Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.

Þskj. 87  —  87. mál.




Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra fer með lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana innan lands og utan, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár, ríkisábyrgðir og Ríkisábyrgðasjóð.

2. gr.

    Í stað orðanna „Í störfum sínum skal Lánasýsla ríkisins stefna“ í 2. gr. laganna kemur: Lánasýsla ríkisins skal stefna.

3. gr.

    3., 4., 8. og 10. gr. laganna falla brott og breytist greinatala samkvæmt því.

4. gr.

    Í stað orðanna „Lánasýsla ríkisins“ í 1. mgr. 5. gr. laganna og orðanna „Lánasýslu ríkisins“ í 2. mgr. sömu greinar kemur: fjármálaráðherra.

5. gr.

    Í stað orðanna „Lánasýslu ríkisins“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. og í 2. og 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: fjármálaráðherra.

6. gr.

    Í stað orðanna „Lánasýsla ríkisins“ í 1. mgr. 7. gr. laganna og orðanna „Lánasýslu ríkisins í 2. mgr. sömu greinar kemur: fjármálaráðherra.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Orðið „erlendra“ fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „Lánasýslu ríkisins eru falin“ kemur: fjármálaráðherra fer með samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

    Orðin „og starfsemi Lánasýslu ríksins“ í 11. gr. laganna falla brott.

9. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Fjármálaráðherra tekur við almennum réttindum og skyldum Lánasýslu ríkisins og við samningum við þriðja aðila eftir því sem við getur átt samkvæmt ákvæðum laga þessara.

10. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um lánasýslu ríkisins.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008. Við gildistöku laga þessara verður Lánasýsla ríkisins lögð niður.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 43/1990, um Lánasýslu ríkisins, sem fela í sér að starfsemi stofnunarinnar Lánasýslu ríkisins verði lögð niður en þau ákvæði laganna sem snúa að lánastýringu og almennri lánaumsýslu ríkissjóðs standi óbreytt.
    Lögin um Lánasýslu ríkisins voru upphaflega sett á þeim tíma er miklar breytingar áttu sér stað á íslenskum fjármálamarkaði í frjálsræðisátt, m.a. með uppbyggingu markaðsviðskipta. Þetta breytta umhverfi leiddi til þess að endurskoða þurfti stöðu, þróun og markaðssetningu ríkisverðbréfa. Talið var heppilegra á þeim tíma að það yrði gert með því að setja á fót sérstaka stofnun sem færi með þetta verkefni á innlenda fjármagnsmarkaðnum en að það yrði að hluta til innan fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans eins og verið hafði. Hins vegar var gert ráð fyrir að Seðlabanki Íslands mundi áfram sinna erlendum lánamálum ríkissjóðs.
    Á þeim tíma sem liðinn er frá lagasetningu þessari hafa miklar breytingar orðið á umhverfi lánaumsýslu ríkissjóðs. Innlendi fjármálamarkaðurinn hefur tekið stórstígum framförum og fyrirtæki sem þar starfa eru nú tilbúin að taka við stærri verkefnum en áður. Þá hefur ríkissjóður alfarið dregið sig út af smásölumarkaði og selur nú ríkisverðbréf eingöngu í útboðum til viðskiptavaka sem miðla bréfunum áfram út á markað til viðskiptaaðila. Samkeppnisstaða og hlutverk ríkisverðbréfa hefur einnig breyst þar sem fjármálafyrirtæki telja nú mikilvægt að til séu markaðshæfir flokkar ríkisverðbréfa sem geta myndað vaxtaviðmiðun fyrir önnur verðbréfaviðskipti á markaði. Hins vegar hefur minni lánsfjárþörf ríkissjóðs og takmörkun endurlána dregið verulega úr umfangi verðbréfaútgáfu ríkissjóðs undanfarin missiri og útgáfan því ekki í samkeppni um fjármagn með sama hætti og áður. Fjármálafyrirtækin líta þar af leiðandi ekki lengur á ríkisverðbréf sem samkeppnisvöru heldur sem mikilvægan þátt til að viðhalda öflugum fjármálamarkaði með íslensk verðbréf sem einfaldar bæði markaðssetningu og söluferli ríkisverðbréfa frá því sem áður var. Því er nú talið mögulegt að framkvæma lánaumsýslu ríkissjóðs með hagkvæmari hætti en verið hefur með því að flytja verkefni Lánasýslu ríkisins til Seðlabanka Íslands. Helstu kostir við að færa heildarumsjón lánamála ríkissjóðs á einn stað eru að með því fæst betri yfirsýn og skilvirkari lána-, gjaldeyris- og lausafjárstýring og hagræðing næst hvað varðar fastan kostnað og nýtingu starfsmanna.
    Gerður hefur verið samningur milli fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands um þetta verkefni og tók hann gildi 1. október 2007. Markmið samningsins er að stuðla að hagkvæmri og vandaðri lánaumsýslu fyrir ríkissjóð sem byggist á stefnumörkun fjármálaráðuneytisins í lánamálum. Í því felst að halda innlendum og erlendum vaxta- og fjármagnskostnaði ríkisins í lágmarki með því að leita hagkvæmra fjármögnunarleiða fyrir ríkissjóð innan lands sem erlendis, dreifa gengis-, vaxta- og verðlagsáhættu vegna skulda ríkissjóðs á sem hagkvæmastan hátt og draga eins og kostur er úr áhættu ríkissjóðs vegna ábyrgða og endurlána. Þar sem eitt meginhlutverk Seðlabankans snýr að peningamálastjórnun, sem þarf ekki alltaf að fara saman við hagkvæma lánastýringu ríkissjóðs, er í samningnum skýrt kveðið á um verkskiptingu milli aðila og um ákvörðunarvald fjármálaráðuneytisins í lánamálum og endanlegt úrslitavald ráðuneytisins gagnvart framkvæmd samningsins. Þannig skal ábyrgð á stjórn lánamála ríkisins vera í höndum fjármálaráðuneytisins sem tekur ákvarðanir um skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs. Ráðuneytið ákvarðar ávöxtunarkröfu tekinna tilboða í útboðum ríkisverðbréfa, tekur ákvarðanir um uppbyggingu einstakra lánaflokka, tímalengd og eiginleika þeirra, uppkaup flokka og/eða gerð skiptasamninga. Seðlabankinn sér hins vegar um framkvæmdina og skuldstýringu í umboði fjármálaráðuneytis og í samræmi við viðmiðunarreglur sem settar eru af ráðuneytinu.
    Þetta fyrirkomulag er ekki ósvipað því og er við lýði í Danmörku og Noregi en horft var til þessara landa við ákvörðunartöku um breytta tilhögun lánaumsýslu ríkissjóðs.
    Á grundvelli þess sem að framan er greint er starfsemi Lánasýslu ríkisins lögð niður með frumvarpi þessu, án þess þó að það hniki frá markmiðum laga nr. 43/1990 um hagkvæma lánaumsýslu ríkissjóðs. Eftir standa ákvæði sem snúa að almennri lánaumsýslu ríkissjóðs sem eru að mestu í óbreyttri mynd frá lögum nr. 43/1990 þótt þau hafi verið aðlöguð niðurlagningu Lánasýslu ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þar sem starfsemi Lánasýslu ríksins verður lögð niður nái áform frumvarpsins fram að ganga gerir ákvæði 1. gr. ráð fyrir að fjármálaráðherra fari með lánasýslu ríksins innan lands og utan, þ.e. lántökur ríkissjóðs, útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og aðra skuldaumsýslu fyrir ríkissjóð, svo og endurlán lánsfjár, lausafjárstýringu, ríkisábyrgðir og Ríkisábyrgðasjóð. Um Ríkisábyrgðasjóð er nánar kveðið á í lögum nr. 121/1997, með síðari breytingum.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um þau meginmarkmið sem stefna skal að með lánasýslu ríkisins.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Fjármálaráðherra tekur við réttindum og skyldum Lánasýslu ríkisins við niðurlagningu stofnunarinnar eins og segir í ákvæði til bráðabirgða, sbr. 9. gr. frumvarpsins.

