Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 92. máls.

Þskj. 92  —  92. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      A-liður 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Skipulagningu ferða, til hópa og einstaklinga, innan lands og erlendis.
     b.      D-liður 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Dagsferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundaiðju, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar og ævintýraferðir með sérútbúnum ökutækjum.

2. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
    Ferðamálastofa skal eiga myndrænt auðkenni sem leyfishafi skal nota í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á heimasíðu sinni. Í sérstökum tilvikum er Ferðamálastofu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessu og skal leyfishafi sækja um slíka undanþágu til Ferðamálastofu.

3. gr.

    Í stað orðanna „30. apríl“ í 3. mgr. 18. gr. laganna kemur: 1. október.

4. gr.

    Í stað orðsins „verður“ í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: er úrskurðaður.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Hver sá sem rekur leyfisskylda eða skráningarskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða skráningar skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Gildir þetta jafnt um þá sem reka starfsemi án leyfis og þegar starfsemi samræmist ekki útgefnu leyfi eða skráningu. Heimilt er jafnframt í tilefni brota að beita úrræði 3. mgr. um lokun starfsstöðvar þar sem brot er framið.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Ef leyfis- og skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er rekin án tilskilins leyfis eða skráningar ber lögreglustjóra, að beiðni Ferðamálastofu og án fyrirvara eða aðvörunar, að stöðva starfsemina, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun heimasíðu. Á það við um eftirfarandi tilvik:
                  a.      Þegar ekki hefur verið gefið út leyfi vegna leyfisskyldrar starfsemi eða skráningarskyld starfsemi ekki skráð, leyfi hefur verið lagt inn, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því.
                  b.      Þegar leyfis- og skráningarskyld starfsemi fer út fyrir mörk útgefins leyfis eða skráningar.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 1. janúar 2006 tóku gildi ný lög um skipan ferðamála og tóku þau við af lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála. Meðal helstu breytinga með nýjum lögum voru skipulagsbreytingar sem fólu það í sér að skrifstofa Ferðamálaráðs var gerð að eiginlegri stjórnsýslustofnun, Ferðamálastofu, með það hlutverk að sjá um leyfisveitingar vegna starfsemi sem undir lögin fellur og umsýslu trygginga vegna alferða en þessum málum hafði áður verið sinnt í samgönguráðuneytinu.
    Að auki voru settar skýrari og fyllri reglur um þá starfsemi sem er leyfisskyld samkvæmt lögunum en leyfisskyldir aðilar eru ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Einnig er skýrt kveðið á um það að einungis þeir sem selja alferðir eru tryggingarskyldir og að slík starfsemi fellur aðeins undir starfsemi ferðaskrifstofu. Þá var kveðið á um tilkynningarskyldu aðila sem einungis sinna bókunarþjónustu og upplýsingagjöf til almennings um starfsemina til Ferðamálastofu.
    Almennt hefur vel tekist til við framkvæmd laganna og ekki síst markmið þeirra hvað varðar leyfismál að það sé eftirsóknarvert og jákvætt að hafa leyfi fyrir rekstrinum og þeir sem stunda þessa starfsemi sjái sér hag í því, enda felst óneitanlega í því ákveðinn gæðastimpill gagnvart viðskiptavinum. Þó má að sjálfsögðu alltaf gera betur og á því eina og hálfa ári sem liðið er síðan lögin tóku gildi hefur orðið vart við nokkur atriði sem betur mega fara. Er frumvarpi þessu ætlað að bæta úr því og eru með því lagðar til breytingar í því skyni. Þær helstu varða úrræði vegna brota gegn lögunum og þá helst það úrræði að loka starfsstöð þar sem brot er framið. Þá hefur borið á misskilningi varðandi skilgreiningu hugtakanna ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjandi og muninn þar á.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með breytingum á a-lið 1. tölul. 1. mgr. er lagt til að skerpt verði á skilgreiningu hugtaksins ferðaskipuleggjandi þar sem mjög algengt er að umsækjendur um leyfi rugli því hugtaki saman við ferðaskrifstofu. Kemur það sérstaklega til af því að umsækjendur átta sig ekki á því að munur er á því að selja eiginlegar ferðir og því að selja ákveðið skipulag ferða þar sem ekki er verið að selja ferðina sjálfa á heildarverði beint til neytandans. Þannig hefur orðið „dvöl“ í a-lið verið túlkað þannig að sala á gistingu geti verið innifalin.
    Sem dæmi má nefna að fyrirtæki hér á landi skipuleggur ferð sem felur í sér flug, gistingu og einhverja afþreyingu. Fyrirtækið hefur tvo kosti, að selja ferðirnar sjálft beint til neytandans, og er það þá ferðaskrifstofa að selja alferð, eða fela ferðaskrifstofu, hvort sem er innlendri eða erlendi, að selja pakkann og kemur það þá ekki fram gagnvart neytandanum sem ferðaskrifstofa. Viðkomandi er þá einungis að selja skipulag ferðarinnar en ferðaskrifstofan selur alferðina. Aðeins í því tilfelli þar sem alferð er seld beint til neytandans er um tryggingarskylda starfsemi að ræða og er það ferðaskrifstofan sem tekur við greiðslunni frá viðskiptavininum sem er tryggingarskyld gagnvart honum. Ekki þykir ástæða til að fara einnig fram á alferðatryggingu frá þeim sem einungis selur skipulagið til ferðaskrifstofunnar, sérstaklega í ljósi þess að sá aðili telur ekki við greiðslu beint úr hendi neytandans, heldur fær greitt fyrir sinn þátt í formi þóknunar eða endurgjalds frá viðkomandi ferðaskrifstofu. Hins vegar verður í því tilviki að neytandanum er ætlað að greiða beint til viðkomandi skipuleggjanda að fara fram á tryggingu og því er nauðsynlegt að sá þáttur liggi ljós fyrir þegar sótt er um leyfi.
    Þá er lagt til að d-lið 1. tölul. verði breytt þannig að þar komi skýrt fram að hér undir falli hvers kyns mislangar dagsferðir sem bjóða upp á ýmiss konar afþreyingu og frístundaiðju og þeirri sömu upptalningu því sleppt í a-lið.

