Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 95. máls.

Þskj. 95  —  95. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert
eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar skv. 5. gr. skulu standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.

    4. gr. laganna og fyrirsögn orðast svo:

Álagningarstofn.


    Álagningarstofn eftirlitsgjalds er ársreikningur eftirlitsskylds aðila fyrir næstliðið ár þegar skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 2. gr. er samin.
    Hafi tveir eða fleiri eftirlitsskyldir aðilar sameinast skal miða álagningu við samanlagða ársreikninga þeirra fyrir næstliðið ár skv. 1. mgr. Sama á við um samruna eftirlitsskylds aðila við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess.
    Sé ársreikningur ekki fyrir hendi þar sem eftirlitsskyldur aðili er að hefja hina eftirlitsskyldu starfsemi skal miða álagningu við lágmarksgjald skv. 5. gr. Sé ársreikningur fyrir hendi fyrir fyrri starfsemi viðkomandi fyrirtækis er heimilt að nota hann sem álagningargrunn. Heimilt er að beita ákvæðum 2. mgr. ef við á.
    Álagningarstofn eftirlitsgjalds á útgefendur fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, er markaðsvirði þeirra í árslok næstliðins árs þegar skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 2. gr. er samin, sbr. nánar 5. og 6. mgr. 5. gr. Álagningarstofn vegna fjármálagerninga sem teknir eru til skráningar á því ári sem skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 2. gr. er samin skal vera markaðsvirði þeirra í lok þess sama árs. Með markaðsvirði er átt við nafnvirði fjármálagernings margfaldað með gengi samkvæmt upplýsingum skipulegs verðbréfamarkaðar og markaðstorgs fjármálagerninga.
    Álagning eftirlitsgjalds á eftirlitsskylda aðila skv. 1.–3. mgr. er óháð álagningu eftirlitsgjalds á eftirlitsskylda aðila sem eru útgefendur fjármálagerninga skv. 4. mgr.
    Hafi tveir eða fleiri útgefendur fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, sameinast er heimilt að miða álagningu við samanlagt markaðsvirði fjármálagerninga þeirra.

3. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki skulu greiða 0,00661% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,425% af bókfærðum iðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,215% af þeim iðgjöldum sem miðlað hefur verið á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 300.000 kr.
     4.      Verðbréfafyrirtæki skulu greiða 0,061% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr. Verðbréfamiðlanir skulu greiða 0,061% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,0074% af eignum rekstrarfélags og viðkomandi sjóða samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     5.      Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,61% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     6.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00891% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 700.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 1.120.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 1.960.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum til tuttugu og fimm milljarða króna, 3.650.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum til eitt hundrað milljarða króna og 4.210.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við hreina eign til greiðslu lífeyris.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,84% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     8.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
     9.      Íbúðalánasjóður skal greiða 0,00275% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     10.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/10 hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 1/5 hluta eftirlitsgjalds samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr. enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
    Eignarhaldsfélög á fjármálasviði, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög, blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi skulu greiða fastagjald sem nemur 1.500.000 kr.
    Útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, skulu greiða fastagjald tengt fjárhæð markaðsvirðis útgefinna hlutabréfa sinna. Greiða skal 300.000 kr. fastagjald vegna hlutabréfa að markaðsvirði undir fimm milljörðum króna, 800.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá fimm til tuttugu og fimm milljarða króna, 2.400.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá tuttugu og fimm til eitt hundrað milljarða króna, 4.400.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá eitt hundrað til fimm hundruð milljarða króna og 6.300.000 kr. vegna hlutabréfa með markaðsvirði yfir fimm hundruð milljarða króna.
    Útgefendur skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, skulu greiða fastagjald tengt fjárhæð markaðsvirðis útgefinna skuldabréfa sinna. Greiða skal 100.000 kr. fastagjald vegna skuldabréfa að markaðsvirði undir einum milljarði króna, 150.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá einum til fimm milljarða króna, 350.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá fimm til tíu milljarða króna, 600.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá tíu til fimmtíu milljarða króna, 850.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá fimmtíu til tvö hundruð milljarða króna og 1.000.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði yfir tvö hundruð milljarða króna.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „eftirlitsskyldum aðilum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: og öðrum gjaldskyldum aðilum.
     b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Framangreind greiðsluskipting tekur þó ekki til álagðs eftirlitsgjalds sem nemur 300 þús. kr. eða lægri fjárhæð og innheimta skal í einni greiðslu 1. febrúar.
     c.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
                  Ákvæði lokamálsliðar 3. mgr. gildir eftir því sem við á um fjármálagerninga sem teknir hafa verið úr viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi á álagningarári.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, segir: „Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Áætlað álagt eftirlitsgjald á árinu 2007 er 601,9 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 915 millj. kr. árið 2008 og nemur áætluð hækkun á milli ára 313,1 millj. kr. eða 52%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2007 er 607,6 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2008 nemur 946,1 millj. kr. sem er hækkun um 338,6 millj. kr. eða 55,7%. Að undanskildum áhrifum af greiðslu vegna samkomulags við Lífeyrissjóð bankamanna á árinu 2007 telst hækkunin vera 372 millj. kr. eða 64,8%. Þar af er gert ráð fyrir aukningu vegna launa og launatengdra gjalda sem nemur 263,7 millj. kr. eða 64%. Áætluð aukning annars rekstrarkostnaðar nemur samtals 108,3 millj. kr. eða 66,8% en þar vegur þyngst húsnæðiskostnaður sem áætlað er að hækki um tæplega 60 millj. kr. vegna flutnings í stærra húsnæði.
    Nánari sundurgreining á hækkun launa og launatengdra gjalda er eftirfarandi: 1) fyrirséðar samningsbundnar launahækkanir (u.þ.b. 7%) og áhrif launahækkana í samræmi við heimildir rekstraráætlunar 2007 reiknast vera 52,5 millj. kr. Rétt er að benda á að kjarasamningar eru lausir á árinu 2008 og því erfitt að áætla þessa fjárhæð, 2) 121 millj. kr. vegna fjölgunar starfsmanna um 10 á árinu 2008 auk áhrifa af ráðningu tveggja nýrra starfsmanna á árinu 2007 vegna laga nr. 55/2007, 3) 45,1 millj. kr., sem áætlað svigrúm til að bregðast við óvæntum útgjöldum og launaskriði vegna þenslu í launakostnaði á fjármálamarkaði, þróa „kælitímasamninga“ frekar og bregðast við óvæntri starfsmannaveltu, 4) 45,1 millj. kr. til að þróa árangurs- og frammistöðutengt launakerfi. Rök fyrir þörf á fjölgun starfsmanna er að finna í fylgiskjali með skýrslu stofnunarinnar til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað árið 2008 „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár“ sem er fylgiskjal með frumvarpinu.
    Nánari sundurgreiningu á einstökum kostnaðarliðum að öðru leyti er að finna í skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað árið 2008, sem er fylgiskjal með frumvarpinu.     Frumvarpið gerir ráð fyrir að álagt eftirlitsgjald árið 2008 nemi 915 millj. kr. og er skipting þess milli flokka eftirlitsskyldra aðila byggð á mati sem grundvallast á tímaskráningu Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt frumvarpinu er nýjum flokki nú bætt inn í þessa skiptingu. Tímaskráning Fjármálaeftirlitsins verður ekki nema að hluta tengd ákveðnum eftirlitsskyldum aðilum eða flokkum þeirra. Fjölmörg mál og eftirlitsverkefni eru almenns eðlis (cross-sectoral) og varða fleiri en einn flokk eftirlitsskyldra aðila eða markaði í heild. Undir tímaskráningu á verðbréfamarkað fellur vinna sem varðar annars vegar eftirlit með markaðsaðilum (kauphallaraðilum), um 10%, og hins vegar útgefendum hluta- og skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, tæplega 10%. Samtals nemur hlutur verkefna sem tengjast verðbréfamarkaði því um fimmtungi af tíma Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitsverkefni sem snerta þessa aðila hafa farið vaxandi með árunum en þeir hins vegar ekkert greitt til rekstrar Fjármálaeftirlitsins nema þeir hafi jafnframt verið eftirlitsskyldir aðilar samkvæmt lögum nr. 99/1999 sem reyndar á við um fjölmarga útgefendur hlutabréfa og skuldabréfa.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir sérstöku eftirlitsgjaldi á útgefendur fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir sérstöku gjaldi á markaðsaðila (kauphallaraðila) og eru færð rök fyrir því í kafla 4 í fylgiskjali I með frumvarpinu. Útfærsla frumvarpsins á eftirlitsgjaldi á útgefendur fjármálagerninga tekur þó aðeins til hlutabréfa og skuldabréfa en búast má við að í náinni framtíð þurfi að skoða hvort ástæða sé til að eftirlitsgjald nái til fleiri tegunda skráðra fjármálagerninga. Gert er ráð fyrir að 9,4% af tekjuþörf stofnunarinnar á árinu 2008 verði dreift á útgefendur hlutabréfa og skuldabréfa í formi þrepaskipts fastagjalds á einstaka aðila en þrepaskiptingin ákvarðast af markaðsvirði viðkomandi hlutabréfa og skuldabréfa. Í þessari skiptingu bera útgefendur hlutabréfa 70% og útgefendur skuldabréfa 30% álagðs heildargjalds.
    Með frumvarpi þessu eru birt sem fylgiskjöl gögn sem tilheyra rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008. Þau eru eftirfarandi:
     I.      Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2008, skv. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     II.      Sérstök skýrsla, „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár“. Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2008.
     III.      Umsögn samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, „Um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008“.
    Í þessum gögnum er að finna rekstrar- og tekjuáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2008 auk margvíslegra upplýsinga er varða verkefni og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins og varpa nánara ljósi á rekstrartölurnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. 1. gr. er bætt inn orðunum „og aðrir gjaldskyldir aðilar“. Ástæðan er sú að hugtakið „eftirlitsskyldir aðilar“ í 1. mgr. gildandi laga nær ekki til allra gjaldskyldra aðila, svo sem útgefenda fjármálagerninga, sbr. umfjöllun hér að framan.

