
    Hér er sagt beinum orðum að innheimtan falli inn í hið opinbera skattkerfi. Skattheimta ríkisins er sem sagt notuð til að innheimta gjöld fyrir félagasamtök einstaklinga með þeim ofurúrræðum gagnvart einstaklingum sem skattheimtu ríkisins eru gefin. Þetta innheimtuhlutverk ríkisins er undirstrikað í 1. og 3. mgr. 6. gr. laganna þar sem fram kemur að tekjum af búnaðargjaldi skuli skipt í samræmi við viðauka við lögin og að af óskiptum tekjum búnaðargjalds skuli 0,5% renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laganna.
    Það getur varla verið hlutverk ríkisins að innheimta gjöld fyrir einstaklinga eða félög þeirra eins og 6. gr. gefur tilefni til að ætla.
    Í 1. umræðu um frumvarpið á Alþingi 4. apríl 1997 svaraði þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðmundur Bjarnason, aðspurður hvort hann teldi að búnaðargjaldið væri skattur eða þjónustugjald: „Hæstv. forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þm. er ljóst að þessi framkvæmd mun flokkast sem skattur. Þetta innheimtuform á þessum sjóðagjöldum eða búnaðargjaldi eins og við köllum það, mun flokkast sem skattur.“ Nú eru skattar almennt taldir fé sem greiða beri til opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga. Búnaðargjaldið rennur hins vegar til félaga sem stofnuð eru af einstaklingum. Það fær vart staðist að einstaklingar og félög þeirra geti notað ríkisvaldið til að innheimta fyrir sig fé. Ef greiðandinn sættir sig ekki við að láta af hendi fé til félags sem hann er jafnvel andvígur verður féð innheimt með öllum tiltækum ráðum ríkisvaldsins, þar á meðal með lögregluvaldi.
    Það styður svo enn þennan skatta- og innheimtueiginleika gjaldsins að landbúnaðarnefnd fékk samþykkta breytingartillögu sem kvað á um þungar refsingar (20% vanskilaálag) á þá bændur sem ekki stæðu skil á gjaldinu á réttum tíma. Í viðauka með lögum um búnaðargjald var eftirfarandi tafla sem sýnir hvernig á að skipta innheimtu gjaldi á milli búgreina, Lánasjóðsins og Framleiðsluráðs sem og eldri skiptingu:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hlutfallsleg skipting tekna af búnaðargjaldi.


    Það er ljóst að ekki er mikið svigrúm fyrir fjárveitingarvaldið með slíka lagasetningu í gildi.
    Haustið 1997 var einnig samþykkt breyting á lögunum þar sem segir m.a.: „Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um fyrirframgreiðslur, álagningu, innheimtu og annað er varðar skattalega framkvæmd laga þessara.“ Þetta undirstrikar enn frekar að gjaldið er skattur á bændur enda segir í greinargerð: „Hægt er að nýta álagningar- og innheimtukerfi fyrir sérstakan tekjuskatt manna (hátekjuskatt) með tiltölulega litlum breytingum til að leggja á og innheimta fyrirframgreiðslu búnaðargjalds.“ Nú hefur hátekjuskattur reyndar verið aflagður en kannski lifir innheimtukerfi hans enn góðu lífi við innheimtu á búnaðargjaldinu?
    Búnaðargjald er til þess fallið að auka flækjustig skattkerfisins. Skattaleg meðferð þess er sérstök með tilheyrandi vandræðagangi og flókinni framtalsgerð. Þá hefur heldur ekki verið tekið tillit til kostnaðarins sem innheimta og útdeiling fjármuna veldur hinu opinbera.