Um 2. gr.


    Í 8. gr. gildandi laga er kveðið á um heimild leyfishafa til að nota auðkenni auk skyldu hans til að nota það í auglýsingum. Þykir þetta orðalag til þess fallið að geta valdið misskilningi og eðlilegra að leyfishöfum verði gert skylt að nota auðkennið enda er tilgangur þess að vera eins konar gæðastimpill fyrir þjónustuna.
    Breyting sú sem lögð er til á 8. gr. er ætlað að bæta úr þessu og er lagt til að þeim sem fær leyfi Ferðamálastofu til starfsemi sem undir lögin fellur skuli vera skylt að nota myndræna auðkennið. Með því þykir markmiðinu með auðkenninu náð en það er að neytendur geti sjálfir gengið úr skugga um að tilskilið leyfi sé fyrir hendi hjá þeim sem þeir skipta við. Þá þykir þetta ekki vera íþyngjandi fyrir leyfishafa enda hafa þeir almennt tekið því vel að nota auðkennið.
    Ekki þykir þó rétt að hafa skyldu þessa algjörlega skilyrðislausa enda geta verið sérstakar ástæður sem leiða til að leyfishafa er það ekki mögulegt. Er því lagt til að hægt verði að sækja um undanþágu frá þessari skyldu til Ferðamálastofu hvort sem er til lengri eða skemmri tíma. Þær sérstöku ástæður sem má hugsa sér að geti heimilað undanþágu eru t.d. að það sé tæknilega verulega erfitt að nota merkið og/eða kostnaður við það sé verulega íþyngjandi að teknu tilliti til umfangs starfseminnar. Önnur tilvik geta að sjálfsögðu komið til greina og er mat á þessu lagt í hendur Ferðamálastofu.