Um 2. gr.


    Í fyrirsögn og 1. mgr. hefur orðinu álagningargrunnur verið breytt í álagningarstofn til samræmis við orðanotkun í 1. mgr. 2. gr. laganna.
    2. og 3. mgr. greinarinnar eru óbreyttar frá gildandi lögum.
    Ákvæði 4. mgr. er nýmæli. Þar er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald verði lagt á útgefendur fjármálagerninga, sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, en áætlað er að um tíunda hluta af tíma Fjármálaeftirlitsins sé varið til eftirlits með þessum aðilum. Frumvarpið leggur til að álagningarstofn eftirlitsgjaldsins verði markaðsvirði fjármálagerninga í árslok næstliðins árs, þegar skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 2. gr. laganna er samin. Þegar um er að ræða fjármálagerninga sem teknir hafa verið til skráningar á sama ári og umrædd skýrsla er samin skal miða við markaðsvirði í lok þess sama árs.
    5. mgr. er ætlað að taka af öll tvímæli um að eftirlitsskyldum aðilum sem jafnframt eru útgefendur fjármálagerninga beri auk almenns eftirlitsgjalds að greiða gjald sem útgefendur fjármálagerninga.
    6. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr.

Um 3. gr.


    Breytingar skv. 1. mgr. á álagningarhlutföllum frá gildandi lögum skýrast af lögbundnu endurmati á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna eftirlitsskyldra aðila og nýju mati á kostnaðardreifingu, sem gerð er grein fyrir í fylgiskjali I með frumvarpinu. Þannig er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rekstrarfélaga, kauphalla og verðbréfamiðstöðva lækki en álagningarhlutföll annarra aðila, þ.e. vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs hækki.
    Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. er lögð til einföldun á álagningarstofnum vátryggingafélaga þannig að eftirlitsgjald verði aðeins reiknað af einum álagningarstofni, þ.e. bókfærðum iðgjöldum, í stað þriggja álagningarstofna samkvæmt gildandi lögum. Starfsemi í endurtryggingum er nú hverfandi lítil og sérstaks álagningarstofns hvað slíkar tryggingar varðar því ekki lengur þörf. Sérstakur álagningarstofn vegna söfnunarlíftrygginga var upphaflega ætlaður vegna líftrygginga þar sem líftryggingafélagið ber fjárfestingaráhættuna. Slík starfsemi er nú hverfandi og því ekki lengur talin þörf á þessum álagningarstofni.
    Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. er gert ráð fyrir hækkunum á fastagjöldum lífeyrissjóða sem eru eins og fyrr í fimm þrepum og er lægsta þrepið samkvæmt frumvarpinu nú 720.000 kr. en það hæsta 4.320.000 kr. Breytingin tekur mið af því að fastagjöld lífeyrissjóða nemi hverju sinni um 60% hluta heildarálagningar á lífeyrissjóði og er gerð samkvæmt ósk Landssamtaka lífeyrissjóða.
    Felldur er niður 1. málsl. í 9. tölul. 1. mgr. um álagningu eftirlitsgjalds á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins þar sem sjóðurinn er ekki undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins eftir gildistöku laga nr. 53/2007, um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. eru óbreytt frá gildandi lögum.
    Lagt er til að fastagjald á eignarhaldsfélög á fjármálasviði, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög, blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi, skv. 4. mgr., verði 1.500.000 kr. í stað 600.000 kr., enda hefur aukist umfang eftirlits með slíkum aðilum.
    5. og 6. mgr. greinarinnar eru nýjar. Þar eru ákvæði um sérstakt eftirlitsgjald á útgefendur hluta- og skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi. Lagt er til að eftirlitsgjald á þessa aðila verði lagt á í formi þrepaskipts fastagjalds og taka þrepin mið af markaðsvirði viðkomandi hlutabréfa eða skuldabréfa.
    Í 5. mgr. er kveðið á um fastagjald í fimm þrepum á útgefendur hlutabréfa þar sem lægsta þrepið er 300.000 kr. og það hæsta 6.500.000 kr.
    Í 6. mgr. er kveðið á um fastagjald á útgefendur skuldabréfa í sex þrepum þar sem lægsta þrepið er 100.000 kr. en það hæsta 1.000.000 kr.
    7. mgr. er óbreytt frá 4. mgr. gildandi laga.
    Að öðru leyti en greint er frá hér á undan eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á 5. gr. laganna.

Um 4. gr.


    Í a-lið er lögð til breyting á 1. mgr. til að árétta að ákvæðið nái enn fremur til gjaldskyldra aðila en ákvæði gildandi laga takmarkast við eftirlitsskylda aðila eingöngu, sbr. breytingu sem lögð er til á 1. gr. laganna.
    Í b-lið er lagt til innheimtuhagræði með því að heimila innheimtu lægstu gjaldanna, þ.e. 300 þús. kr. og lægri fjárhæða, í einni greiðslu.
    Í c-lið er lögð til heimild til endurgreiðslu álagðs eftirlitsgjalds til útgefenda fjármálagerninga sem teknir eru úr viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi á álagningarári í samræmi við sambærilegt ákvæði laganna um eftirlitsskylda aðila sem hætta starfsemi.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal I.

Skýrsla til viðskiptaráðherra
um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2008,
skv. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar
við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
(27. júní 2007.)

    Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, er viðskiptaráðherra hér með send rekstraráætlun fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2008. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júlí ár hvert gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur, í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2008. Átti Fjármálaeftirlitið fundi með nefndinni þann 4. júní s.l. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2008. Samráðsnefndin skilaði drögum að skriflegu áliti til Fjármálaeftirlitsins um drögin að rekstraráætluninni þann 25. júní sl. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um álit nefndarinnar á stjórnarfundi þann 26. júní sl. og staðfesti meðfylgjandi rekstraráætlun. Samráðsnefndin skilaði síðan endanlegu áliti sínu á rekstraráætluninni þann 28. júní sem fylgir hjálagt með skýrslunni.
    Í skýrslu þessari er að finna stutta greinargerð um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2006 og umfjöllun um rekstraráætlun vegna ársins 2007. Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir forsendum rekstraráætlunar stofnunarinnar fyrir árið 2008 og tillögum um álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2008. Áætlunin ber þess merki að mikll vöxtur er í fjármálaþjónustugeiranum. Þá er sérstakt við þessa áætlun að mikil aukning húsnæðiskostnaðar verður vegna flutnings í nýtt og stærra húsnæði. Athygli er vakin á að í áætlun fyrir árið 2008 er verið að horfa allt að 18 mánuði fram í tímann varðandi umsvif í rekstri Fjármálaeftirlitsins.
    Skýrslunni fylgja einnig þrjár töflur þar sem gerð er grein fyrir rekstri Fjármálaeftirlitsins á árinu 2006 og samanburði við rekstraráætlun fyrir það ár (tafla 1), áætluðu rekstrarumfangi næsta árs og rekstri Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári (tafla 2) og áætlaðri álagningu eftirlitsgjalds miðað við áætlað rekstrarumfang 2008 (tafla 3). Ársreikningur Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2006 er einnig meðfylgjandi.

