Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 59  —  59. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

Flm.: Jón Bjarnason, Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson,


Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,
Þuríður Backman, Ögmundur Jónasson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu vatnasvæðisins norðan Hofsjökuls, þ.e. Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði ásamt þverám þeirra.
    Friðlýsingin taki til vatnasviðs ánna að meðtöldum þverám og skal hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum ánna vera óheimil. Skal svæðið friðað og stjórnað til varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundins landbúnaðar. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing vatnasvæðanna norðan Hofsjökuls geti tengst framtíðaráformum um Hofsjökulsþjóðgarð og fallið að stækkuðu friðlandi Þjórsárvera sunnan jökulsins.

Greinargerð.


    Frá Hofsjökli renna árnar Austari- og Vestari-Jökulsár. Þegar þær koma saman kallast þær Héraðsvötn en þau eru meginvatnsfallið í Skagafirði. Koma jökulsárnar saman við bæinn Kelduland. Báðar árnar renna í gljúfrum og er gljúfur Austari-Jökulsár öllu hrikalegra en þeirrar vestari. Náttúrufegurð jökulsárgljúfranna er einstök, svo og gróður, landslag og náttúrufar á vatnasvæði ánna.
    Hér er gert að tillögu að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga þess efnis að árnar og vatnasvið þeirra verði friðlýst með lögum.
    Með hliðsjón af flokkunarkerfi hinna alþjóðlegu náttúruverndarsamtaka IUCN er lagt til að svæðið geti fallið að V. friðlýsingarflokki. Nánari skilgreining þessa verndarstigs er á þessa leið: „Landsvæði, ásamt strönd eða sjó eftir því sem við á, þar sem samskipti manns og náttúru í gegnum tíðina hafa gert svæðið sérstætt, fagurfræðilega, vistfræðilega og/eða menningarlega, og gjarnan með mjög fjölbreyttu lífríki. Varðveisla þessara hefðbundnu samskipta í heild sinni er nauðsynleg fyrir verndun, viðhald og þróun slíks svæðis.“
    Segja má að viðhorf þeirra sem vilja vernda vatnasvæði ánna speglist vel í ljóðlínum Stefáns Vagnssonar frá Hjaltastöðum (1889–1963) úr kvæðinu Blönduhlíð:

    Meðan „Vötnin“ ólgandi að ósum sínum renna,
    iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,
    geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,
    blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

    Í ályktun félagsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði frá 8. júní 2005 segir:
    „Héraðsvötnin og jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing Vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska er einnig ómetanleg. Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“
    Ferðaþjónusta í Skagafirði er í örum vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu.
    Með þingsályktunartillögu þessari eru í fylgiskjölum ályktanir og sýnishorn af greinaskrifum Skagfirðinga sem undirstrika hug þeirra til svæðisins. Augu æ fleiri eru að opnast fyrir verðmæti ósnortinnar náttúru og ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum. Náttúran á sinn eigin sjálfstæða rétt. Við höfum hana að láni frá komandi kynslóðum. Jökulsárnar í Skagafirði eru mikilvægar fyrir lífkerfi héraðsins frá jöklum til sjávar. Vötnin hafa ekki aðeins mótað skagfirska náttúru heldur einnig skagfirska menningu og daglegt líf. Þau eru lífæð Skagafjarðar.
    Í ljósi þessa er þingsályktunartillagan um friðun Austari- og Vestari-Jökulsár flutt.
    Þetta mál var flutt í byrjun 133. löggjafarþings af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en komst ekki á dagskrá og er endurflutt, að mestu óbreytt.

Viðhorf heimamanna.
    Rétt er að gera grein fyrir viðhorfum heimamanna til virkjunar Jökulvatnanna. Í grein í Morgunblaðinu eftir Sigurlaugu Kr. Konráðsdóttur (25. maí 2006) kemur fram að Skagfirðingar vilji ekki fórna ánum og vatnasvæðum þeirra í þágu virkjana og háspennulagna. Í greininni nefnir hún árnar „dýrustu perlur Skagafjarðar“. Ólafur Þ. Hallgrímsson, sóknarprestur á Mælifelli, ritar grein um önnur virkjunaráform við Skatastaði í sama blaði (20. maí 2006) og segir: „verði af virkjun við Skatastaði verður ásýnd dalsins stórlega spillt, m.a. nokkrar af fegurstu þverám hans eyðilagðar. Einnig munu siglingar á jökulánum leggjast af.“
    Undir þessi orð taka flutningsmenn tillögu þessarar og leggja áherslu á að unnt er að samræma þetta tvennt, eflingu atvinnutækifæra og náttúru- og umhverfisvernd. Er þetta í samræmi við málefnaskrá Vinstri hreyfingarinnar en þar segir: „Nýting orkulindanna er mikilvæg og nauðsynleg en stóriðja og stórvirkjanir í þágu mengandi iðnaðar sem ganga á náttúruna eru andstæð sjálfbærri þróun. Ríkulegt tillit þarf að taka til umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.“


Fylgiskjal I

Ingibjörg Jónsdóttir Kolka:

Lífæð Skagafjarðar.
(Morgunblaðið, 16. janúar 2005.)

    
    Héraðsvötnin fram eftir firðinum líða
    fögur og ljómandi héraðið prýða.
    Hólminn þar inn frá og Hegranes mynda
    uns við hyldýpi sævarins faðmlög þau binda.

