Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 41. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 41  —  41. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Bjarni Benediktsson, Sigurður Kári Kristjánsson,


Birgir Ármannsson, Ólöf Nordal.


1. gr.

    1. mgr. 172. gr. laganna orðast svo:
    Nú andmælir ákærði bótakröfu og dómari telur að úrlausn um hana geti dregið mál að mun á langinn og getur hann þá vísað henni frá dómi með úrskurði. Þess í stað getur dómari látið við það sitja að vísa kröfunni frá dómi að því er fjárhæð hennar varðar en lagt dóm á hana varðandi skaðabótaskyldu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 132. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er nú lagt fram að nýju.
    Í 1. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, segir að dómari í opinberu máli skuli athuga hvort einkaréttarleg bótakrafa skuli tekin til meðferðar ef hún hefur komið fram. Honum sé rétt að synja að taka slíka kröfu til meðferðar ef hann telur það mundu valda verulegri töf eða óhagræði í málinu. Ákvörðun um slíka synjun skuli tekin með bókun dómara í þingbók eða í dómi. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 19/1991 segir að sé krafa ódómhæf við þingfestingu máls hafni dómari því að taka hana til meðferðar, enda sé yfirleitt ætlast til þess að bótakröfur verði ekki til að valda óþörfum töfum í refsimáli, sbr. 1. mgr. 172. gr.
    Reyndin hefur orðið sú að dómarar synja því iðulega að taka einkaréttarlegar bótakröfur til meðferðar á grundvelli 1. mgr. 172. gr. laganna. Algengt er að slíkt sé gert á þeirri forsendu að meðferð bótakröfunnar valdi óhagræði í málinu.
    Ótvírætt hagræði er að því fyrir málsaðila og dómskerfið að skorið sé úr bótakröfu brotaþola samhliða rekstri refsimáls. Það veldur óþægindum og töfum auk þess að vera kostnaðarsamt fyrir brotaþola og ákærða að reka sérstakt dómsmál vegna bótakröfu sem til er komin vegna hins refsiverða verknaðar.
    Með frumvarpinu er ekki vikið frá því meginsjónarmiði að hið opinbera mál þurfi að hafa eðlilegan framgang og bótakrafa brotaþola megi ekki valda óhæfilegri töf eða óhagræði. Hins vegar þykir áherslan á öruggan framgang málsins í framkvæmd hafa gengið of nærri þeim rétti brotaþola að fá skorið úr um bótarétt sinn undir rekstri hins opinbera máls.
    Í frumvarpinu er því lagt til að núverandi fyrirkomulagi verði breytt og leitast við að gera ákvæði 1. mgr. 172. gr. skilvirkara með því að þrengja aðeins að heimildum dómara til að vísa máli frá. Frumvarpið gengur þannig út frá því að dómari hafi heimild til að vísa einkaréttarlegri bótakröfu frá dómi með úrskurði ef ákærði andmælir henni og dómari telur að úrlausn um kröfuna geti dregið mál að mun á langinn. Að öðrum kosti geti dómari vísað kröfunni frá dómi að því er fjárhæð hennar varðar, en lagt efnislegan dóm á hana hvað skaðabótaskyldu varðar. Með þessu er þrennt tryggt. Í fyrsta lagi að alltaf verður dæmt um kröfu nema henni sé andmælt af ákærða. Í öðru lagi að líklegt þarf að vera að mál dragist „að mun á langinn“ til að bótakröfu verði vísað frá með úrskurði, en þannig er lögð áhersla á að veigamiklar ástæður þurfi til að koma til þess að slíkri kröfu verði vísað frá. Í þriðja lagi að ætíð mun ganga úrskurður um frávísunina sem er þá kæranlegur til Hæstaréttar. Ákvæðinu er þannig gefið aukið vægi með því að tryggja möguleikann á endurskoðun ákvörðunar héraðsdómara fyrir Hæstarétti.
    Í frumvarpinu er gengið út frá því að í vissum tilvikum séu atvik með þeim hætti að jafnvel þótt ekki verði felldur dómur um fjárhæð bótakröfu brotaþola sé ekkert því til fyrirstöðu að öðru leyti að skorið verði úr um bótaskyldu ákærða. Við meðferð málsins fyrir dómi getur komið fram að gögn brotaþola til sönnunar á umfangi tjónsins séu á einhvern hátt ófullnægjandi. Fyrir því geta verið margvíslegar ástæður. Í fyrsta lagi kann að vera að tjónið sé ekki að fullu komið fram og að brotaþoli byggi bótakröfu sína af þeirri ástæðu á áætlunum sem tekist er á um í málinu. Þá kann að vera að gögn að öðru leyti séu ekki tiltæk og málið þannig vaxið að ekki verði bætt úr undir rekstri málsins. Frumvarpið byggir á því að þegar þannig háttar til sé rétt að dómara sé heimilt að fella dóm um bótaskyldu ákærða. Það er ótvírætt mikils virði fyrir brotaþola að fá bótaskyldu viðurkennda við þessar aðstæður, jafnvel þótt höfða þurfi sérstakt einkaréttarlegt mál vegna fjárhæðar skaðabótakröfunnar í síðara dómsmáli. Annars vegar þarf ekki að vera augljóst, þótt ákærði sé dæmdur til refsingar, að orsakatengsl séu milli brotsins og þess tjóns sem krafist er bóta fyrir síðar. Í slíkum tilvikum er mikilvægt fyrir brotaþola að hafa fengið skorið úr um bótaskylduna áður en ákvörðun um málshöfðun er tekin á síðara stigi. Hins vegar verður mál sem síðar kann að verða höfðað um fjárhæð bótanna minna í vöfum og hefur í för með sér minni kostnað fyrir brotaþola.