1.     Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2006.
    Tekjur af eftirlitsgjaldi námu á árinu 2006 435,1 m.kr. Ýmsar tekjur námu 9,5 m.kr. og fjármunatekjur nettó námu 10,7 m.kr. Rekstrargjöld, að meðtöldum eignakaupum, námu 396,2 m.kr. Tekjuafgangur samkvæmt rekstrarreikningi nam 59,1 m.kr. Eignir í árslok 2006 námu samtals um 58,1 m.kr. og skuldir 9,1 m.kr. þannig að eigið fé í árslok nam 49,0 m.kr.
    Við gerð upphaflegrar rekstraráætlunar (ágúst 2005) fyrir árið 2006 var gert ráð fyrir 16,6 m.kr. tekjuafgangi til að jafna áætlað neikvætt eigið fé í ársbyrjun 2006 að sömu fjárhæð. Við endurskoðun áætlunarinnar (maí 2006) reyndist eigið fé í ársbyrjun vera -10,1 m.kr. í stað -16,6 m.kr. eða bati um 6,5 m.kr. Álögð eftirlitsgjöld voru þá áætluð 11,2 m.kr. hærri og tekjuafgangur því 27,8 m.kr. í stað 16,6 m.kr. í upphaflegu áætluninni. Rauntölur fyrir árið 2006 sýna hins vegar 59,1 m.kr. tekjuafgang eða 31,3 m.kr. hærri fjárhæð en samkvæmt endurskoðuðu áætluninni sbr. ennfremur eftirfarandi töflu. Í aftasta dálki töflunnar er sýnt hvernig umrætt 31 m.kr. frávik skiptist á einstaka helstu rekstrarliði. Veigamesta frávikið tengist launakostnaði sem reyndist rúmlega 28 m.kr. lægri en áætlunin gerði ráð fyrir sem skýrist fyrst og fremst af tímatöf við ráðningu starfsmanna og breytingu á samsetningu starfsmanna í kjölfar mikillar starfsmannaveltu. Nýráðningar á starfsmönnum hafa ennfremur falið í sér að launakostnaður lækkar tímabundið samanborið við launakostnað reyndari starfsmanna. Að frádregnum lausráðnum starfsmönnum eru starfsmenn 40,3 í árslok 2006 í stað 39,3 eins og áætlað var. Hækkun á öðrum gjöldum um rúmlega 8 m.kr. skýrist fyrst og fremst af rekstri tölvubúnaðar og sérfræðikostnaði vegna tölvumála, 5,1 m.kr. og endurmenntunarkostnaði, 3,1 m.kr., samanber ennfremur töflu 1 í viðauka.


Rekstraráætlun
vegna 2006
Upphafleg áætlun
(ágúst 2005)

Endursk. áætlun
(maí 2006)

Rauntölur 2006
Frávik frá áætl. ág. '05 til maí '06 Frávik frá
endurskoð- aðri áætlun
m.kr. m.kr. m.kr. m.kr. m.kr.
Tekjur
Eftirlitsgjald 424,1 435,3 435,1 11,2 -0,2
Úrskurðarnefndir 6,0 6,0 5,6 0,0 -0,4
Aðrar tekjur 0,0 0,0 3,9 0,0 3,9
Vaxtatekjur nettó 3,0 3,0 10,7 0,0 7,7
433,1 444,3 455,3 11,2 11,0
Gjöld
Launakostnaður 307,5 307,5 279,2 0,0 -28,3
Úrskurðarnefndir 6,0 6,0 5,6 0,0 -0,4
Önnur gjöld samt. 103,0 103,0 111,4 0,0 8,4
416,5 416,5 396,2 0,0 -20,3
Tekjuafgangur 16,6 27,8 59,1 11,2 31,3
Yfirfært frá fyrra ári -16,6 -10,1 -10,1 6,5 0,0
Eigið fé í árslok 0 17,7 49,0 17,7 31,3

    Með lögum nr. 168/2006 var Fjármálaeftirlitinu heimilað að mynda varasjóð samsvarandi rekstrarafgangi umfram áætlun sem skerðist ekki þótt síðar verði rekstrartap af starfseminni. Hámark slíks varasjóðs er 5% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs og er heimilt að nýta viðkomandi sjóð til að fjármagna útgjöld umfram áætlanir vegna ófyrirséðra atvika. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 168/2006 gildir framangreint ákvæði um rekstarafgang á árinu 2006 umfram áætlun. Rekstrarafgangur á árinu 2006 umfram áætlun telst vera 31,3 m.kr. (59,1 – 27,8) samanber ofangreinda töflu. Um er að ræða 5,2% af áætluðu eftirlitsgjaldi vegna 2007 (áætlun des. 2006), samanber töflu í kafla 3 hér á eftir. Fyrrgreint 5% hámark samsvarar 30 m.kr.
    Um rekstur og efnahag FME á árinu 2006 er að öðru leyti vísað til ársreiknings Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2006.

2.     Rekstraráætlun vegna ársins 2007.
    Í tengslum við gerð rekstraráætlunar næsta árs hefur Fjármálaeftirlitið á hverju ári skoðað hvort ástæða sé til að endurskoða upphaflega rekstraráætlun yfirstandandi árs í því skyni að áætla eins nákvæmlega og kostur er stöðu í lok árs sem yfirfærist til næsta árs og hefur áhrif á ákvörðun um álagningarhlutföll þess árs. Með hliðsjón af bráðabirgða rekstraruppgjöri fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins sér Fjármálaeftirlitið ekki ástæðu til að endurskoða upphaflega áætlun um rekstrarkostnað fyrir árið 2007 að undanskildum: a) eignakaupum og kostnaði vegna flutnings í nýtt húsnæði að fjárhæð samtals 11,5 m.kr. sem áætlað var að félli til á árinu 2007 en mun frestast til ársins 2008, samanber ennfremur umfjöllun í næsta kafla, b) húsaleigukostnaði sem lækkar um 5,0 m.kr. frá upphaflegri áætlun vegna frestunar á flutningi í stærra og dýrara húsnæði, og c) launakostnaði vegna stjórnarmanna, sem hækkar um 3,0 m.kr. frá því sem áætlað var. Ákvæði nýsamþykktra laga um heimild til að beita stjórnvaldssektum í stað refsimeðferðar vegna brota á lögum um fjármálastarfsemi kalla á að þegar á árinu 2007 þurfi að ráða a.m.k. 2 starfsmenn til að sinna auknum verkefnum á þessu sviði en sú starfsmannaaukning var ekki inni í áætlun fyrir árið 2007. Haft var samráð við samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila í þessu sambandi. Gert er ráð fyrir að 2 starfsmenn verði ráðnir á síðari hluta ársins 2007 af þessu tilefni og að fjöldi starfsmnna verði samtals 45,4 í lok ársins fyrir utan lausráðna starfsmenn. Á þessari stundu er ekki talin ástæða til að breyta áætluðum launakostnaði fyrir árið 2007 en ekki er hægt að útiloka að hann gæti hækkað umfram áætlunina.
    Hvað varðar áætlaðar tekjur ársins 2007 reyndist álagt eftirlitsgjald, sem lagt var á í ársbyrjun 2007, verða 2,0 m.kr. hærra en upphaflega áætlunin fyrir árið 2007 gerði ráð fyrir eða 601,9 m.kr. í stað 599,9 m.kr. og áætlað er að aðrar tekjur verði 4 m.kr. hærri en upphafleg áætlun vegna innheimts útlagðs kostnaðar í tengslum við vinnu við umsókn banka um viðurkenningu á innramats aðferðum við mat á eiginfjárkröfu samkvæmt nýjum eignfjárreglum.
    Samtals breytist þá tekjuafgangur frá upphaflegu áætluninni úr –17,7 m.kr. í 1,7 m.kr. eða 19,4 m.kr. hærri tekjuafgangur. Þá reyndist eigið fé í ársbyrjun 2007 vera 49 m.kr. í stað 17,7 m.kr. eða bati um 31,3 m.kr. Eigið fé í árslok 2007 verður því samtals 50,7 .kr. (31,3 + 19,4) í stað 0 kr. eins og upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Í eftirfarandi töflu er gerð grein fyrir helstu rekstrarstærðum vegna rekstraráætlunar 2007.

Rekstraráætlun
vegna 2007
Rekstraráætlun
(des. 2006)
Endursk. áætlun
(maí 2007)
Frávik frá upphafl. áætlun (des´06)
m.kr. m.kr. m.kr.
Tekjur
Eftirlitsgjald 599,9 601,9 2,0
Úrskurðarnefndir 6,0 6,0 0,0
Aðrar tekjur 0,4 4,4 4,0
Vaxtatekjur nettó 3,0 3,0 0,0
609,3 615,3 6,0
Gjöld
Launakostnaður * 454,8 457,8 3,0
Úrskurðarnefndir 6,0 6,0 0,0
Önnur gjöld samt. 166,2 149,8 -16,4
627,0 613,6 -13,4
Tekjuafgangur -17,7 1,7 19,4
Yfirfært frá fyrra ári 17,7 49,0 31,3
Eigið fé í árslok 0 50,7 50,7
    *) Meðtalið í launakostnaði er 33,4 m.kr. kostnaður vegna samkomulags sem gert var vegna Lífeyrissjóðs Bankamanna.