Tjáningarfrelsi.
    Með lögum um búnaðargjald er bóndi skyldaður til að greiða til félags, sem hann kann að vera andsnúinn og telur jafnvel að vinni gegn hagsmunum hans eða útbreiði sjónarmið og skoðanir sem eru andsnúin sjónarmiðum hans og lífssýn. Það fær vart staðist að hann sé látinn greiða fyrir slíka starfsemi með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar. T.d. gæti hann verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að leggja búnaðargjald á bændur og að landbúnaðarstefnan, sem að miklu leyti er mótuð af stéttarfélögum bænda, hafi beðið skipbrot fyrir löngu og að breytinga sé þörf til að landbúnaðurinn geti sýnt hvað í honum býr. Hann er samt neyddur til að greiða stórfé (120 þús. kr. af 10 millj. kr. ársveltu) til að fjármagna stefnu sem hann er eindregið á móti. Hann getur hins vegar ekki í sama mæli tjáð skoðanir sínar því hann hefur oft ekki þá afkomu af búi sínu að hann geti kostað til sambærilegum fjármunum í því skyni auk þess sem hagur hann skerðist sem nemur búnaðargjaldinu.
    Í tjáningarfrelsinu felst að óheimilt er að kúga menn til að hafa tilteknar skoðanir eða losa sig við aðrar. Þrátt fyrir að skoðanafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hafi almennt ekki mikla þýðingu er því þveröfugt farið hér. Skyldugreiðslur til félags sem greiðendur kunna að vera á móti í sjálfu sér brjóta í bága við hugmyndir um skoðanafrelsi.

Félagafrelsi.
    Margs konar réttindi fylgja félagsaðild og einnig tækifæri til að kjósa stjórn og þar með hafa áhrif á ráðstöfun þess fjár sem bónda er gert að greiða til félagsins. Þannig er það óskynsamlegt að gerast ekki félagi en verða samt að greiða fullt gjald.
    Ef einhver hópur bænda vildi stofna félag til að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna, t.d. berjast gegn því að verða að greiða búnaðargjald samkvæmt lögum, væri þeim það fullkomlega heimilt samkvæmt stjórnarskrá. Er ekki undarlegt í því ljósi að þeim skuli með lögum gert að greiða gjald til félaga sem líklega munu berjast gegn nýja félaginu þeirra? Hópnum yrði sem sagt gert að greiða herkostnað gegn eigin félagi og gegn eigin hagsmunum. Eins kunna einhver hlunnindi að fylgja því að vera félagar í þessum lögbundnu stéttarfélögum sem þeir yrðu af sem stæðu utan félaganna. Þeir yrðu samt sem áður að greiða þessi hlunnindi fyrir aðra. Þessi lögbundnu félög bænda minna ískyggilega á stéttarfélög í fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna. Starfsmenn Bændasamtaka Íslands eru með sömu lífeyriskjör og opinberir starfsmenn en þau eru miklu betri en þau slöku lífeyriskjör sem bændur njóta almennt hjá Lífeyrissjóði bænda. Lífeyriskjör starfsmanna Bændasamtakanna eru að sjálfsögðu greidd af bændum sem hafa haft slæma afkomu undanfarna áratugi.
    Félagafrelsi er meginreglan á Íslandi. Samkvæmt stjórnarskránni má engan skylda til aðildar að félagi nema sérstakar aðstæður krefjist þess. Skoðanafrelsi er nátengt félagafrelsinu eins og bent er á hér að framan.
    Jafna má búnaðargjaldi til skylduaðildar að Bændasamtökum Íslands og Landssambandi kúabænda. Öllum bændum er gert að greiða til samtakanna en aðeins þeir sem eru félagar njóta félagslegra réttinda í félögunum. Einungis sem félagsmenn hafa þeir aðstöðu til að koma að kjöri stjórnar sem svo aftur ráðstafar peningunum þeirra. Það er því naumast valkostur að vera ekki félagsmaður fyrst þessi félög hafa tækifæri til þess að ná í félagsgjald eftir sem áður.