    Þannig orti Guðlaugur J. Lárusson frá Miðhúsum í Óslandshlíð um 1927. Þessi mynd sem 15 ára unglingur dregur upp af Héraðsvötnunum sýnir hvaða sess þau skipa í hugum Skagfirðinga. Í gegnum tíðina hafa þau verið lífæð Fjarðarins og Héraðsins, mótað landslagið og ekki síður mannlífið með kröftum sínum. Þau voru oft erfið yfirferðar, tóku mörg líf og ullu töluverðum skaða á túnum og húsum á Völlunum og Eylendinu í flóðum en þau hafa ekki síður gefið en tekið. Silungsveiði er ennþá stunduð í Vötnunum og lengi vel voru selir veiddir við Vesturósinn. Á veturna lagði Vötnin og þá varð þægilegt að sækja aðföng yfir um á sleðum og fara í heimsóknir á næstu bæi. Eins var mikil skemmtun af skautaferðum. Annars notuðust Skagfirðingar við vöð, dráttarkláfa og ferjur til þess að komast leiðar sinnar yfir Vötnin.
    Stærsta gjöfin er vafalaust áhrifin sem þau hafa haft á Skagfirðinga. Margar sagnir eru til af Vötnunum, bæði sorglegar og gamansamar, og þeirra sér víða stað í sögum og skáldskap, ekki síst ljóðum. Þar koma þau oft fyrir sem eitt sterkasta kennileiti Skagafjarðar og héraðsprýði, sem ávallt muni renna um Fjörðinn hvað sem á dynji. Þau hafa alið af sér sérstæðar persónur og líklega er Jón Ósmann ferjumaður þeirra þekktust. Hann hefur í seinni tíð orðið að tákngervingi Vatnanna; sem stærri og sterkari en aðrir, fámáll og fáskiptinn ef honum sýndist svo en orðheppinn og skáldmæltur ef svo bar undir, raungóður og höfðingi heim að sækja. Auk þess að skilja á milli austur- og vesturhluta Skagafjarðar, mynda Vötnin mállýskuskil á milli þeirra og ýmsar skemmtilegar málvenjur tengjast Vötnunum, eins og „fyrir handan“ eða „handan Vatna“ og að fara „yfir um“ þegar farið er yfir Vötnin. Kannski á þessi farartálmi sinn þátt í því hvað Skagfirðingar hafa gaman að því að hittast og fara á mannamót.
    Ég hef lengi heillast af kynngi Héraðsvatna og áhrifa þeirra á daglegt líf og menningu í Skagafirði í gegnum aldirnar. Síðasta sumar var ég svo lánsöm að hljóta styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og Sveitarfélaginu Skagafirði til þess að útbúa námsefni í íslensku fyrir framhaldsskóla um áhrif samgangna um Héraðsvötn á mannlíf í Skagafirði. Þeirri vinnu er lokið en ég komst fljótlega að því að efniviðurinn væri ríkulegur og yrði engan veginn gerð full skil í því eina verkefni heldur byði hann upp á fjölþætta möguleika á námsefni í fleiri greinum, eins og sögu, þjóðháttafræði, félagsfræði, náttúrufræði og myndmennt. Afar þýðingarmikið er að fræða nemendur um nánasta umhverfi sitt og auka virðingu þeirra fyrir eigin sögu og efla þannig tengslin við heimahagana. Slík tengsl laða fólk til búsetu í sinni heimabyggð og styrkja sjálfsmynd þess.
    Skagfirðingar hafa löngum deilt örlögum með Vötnunum í gleði og sorg, borið virðingu fyrir þeim og þótt vænt um þau. Þeir ættu því að nýta Vötnin áfram í sátt og samlyndi við þau sjálf og virkja eigin krafta til þess að heiðra þau. Mikilvægt er að standa vörð um þessa lífæð héraðsins en binda ekki töfra hennar í fjötra. Til dæmis væri verðugt verkefni að gera Héraðsvötnunum góð skil á sýningu tileinkaðri þeim og Skagfirðingum. Efniviðurinn er til staðar, okkar er að finna leiðir til þess að nýta hann.
    Vel er við hæfi að ljúka þessum pistli með lokaerindi kvæðabálksins „Minni Skagafjarðar“ eftir skáldið og fræðimanninn Stefán Vagnsson frá Hjaltastöðum sem lofsyngur seiðmagn Vatnanna. Griðin við þau megi enginn rjúfa:

    Meðan „Vötnin“ ólgandi' að ósum sínum renna,
    iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,
    geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,
    blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.


Fylgiskjal II.

Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði:

Stöndum vörð um Jökulsárnar í Skagafirði.
(6. september 2007.)

    Vegna umræðu um fyrirhugaða álþynnuverksmiðju á Akureyri vill Áhugahópurinn um verndun Jökulsánna í Skagafirði koma eftirfarandi á framfæri:
    Á sama tíma og unnið er að undirbúningi álverksmiðju við Húsavík með tilheyrandi virkjunum, stendur til að afgreiða samning um álþynnuverksmiðju á Akureyri. Landsvirkjun hefur undirritað orkusölusamning við Becromal, eiganda fyrirhugaðrar álþynnuverksmiðju, um að selja því 75 MW í byrjun. Auk þess skuldbindur Landsvirkjun sig til að selja Becromal allt að 100 MW samtals síðar. Landsvirkjun fullyrðir að þessi 75 MW séu til í raforkukerfinu en segir jafnframt að þessi samningur auki þörfina á frekari virkjunum. Minnst er á Þjórsá, Skjálfandafljót og skagfirsku Jökulsárnar í því sambandi. Það er krafa Áhugahópsins um verndun Jökulsánna í Skagafirði, að skýr grein verði gerð fyrir hvar ætlunin sé að bera niður í virkjunaráformum vegna orkuþarfar þessarar verksmiðju, sem nú bætist við fyrirhuguð álver við Húsavík og víðar. Það er ljóst að þrýstingur á virkjanir í Jökulsám Skagafjarðar, Skjálfandafljóti og Þjórsá mun enn aukast og brýnt að náttúruverndarfólk um land allt haldi vöku sinni til að koma megi í veg fyrir ófyrirgefanleg og óbætanleg spjöll á náttúru Íslands.

Áhugahópurinn hvetur verðandi ríkisstjórn.
(21. maí 2007.)

    Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði hvetur verðandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til að beita sér fyrir verndun ánna. Það er ljóst að þær hugmyndir sem uppi hafa verið um virkjun þeirra, samræmast ekki yfirlýstri umhverfisstefnu annars stjórnarflokksins, sem m.a. hefur friðun skagfirsku jökulsánna á stefnuskrá sinni. Nú er lag að fylgja þeirri stefnu eftir.
    Mikil andstaða er í Skagafirði við Skatastaða- og Villinganesvirkjanir. Uppbygging álvers á Bakka við Húsavík mun engu að síður krefjast þessara virkjana. Til að vernda Jökulsárnar í Skagafirði – og aðrar náttúruperlur – er því nauðsynlegt að fallið verði frá áætlunum um að reisa álver á Bakka, að öðrum kosti verða þær áfram í gíslingu stóriðjustefnunnar.


Fylgiskjal III.


Virkjunum í Jökulsánum í Skagafirði hafnað.
(Opinn fundur á Sauðárkróki, 25. september 2006.)

    Opinn fundur um verndun Jökulsánna og náttúru þeirra, haldinn á Sauðárkróki 25. september 2006, mótmælir harðlega áformum meirihluta sveitarstjórnar Skagafjarðar um að gera ráð fyrir Villinganesvirkjun á aðalskipulagi. Fundurinn skorar á sveitarfélögin í Skagafirði að koma í veg fyrir að Héraðsvötnunum og Jökulsánum í Skagafirði sem svo mjög móta ásýnd og ímynd héraðsins, verði fórnað. Fundurinn leggst alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði og því að gert sé ráð fyrir slíkum framkvæmdum á aðalskipulagi Skagafjarðar.