3.     Rekstraráætlun fyrir árið 2008.
    Í töflu 2 er sýnd rekstraráætlun fyrir árið 2008 í samanburði við rekstraráætlun fyrir árið 2007. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu forsendum hennar.

Launakostnaður.
    Fjöldi starfsmanna er ráðandi þáttur í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Af fjölda starfsmanna ráðast helstu rekstrarstærðir, þ.e. laun og launatengd gjöld, húsnæðisþörf og umfang tölvubúnaðar. Gert er ráð fyrir 10 nýjum starfsmönnum á árinu 2008. Áætlað er að fjöldi starfsmanna í árslok 2007 verði 45,4 og 55,4 í lok árs 2008. Í framangreindum tölum eru ekki meðtaldir lausráðnir starfsmenn, u.þ.b. 4,5 starfsmenn um hvor áramótin en gert er ráð fyrir að þeir séu að jafnaði 3 á árinu 2008. Nánar er fjallað um rökin fyrir þörf á aukningu nýrra starfsmanna í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).
    Í töflu 2 kemur fram að laun og launatengd gjöld eru áætluð 675,7 m.kr. árið 2008 samanborið við 412,0 m.kr. samkvæmt áætlun 2007. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 263,7 m.kr. eða 64%. Nánari sundurgreining á hækkuninni er eftirfarandi: 1) fyrirséðar samningsbundnar launahækkanir (u.þ.b. 7%) og áhrif launahækkana í samræmi við heimildir rekstraráætlunar 2007 reiknast vera 52,5 m.kr. Rétt er að benda á að kjarasamningar eru lausir á árinu 2008 og því erfitt að áætla þessa fjárhæð, 2) 121 m.kr. vegna fjölgunar starfsmanna á árinu 2008 eins og gerð er grein fyrir hér að ofan auk áhrifa af ráðningu 2ja nýrra starfsmanna á árinu 2007 vegna laga nr. 55/2007, 3) 45,1 m.kr., sem áætlað svigrúm til að bregðast við óvæntum útgjöldum og launaskriði vegna þenslu í launakostnaði á fjármálamarkaði, þróa kælitímasamninga frekar og bregðast við óvæntri starfsmannaveltu, og 4) 45,1 m.kr. til að þróa árangurs- og frammistöðutengt launakerfi.
    Gert er ráð fyrir að íþrótta- og gististyrkur hækki um 3,0 m.kr. eða um 100% og er þar haft til hliðsjónar kostnaður vegna árskorts í líkamsræktarstöð og vikudvalar í sumarhúsi og ennfremur fjölgun starfsmanna og betri nýting á styrknum. Áætlað er að stjórnarlaun verði óbreytt frá endurskoðaðri áætlun ársins 2007 en þau hækkuðu á miðju ári 2006 eftir að upphafleg áætlun vegna ársins 2007 var gerð. Viðskiptaráðherra ákvarðar laun stjórnarmanna.

Húsaleiga og rekstur á húsnæði; öryggisgæsla og ræsting meðtalin.
    Húsaleiga í núverandi húsnæði byggir á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlunin gerir ráð fyrir að flutt verði í nýtt húsnæði í byrjun mars 2008. Leiguverð hækkar þá verulega þar sem ljóst er að nýtt húsnæði verður mun stærra en núverandi húsnæði og leiguverð hærra. Áætluð stærð nýs húsnæðis byggir á fyrirliggjandi húsrýmisáætlun með hliðsjón af meðaltali brúttóstærða húsnæðis og leiguverða sem Fjármálaeftirlitinu buðust í mars 2007 við auglýsingu eftir húsnæði. Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélags er byggð á reynslu. Samtals er kostnaður vegna þessara liða áætlaður 60,4 m.kr. samanborið við 24,9 m.kr. á árinu 2007 sem er hækkun um 142,6%. Nánar er gerð grein fyrir fyrirhuguðum flutningi stofnunarinnar í skýrslunni „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár“ sem er fylgiskjal með rekstaráætluninni. Áætlað er að kostnaður vegna öryggisgæslu og ræstingar hækki úr 4,5 m.kr. í 7,6 m.kr. eða 68,9% en sú hækkun stafar fyrst og fremst af stækkun á húsnæði frá og með fyrri hluta ársins 2008.

Kostnaður vegna flutninga/eignakaup.
    Í rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2008 eru áætlaðar 19 m.kr. til endurnýjunar húsbúnaðar stofnunarinnar við flutning og er fjárhæðin reiknuð sem 350 þús .kr. á starfsmann. Áætlað er 2,0 m.kr. í önnur smærri eignakaup. Þá áætlar Fjármálaeftirlitið 2 m.kr. í kostnað við sjálfa flutningana í rekstaráætlun sinni fyrir árið 2008.

Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir að rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála hækki um 1,9 m.kr., eða um 2,8% úr 68,1 m.kr. áætlun fyrir árið 2007 í 70,0 m.kr. á árinu 2008. Haldið er áfram í uppbyggingu á upplýsingakerfum og rafvæðingu ferla. Sjá nánar í kaflanum um nútímavæðingu í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).

Ferðakostnaður, kostnaður vegna funda og þátttökugjöld vegna erlends samstarfs.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður erlendis hækki um 60% milli ára og verði 28,0 m.kr. Gert er ráð fyrir 185 ferðum á næsta ári á móti rúmum 120 árið 2007. Aukningin skýrist af auknum umsvifum íslenskra viðskiptabanka erlendis og auknu samstarfi eftirlita á evrópska efnahagssvæðinu, sbr. enn fremur umfjöllun um þessa þætti í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár). Rétt er að nefna að ítarlegt yfirlit yfir erlent samstarf Fjármálaeftirlitsins er birt á heimasíðu þess.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður innanlands verði 2,8 m.kr. samanborið við 2,0 m.kr. árið 2007 og kostnaður vegna funda innanlands verði 1,2 m.kr. samanborið við 1,0 m.kr. á árinu 2007. Samtals kostnaður vegna þessara tveggja liða er þannig áætlaður 4,0 m.kr. samanborið við 3,0 m.kr. á árinu 2007 eða 33% hækkun. Aukning kostnaðar samkvæmt framansögðu tengist m.a. aukningu á umsvifum í erlendum samskiptum og móttöku erlendra gesta.
    Fjármálaeftirlitinu ber í nokkrum tilvikum að greiða þátttökugjöld í erlendu samstarfi. Hæstu þátttökugjöldin eru vegna þriggja samevrópskra nefnda þ.e. reksturs Samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita, Committee of European Securities Regulators (CESR), Samstarfsnefndar Evrópskra vátryggingaeftirlita og lífeyrissjóðaeftirlita, Committee of European Insurance and Occupational Pension Supervisors (CEIOPS) og Samstarfsnefndar evrópskra bankaeftirlita, Committee of European Banking Supervisiors (CEBS). Starfsemi þessara nefnda er kostuð af þátttakendum í tilteknum stærðarhlutföllum. Þátttökugjöld vegna þessara þriggja nefnda eru áætluð 3,4 m.kr. Þá má nefna þátttökugjald í Alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita (IAIS) 0,7 m.kr. Samtals þátttökugjöld samkvæmt framangreindu eru 4,1 m.kr. af 5,0 m.kr. áætluðum þátttökugjöldum í heild vegna erlends samstarfs og funda erlendis á árinu 2008. Á árinu 2006 var sambærilegur kostnaður samtals 4,0 m.kr.

Stjórnunar- og árangursmæling.
    Í tengslum við innleiðingu á nýrri stefnumótun hefur FME innleitt svonefnt stefnukort (Balanced Scorecard) þar sem sett eru fram 15 meginmarkmið stofnunarinnar. Til þess að mæla hvort FME hafi náð ofangreindum markmiðum hafa verið settir niður 22 mælikvarðar. Flestir þeirra byggja að öllu á innanhúsupplýsingum en í nokkrum tilvikum er byggt á viðhorfkönnunum og greiningarvinnu utanaðkomandi fagaðila. Kostnaðaráætlunin byggir á áföllnum kostnaði vegna einstakra liða á árinu 2006 og tilboða frá ráðgjafafyrirtækjum vegna ársins 2007. Gert er ráð fyrir 2,5 m. kr. til að mæta þessum lið.

Sérfræðikostnaður.
    Áætlað er að sérfræðikostnaður tvöfaldist eða úr 4 m.kr. árið 2007 í 8 m.kr. árið 2008. Ástæður aukningarinnar eru fyrst og fremst aukning í útvistun verkefna, aðkeyptri vinnu lögfræðinga og þýðingarvinnu.

