Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 79  —  79. mál.
Fyrirspurntil fjármálaráðherra um sölu eigna ríkisins í Hvalfirði.

Frá Árna Þór Sigurðssyni.     1.      Á grundvelli hvaða heimilda eru auglýstar til sölu húseignir, tækjabúnaður og bryggja fyrrum olíubirgðastöðvar NATO í Hvalfirði ásamt lóð, sbr. auglýsingu Ríkiskaupa í byrjun september sl. sem fylgja sölugögn, m.a. kauptilboðsblað, skýrsla um mat á ástandi olíubirgðastöðvarinnar frá september 2004 o.fl.?
     2.      Hvaða kvaðir fylgja þeim eignum sem til sölu eru og eru slíkar kvaðir skýrt tilteknar í sölugögnum?
     3.      Hefur fjármálaráðuneytið gengið úr skugga um að umræddar eignir séu skráðar í Landskrá fasteigna? Ef svo er ekki, telur ráðherra eðlilegt að auglýsa til sölu óskráðar eignir?
     4.      Hefur við undirbúning sölunnar verið fylgt ákvæðum reglugerðar nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, og tilmælum umboðsmanns Alþingis nr. 3163 frá 2001?
     5.      Hvað veldur því ósamræmi að í sölugögnum segir að um sé að ræða 47,3 ha landsvæði en í auglýsingu er það sagt 18,6 ha?
     6.      Hver er staða aðalskipulags og deiliskipulags á því svæði sem fyrirhugað er að selja og hverjar eru heimildir til landnýtingar?
     7.      Hefur fjármálaráðuneytið fengið umboð hlutaðeigandi til að selja hús sem í sölugögnum er sagt metið ónýtt og „í eigu bónda í sveitinni og er ekki á skrá er fengin var frá verkkaupa“?
     8.      Er ástand olíugeyma með þeim hætti að unnt sé að íslenskum lögum að nýta þá til geymslu á eldsneyti? Ef svo er ekki, hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að geymarnir uppfylli ákvæði íslenskra laga til birgðahalds?
     9.      Hver er ástæða þess að hluti ástandsskýrslu, m.a. að því er varðar kostnað við endurbætur, niðurrif o.fl., er ekki birtur í sölugögnum?
     10.      Er vitað um mengun í jarðvegi, olíu eða önnur mengandi efni, á því svæði sem fyrirhugað er að selja? Ef svo er, hvíla kvaðir á landeiganda varðandi hreinsun?


Skriflegt svar óskast.