Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.

Þskj. 94  —  94. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    1. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. nóvember 2008.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 132. löggjafarþingi var frumvarp til nýrra vatnalaga samþykkt sem lög frá Alþingi. Lögunum er ætlað að leysa af hólmi eldri vatnalög, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Markmiðið með setningu nýrra vatnalaga var að samræma ákvæði vatnalaga annarri löggjöf, sem sett hafði verið á þeim tíma sem liðinn var frá gildistöku laganna, auk þess sem einstakir kaflar og einstök ákvæði laganna töldust úrelt eða væri betur fyrir komið annars staðar í lögum. Þá var talið nauðsynlegt að taka stjórnsýslu vatnamála til endurskoðunar.
    Við umfjöllun Alþingis á 132. löggjafarþingi kom upp ágreiningur um þá tilhögun frumvarpsins að taka upp neikvæða skilgreiningu eignarréttar á eignarhaldi á vatni í stað jákvæðrar skilgreiningar vatnalaga, nr. 15/1923, á rétti landareignar til hagnýtingar og umráða á vatni. Við aðra umræðu um frumvarpið náðu þingflokkar samkomulagi um meðferð frumvarpsins sem þáverandi iðnaðarráðherra gerði svohljóðandi grein fyrir við framhald annarrar umræðu á 86. fundi, miðvikudaginn 15. mars 2006:
    „Hæstv. forseti. Í gærkvöldi náðist samkomulag um meðferð vatnalagafrumvarpsins á hv. Alþingi og ég vil segja það að mér finnst mikilvægt að þingflokkar geti náð slíku samkomulagi þrátt fyrir efnislegan ágreining sem vissulega er í þessu máli. Ég mun nú lesa yfir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tilefni af samkomulaginu, með leyfi forseta:
    „Náðst hefur samkomulag milli allra þingflokka um framvindu frumvarps til nýrra vatnalaga. Samkomulagið felur í sér að iðnaðarráðherra mun, þegar frumvarpið hefur verið samþykkt, skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka, auk eins fulltrúa sem tilnefndur skal af umhverfisráðherra og formanns sem skipaður skal án tilnefningar. Skal nefnd þessi taka til skoðunar samræmi laga þessara við önnur þau lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða, þar á meðal fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra til vatnsverndarlaga, sem byggjast mun að stofni til á tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2000, nr. 60, og fyrirhugað frumvarp iðnaðarráðherra til laga um jarðrænar auðlindir.
    Í starfi sínu skal nefndin einnig hafa til hliðsjónar tillögur nefndar iðnaðarráðherra, sem skipuð er á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, svo sem þeim hefur verið breytt á yfirstandandi þingi. Nefndin skal skila áliti sínu eigi síðar en 1. október 2006.
    Þá hefur verið ákveðið að gildistöku nýrra vatnalaga verði frestað fram til 1. nóvember 2007.“
    Þá hef ég farið yfir það sem samkomulag varð um í gærkvöldi.“
    Í samræmi við samkomulagið leitaði iðnaðarráðuneytið tilnefninga í umrædda nefnd. Tafir á tilnefningum, upptöku vatnatilskipunar Evrópusambandsins í EES-samninginn og framlagningu frumvarps til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu urðu hins vegar til þess að ekkert varð af skipun nefndarinnar.
    Í ljósi samkomulags þingflokka á 132. löggjafarþingi og yfirvofandi breytinga á fyrirkomulagi vatnamála í tengslum við vatnatilskipun Evrópusambandsins er í frumvarpinu lagt til að gildistöku nýrra vatnalaga verði frestað til 1. nóvember 2008. Með þeirri frestun skapast skilyrði til að uppfylla efni þess samkomulags sem náðist á 132. löggjafarþingi og vinna úr niðurstöðum nefndarinnar áður en ný vatnalög öðlast gildi.




Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 20/2006.

    Markmið frumvarpsins er að fresta gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, til 1. nóvember 2008.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.