Málskostnaður.
    Hér er um nýjan lið að ræða, sem tekur mið af því að aðilar geta skotið ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins beint til dómstóla. FME gerir ráð fyrir 6 m.kr. kostnaði vegna málskostnaðar á árinu 2008.

Annar kostnaður.
    Samtala kostnaðarliða sem ekki hefur verið gerð grein fyrir hér á undan er áætluð 40,6 m.kr. á árinu 2008 samanborið við 26,3 m.kr. fyrir árið 2007 og nemur hækkunin 14,3 m.kr. eða 54%. Að hluta til stafar hækkunin milli ára af útvistun á símsvörun sem ekki var í áætluninni fyrir árið 2007. Ennfremur stafar hækkunin á þessum kostnaðarliðum af áhrifum af fjölgun starfsmanna og fyrirhugaðri stækkun á húsnæði FME. Í þessu sambandi má nefna að samkvæmt símenntunarstefnu Fjármálaeftirlitsins er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar nemi 3,5% af launum og launatengdum gjöldum. Innifalið í áætluðum endurmenntunarkostnaði er kostnaður vegna starfaskipta. Ekki er gert ráð fyrir sérgreindum lið vegna þessa heldur fellur þessi kostnaður undir liði 6, 7, 12, 18, 19 og 20.

Rekstrarkostnaður samtals.
    Samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda er áætluð 946,2 m.kr. á árinu 2008 samanborið við 607,6 m.kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2007 eða 55,7% hækkun milli ára.

Aðrar tekjur, vaxtatekjur.
    Fjármálaeftirlitið fær vexti af innstæðu á reikningi í Seðlabanka Íslands. Vaxtatekjurnar eru byggðar á áætlaðri meðalstöðu innstæðu m.v. álagningu sem miðast við drög að rekstraráætlun. Aðrar tekjur eru óverulegar eða um 0,5 m.kr. vegna yfirlestrar á útboðslýsingum félaga sem ekki eru skráð á Kauphöll Íslands hf. en um er að ræða tilfallandi tekjur sem óvarlegt er að reikna með í áætlun fyrir næsta ár. Fjármálaeftirlitið áskilur sér jafnframt rétt til að nýta heimildir í 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, og 3. mgr 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, til að innheimta sérstaklega útlagðan kostnað vegna umframeftirlits eða aðkeyptrar sérfræðiþjónustu vegna ákveðinna aðila. Er þar til dæmis haft í huga innleiðing á nýjum eiginfjárreglum og vinna vegna stofnsetningar rekstrareininga erlendis hjá eftirlitsskyldum aðilum sem ekki var gert ráð fyrir í rekstraráætlun.

4.     Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2008.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal Fjármálaeftirlitið í skýrslu þessari leggja fram mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila. Þannig skal hliðsjón höfð af tímaskiptingunni á tilgreindu tímabili samhliða mati á þróun þessarar skiptingar fyrir líðandi ár og næsta fjárhagsár.
    Tímaskráning Fjármálaeftirlitsins verður ekki nema að hluta tengd ákveðnum eftirlitsskyldum aðilum eða flokkum þeirra. Fjölmörg mál og eftirlitsverkefni eru almenns eðlis (cross-sectoral) og varða fleiri en einn flokk eftirlitsskyldra aðila eða markaði í heild. Sama á við um verkefni í innri starfsemi eftirlitsins. Hlutfall slíkra verkefna af heild hefur farið hækkandi síðustu árin.
    Þrátt fyrir framangreint má telja að tímaskráningin gefi viðunandi mynd til grundvallar dreifingar eftirlitsgjalds eins og mælt er fyrir í lögum. Við blasir þó þegar þessi grunnur er skoðaður að hlutur verkefna (mála) sem skráður er á almenna málaflokkinn „verðbréfamarkaður“ í tímaskráningunni er allstór eða um fimmtungur fyrir árin 2005 og 2006. Undir tímaskráningu á verðbréfamarkað fellur vinna sem varðar annars vegar eftirlit með markaðsaðilum (kauphallaraðilum) og hins vegar útgefendum hluta- og skuldabréfa. Eftirlitsverkefni sem snerta þessa aðila hafa farið vaxandi með árunum en þeir greiða hins vegar ekkert til rekstrar Fjármálaeftirlitsins séu þeir ekki jafnframt eftirlitsskyldir aðilar skv. l. nr. 99/1999.
    Markaðsaðilar eru flestir eftirlitsskyldir aðilar og hlutfallsleg kostnaðarskipting milli stærstu aðilanna á móti nýju veltutengdu gjaldi yrði að öllu óbreyttu væntanlega svipuð og á milli lánafyrirtækjanna gagnvart núverandi gjaldi. Einnig verður að hafa í huga að með gildandi fyrirkomulagi bera lífeyrissjóðir, vátryggingafélög og aðrir smærri eftirlitsskyldir aðilar hluta kostnaðar við eftirlit með verðbréfamarkaðinum. Færa má rök fyrir því að allir þessir aðilar njóti góðs af því starfi. Framangreint dregur því óneitanlega úr þörf fyrir að leggja nýtt gjald á þessa aðila á þessum grunni. Nefna má einnig að líklegt er að þess megi vænta að eftirlitsgjöld tengd viðskiptum á verðbréfamörkuðum verði til skoðunar á næstunni í nágrannaríkjunum t.d. vegna MiFID kostnaðar. Eðlilegt virðist því að doka við með sérstök eftirlitsgjöld á markaðsaðila.
    Með tilvísun til framangreinds hefur Fjármálaeftirlitið því undanfarið skoðað möguleika á frekari dreifingu rekstrarkostnaðar stofnunarinnar með sérstöku eftirlitsgjaldi á útgefendur hlutabréfa og skuldabréfa. Skoðaðar hafa verið hugmyndir um ný skiptiviðmið varðandi tímaskráninguna og mögulegir gjaldstofnar. Niðurstaða þeirrar vinnu er að lagt er til að 9,4% af tekjuþörf stofnunarinnar á árinu 2008 verði dreift á útgefendur hlutabréfa og skuldabréfa í formi fastagjalda. Í þeirri skiptingu beri útgefendur hlutabréfa 70% og útgefendur skuldabréfa 30%. Fastagjaldið verði þrepaskipt með hliðsjón af markaðsvirði bréfa þessara aðila í kauphöll í árslok 2006 eða á næstliðnu ári þegar álagning fer fram. Þrep fastagjaldsins verði þessi:

Útgefendur hlutabréfa Útgefendur skuldabréfa
Markaðsviði m.kr. Fastagjald í þús.kr. Markaðsviði m.kr. Fastagjald í þús.kr.
0 – 4.999 300 0 – 999 100
5.000 – 24.999 800 1.000 – 4.499 150
25.000 – 99.999 2.400 5.000 – 9.999 350
100.000 – 499.999 4.400 10.000 – 49.999 600
500.000 og yfir 6.300 50.000 – 199.999 850
200.000 og yfir 1.000

    Framangreind gjöld verði innheimt á sömu tímum og almennt eftirlitsgjald. Lagt er þó til að lægstu gjöldin, þ.e. 300 þús.kr. og lægri, verði innheimt í einni greiðslu á 1. gjalddaga.
    Afleitt af framangreindu eru breytingar á hlutfallsskiptingu eftirlitsgjalds á aðra flokka eftirlitsskyldra aðila frá því sem verið hefur.
    Þá leggur Fjármálaeftirlitið nú til breytingar á fastagjöldum lífeyrissjóða en miðað er við að hlutur þessara gjalda verði hverju sinni um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða. Gjöld þessi verði því:
    Fastagjald sem 700.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 1.120.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 1.960.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum króna til tuttugu og fimm milljarða króna, 3.650.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum króna til eitthundrað milljarða króna og 4.210.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir.
    Þá leggur Fjármálaeftirlitið til að fastagjald á eignarhaldsfélög á fjármálasviði, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög, blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi verði 1.500.000 kr. í stað 600.000 kr.
    Þá telur Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að leggja til breytingu á álagningarstofnum vátryggingarfélaga sem samkvæmt gildandi lögum er reiknað af þremur gjaldstofnum. Breytingar í starfsemi þessara félaga á liðnum árum kalla á einföldun þessarar álagningar og er því lagt til að eftirlitsgjald verði aðeins reiknað af einum stofni hjá vátryggingarfélögum, þ.e. bókfærðum iðgjöldum.
    Eins og fram kemur í rekstraráætluninni fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald á því ári verði 915 m.kr. samanborið við 601,9 m.kr. álagt eftirlitsgjald á árinu 2007 sem er 52% hækkun milli ára. Í meðfylgjandi töflu 3 eru áætluð álagningarhlutföll vegna ársins 2008 sýnd með hliðsjón af rekstraráætluninni fyrir það ár.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.

Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan
rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2008.

(29. júní 2007.)


1.     Inngangur.
    Samhliða rekstraráætlun sinni og greinargerð með henni leggur Fjármálaeftirlitið fram skýrslu um rekstur og starfsumhverfi sitt næstu ár, en efnahags-og viðskiptanefnd beindi þeim tilmælum til eftirlitisins á árinu 2001.

2.     Þróun íslensks fjármálamarkaðar.
    Íslenskur fjármálamarkaður hefur stækkað og eflst verulega á undanförnum árum og yfirbragð hans verður sífellt alþjóðlegra.
    Á árinu 2006 jukust eignir viðskiptabankanna þriggja um 56% en frá árslokum 2003 hafa eignir þeirra á móðurfélagsgrunni 4,5 faldast og nánast sexfaldast á samstæðugrunni. Hrein eign lífeyrissjóða var í árslok 2006 um 1.500 milljarðar króna og jókst um 23% á árinu 2006 og aukist um 82% frá árslokum 2003. Eignir vátryggingafélaga jukust um 21% á árinu 2006 og hafa aukist um 90% frá árslokum 2003. Eignir í vörslum verðbréfasjóða námu 452 milljörðum íslenskra króna í árslok og jukust um 25% á árinu 2006 og hafa aukist um 130% sl. þrjú ár. Viðskipti með hlutabréf í Kauphöll jukust um 82% á árinu 2006 og hafa fjórfaldast á sl. þremur árum. Viðskipti með skuldabréf hafa rúmlega tvöfaldast á sl. þremur árum.

MYND 1: Vöxtur fjármálastarfsemi á Íslandi

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í þjóðhagslegu samhengi skiptir fjármálamarkaðurinn sífellt meira máli. Þannig er áætlað í nýrri skýrslu Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) að hlutdeild fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu sé tæplega 10% og verðmæti útflutnings þekkingar og þjónustu sé um 60 milljarðar króna.
    Hin alþjóðlega starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja á sér stað bæði frá Íslandi og með stofnsetningu starfsstöðva erlendis. Árið 2006 komu um 52% af tekjum íslensku viðskiptabankanna erlendis frá og 60% útlána voru veitt erlendum viðskiptamönnum. Íslensku fjármálafyrirtækin starfa nú í 19 löndum í 46 starfseiningum. Starfseiningum hefur farið hratt fjölgandi að undanförnu og í maí 2007 eru 8 nýjar starfseiningar í undirbúningi. Jafnframt er „útrásin“ orðin víðtækari og nær til ríkja utan EES.
    Ef litið er fram á veginn er ekkert sem bendir til annars en að áframhaldandi aukning verði í umsvifum íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja, bæði innan lands og utan. Slíkt hefur haft og mun hafa veruleg áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins, en gerðar eru miklar og vaxandi kröfur til þess af bæði innlendum og erlendum aðilum.
    Á einungis tveimur árum hefur vegin staða eigna fjármálamarkaðarins, á móðurfélagsgrunni, á hvert stöðugildi hjá Fjármálaeftirlitinu meira en tvöfaldast. Í þessari tölu er hins vegar ekki gert ráð fyrir auknum umsvifum vegna dótturfélaga, sem þó hefur einnig áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

MYND 2 : Eignir fjármálamarkaðar pr. starfsmann FME


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.     Áherslur í starfi Fjármálaeftirlitsins.
    Fjármálaeftirlitið lítur á það sem meginhlutverk sitt að stuðla að traustri fjármálastarfsemi, en í því felst að undirstöður fjármálamarkaðar séu tryggar og starfsemi heilbrigð og í samræmi við lög. Unnið er að þessum markmiðum á margvíslegan hátt, en einkum má nefna:
          Viðhalda trúverðugleika markaðarins, s.s. tvíhliða/marghliða samskipti við erlend stjórnvöld, lánshæfismatsfyrirtæki, greiningaraðila og fjölmiðla.
          Þátttaka í útrás, s.s. beint eftirlit með starfsemi útibúa, samstarf um eftirlit við erlend stjórnvöld og gerð samstarfssamninga.
          Leiðeiningar til markaðar, s.s. leiðbeinandi tilmæli og túlkanir.
          Fyrirbyggjandi athafnir, s.s. hæfismat stjórnenda og mat á virkum eignarhlutum.
          Fjárhagslegt eftirlit, s.s. regluleg greining og söfnun upplýsinga.
          Eftirfylgni reglna, s.s. vettvangsathuganir, upplýsingasöfnun og rannsókn ábendinga.
    Hér verður vikið að helstu áherslum í starfi þess að undanförnu og í náinni framtíð.

3.1     Lánamarkaður.
    Lánamarkaður hefur einkennst af mikilli útlánaaukningu, hárri arðsemi og alþjóðavæðingu.
    Megináhersla í eftirliti hefur beinst að því að takmarka áhættu á áföllum með úttektum á innra eftirliti, áhættustýringu, eiginfjárstöðu og stórum áhættuskuldbindingum. Einnig hafa verkefni sem snúa að eftirliti með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, mat á hæfi framkvæmdastjóra og útgáfa nýrra starfsleyfa verið fyrirferðamikil. Eftir að áætlun fyrir árið 2007 var gerð hefur verið sótt um starfsleyfi fyrir tvo fjárfestingarbanka.
    Fjármálaeftirlitið hefur lagt aukna áherslu á eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Talsverð vinna hefur farið í mótun leiðbeinandi tilmæla, skipulagningu eftirlits og framkvæmd úttekta hjá fjármálafyrirtækjum. Verkefni tengd peningaþvætti eru einnig innt af hendi varðandi aðrar tegundir fjármálaþjónustufyrirtækja en eru fyrirferðamest á lánamarkaði.
    Mikil vinna hefur farið í að innleiða nýjar reglur í samræmi við Basel II staðal um eiginfjárhlutfall og nýjar tilskipanir Evrópusambandsins, en innleiðingin af hálfu Fjármálaeftirlitsins hefur átt sér stað með setningu reglna og leiðbeinandi tilmæla. Reglur þessar munu hafa veruleg áhrif á efirlitsframkvæmd að öðru leyti og auka töluvert samskipti á vettvangi CEBS (samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á lánamarkaði). Þessu til viðbótar hafa umsóknir tveggja íslenskra fjármálafyrirtækja um heimild til að beita Innri matsaðferðum (IRB) við mat á eiginfjárþörf verið til meðferðar, en slíkt kallar á eins konar vottun Fjármálaeftirlitsins á matsferlum viðkomandi fyrirtækja innanlands og utan.
    Viðfangsefni tengd erlendu samstarfi hafa aukist mikið samhliða aukinni alþjóðavæðingu íslenska markaðarins og þá einkum varðandi lánamarkaðinn. Nánar verður vikið að þessu síðar.
    Í fyrirsjáanlegri framtíð má búast við að framangreind verkefni muni áfram vega þungt í starfsemi Fjármálaeftirlitsins og eingöngu aukast. Jafnframt má ætla að ný verkefni bætist við t.a.m. ef sett verða lög um sértryggð skuldabréf. Áformað er að auka áherslu á upplýsingasöfnun, -greiningu og veitingu og framkvæma eftirlit í auknum mæli í samræmi við sérstakt áhættumatskerfi gefi niðurstöður úr úrvinnslukerfi eftirlitsins (sem vikið verður að síðar) tilefni til þess.
    Að þessu sinni er talin þörf á 3 starfmönnum vegna verulegrar aukningar íslenskra fjármálafyrirtæklja erlendis samanber það sem segir í kafla 6 um erlenda starfsemi.