Skorað á Sveitarfélögin í Skagafirði að vinna
að friðlýsingu Jökulsánna ásamt Austurdal.

(Opinn fundur á Sauðárkróki, 25. september 2006.)

    Opinn fundur um verndun Jökulsánna og náttúru þeirra haldinn á Sauðárkróki 25. september 2006, skorar á Sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp að vinna að friðlýsingu vatnasvæðisins norðan Hofsjökuls, þ.e. Austari- og Vestari-Jökulsár ásamt Austurdal. Ennfremur verði gert ráð fyrir friðlandinu við aðalskipulagsgerð. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsánna að meðtöldum þverám og skal hverskyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum ánna vera óheimil. Skal svæðið friðað og stjórnað til varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja, ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna landbúnaðarnytja.


Fylgiskjal IV.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð,
Skagafirði:


Ályktun félagsfundar um verndun Jökulsánna.
(8. júní 2005.)

„Meðan Vötnin ólgandi að ósum sínum renna.“
    „Héraðsvötnin og Jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, er einnig ómetanleg. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina eins og skýrt hefur komið i ljós að undanförnu. Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“


Fylgiskjal V.

Skatastaðavirkjun líka.
(Morgunblaðið, 27. október 2004.)

    Hitti á dögunum ungan Skagfirðing á förnum vegi. Við tókum tal saman um lífið og tilveruna, staðinn, stundina, heimahagana og talið barst óhjákvæmilega að Vötnunum. Hvaða Skagfirðing hittir þú yfirleitt, á heimaslóð eða fjarri heimkynnum, sem ekki talar um Vötnin. Hvernig er veiðin? Er lágt eða hátt í? Eru vötnin komin á, eru þau komin af? Hvernig er liturinn? Syngur hátt í þeim í dag?

Vötnin eru Skagafjörður.
    – En ef þeir fíflast til að stífla, hvað verður þá um Eylendið? sagði ungi maðurinn og fannst hann komast vel að orði. Mér fannst það líka og varð hugsi, ef þeir fíflast til að stífla. Hvað gerist þá?
    Samkvæmt okkar lagabálkum ber að láta fara fram umhverfismat um þýðingu þess að spilla náttúrunni? Við vitum þess nýleg dæmi að einn ráðherra getur umsnúið mati Umhverfisstofnunar sér í hag. Og það er ekki endilega hagur náttúrunnar eða umhverfisins. Ekki endilega.
    En friðun Austara-eylendisins í Skagafirði er á borði umhverfisráðherra. Friðun þýðir væntanlega að ekki er hægt að fara í stórvirkjanir á svæðinu. Ekki er hægt að friða með annarri hendi og spilla með hinni. Friðun merkir ekki takmörkun á eignarrétti, heldur að ekki má lengur eyðileggja, í þessu tilfelli votlendið meðfram Héraðsvötnum og lífríkið sem þar dafnar. Ekki má taka þá áhættu að ósasvæðunum verði stefnt í voða og þar með lífríki sjávar á Skagafirðinum. Friðun er í mínum huga þetta. Það má sem sagt ekki eyðileggja Vötnin.
    Hvers verður minnst frá aldamótum 2000 á Íslandi eftir 50 ár, eða 100 ár? Munu menn velta fyrir sér fjölmiðlafárinu sem skall á sumarið 2004? Nei, varla nema þá nokkrir rykfallnir sagnfræðingar. En verður munað eftir Kárahnjúkum og Skatastöðum í Skagafirði? Já, því að þar verða bautasteinar um skammsýni og heimsku mannanna. Ef ekki verður af heimskunni látið.
    Er svo heimskulegt að vilja græða, spyr einhver. Það eru meginrök ráðamanna að hagnaðurinn sé svo mikill, Ísland verði svo ríkt. Jæja, fyrir þremur árum setti undirrituð fram tölur frá árinu 1999, fengnar úr Mbl.-grein eftir Magnús Thoroddsen. Þær tölur hefur enginn véfengt og verða þær dregnar hér fram að nýju. Stóriðjan notaði 63,5% raforkuframleiðslunnar þá og greiddi 0,90 kr. á kílóvattstund en aðrir notuðu 35,5% heildarorkunnar og greiddu 5,15 kr. fyrir kílóvattstundina (Mbl. 24. júlí 2001). Enda er það svo að fáir sjá þennan mikla gróða sem sífellt er talað um. Hefur Landsvirkjun til dæmis greitt niður erlendar skuldir okkar eins og Norðmenn létu olíuna gera. Nei, þvert á móti, Landsvirkjun safnar erlendum skuldum sem ákafast. Landsvirkjun er sem sagt ekki rekin með hagnaði sem skilar sér í ríkiskassann, okkur skattgreiðendum til góða. Ekki einu sinni eldri virkjanirnar sem ættu að vera afskrifaðar og mala gull, afrakstur þeirra fer í hítina. Í Feyki 28. apríl sl. er vitnað í orð Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra á Sauðárkróki, þar sem hann ræðir virkjanir við Villinganes og Skatastaði og segir m.a.: „Auk þess sem virkjun myndi lækka orkukostnað til almennings í landinu.“ Hér með er lýst eftir þeim sem séð hefur lækkandi orkureikninga í kjölfar stórvirkjana.
    Stórvirkjun á borð við Skatastaðavirkjun kallar að sjálfsögðu á álver. Það er svo sjálfsagt að ráðamönnum finnst varla lengur taka því að segja þetta upphátt. Og iðnaðarráðherra talar við Skagfirðinga eins og lítil börn: – Ykkur var nær, þið hefðuð átt að sýna álveri meiri áhuga. Það er þetta með áhugann á álverum, rafskautaverksmiðjum og annarri stóriðju, hann fer þverrandi. Við getum ekki haft áhuga á ferðamennsku og auglýst Ísland sem ferðamannaparadís og á sama tíma eyðilagt hverja náttúruperluna á fætur annarri. Héraðsvötn eru náttúruperla.
    Stundum, nú síðast í nýlegum umræðu um lýðræðið á ráðstefnu HÍ og Mbl., hefur komið fram sú kenning að stjórnmálamenn séu innilokuð stétt. Þeir sitji í sínum ranni, sínum Babelsturni yfir sínum áhugamálum og heyri alls ekki hvað fólkið segir. Heyri ekki þá umræðu sem fram fer í kringum þá, einangrunin er svo pottþétt. Getur þetta verið tilfellið? Andstaða við stórvirkjanir og meiri stóriðju fer vaxandi, fáir ef nokkur vill álver í hvern fjörð á Íslandi en valdamenn grúfa sig bara betur yfir sitt og keyra málin áfram.
    Hið alvarlega í umræðunni um virkjunarmál í Skagafirði er þetta: Villinganesvirkjun er þegar búin að fara í gegnum umhverfismat. (Raunar er engin leið að sjá til hvers slíkar framkvæmdir fara í umhverfismat, þar sem ekki er hlustað eftir andstæðum rökum.) Ef Villinganes fer inn á skipulag Skagafjarðar þá er leiðin greið, Rarik og co. getur komið daginn eftir og byrjað að sprengja. Skatastaðavirkjun á lengra í land en kvörnin malar.
    Ég skora á fólk að hugsa þessi mál og hugsa upphátt. Hugsa t.d. um hvort það vill uppistöðulón í Bugum, álver við Kolkuós, Austurdal með tveimur stöðvarhúsum svo eitthvað sé nefnt. Ég sendi boltann til Valgeirs Kárasonar á Sauðárkróki og skora á hann að láta í sér heyra og koma fram með sín sjónarmið í þessu máli.


