Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 53. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 53  —  53. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla.

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir,
Kolbrún Halldórsdóttir, Jón Bjarnason.

    

1. gr.

    2. og 3. mgr. 7. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir 39. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Kennsla í framhaldsskólum skal veitt nemendum að kostnaðarlausu og er óheimilt að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laga þessara og aðalnámskrá.
    Ríkinu er skylt að leggja til og kosta kennslu- og námsgögn er fullnægja ákvæðum aðalnámskrár.
    Opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að námsgögn í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu og er sambærilegt ákvæði í grunnskólalögum um sama efni. Með samþykkt frumvarpsins yrði stigið mikilvægt skref í átt að auknu jafnræði til náms, óháð efnahag.
    Með 1. gr. eru gjaldtökuheimildir laganna varðandi innritunar- og efnisgjöld felld brott. Samkvæmt núgildandi lögum ákveður skólanefnd upphæð framangreindra gjalda en þó getur fjárhæð innritunargjalds ekki orðið hærri en 8.500 kr. á skólaári. Heimilt er að taka 25% hærra gjald af þeim sem innrita sig utan auglýsts innritunartíma. Efnisgjald hjá nemendum í verklegri kennslu tekur mið af raunverulegum efniskostnaði en er þó aldrei hærra en 50.000 kr. á skólaári eða 25.000 kr. á önn.
    Enn fremur er felld brott heimild til innheimtu á sérstöku endurinnritunargjaldi sem miðast við 500 kr. fyrir hverja ólokna einingu frá síðustu önn. Verði frumvarp þetta að lögum fellur einnig brott reglugerð nr. 333/1997, um endurinnritunargjald í framhaldsskólum. Jafnframt þyrfti að endurskoða reglugerð nr. 132/1997, um skólanefndir við framhaldsskóla.
    2. gr. er efnislega samhljóða 1., 2. og 3. mgr. 33. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, þar sem kveðið er á um að kennsla í skyldunámi skuli vera veitt nemendum að kostnaðarlausu og að óheimilt sé að krefja nemendur eða forráðamenn um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í námi sínu og samrýmist ákvæðum laganna og aðalnámskrá.
    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er kveðið afdráttarlaust á um það að kostnaður við námsgögn skuli vera hluti af rekstri framhaldsskóla.
    Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var talsvert rætt um mikilvægi þess að námsgögn í framhaldsskólum væru nemendum að kostnaðarlausu og er markmið frumvarpsins í samræmi við menntastefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem segir: „Vandað og fjölbreytt framhaldsskólanám á að standa öllum til boða óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Því á ekki að taka skólagjöld fyrir framhaldsskólanám. Ennfremur eiga nemendur að hafa aðgang að námsbókum og öðrum námsgögnum sér að kostnaðarlausu. Aðgengi allra að framhaldsskólabyggingum þarf að vera tryggt. Námsaðstaða fyrir nemendur með sérstakar menntunarþarfir verði bætt og hún boðin í sem flestum framhaldsskólum.“
    Sambærileg markmið rötuðu inn í kosningastefnuskrá annarra flokka. M.a. segir í kosningastefnu Samfylkingarinnar í menntamálum: „Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum og fella niður innritunar- og efnisgjöld.“
    Svipaðar áherslur var að finna í málflutningi fleiri framboða fyrir síðustu alþingiskosningar og í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar er gefið fyrirheit um áfanga í þessa átt þótt orðalagið sé raunar heldur rýrt í roðinu, en þar segir: „… og nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum.“ Því er þess vænst að frumvarpið eigi vísan góðan hljómgrunn á Alþingi.