3.2     Lífeyrismarkaður.
    Lífeyrismarkaður hefur undanfarið einkennst af sameiningum lífeyrissjóða, yfirfærslu réttindakerfa, vaxandi lífs-og örorkulíkum, áhættusæknari fjárfestingastefnum og hárri ávöxtun.
    Áherslur í eftirliti með lífeyrissjóðum hafa snúið að athugunum á fjárfestingum, fjárfestingarstefnum og skuldbindingum auk þess sem gerðar hafa verið heildarúttektir á starfseminni. Umgjörð sjóðanna s.s. innra eftirlit og áhættustýring er einnig metin í heildarúttektum.
    Fjármálaeftirlitið fær til umsagnar tillögur að breytingum á samþykktum sjóðanna, svo sem vegna sameininga, og hefur töluverð vinna átt sér stað vegna þessa og breytinga á réttindakerfum.
    Unnið er áfram að gæða-og áhættuflokkunarkerfi fyrir lífeyrissjóðina sem m.a. mun nýtast við forgangsröðun í eftirliti á einstökum sjóðum og gefa betri yfirsýn yfir áhættur í rekstri sjóðanna.
    Stækkun lífeyrissjóða vegna vaxtar og sameininga, rýmkaðar fjárfestingaheimildir, áhættusæknari fjárfestingastefnur, yfirfærsla á réttindakerfum en jafnframt óvissa vegna hækkandi lífs- og örorkulíkna, leiðir til þess að ákvarðanataka í starfsemi sjóðanna verður flóknari og kallar á aukna ábyrgð stjórnenda, aukið innra eftirlit og áhættustýringu, aukna faglega þekkingu og almennt traustari umgjörð um rekstur sjóðanna. Framangreint kallar á aukið umfang eftirlits með tilheyrandi auknum mannafla með hæfni, þekkingu og svigrúm til að sérhæfa sig í öllum helstu þáttum í starfsemi sjóðanna. Fækkun lífeyrissjóða vegur einungis að litlu leyti á móti auknu verkefnaálagi samkvæmt ofangreindu.
    Verkefni á næstu árum munu ráðast af stækkun lífeyrissjóða, fjárfestingarheimildum þeirra og áherslum í fjárfestingum. Þessu til viðbótar er óljóst hvort umfang eftirlits þurfi að aukast vegna laga um starfstengda eftirlaunasjóði nr. 78/2007, sem innleiða tilskipun nr. 2003/41/EB og taka gildi 1 júlí 2007. Fjármálaeftirlitið mun þurfa að hafa tiltekin lágmarksviðbúnað vegna þessa þó að ennþá séu engir slíkir sjóðir starfræktir hér á landi.
    Með hliðsjón af ofangreindu er talin þörf á að bæta við 2 starfsmönnum. Komi til þess að stofnaðir verði starfstengdir eftirlaunasjóðir (t.d. að íslensk fyrirtæki bjóði starfsfólki erlendis upp á lífeyrissparnað hérlendis eða íslensk fjármálafyrirtæki bjóði slíkan sparnað erlendis) þyrfti að fjölga starfsmönnum.

3.3     Verðbréfasjóðir.
    Eftirlit með sjóðum rekstrarfélaga, þ.e. verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum, hefur að miklu leyti snúið að staðfestingu nýrra sjóða og breytingum á reglum eldri sjóða í samræmi við lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, auk könnunar á veittum upplýsingum um fjárfestingar og eignastöðu. Lögð hefur verið áhersla á vettvangsathuganir en afar æskilegt er að fjölga slíkum úttektum.
    Rekstrarfélögum verðbréfasjóða mun væntanlega fjölga úr 6 í 7 á árinu (16,7% aukning). Fjármagn í vörslum rekstrarfélaganna hefur aukist mjög á undanförnum árum vegna aukins fjölda og stærri sjóða en einnig vegna eignastýringar rekstrarfélaganna. Þá hafa fjárfestingarafurðir orðið flóknari og vænta má aukinnar markaðsetningar íslenskra verðbréfasjóða erlendis.
    Fyrirsjáanlegar eru breytingar á löggjöf, m.a. vegna tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2007/16/EB, um skýringar á fjárfestingarheimildum verðbréfasjóða og vegna MIFID tilskipunarinnar nr. 2004/39/EB. Jafnframt hafa komið fram hugmyndir um setningu laga um fjárvörslusjóði (e. Trusts) sem gætu haft aukin verkefni í för með sér fyrir Fjármálaeftirlitið. Þá má nefna að aukin starfsemi rekstrarfélaganna og innleiðing tilskipana kallar á aukna þátttöku í erlendu samstarfi.
    Með hliðsjón af framansögðu er talið nauðsynlegt að fjölga um 1 starfsmann vegna eftirlits með starfsemi rekstrarfélaga verðbréfasjóða og verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum.

3.4     Vátryggingamarkaður.
    Eftirlit með vátryggingamarkaði er bæði sinnt með vettvangsheimsóknum og skoðun á ýmsum reglubundum gögnum, sem Fjármálaeftirlitið fær send. Í vettvangsheimsóknum er áhersla lögð á athugun á áhættustýringu, innra eftirliti og verkferlum. Við eftirlit með gögnum er fylgst með þróun í rekstri félaganna og eignastöðu til að mæta vátryggingaskuld og gjaldþoli félaganna. Fjármálaeftirlitið hefur þróað sérstakt álagspróf og áhættumat sem nýtt er í þessum tilgangi.
    Leiðbeiningar vegna nýrrar löggjafar (frá árinu 2005) hafa skipað nokkurn sess auk undirbúnings á innleiðingu Evróputilskipanna en vænta má innleiðingar á 4 tilskipunum á næsta ári. Má búast við nokkurri vinnu vegna þessa og aukinna krafna til eftirlitsins.
    Innan Evrópusambandsins er unnið að nýrri gjaldþolstilskipun (Solvency II) og hefur Fjármálaeftirlitið tekið þátt í þeirri vinnu og upplýst íslenska markaðsaðila um þróunina og boðið þeim þátttöku í áhrifagreiningum (e. QIS studies) til að meta áhrif væntanlegra reglna á vátryggingafélög. Ljóst er að tilskipunin sjálf og innleiðing hennar mun auka umfang eftirlits á næstu 2 árum.
    Á þessu sviði er einnig fylgst með framkvæmd reglna um virka eignarhluti en umsóknir um slíkt taka jafnan nokkurn tíma.
    Vátryggingafélög hafa aukið við erlenda starfsemi sína, bæði með kaupum á erlendum félögum, samvinnu við erlend vátryggingafélög, eða með veitingu þjónustu yfir landamæri. Jafnframt hafa íslenskir fjárfestar sem eiga hluti í fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum keypt hluti í norrænum vátryggingafélögum. Hér er um vaxandi verkefni fyrir Fjármálaeftirlitið að ræða með hliðsjón af reglum um heimaeftirlit vátryggingafélags og reglum um fjármálasamsteypur og samstæðueftirlit.
    Með hliðsjón af auknum verkefnum á þessu sviði vegna væntanlegra lagabreytinga og útrásar er talið nauðsynlegt að auka um 1 starfsmann á þessu sviði.

3.5     Verðbréfamarkaður.
    Helstu áherslur Fjármálaeftirlitsins í eftirliti með verðbréfamarkaði snúa að eftirliti með háttsemi útgefenda verðbréfa skráðra í Kauphöll og viðskiptum fjárfesta á markaði. Jafnframt er haft eftirlit með starfsemi Kauphallar og Verðbréfaskráningar. Vegna kaupa OMX AB á Kauphöll og Verðbréfaskráningar er fyrirsjáanlegt erlent samstarf um eftirlit auk þess sem kaupin sjálf og nýjungar í framhaldi af þeim hafa krafist nokkurs tíma.
    Eftirlitið með verðbréfamarkaðnum byggist á skoðun einstakra viðskipta í framhaldi af ábendingum eða að eigin frumkvæði og með reglubundnum úttektum hjá útgefendum. Jafnframt eru gerðar úttektir á starfsháttum í verðbréfaviðskiptum hjá fjármálafyrirtækjum.
    Fjármálaeftirlitið sinnir einnig verkefnum er snúa að lýsingum, mati á fagfjárfestum og yfirtökumálum.
    Verðbréfamarkaður á Íslandi er tiltölulega ungur og segja má að löggjöfin sé "dynamisk" og í stöðugri þróun. Lagasetning byggð á Evróputilskipunum hefur verið ör og er fyrirsjáanlegt að á næstunni þarf að bregðast við innleiðingu nýrra tilskipana s.s. um gegnsæi upplýsinga (Transparency) og almennt um viðskipti á verðbréfamarkaði (Mifid). Þessi „dynamik“ kallar til viðbótar á mikið af fyrirspurnum frá markaðsaðilum og öðrum, og beiðni um túlkanir eða tilmæli.
    Erlend samskipti eru veigamikill þáttur á þessu sviði og fara vaxandi. Framundan eru aukin samskipti í tengslum við samevrópska gagnagrunna vegna Mifid og Transparency tilskipananna, eins og vikið verður að í kafla um upplýsingatæknimál.
    Fjármálaeftirlitið telur mikilvægt vegna aukinna verkefna með vexti verðbréfamarkaðarins, innleiðingu áðurnefndra tilskipana og erlendu samstarfi að starfsmönnum á verðbréfamarkaði verði fjölgað um a.m.k. 3. Fjármálaeftirlitið telur tillögu þessa vera hófsama og þörf verði á því að endurmeta hana að ári liðnu þegar betri yfirsýn fæst yfir verkefni vegna umræddra tilskipana auk vinnuálags vegna lýsinga, einkum mótttöku og staðfestingu á útboðslýsingum með Evrópupassa.

