Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 56  —  56. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.

Flm: Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason.



1. gr.

    Við 6. mgr. 8. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef forsjárlaust foreldri nýtir ekki rétt sinn getur það foreldri sem fer með forsjá barnsins sótt um sérstakan aukastyrk úr fæðingarorlofssjóði. Fjárhæð styrksins skal svara til fæðingarorlofs í þrjá mánuði.

2. gr.

    Í stað orðanna „tvö tekjuár“ í 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: tvö ár.

3. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
    Í því tilfelli þegar foreldrar í hjúskap hafa flutt lögheimili sitt til útlanda vegna náms annars foreldrisins en hitt stundar fjarnám frá Íslandi, geta þau bæði átt tilkall til undanþágu frá skilyrði um lögheimili hér á landi ef önnur skilyrði greinar þessarar eru uppfyllt.

Greinargerð.


I.

    Fyrir liggur í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar að til stendur að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf og fagna flutningsmenn þeirri fyrirætlan. Af þeim sökum eru ekki lagðar til frekari breytingar á lögum um foreldra- og fæðingarorlof að sinni en flutningsmenn munu að sjálfsögðu fylgjast vel með framgangi þessara mála.
    Gildandi lög miðast við að tryggja barni samvistir við báða foreldra á fyrstu mánuðum í lífi þess. Nú er það svo að umtalsverður hópur forsjárlausra foreldra nýtir ekki rétt sinn til fæðingarorlofs sem verður til þess að börn þeirra njóta í skemmri tíma samvista við foreldri en börn þeirra foreldra sem báðir nýta rétt sinn. Þarna skapast því misræmi, sem leiðir til þess að börn einstæðra foreldra eiga á hættu að njóta í raun minni réttinda en börn foreldra í sambúð eða foreldra þar sem samkomulag er um að báðir nýti rétt sinn. Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta misræmi verði leiðrétt þannig að það foreldri sem fer með forsjá geti sótt um sérstakan aukastyrk. Þannig eru réttindi barnanna fest í sessi og löggjöfin löguð að þeim veruleika sem því miður blasir við mörgum börnum einstæðra foreldra eftir að sex mánaða fæðingarorlofi lýkur.
    Í Noregi er ekki ósvipuð fæðingarorlofslöggjöf og hér á landi að því leyti að foreldrar í sambúð geta sótt um 44 vikur með fullum styrk eða 54 vikur á 80% styrk. Níu vikur í kringum fæðingu eru eyrnamerktar móður og sex vikur eru eyrnamerktar föður. Afgangurinn af tímanum deilist milli foreldranna að þeirra ósk. Í norsku reglunum eru sérúrræði fyrir einstæða foreldra sem ekki eru í sambúð með föður eða móður barns og hafa ekki verið í sambúð með öðrum í tiltekinn tíma en þá er hægt að sækja um sérstakan stuðning líkt og gert er ráð fyrir með þessari breytingu.

II.

    Með lagabreytingu árið 2004 var tímabilið sem miðað er við við útreikning tekna í aðdraganda fæðingarorlofs lengt úr einu ári í tvö, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Með því að hafa þetta tvö tekjuár en ekki bara tvö ár er hins vegar skapaður talsverður aðstöðumunur. Kona sem fæðir barn í desember 2007 fær greiðslur sem miðast við tekjur hennar árin 2005 og 2006 en kona sem fæðir barn í janúar 2008 fær greiðslur sem miðast við tekjur árin 2006 og 2007. Þar sem fólk á barneignaaldri er oftar en ekki á uppleið í tekjum, t.d. vegna þess að það lýkur námi og hefur störf, getur þetta hæglega munað talsverðum fjármunum og skapað ójafnræði milli fólks eftir því hvenær árs það eignast börnin. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta ójafnræði verði leiðrétt með því að miða greiðslur við tvö ár fyrir fæðingu barns, í stað tveggja tekjuára.

III.

    Í 19. grein laganna um fæðingar- og foreldraorlof segir eftirfarandi um lögheimilisskilyrði námsmanna: „Að jafnaði skal foreldri eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“ Í þeim tilfellum þar sem foreldri í hjúskap hafa flutt lögheimili tímabundið til útlanda vegna náms annars þeirra en hitt stundar fjarnám við íslenskan háskóla, hefur Fæðingarorlofssjóður túlkað lögin á þann veg að réttur þess foreldris sem stundar nám á Íslandi falli niður. Því kann það að fara svo að móðir, sem fæðir barn sitt í landi sem hún á lögheimili í vegna náms maka síns þar, missi rétt til fæðingarstyrks frá Fæðingarorlofssjóði. 3. gr. frumvarpsins er ætlað að standa þessu í vegi og tryggja báðum foreldrum eðlilegan fæðingarstyrk þegar svona stendur á.

IV.

    Að lokum vilja flutningsmenn gera athugasemd við framkvæmdina á 8. mgr. 19. gr. laganna, án þess að lagðar séu til breytingar á henni að svo stöddu, en greinin orðast svo: „Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.“ Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að ef einstaklingur hættir í vinnu og hefur nám verði námið að hefjast tafarlaust um leið og starfi sleppir. Ef nokkrir dagar líða þar á milli þar sem viðkomandi er hvorki skráður í nám né í vinnu missir hann réttindin og fellur niður í flokk heimavinnandi, þ.e. þeirra sem eru með minna en 25% starfshlutfall. Til þess að halda réttindum þarf viðkomandi að skrá sig á atvinnuleysisskrá, jafnvel þótt aðeins sé um nokkra daga að ræða. Flutningsmenn álíta að jafnræðissjónarmið standi til þess að ráðherra eigi að vera heimilt að veita meira svigrúm í þessum efnum, t.d. mánuð. Því fylgir hér í niðurlagi hvatning til stjórnvalda um að tryggja að framkvæmd laganna verði þannig að jafnræðissjónarmiða sé gætt og að forðast sé að íþyngja foreldrum að nauðsynjalausu. Verði sú hins vegar ekki raunin áskilja flutningsmenn sér rétt til að leggja fram nýtt frumvarp varðandi þann efnisþátt málsins.