Fylgiskjal VI.

Dauðadómur yfir starfsemi okkar.
(Morgunblaðið, 23. september 2004.)

    Magnús Sigmundsson, framkvæmdastjóri Hestasports – Ævintýraferða, sem staðið hafa fyrir vinsælum flúðasiglingum í Vestari- og Austari-Jökulsá í Skagafirði, segir að verði af áformum um Skatastaðavirkjun þýði það „dauðadóm yfir okkar starfsemi“. Siglingarnar muni leggjast af þar sem úttak virkjunarinnar yrði það neðarlega í Austari-Jökulsá, eða á móts við mynni Merkigils miðað við frumhönnun virkjunarinnar.
    Magnús segir að Skatastaðavirkjun muni að óbreyttu eyðileggja eina „flottustu“ ána í Evrópu sem bjóði upp á flúðasiglingar, eða flúðafjör eins og hann vill nefna þessa ferðaþjónustu. Verði af virkjuninni verði aðeins hægt að sigla nokkrar vikur á haustin þegar flæðir yfir á stíflu virkjunarinnar.
    Magnús bendir á að þúsundir ferðamanna fari í þessar siglingar í skagfirsku jökulánum og þær séu ekki síður orðnar vinsælar hjá hinum efnameiri ferðamönnum. „Hingað koma milljarðamæringar í þyrlum til okkar, til að komast í siglingu niður ána,“ segir Magnús.
    Hestasport – Ævintýraferðir hafa byrjað sínar dagssiglingar í Austari-Jökulsá við bæinn Skatastaði. Magnús segir úttakið koma enn neðar og þar með sé „draumurinn búinn“. Eftirsóttasti kafli leiðarinnar sé frá Skatastöðum og niður fyrir Merkigil, en siglingarnar enda niður undir bænum Stekkjarflötum í Austurdal.

Vita ekki hvað þeir eru að gera.
    Fram hefur komið í Morgunblaðinu að meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar, sem áður var mótfallinn hugmyndum um Villinganesvirkjun, vill setja Skatastaðavirkjun inn á aðalskipulag, með þeim tilgangi að raforka frá virkjunni nýtist til stóriðju í Skagafirði. „Ætla okkar menn virkilega að setja þetta af stað?“ spyr Magnús, „þá vona ég bara að guð hjálpi þeim því þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“

Fylgiskjal VII.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð,
Skagafirði:


Ályktun gegn frekari stórvirkjunum og álbræðslum.
(29. janúar 2006.)

    Aðalfundur VG í Sveitarfélaginu Skagafirði haldinn 29 janúar 2006, fagnar þeirri fjölbreyttu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Skagafirði síðustu árin og áformum um miðstöð hátækniiðnaðar í héraðinu. Hins vegar hafnar fundurinn hugmyndum um álver við Kolkuós og stórvirkjanir í Skagafirði í tengslum við álbræðslu á Norðurlandi, sem eru andstæðar hagsmunum Skagfirðinga. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina ásamt því að ganga á náttúru landsins og aðra atvinnukosti til framtíðar. Ennfremur fagnar fundurinn ákvörðun um að þyrma Þjórsárverum og hvetur til þess að einnig verði komið í veg fyrir að Héraðsvötnunum og Jökulsánum í Skagafirði sem svo mjög móta ásýnd og ímynd héraðsins verði fórnað. Aðalfundur VG í Skagafirði leggst alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði og því að gert sé ráð fyrir slíkum framkvæmdum á aðalskipulagi Skagafjarðar.


Fylgiskjal VIII.

Náttúruverndarsamtök Íslands:

Áskorun frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
(5. október 2006.)

    Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent sveitarstjórn Skagafjarðar áskorun þar sem sveitarstjórn er hvött til að fresta áformum um að setja Villinganes- (og þar með Skatastaðavirkjun) inn á aðalskipulag. Náttúruverndarsamtökin minna á að mikill meirihluti Skagfirðinga er andvígur stóriðjuframkvæmdum í Héraði og stuðningur við verndun Héraðsvatna er mikill.

Áskorun til sveitarstjórnar Skagafjarðar.
    Náttúruverndarsamtök Íslands skora á sveitarstjórn Skagafjarðar að fresta áformum um að setja Villinganes- (og þar með Skatastaðavirkjun) inn á aðalskipulag. Náttúruverndarsamtökin minna á að mikill meirihluti Skagfirðinga er andvígur stóriðjuframkvæmdum í Héraði og stuðningur við verndun Héraðsvatna er mikill. Raunar eru þessi fallvötn dýrmæt auðlind fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði.
    Villinganesvirkjun hefur í för með sér mikil og varanleg umhverfisáhrif, orkugeta hennar er bæði lítil og kostnaðarsöm, auk þess sem uppbygging ferðaþjónustu á svæðinu færi forgörðum. Hagkvæmni Villinganesvirkjunar er það lítil að bygging hennar er háð byggingu Skatastaðavirkjunar.
    Ekki liggja fyrir nein áform um virkjun Jökulsár Austari, svokallaða Skatastaðavirkjun. Öðru nær, sveitastjórnin hefur látið í ljósi vilja sinna til að kanna kosti þess að friðlýsa það svæði. Þann kost ber að skoða ítarlega áður en gengið er frá aðalskipulagi. Ekki er því tímabært að setja Villinganesvirkjun inn á aðalskipulag.
    Náttúruverndarsamtök Íslands minna á að virkjun Héraðsvatna í þágu stóriðju í öðrum landshlutum nýtur ekki stuðnings Skagfirðinga. Engu að síður, landið eitt er eitt orkusölusvæði og verði af framkvæmdum fá heimamenn litlu ráðið um hvert orkan verður seld.