Jafnræði.
    Búnaðargjaldið er lagt á veltu bús en veltan segir ekki endilega til um tekjur bóndans. Hann getur haft laka afkomu og jafnvel engin laun af búrekstrinum en samt þurft að standa skil á háu búnaðargjaldi. Annar bóndi með helmingi minni heildartekjur getur haft mjög góða afkomu en hann greiðir samt helmingi minna búnaðargjald til stéttarfélaga bænda. Gjaldið sem bændum er gert að greiða til stéttarsamtaka bænda getur verið mjög há prósenta af tekjum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar miðað við veltu og það veltir upp þeirri spurningu hvort jafnræðis sé gætt innan bændastéttarinnar.

Friðhelgi einkalífsins.
    5. mgr. 5. gr. laganna um búnaðargjald hljóðar svo:
    „Að lokinni álagningu ár hvert skal ríkisskattstjóri láta Bændasamtökum Íslands í té skrá um greiðendur búnaðargjalds eftir sveitarfélögum þar sem fram komi af hvaða búgreinum hver og einn hefur greitt. Skrána er samtökunum aðeins heimilt að nota til að sinna lögbundnum verkefnum sínum og þjónustu við bændur. Óheimilt er að veita öðrum aðgang að skránni. Einstakir greiðendur gjaldsins geta andmælt því við ríkisskattstjóra að nöfn þeirra verði birt í skránni, enda liggi til þess lögmætar ástæður eða sérstakar aðstæður að mati ríkisskattstjóra.“
    Þetta ákvæði kom inn með frumvarpi um breytingu á lögum um búnaðargjaldið, sem landbúnaðarnefnd lagði fram á 128. löggjafarþingi og var samþykkt. Hér er Bændasamtökum Íslands veitt ótrúlegt vald til að fá upplýsingar um bændur landsins og fá þau nánast sama vald og skattstjórar. Andmælaréttur einstakra bænda er reyndar til staðar en það þarf frumkvæði bóndans til og að auki rökstuðning sem ríkisskattstjóra ber að meta. Hér er Bændasamtökum Íslands veittur mjög víðtækur réttur eins og um opinbera stjórnsýsla sé að ræða án þess þó að falla undir skyldur opinberrar stjórnsýslu. Þetta ákvæði virðist ganga mjög nærri friðhelgi einkalífsins sem tryggt er í 1. mgr. 71. greinar stjórnarskrárinnar, sérstaklega þegar haft er í huga að Bændasamtök Íslands er félag einstaklinga.