Um 3. gr.


    Bent hefur verið á að fyrirtæki geti fengið frest til september eða október til að skila ársreikningum til ríkisskattstjóra. Almennt séu því ársreikningar ekki tilbúnir fyrr en þá og því óraunhæft að krefjast þess að ársreikningum sé skilað fyrir 30. apríl. Breytingu þessari er ætlað að bæta úr því og samræma ársreikningaskil raunveruleikanum.

Um 4. gr.


    Í 21. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir að leyfi falli niður ef leyfishafi verður gjaldþrota án þess að nánar sé gerð grein fyrir hvenær það tímamark er komið. Skýrara þykir að miða við það tímamark þegar viðkomandi er úrskurðaður gjaldþrota enda er það almennt skýrt og ótvírætt og margvísleg réttaráhrif því tengd sem eðlilegt er að eigi einnig við um starfsemi sem á undir lögin.

Um 5. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 26. gr. gildandi laga um úrræði vegna brota á lögunum. Í greininni er m.a. kveðið á um að leita megi dómsúrskurðar um stöðvun starfsemi sem fram fer án tilskilins leyfis, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun heimasíðu.
    Réttarfarslega þykir ákvæði þetta ekki nægilega skýrt miðað við það ferli sem mál hafa farið í hjá Ferðamálastofu. Kærur hafa verið sendar lögreglustjórum í viðkomandi sveitarfélagi og er þá gert ráð fyrir að lögreglan geti leitað dómsúrskurðar og á grundvelli hans látið loka hjá þeim sem stunda leyfisskylda starfsemi án leyfis. Hins vegar hefur ákvæðið ekki þótt nægilega skýrt hvað varðar heimildir lögreglu til lokunar þar sem þeirra er ekki beint getið þar, enda um verulega íþyngjandi aðgerð að ræða sem fara þarf varlega í að beita. Breytingum sem lagðar eru til á hér er ætlað að bæta úr þessu og kveða skýrt á um heimild lögreglu til að loka stöðum þar sem brot eru framin.
    Í a-lið er lögð til skýrari brotalýsing og einnig kveðið á um heimild til beitingar þvingunarúrræðisins í tilefni brota.
    Í b-lið er lagt til að framkvæmd við beitingu þvingunarúrræða verði sú að Ferðamálastofa óski eftir því við lögreglustjóra á viðkomandi stað að starfsemi verði stöðvuð, svo sem með lokun starfsstöðvar og lokun heimasíðu og er jafnframt kveðið á um að lögreglu beri að verða við slíkri beiðni. Lagt er til að þetta geti farið fram án fyrirvara eða aðvörunar, hvort sem er af hálfu Ferðamálastofu eða lögreglunnar, enda gert ráð fyrir að Ferðamálastofa hafi áður gert viðkomandi grein fyrir að þessu úrræði verði beitt fyrirvaralaust ef ekki er látið af broti. Til nánari skýringar og af því að um íþyngjandi úrræði er að ræða er lagt til að talin verði upp í ákvæðinu þau tilvik þegar þetta er heimilt og er um tæmandi talningu að ræða.

6. gr.

    Lagt er til að lögin taki þegar gildi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 73/2005,
um skipan ferðamála.

    Meginmarkmið með frumvarpinu er að sníða af ýmsa vankanta sem komið hafa upp við framkvæmd frá því að lög nr. 73/2005, um skipan ferðamála, tóku gildi. Helstu atriðin sem frumvarpinu er ætlað að bæta úr varða úrræði vegna brota gegn lögunum. Þá hefur borið á misskilningi varðandi skilgreiningu hugtakanna ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjandi og muninn þar á og einnig hvað telst nákvæmlega til skráningarskyldrar bókunarþjónustu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.