Fylgiskjal IX.

Stjórn Náttúruvaktarinnar:

Ályktun frá Náttúruvaktinni
vegna fyrirhugaðra virkjana Héraðsvatna í Skagafirði.

(5. október 2006.)

    Náttúruvaktin leggst eindregið gegn áformum sveitarstjórnar Skagafjarðar að setja virkjunarkosti við Villinganes í Jökulsánum inn á Skipulag.
    Villinganesvirkjun hefur í för með sér umtalsverð óafturkræf umhverfisáhrif og er ekki sjálfbær þar sem að lón hennar mun fyllast af framburði á fáum áratugum. Hagkvæmni og arðsemi virkjunar við Villinganes grundvallast á að farið verði einnig í gerð Skatastaðavirkjunar enda virkjunin sögð hagkvæm sem „fyrsti áfangi virkjunar Héraðsvatna“ í rammaáætlun um orkunýtingu. Með því að setja Villinganesvirkjun inn á aðalskipulag hefur sveitarstjórnin lýst sig fylgjandi framkvæmdinni og fátt því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir.
    Það sætir furðu að sveitarstjórnarmönnum sé svo umhugað um að eyðileggja Jökulsárnar sem hafa á undanförnum árum markað sér sess með bestu flúða – og straumvatnsám Evrópu og skapa sem slíkar Skagafirði mikla sérstöðu í ferða- og afþreyingarþjónustu. Árnar ásamt jaðarstarfsemi skapa á annan tug starfa í héraðinu. Það er því með öllu óskiljanlegt að vilja fórna svo einstakri náttúru og atvinnumöguleikum fyrir það eina starf sem slík virkjun skapar í Skagafirði. Öllum má vera ljóst að verði Héraðsvötnin virkjuð verður sú orka notuð í stóriðju annars staðar.
    Lón Villinganesvirkjunar myndi, auk þess að eyðileggja flúðasiglingar og einstæða náttúruskoðun, kaffæra fornminjar, sérstakar jarðmyndanir, laugar í gljúfurveggjum, einstakar birkihríslur, skemma laxagengd, auk þess að hafa veruleg áhrif á alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Þá ber að geta þess að þegar framburður ánna hættir berast um láglendar flæður við Héraðsvötnin geta áhrifin orðið umtalsverð þar sem rofmáttur sjávar tekur völdin og ströndin mun færast innar með ófyrirséðum afleiðingum.
    Nýting ánna í núverandi horfi er bæði arðsöm og sjálfbær. Náttúruvaktin hvetur sveitarstjórnarmenn í Skagafirði að skoða málið vel frá öllum hliðum áður en virkjanakostir verða festir á skipulag.


Fylgiskjal X.

Sigríður Sigurðardóttir:

Ólík sjónarmið.
(Feykir, 10. nóvember 2004.)

    Getur verið að fólk telji almennt að það sem mér finnst vera náttúruspjöll geti verið fyrir þeim lykill að lífshamingju og velmegun? Eða er öðruvísi hægt að útskýra hugmyndir um virkjanir við Villinganes og Skatastaði sem mér finnst óhuggulegar?
    Frá mínum bæjardyrum séð væri jafnvel hægt að túlka áhuga virkjanasinna sem skemmdarfýsn ef skoðað er hve miklu óhagkvæmari virkjanirnar eru miðað við aðra virkjanakosti, þar sem viðskipta- og hagkvæmnisjónarmiðin eru notuð sem mælistika. Það má nefnilega ekki tala um fagurfræði, tilfinningar eða vitund yfirleitt í þessu sambandi, bara hagkvæmni, viðskipti, hagvöxt og byggðapólitík. En hvers vegna erum við ekki að taka mark á skýrslu verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem mikið var lagt í? Þar kemur fram að það eru fjölmargir aðrir virkjanakostir mun vænlegri fyrir land og þjóð heldur en virkjun fallvatna í Skagafirði.
    Skagafjörður er fögur umgjörð um gott mannlíf. Það dró mig hingað aftur, eftir að hafa hleypt heimdraganum í öðrum byggðum, ekki vonin um að geta virkjað. Hér eru hvorki víravirki né línuvegir, virkjanir né stórverksmiðjur sem trufla sýn til dala, fjalla, eyja og stranda. Þannig vil ég hafa Skagafjörð áfram. Ég get ekki hugsað mér þau eftirmæli, að á mínu stutta skeiði í eilífðinni, hafi ég þegjandi tekið þátt í óafturkræfum náttúruspjöllum og þannig misnotað umhverfi mitt vísvitandi. Þess vegar sting ég niður penna. Einnig af því að náttúran sjálf getur ekki varið sig og hefur ekki annað tungumál en náttúruhamfarir. Ég vil biðja Jökulsánum og þar með Héraðsvötnum vægðar. Þau hafa og eru enn að móta Skagafjörð og skagfirskt mannlíf. Ég beini orðum mínum fyrst og fremst til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Hreppsnefnd Akrahrepps og bið þá að hafna hugmyndum um virkjanir við Villinganes og Skatastaði og þyrma náttúru Skagafjarðardala.
    Ég vil einnig skora á alla þá sem efast um gildi virkjananna að spyrja þá sem fyrir þeim vilja standa að leiða rök að skoðunum sínum og reyna að skilja þeirra sjónarmið. Svo gjörólík sem þau eru, þeirra sem sjá fjársjóðinn í fegurð og sköpunarkrafti náttúrunnar og þeirra sem sjá fjársjóðinn í pundum í pyngjunni og sköpunarkrafti vélaraflsins.
    Það læðist að mér sá óþægilegi grunur að hinn pólitíski vefur, þar sem enginn veit hvar öðrum mætir, og von um völd og viðskipti hafi dregið fjöður yfir alla samvisku og rökin taki breytingum eftir því hverra hagsmunir eru í húfi. Þetta er framþróunin segja menn og fórnin sem verður að færa til að ná í meiri atvinnu fyrir þetta aumingja fólk sem er að flýja dreifbýlið. Getur verið að ástæðan fyrir því að fólk vill breyta til og búa í öðru umhverfi sé einhver önnur en vöntun á atvinnu í stóriðjuverum, sem menn tala fjálglega um í beinu framhaldi af virkjununum eða fengjum við ódýrara rafmagn fyrir héraðsbúa?
    Mig vantar rök fyrir tilgangi umhverfiseyðileggingarinnar og breyttri ásýnd og ímynd Skagafjarðar. Hafa menn hugsað þetta til enda? Hvernig sjá virkjanasinnar Skagafjörð eftir 10 ár, 50 ár, 100 ár? Ritstjóri Feykis benti reyndar á að með virkjun við Villinganes kæmi brú yfir Héraðsvötn og þar með hringakstur í framhéraðinu. Það væri fínt, en því skyldum við þurfa kosta til þess 60 metra háa stíflu? Er ekki bara einfaldara að brúa? Myndi þá vöruverð lækka í KS ef allir framhéraðsbúar að vestan þyrptust í verslunarleiðangra til Akureyrar í stað Varmahlíðar eða Sauðárkróks? Eða myndi verslunum þá bara fækka? Ef hringaksturinn á að verða að veruleika þarf að breyta hlutverki stíflunnar við Villinganes, miðað við kynningu sem ég heyrði fyrir nokkrum árum í Hótel Varmahlíð þar sem spurt var um þetta atriði og því til svarað að stíflan yrði ekki notuð fyrir almenna umferð nema vegur yrði lagður að á annarra kostnað.
    Hvað á að gera við þá möguleika sem miðast við að náttúra svæðisins verði óspillt áfram? Og ef menn eru í alvöru að hugsa um Villinganessvirkjun, verður þá ekki að gera fleiri rannsóknir og svara þeim fjölmörgu spurningum sem enn er ósvarað um áhrif virkjunarinnar á Vallhólminn, Eylendið, Skógana, Miklavatn, hafsstrauma í Skagafirði og fleira sem ekki er alveg á gljúfurbarminum og því ekki inni í mati á umhverfisáhrifum eins og hún var unnin. Hverra breytinga er að vænta við botnfall framburðar framan við virkjun? Við þekkjum það vel sem búum í Blönduhlíðinni hve framburður Héraðsvatna er gríðarlegur og hverju hann skilar og byltir á ferð sinni um Hólminn. Á meðan nokkurri spurningu er ósvarað eða vafi leikur á um hvaða eða hvernig áhrif aðgerðir mannanna geta haft á náttúruna, þá á hún að njóta vafans.
    Hvað stjórnar gerðum okkar þegar við viljum leggja heilu landssvæðin undir óafturkræfar aðgerðir og höndla og drottna eins og hverjum sýnist? Hagsmunir hverra eru í húfi? Hvað rekur menn áfram? Stolt? Völd? Hégómi? Skammsýni? Eða skítt með náttúruna ef ég get grætt á henni, skítt með umhverfið ef það er ekki í alfaraleið, skítt með önnur sjónarmið ef það samræmist ekki mínum, skítt með framtíðina ef við getum skemmt okkur í dag?