Saga búnaðargjaldsins.
    Miklar og stórstígar breytingar hafa átt sér stað í landbúnaði undanfarin ár. Sú atvinnugrein var hvað fastast bundin á klafa alls konar gjalda, sjóða og skyldugreiðslna sem stóð henni fyrir þrifum og stendur henni enn fyrir þrifum því mikið verk er enn óunnið við að leysa úr læðingi þá krafta sem búa með íslenskum bændum þrátt fyrir þrúgandi hlekki hátt í heila öld. Mikilvægustu breytingarnar eru án efa jarðalögin nýju, sala Lánasjóðs landbúnaðarins, aukið framboð á lánum til bænda og almenn lækkun vaxta sem til samans hefur hækkað verð á jörðum um hundruð prósenta og gert bændur fjárhagslega sjálfstæða. Enn er afkoman þó almennt ekki viðunandi.
    Áður en lögin um búnaðargjaldið voru sett voru alls konar gjöld lögð á bændur. Er nærtækast að vitna til greinargerðar sem fylgdi frumvarpi að þeim lögum en þar segir:
    „Rétt er að gera grein fyrir núverandi fyrirkomulagi í innheimtu sjóðagjalda og þeim gjöldum sem um er að ræða.
    Búnaðarmálasjóðsgjald er innheimt samkvæmt lögum nr. 41/1990. Það er innheimt af afurðum nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína, alifugla, garð- og gróðurhúsa hvers konar, auk loðdýraafurða og æðardúns. Gjaldið dregst frá verði til framleiðenda og álagningarstofn er verð til þeirra. Afurðastöðvar sjá um innheimtu þess og standa skil á því til Framleiðsluráðs landbúnaðarins sem síðan greiðir það til viðkomandi aðila. Álagningarprósenta gjaldsins er nokkuð mismunandi eftir afurðartegundum. Á nautgripa-, sauðfjár- og skógarafurðum og æðardúni er gjaldið 1,4%, á alifuglakjöti 1,75%, á afurðum svína 1,775%, afurðum hrossa og loðdýra 2,025%, á kartöflum og gulrófum 1,825% og á öðru grænmeti og blómum er gjaldið 1,525%. Á eggjum er gjaldið 0,85%.
    Neytenda- og jöfnunargjald, 2% af heildsöluverði, er lagt á samkvæmt lögum nr. 45/1971 um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Heildsöluaðilum ber að standa skil á gjaldinu og sér Framleiðsluráð landbúnaðarins um innheimtu þess. Gjaldið er hluti af tekjum Stofnlánadeildar landbúnaðarins og er forsenda lágra vaxta af útlánum deildarinnar. Gjaldið er innheimt af heildsöluverðmæti sömu afurða og búnaðarmálasjóðsgjald, en þó hvorki af loðdýraafurðum né öðrum útfluttum afurðum. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Í því frumvarpi er m.a. ákvæði um að tekjur til Lánasjóðsins séu 1,1% af stofni búnaðargjalds samkvæmt þessu frumvarpi.
    Framleiðsluráðsgjald, 0,25%, er samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það er innheimt af heildsöluverðmæti landbúnaðarafurða með neytenda- og jöfnunargjaldi. Gjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði við Framleiðsluráð landbúnaðarins.
    Innheimtuferli ofangreindra gjalda er flókið og gjaldstofnar mismunandi. Greiðendur eru framleiðendur, afurðastöðvar og sölusamtök. Eftirlit með álagningu og innheimtu gjaldanna er erfitt og hætta á að gjaldstofnar skili sér ekki að fullu. Þá eru innheimtuúrræði veik.“
    Búnaðargjaldið var lækkað úr 2,65% í 2,55% frá ársbyrjun 2000 með lögum nr. 112/1999 þegar Framleiðsluráð landbúnaðarins var lagt niður. Búnaðargjaldið var svo aftur lækkað úr 2,55% í 2,00% frá ársbyrjun 2003 með lögum nr. 59/2002. Síðasta þing samþykkti enn breytingar á lögum um búnaðargjald, sem fólust í því að gjaldið var lækkað úr 2,00% í 1,20% og framlag til Lánasjóðs landbúnaðar féll niður enda hafði hann verið seldur. Þróunin hefur því verið hröð í átt að því að létta þessum hlekkjum af bændum.
    Að undangengnum breytingum á lögum um búnaðargjald er harla lítið eftir af gjaldinu nema félagsgjald til Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinasamtaka sem og iðgjald til Bjargráðasjóðs, sem tekið er fram í lögum um þann sjóð. Hér að framan hefur verið fjallað um félagsgjaldið og efasemdir um réttmæti þess. Hér á eftir verður rætt um Bjargráðasjóð.

Bjargráðasjóður.
    Í 1. gr. laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, segir: „Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Bændasamtaka Íslands.“ Sjóðurinn skiptist í tvær deildir sem tryggja annars vegar meiri háttar bein tjón af völdum náttúruhamfara á lausum og föstum munum sem tengjast landbúnaði, svo og grasbrest, og hins vegar tjón á búfé og afurðum þess, sem og tjón á garðávöxtum af völdum sjúkdóma, slysa og veðurs.
    Tekjur Bjargráðasjóðs eru framlag allra sveitarfélaga landsins, sem er árlegt fast gjald á hvern íbúa, 131,91 kr. fyrir árið 2007, framlag ríkisins, sem er ákveðið á fjárlögum, og búnaðargjaldið sem er mismunandi eftir starfsgreinum bænda, svo og vextir af eigin fé.
    Helstu niðurstöður reikninga Bjargráðasjóðs eru (millj. kr.):