Um 5. og 6. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


    Lagt er til að heimilt verði að semja við Seðlabanka Íslands um að hann annist framkvæmd þeirra verkefna sem fjármálaráðherra fer með samkvæmt lögunum.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um að starfsemi Lánasýslu ríksins verði lögð niður og að fjármálaráðherra taki við almennum réttindum og skyldum stofnunarinnar og við samningum við þriðja aðila eftir því sem við getur átt.

Um 10. gr.


    Svo sem segir í almennum athugasemdum frumvarpsins er lagt til að stofnunin Lánasýsla ríkisins verði lögð niður en að þau ákvæði laganna sem snúa að lánastýringu og almennri lánaumsýslu ríkissjóðs standi óbreytt. Lagt er til að heiti laganna breytist til samræmis.

Um 11. gr.


    Lánasýsla ríkisins hætti starfsemi 1. október 2007 en gert er ráð fyrir að stofnunin verði formlega lögð niður 1. janúar 2008 þegar lög þessi taka gildi.



Fylgiskjal.


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 43/1990,
um Lánasýslu ríkisins, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta miðar að breyttu fyrirkomulagi á umsýslu með lánsfjármálum ríkissjóðs með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á þessu sviði frá því lögin um Lánasýslu ríkisins voru sett fyrir 17 árum. Þar á meðal má nefna öra framþróun fjármálamarkaðarins hér á landi, að ríkissjóður hefur dregið sig út af smásölumarkaði verðbréfa og selur eingöngu til viðskiptavaka og að ríkisverðbréf gegna nú fremur því hlutverki að vera vaxtaviðmið á markaðinum á sama tíma og lánsfjárþörf ríkissjóðs hefur dregist verulega saman. Við núverandi aðstæður er talið hagkvæmara að færa verkefni Lánasýslu ríkisins til Seðlabanka Íslands, sem annast hefur um erlend lánamál ríkissjóðs, og koma þannig allri umsýslunni fyrir á einum stað til að ná fram meiri skilvirkni og betri yfirsýn. Á grundvelli heimildar í núgildandi lögum hefur þegar verið gerður samningur milli fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans um þessi verkefni. Samkvæmt samningnum verða bankanum greiddar 75 m.kr. árlega fyrir þessa þjónustu en rekstrarkostnaður Lánasýslunnar nemur um 135 m.kr. samkvæmt gildandi fjárlögum þannig að sá kostnaður lækkar um 60 m.kr. Helstu breytingarnar samkvæmt frumvarpinu eru því þær að í ljósi þessa breytta fyrirkomulags er lagt til að ákvæði um Lánasýslu ríkisins verði felld niður í lögunum en að önnur ákvæði laganna varðandi lánsfjármál ríkissjóðs verði að mestu óbreytt. Eftir þessa breytingu verður stefnumörkun og ákvarðanataka um lánsfjármálin á hendi fjármálaráðuneytisins en Seðlabankinn annast um framkvæmdina í umboði ráðuneytisins.