Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 48. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 48  —  48. mál.
Tillaga til þingsályktunarum friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að fallið verði frá áformum um Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum og frekari virkjunum í Þjórsá en orðið er. Jafnframt verði tryggð verndun Þjórsárvera í heild sinni með stækkun friðlandsins þannig að það nái til náttúrulegra marka veranna ásamt með Þjórsá og nærliggjandi svæðum að Sultartangalóni. Stækkað Þjórsárverafriðland verði sem fyrst tilnefnt á heimsminjaskrá UNESCO. Undirbúningur málsins miðist við hægt verði að auglýsa hin nýju friðlandsmörk í ársbyrjun 2008.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 134. löggjafarþingi og er nú endurflutt.
    Þjórsárver eru stærsta og gróðurríkasta votlendi á hálendi Íslands. Þau hafa notið verndar sem friðland síðan 1981 og eru auk þess eitt þriggja svæða sem Íslendingar hafa tilnefnt á lista Ramsar-samningsins um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Friðlýsing þeirra kom upphaflega til vegna áforma um stórfelldar virkjanir í Þjórsá um 1970 sem gerðu ráð fyrir að Þjórsárver hyrfu undir 200 km 2 uppistöðulón. Þær áætlanir mættu strax miklum mótbyr og friðlýsingin áratug síðar var stórt skref í rétta átt. Með henni tókst þó ekki að útiloka miðlun síðar neðst í verunum við Norðlingaöldu. Hafa þau framkvæmdaáform Landsvirkjunar alla tíð síðan og verið þyrnir í augum þeirra sem barist hafa fyrir verndun Þjórsárvera og sú barátta í seinni tíð orðið eins konar táknmynd í baráttunni fyrir verndun íslenskrar náttúru. Landsvirkjun hefur sótt ákaft að fá að reisa Norðlingaölduveitu en einlægir verjendur veranna hafa barist gegn þeim áformum og krafist þess að friðlandið verði stækkað þannig að það taki að fullu til hinnar vistfræðilegu og landfræðilegu heildar sem verin eru. Fjölmörg náttúruverndarsamtök hafa lýst stuðningi við stækkun friðlandsins og hvað eftir annað hafa heimamenn í Gnúpverjahreppi samþykkt ályktanir um að horfið verði frá öllum áformum um veitu- og virkjanaframkvæmdir í Þjórsárverum, nú síðast 3. maí 2005 þegar hreppsnefnd sameinaðs Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti að hafna Norðlingaölduveitu.
    Í tillögu Umhverfisstofnunar að náttúruverndaráætlun 2003–2008, sem gefin var út 2003, er lagt til að friðlandið í Þjórsárverum verði stækkað á þrjá vegu, mest til suðurs eða í Sultartangalón. Í áætlun stofnunarinnar segir að forsenda stækkunar friðlandsins sé landslagsheild hins víðáttumikla votlendis- og rústasvæðis, ásamt fjölbreyttum búsvæðagerðum. Enn fremur segir að svæðið hafi að geyma fágætar náttúruminjar sem hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi og að á herðum okkar hvíli alþjóðleg ábyrgð. Þar að auki sé verndargildi svæðisins mikið út frá vísindalegum, félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum sjónarmiðum. Verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem skilaði niðurstöðum 1. áfanga þeirrar áætlunar 2004, komst að sömu niðurstöðu og Umhverfisstofnun.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögur á Alþingi um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum árlega síðan á 127. löggjafarþingi 2001–2002. Síðustu tvö löggjafarþing hafa þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki verið meðflutningsmenn á tillögunni. Þar að auki hafa þingmenn Samfylkingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins lagt til að heimild iðnaðarráðherra frá árinu 2003 til að leyfa gerð Norðlingaölduveitu verði numin brott úr lögum.
    Upp á síðkastið hefur orðið vart vaxandi andstöðu við áform um virkjanir í neðri hluta Þjórsár, en samhliða aukinni ásókn álfyrirtækja í raforku frá íslenskum vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum hafa áform orkufyrirtækjanna um virkjanaframkvæmdir þar orðið áleitnari. Nú hyggst Landsvirkjun reisa þar þrjár virkjanir í þágu stóriðju. Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem haldinn var 29. maí 2007, samþykkti að skora á ríkisstjórn Íslands að stöðva framkvæmdir og undirbúning þessara virkjana enda liggi ekki fyrir heildarmat á gildi eða sérstöðu landslags við neðri hluta Þjórsár, tjón af virkjunum þar verði fyrirsjáanlega mikið og mál til komið að stjórnvöld verji Þjórsá gegn frekari ágangi og eyðileggingu.
    Það er mat flutningsmanna þessarar tillögu að það sé löngu tímabært að skapa frið um Þjórsá frá upptökum til ósa. Í því augnamiði beri að hætta við öll frekari áform um veitu- og virkjanaframkvæmdir í Þjórsárverum og í Þjórsá neðan Búrfellsvirkjunar. Til að tryggja Þjórsárverum þann sess, sem þau verðskulda sem alþjóðlega mikilvægt náttúruverndarsvæði, beri að tilnefna þau á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stefna ber jafnframt að því að Þjórsárver verði hluti af Hofsjökulsþjóðgarði, sem næði yfir verin ásamt Kerlingafjöllum, friðlandinu í Guðlaugstungum og rústasvæðinu norðan Hofsjökuls. Í ljósi þess hversu óljós stefnuyfirlýsing Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er um málefni Þjórsárvera er nauðsynlegt að Alþingi tali skýrt og greinilega í þessum efnum. Á þann hátt einan er tryggt að horfið verði endanlega frá Norðlingaölduveitu, leyfi til hennar verði afturkallað og verndun Þjórsárvera tryggð til framtíðar.