Fylgiskjal XI.

Valgeir Kárason:

Virkjum frekar mannauðinn.
(Feykir, 3 40/2004.)

    Ég vil byrja á að þakka Önnu Dóru Antonsdóttur fyrir að hefja á opinberum vettvangi, hér í Feyki, umræðu til varnar skagfirskri náttúru fyrir skammsýnum mönnum og Sigríði Sigurðardóttur fyrir að fylgja því eftir.

Hvers virði er frelsið?
    Nú þegar mikil umræða er í Skagafirði um skipulagsmál tengdum stórvirkjunum í skagfirsku jökulsánum, vakna ýmsar spurningar um umhverfismál og náttúruvernd. Ekki hvað síst tengjast þessar spurningar og hugleiðingar því hvernig við viljum sjá framtíð Skagafjarðar og íbúa hans, hvaða ímynd við viljum sem Skagfirðingar standa fyrir og hvaða framtíðarsýn við höfum. Hvernig framtíð viljum við búa börnum okkar hér í Skagafirði? Hvað viljum við Skagfirðingar hafa að segja um framtíð okkar og ákvarðanatöku? Viljum við sjálfir hafa eitthvað að segja um hvað utanaðkomandi aðilar róta til og eyðileggja fyrir framan augun á okkur án þess að geta nokkra rönd við reist? Eigum við bara að gefa út skotveiðileyfi á umhverfi okkar án þess að hafa síðan nokkuð um það að segja hvort það komi okkur til góða í auknum lífsgæðum eður ei?
    Í nýliðnum þætti Spaugstofunnar var okkur sýnd „spaugileg“ mynd af þjóð sem var afar aumkunarverð, með skóför á bakinu af því að gengið hafði verið yfir hana á skítugum skónum, verið valtað yfir hana. Það er gott að fá svona áminningar af og til. Því miður eru alltaf á hverjum tíma til hagsmunaaðilar sem hugsa aðeins um eigið skinn og svífast einskis.
    Ætlum við Skagfirðingar að láta valta yfir okkur í virkjanamálum og láta aðra hrifsa til sín þau auðæfi, sem fólgin eru í náttúrulegum aðstæðum hér með því að virkja fallvötnin okkar, án þess að nokkur trygging sé fyrir að við fáum nokkurn umráðarétt yfir, né ágóða af, eyðileggja dýrmæta ímynd og framtíðarmöguleika, sem er okkar íbúanna hér í Skagafirði? Ég segi nei og veit að margir eru mér sammála.

Að virkja mannauðinn
    Líklegt er að þessi auðlegð okkar í ósnortinni náttúru verði okkur margfalt verðmætari án stórvirkjana í framtíðinni. Ef við Skagfirðingar, ætlum að markaðssetja okkur með hérað í íslenska hestsins, með minningartengda ferðaþjónustu, frábæra matvælaframleiðslu úr sjávarfangi og landbúnaðarafurðum, hreinleika í matvælaiðnaði, sjálfbært samfélag, alþjóðlegt skólasamfélag, með einstaka möguleika á heimsvísu í fljótareið (river rafting) og svo mætti lengi telja, þá er öruggt að við erum margfalt betur sett án þeirra skemmdarverka sem gætu falist í stórvirkjunum á borð við Skatastaðaðavirkjun og Villinganesvirkjun.
    Það hefur sýnt sig að vegna dugnaðar fjölmargra einstaklinga á Skagafjörður mikla og góða framtíð fyrir sér án stórvirkjana. Bjartsýni ríkir og ekki hefur verið fólksfækkun hér undanfarið. Miklir möguleikar felast í því að virkja þann mannauð sem hér er og við erum á góðri leið með nú þegar.
    Því miður hefur lítið verið reynt að meta verðmæti fólgin í einstæðri náttúru og heildstæðum og lítt snortnum víðernum okkar séu þau varðveitt og geymd, eða hversu mikið þau verðmæti aukast með hverju árinu, sem þrengist að þessum víðernum og þau verða sjaldgæfari, ekki aðeins á landsvísu heldur heimsvísu.
    Ómar Ragnarsson hefur bent á það að viðhorf fólks til náttúruverðmæta hefur breyst mjög mikið á síðustu 50 árum og miklar líkur séu á að sú þróun verði áfram.