2000 2001 2002 2003 2004 2005 2006
Fjármunatekjur 15,0 23,8 33,0 37,5 47,4 43,4 68,4
Framlag sveitarfélaga 27,0 28,4 31,4 32,1 33,1 34,8 37,0
Framlag ríkissjóðs 30,0 30,0 10,0 10,0 10,0 10,0 10,0
Búnaðargjald 66,0 66,8 47,6 39,5 40,0 16,6 28,1
Styrkir -74,8 -74,2 -46,9 -42,7 -48,1 -47,0 -74,6
Rekstrargjöld -21,1 -23,6 -22,0 -22,0 -22,9 -20,-1 24,6
Fjármagnstekjuskattur -2,5 -4,7 -3,3 -3,4 -4,3 -4,3 6,8
Tekjur umfram gjöld 39,6 46,5 49,8 51,0 55,3 33,3 37,6
Hlutfall rekstrargjöld/styrkir 28,2% 31,8% 46,9% 51,5% 47,6% 42,8% 32,9%

    Eigið fé sjóðsins í árslok 2006 voru 586,9 millj. kr. Á yfirlitinu hér að ofan sést að kostnaður við rekstur sjóðsins hefur verið mikill, eða um 30–50% af styrkjum. Þess ber þó að geta að tjón ættu eðli máls samkvæmt að vera mjög sveiflukennd.
    Fram kemur í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga sem nú gilda um Bjargráðasjóð að rætt hafi verið rækilega um þann kost að leggja sjóðinn niður og færa almenna deild hans undir Viðlagasjóð. Jafnframt að samtök bænda tækju við rekstri búnaðardeildar sjóðsins. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lagðist á þessu stigi (árið 1994) gegn því að Bjargráðasjóður yrði lagður niður í þáverandi mynd. Af hálfu bændasamtaka var mikill vilji til að lækka þann hluta búnaðarmálagjalds sem rann til Bjargráðasjóðs. Niðurstaðan var að skerpa á hlutverki deildanna og lækka framlög með búnaðargjaldi. Enn fremur voru tjónabætur úr búnaðardeild sjóðsins bundnar því skilyrði að greitt hefði verið búnaðarmálagjald af söluvöru og að búgrein hefði ekki verið undanþegin greiðslu á gjaldi til Bjargráðasjóðs.
    Þó að búnaðargjaldið verði aflagt sem slíkt getur Bjargráðasjóður starfað áfram um langt skeið miðað við eigið fé, en það svarar til um 12 ára útgreiðslna. Veittir styrkir svara einnig nokkurn veginn til framlaga ríkis og sveitarfélaga. Fjármagnstekjur geta staðið undir rekstrarkostnaði sem auðvitað mætti lækka. Bændur gætu einnig leitað eftir tryggingum á almennum markaði fyrir þeirri áhættu sem sjóðurinn mundi ekki geta staðið undir (e. stop loss). Hugsanlega mætti breyta Bjargráðasjóði í hlutafélag og selja hann til hagsbóta fyrir Lífeyrissjóð bænda eins og gert var við Lánasjóð landbúnaðarins. Athygli vekur að sala á þeim sjóði hefur opnað fyrir samkeppni um lán til bænda á kjörum sem þeir hafa aldrei séð áður. Einnig hefur verð á jörðum hækkað og veðhæfni þeirra þar með í kjölfar lækkandi vaxta. Það ætti að sýna bændum að þeir geta notið frelsis á mörkuðum eins og aðrir landsmenn og ætti að hvetja þá til að losa um þá hlekki á landbúnaði sem enn njörva athafnakraft þeirra niður eins og búnaðargjaldið er dæmi um.