Afsal frelsis og yfirráða
    Við höfum haft fyrir okkur reynslu Austur-Húnvetninga varðandi Blönduvirkjun og m.a. horft upp á það, að í stað þess að nýta tiltölulega ódýra orku frá þeirri virkjun til atvinnuuppbyggingar hér á Norðurlandi vestra, hefur orkan verið að mestu flutt suður yfir heiðar með gífurlegum flutningstöpum til stóriðjukaupenda, eins og eigenda Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, sem fá orku hjá okkur Íslendingum á um þrefalt lægra verði en þeim býðst í heimalandinu, Noregi.
    Hvers konar barnaskapur er það að halda því fram að við Skagfirðingar getum eitthvað haft með það að gera hvar sú orka, er framleidd yrði hér í Skagafirði, verði endilega nýtt hér. Til þess að það gæti orðið þyrfti margt að breytast.
    Eins og við Íslendingar ættum að vera farnir að átta okkur á það er deginum ljósara að fjármagnið og eigendur þess munu ávallt leita hámarks ávöxtunar fyrir sig og sína. Þannig ætti það að vera ljóst að ef við gefum „skotleyfi“ á Jökulsárnar okkar með því að setja þær á aðalskipulag Skagafjarðar erum við þar með búnir að afsala okkur því frelsi sem felst í því að hafa umráðarétt yfir auðlindum okkar.

Fórn til frambúðar
    Afskaplega mikil áhætta og fórn til frambúðar væri tekin með virkjun Jökulsánna, eins og meðal annars Umhverfissamtök Skagafjarðar hafa bent á í athugasemdum sínum um mat á umhverfisáhrifum, vegna Villinganesvirkjunar. Þar er bent á að ekki var lagt mat á áhrif virkjunar á land og lífríki neðan virkjunar eða sjávarins, sem ekkert hefur verið rannsakað. Við höfum hið friðlýsta svæði Miklavatn og Skógana og svo Austur-Eylendið, sem lagt hefur verið til að friðlýst verði, vegna mikilla náttúrulegra verðmæta. Uppi á hálendinu eru svæði eins og Orravatnsrústir á náttúruminjaskrá og fleiri verðmæt svæði.

Framtíðarnefnd 1997
    Árið 1997 var sett á stofn nefnd á vegum Sauðárkróksbæjar, Framtíðarnefnd, sem hafði það verkefni að setja fram í skýrslu framtíðarsýn fyrir Sauðárkrók og Skagafjörð.
    Í nefndinni sátu 9 Skagfirðingar af hinum ýmsu starfssviðum og með mismunandi menntun og reynslu, ásamt starfsmanni. Nefndin skilaði skýrslu sinni í júlí sama ár og þar segir m.a. í kaflanum um umhverfis- og ferðamál:
     „Það er mat nefndarinnar, að í Skagafirði eigi ekki að stefna að efnaiðnaði eða annarri mengandi stóriðju. Setja beri stefnuna á „hreina“ atvinnustarfsemi og nota umhverfið sem aðdráttarafl á fólk til búsetu.“ … Og spurt er: „Hver er þá tíðarandinn? Hornsteinar hans eru að minnsta kosti þrír; gæði, innihald og umhverfissátt. Stefnan er á sjálfbært þekkingarsamfélag.“
    
Nefndin hafði þannig ákveðna ímynd í huga og taldi að gæta þyrfti samræmis í framtíðarstefnumótun.

Lokaorð
    Í guðanna bænum, þið sem hafið með ákvarðanir í skipulagsmálum okkar Skagfirðinga að gera, látið náttúruna njóta vafans og leyfið börnum okkar að hafa eitthvað frelsi til ákvarðanatöku um umhverfi sitt í framtíðinni. Forðið okkur frá því að virkjanir í skagfirsku Jökulsánum fari á aðalskipulag núna og gefið okkur Skagfirðingum þannig einhverja möguleika á ákvarðanatöku í þessum umhverfis- og atvinnumálum í nútíð og framtíð.
    Við erum stoltir Skagfirðingar og viljum ekki láta vaða yfir okkur á skítugum skónum.


Fylgiskjal XII.

Þórarinn Magnússon:

Til varnar.
(Feykir, 5 34/2004.)

I.
     Aðalfundur Norðlenskrar orku ehf. var haldinn í Miðgarði 29. júní sl. Áður en hinn eiginlegi fundur hófst var farið í skoðunar- og kynnisferð til Ævintýraferða Magnúsar Sigmundssonar til að fræðast um siglingar á Jökulsánum eystri og vestri. Það var „mjög gaman og áhugavert“ eins og fundarritari skráir í fundargerð. Magnús sýndi okkur aðstöðuna og fræddi hópinn um sögu siglinganna, stöðu sína í dag og ekki síst þá miklu möguleika sem hann sér í framtíðinni.
    Með dálítið meira fjármagni má stórbæta ásýnd og aðstöðu, búa til „heimsklassa afþreyingu“ eins og hann orðar það. Og hann vitnar í ræðarana sína, fjölþjóðlegan hóp manna sem hefur það að atvinnu að fara um heiminn og sigla niður ár. „Þið vitið ekki hvað þið eigið“ hefur hann eftir þeim. Eystri áin tvímælalaust á meðal á meðal 10 bestu siglingaáa í Evrópu (aldursmark 18 ár), vestari áin tiltölulega auðveld (aldurslágmark 12 ár) en í stórkostlegu umhverfi. Að ógleymdri þriggja daga ferðinni frá Laugarfelli og niðurúr. „Þetta markar Skagafirði algjöra sérstöðu a landinu sem er afar mikilvægt í ferðaþjónustunni. Ætlið þið að eyðileggja þetta?“ spyr hann.
    Í fyrsta sinn finnst mér ég skynja í þennan hóp að fólk átti sig á því að hér sé eitthvað sem skipti máli.

II.
     Gangnamannafélag Austurdals (Gíslarnir) stóð fyrir gönguferð niður Austurdalinn dagana 15. til 17. júlí sl. 17 Manna hópur hélt af stað frá Varmahlíð um kl. 17.00 á föstudegi og ók sem leið liggur fram að Laugarfelli. Þar var áð um stund á bökkum fyrirhugaðs lóns Skatastaðavirkjunar en síðan haldið áfram eftir fyrirhuguðum lónsbotni niður að Grána en þar skyldi gist fyrri nóttina.
    Skálinn stendur á fallegum stað við Geldingsána nokkru áður en hún fellur í Jökulsá eystri. Þar er gott að hvílast í heilnæmu fjallalofti við hægan nið árinnar. Verði af Skatastaðavirkjun er fyrirhugað að stífla Geldingsá og veita henni í miðlunarlónið (Bugslón). Eftir yrði lækjarspræna.
    Ferðalangar voru snemma á fótum á laugardagsmorgni enda framundan 25 km ganga með bakpoka niður í Hildarsel. Tjöldum og öðru sem ekki var nauðsynlegt að hafa með var pakkað niður og það sent til byggða með bílunum. Hópurinn myndaður í bak og fyrir og síðan haldið af stað í blíðskaparveðri. Stefnan er tekin á Stórahvamm, gróðursælan stað með fram Jökulsánni. Þar vex birki í mestri hæð á Íslandi, u.þ.b. 630 metrum yfir sjávarmáli. Áfram er haldið niður að Lönguhlíð en þar skiptist hópurinn. Ég held að alla langi niður í Lönguhlíð en flestir ganga heim brúnirnar því dagleiðin er löng og ekki má eyða öllum kröftum í upphafi ferðar. Við erum sex sem förum niður í bratta hlíðina og þvílíkt landslag! Meira en mannhæðarhátt víði- og birkikjarr og svo þétt að maður verður víða að ryðja sér braut. Þetta er í 500–550 metra hæð yfir sjó.
    Hópurinn sameinast aftur við Hörknána, þá litlu náttúruperlu. Áin er ekki mjög vatnsmikil en brött og hendist áfram hvítfyssandi á milli stórra steina sem allir eru grænir af mosa. Hér þyrfti að gefa sér tíma til að hinkra við um stund í góðu veðri og njóta. En nú er orðið stutt niður að Fossá og þar er fyrirhugað nestisstopp. Sú vitneskja drífur svangt göngufólk áfram svo Hörknáin verður að eiga sína töfra fyrir sig að þessu sinni.
    Það er sama blíðan. Að halla sér aftur þarna í góða veðrinu á bökkum Fossár, borða nestið sitt og láta þreytuna líða úr vöðvunum er yndisleg tilfinning. Ekki skal ég hér hafa um þennan stað mörg orð en veit að allir sem þarna hafa komið geta sett sig í okkar spor og samglaðst okkur. En hér er ekki til langrar setu boðið því enn er 13 km leið fyrir höndum og Fagrahlíðin eftir.
    Fararstjórarnir bjóða nú aftur upp á útúrdúr fyrir þá sem vilja. Inn að svokölluðum Væthamarsskeiðum á Fossárdal. Þangað koma fáir aðrir en gangnamenn í fjárleitum. Við förum fjórir. Fyrstu upp brekku og svo inn dalinn. Og þvílík perla þessi Fossárdalur. Svona algjörlega óvænt og vel falin að fæstir ferðalangar vita af henni þó þeir fari oft um Austurdalinn. Stóreflis björg, fossandi vatn og gróður í stórkostlegu samspili á milli brattra hlíða. Hingað þyrftu að koma allir þeir sem um Austurdalinn fara. Taka í það minnst 1½ – 2 tíma. Ef til vill er vissara að draga það ekki of lengi, því ef ráðist verður í Skatastaðarvirkjun er fyrirhugað að stífla bæði Fossána og Hörknána, leiða þær í göngum undir farveg Jökulsár eystri og í önnur veitugöng vestan Jökulsár! Ræna dalinn þessum perlum sínum.
    Við þessir fjórir náum hópnum niðri í Fögruhlíð og þá er að byrja að rigna. Regnið ýtir fólki af stað þessa síðustu 5 km niður í Hildarsel svo dvölin í Fögruhlíð verður styttri en til stóð. Bakpokar og föt þyngjast, skór blotna. Það verður skreipt í spori. Göngulúið fólk að Hildarseli eftir ríflega 10 tíma ferð. Þetta er of löng dagleið fyrir þá sem ekki eru gönguvanir. Jafnvel í góðu veðri. Það fer of mikill tími í að þramma þarna í halarófu en of lítill tími gefst til að njóta. Það vantar skála við fossána. Þá væri þarna komin stórkostleg gönguleið með upphaf við annað hvort Laugarfell eða Grána og endapunkt við Árbæ, Skatastaði, Merkigil eða jafnvel Gilsbakka. Allt eftir því hvernig fólk vill haga ferð sinni. Í góðum ferðahópi er skálalífið kvölds og morgna stór hluti af velheppnaðri ferð.

III.
     Á sunnudegi var svo þægileg 10 km ganga frá Hildarseli niður að kláfnum við Skatastaði. Þar beið okkar Sigurður Friðriksson sem ók okkur heim til sín að Bakkaflöt og fór hópurinn þar í sund og heita potta.
    Fyrst höfðum við pottana fyrir okkur en áður en langur tími leið fylltist laugin af fólki sem var að koma úr siglingu niður Jökulsá vestari. Þar var meðal annarra þekkt norsk skáldkona, Margit Sandemo, með hóp af ljósmyndurum og sjónvarpstökufólki. Hún hafði komið árið áður með samskonar hóp. Önnur kona var þarna frá Akureyri: „Ég sigldi ána í fyrra“ sagði hún „og það var svo stórkostlegt að núna tók ég með mér hóp og við gistum hér á Bakkaflöt.“ þessi ummæli eru í takt við ótal önnur sem fólk hefur látið falla sem siglt hefur árnar.

IV.
     Skagfirðingar! Stöndum vörð um Jökulsárnar. Leyfum þeim að renna óbeisluðum frá Jökulrótum til sjávar. Það er sannfæring mín að þannig verði þær Skagfirðingum sem og þjóðinni allri til mestra heilla um ókomin ár.
    Sameinumst hins vegar um að reisa góðan skála við Fossá svo Austurdalsganga verði auðveld sem flestu fólki. Gönguferðir eru ört vaxandi hluti af ferðaþjónustu um allan heim og það geta þær líka orðið í Skagafirði.