3.6     Almennt.
    Að síðustu er rétt að geta þess að ýmis verkefni eru sameiginleg fyrir hina ýmsu markaði þar sem samlegðaráhrif í starfseminni koma fram. Má þar sem dæmi nefna:
          Beiting stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um fjármálastarfsemi, en nýsamþykkt lög nr. 55/2007 fela Fjármálaftirlitinu aukin verkefni.
          Samskipti við erlend eftirlitsstjórnvöld vegna starfsemi eða viðskipta íslenskra aðila erlendis og svör við upplýsingabeiðnum. Þessi þáttur hefur aukist verulega á síðasta ári.
          Reglur og eftirlit með fjármálasamsteypum, en verið er að leggja lokahönd á útfærslu þessa.
          Framkvæmd á hæfismati stjórnenda eftirlitsskyldra aðila.
          Viðbúnaðaráætlun vegna áfalla í fjármálakerfinu.
          Eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
          Framkvæmd eftirlits með upplýsingatækni.

4.     Stefnumótun og mælikvarðar
    Fjármálaeftirlitið setti sér á árinu 2006 skýra stefnu um helstu markmið sín í formi stefnumiðaðs árangursmats (Balanced Scorecard). Stefnan nýtist við mótun almennra áherslna, forgangsröðun verkefna og mælingu árangurs.

MYND 3: Stefnukort FME

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Unnið var að innleiðingu stefnunnar árið 2006 og þróun mælikvarða til að meta árangur auk þess sem í upphafi ársins 2007 voru sett árangursmarkmið fyrir sérhvern mælikvarða.
    Meginmarkmið Fjármálaeftirlitsins er að stuðla að traustri fjármálastarfsemi. Til að vinna þessu framgang hafa verið skilgreind 15 markmið og árangur verður mældur með 22 mælikvörðum. Í upphafi ársins 2008 mun Fjármálaeftirlitið birta niðurstöður þessara mælinga (sjá mynd 4: Markmið og mælikvarðar).

MYND 4: Markmið og mælikvarðar

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.







Virði/Áhrif










Innri ferlar









Starfsmenn/
þekking





Fjármál




5.     Nútímavæðing og nýting upplýsinga.
    Fjármálaeftirlitið hefur sett sér sérstaka upplýsingatæknistefnu til þriggja ára. Helstu atriði þeirrar stefnu eru eftirfarandi:
          Öll samskipti við eftirlitsskylda aðila verði rafræn.
          Úrvinnslukerfi verði fyrir hendi sem vinni frumgreiningu á upplýsingum og geri viðvart um frávik (early warning).
          Gagnagrunnar og málaskráningarkerfi séu samhæfð og tryggi auðvelda geymslu, úrvinnslu og notkun upplýsinga.
          Öryggi upplýsinga sé tryggt og eftirlitið fái vottun skv. ISO 27001.
          Vefumsjónarbúnaður og heimasíða styðji við öfluga og markvissa upplýsingamiðlun, þess vegna í mismunandi víddum, þ.e. á innra-neti (innan stofnunar), á ytra neti (skilgreind vefsvæði fyrir einstaka eftirlitsskylda aðila eða systurstofnanir) og interneti (almenningur).
          Hugbúnaður og vélbúnaður uppfylli þarfir hvers tíma.
          Eftirlitið geti uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingasamskipti.
    Fjármálaeftirlitið kom á fót rafrænum skilum á um 3500 skýrslueintökum frá eftirlitsskyldum aðilum í upphafi árs 2007. Reynsla eftirlitsskyldra aðila af þessari breytingu er almennt jákvæð og rafræn skil virðast auka skilvirkni bæði hjá Fjármálaeftirlitinu og eftirlitsskyldum aðilum. Unnið er að frekari þróun kerfisins til að auka sjálfvirkni, s.s. með sendingum á XML-skjölum á milli kerfa eftirlitsskyldra aðila og Fjármálaeftirlitsins. Unnið hefur verið markvist að sjálfvirkum innlestri gagna í gagnagrunnana og hefur sú aðgerð ein sparað rúmlega hálft mannár. Heildar vinnusparnaður síðan rafræn skil komust á er um eitt og hálft mannár.
    Megintilgangur með uppbyggingu gagnagrunna Fjármálaeftirlitsins er að koma á fót úrvinnslukerfi sem notar undirliggjandi gögn til að leggja mat á ástand eftirlitsskyldra aðila. Verið er að skilgreina ákveðnar kennitölur á hverju sviði og viðbrögð við frávikum. Jafnframt verður sjálfvirkt álagspróf og áhættumat byggt á innsendum gögnum en áhættumatið mun flokka eftirlitsskylda aðila eftir gæðum og kerfislægum áhættum og nýtast við forgangsröðun í eftirliti. Slík kerfisbundin nýting upplýsinga mun auka skilvirkni Fjármálaeftirlitsins og tími sérfræðinga mun nýtast í greiningu upplýsinga og frumkvæðiseftirlit í stað þess að vinna handvirkt úr gögnum.
    Rafvæðing ferla innan Fjármálaeftirlitsins er hafin, en með því er átt við að auka möguleika á rafrænni meðferð mála, a.m.k. að hluta. Í upphafi verður væntanlega unnið með umsóknir um starfsleyfi tilkynningar vegna erlendrar starfsemi.
    Samstarf við erlenda eftirlitsaðila kalla á rafræn upplýsingasamskipti og stærsta verkefnið á því sviði byggir á MIFID tilskipuninni sem gerir ráð fyrir því að eftirlitsaðilar í aðildarríkjum EES skiptist á upplýsingum um verðbréfaviðskipti (transaction reporting). Fjármálaeftirlitið vinnur að því að koma upp tilkynningakerfi sem safnar upplýsingum um viðskipti með fjármálagerninga á Íslandi, skv. 25. gr. MIFID, en upplýsingum um færslur sem snerta aðila undir eftirliti annarra fjármálaeftirlita innan EES verður miðlað til viðeigandi eftirlita í gegnum sameiginlegt kerfi til gagnaskipta sem CESR (evrópusamtök verðbréfaeftirlita) mun reka. Vinna við þetta tilkynningakerfi (TRS, Transaction Reporting) er vel á veg komin og er unnin í samvinnu með eftirlitum á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Í framhaldi af TRS, á árinu 2008, verður ráðist í smíði greingingarkerfis sem byggir m.a. á upplýsingum sem tilkynningakerfið aflar. Stefnt er á áframhaldandi samstarfi aðila um þá uppbyggingu. Tilkoma slíks kerfis mun auðvelda eftirlit, auka yfirsýn og spara tíma við leit að upplýsingum.
    Hafinn er undirbúningur að innleiðingu á Transparency tilskipun Evrópusambandsins, sem fjallar um opinbera birtingu tilgreindra upplýsinga útgefenda verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði með Ísland sem heimaríki. Þá nær tilskipunin einnig til flöggunarskyldu. Gert er ráð fyrir því að ofangreindum upplýsingum, sem skylt er að birta opinberlega, sé safnað saman í a.m.k. einn rafrænan miðlægan gagnagrunn (OAM, Officially Appointed Mechanism), sem skal vera opinn almenningi.
    Stefnt er að innleiðingu nýs málaskráningarkerfis á árinu 2008 til að auðvelda aðgengi að upplýsingum og með samtengingu upplýsinga í málaskrá og öðrum gagnagrunnum Fjármálaeftirlitsins má bæta yfirsýn og auka skilvirkni í vinnu sérfræðinga. Kerfið mun verða á vefformi og tengjast jafnframt innra neti eftirlitsins.
    Á árinu 2007 mun FME hefja innleiðingu stjórnkerfis upplýsingaöryggis og er stefnt að vottun skv. ISO 27001 á árinu 2009.
    Auk innri upplýsingatæknimála ber Fjármálaeftirlitnu að fylgjast með því að greiðslu- og uppgjörskerfi eftirlitsskyldra aðila séu fullnægjandi. Slíkt þarf að gera með reglulegum könnunum á öryggi upplýsinga- og greiðslukerfa, annaðhvort með vettvangsathugun og/eða sjálfsmati. Með aukinni útrás eykst ábyrgð á þessu sviði, bæði gagnavart útibúum erlendis og kerfum fjármálafyrirtækjanna á samstæðugrunni.
    Á árinu 2009 verður áfram unnið að nokkrum þeirra verkefna sem hér hafa verið nefnd auk annarra sem eru aftar á forgangslista eða fyrirsjáanleg á þeim tíma s.s. Solvency II. Að þessu loknu verður tíma stórframkvæmda í upplýsingatæknimálum lokið og vinna á sviðinu ætti að verða jafnari, þó fyrirvara verði að gera ef aðstæður breytast.
    Í dag eru þrjú stöðugildi sem sinna upplýsingatæknimálum hjá Fjármálaeftirlitinu auk þess sem tímabundnir starfsmenn eða ráðgjafar sinna verkefnum vegna innleiðingar upplýsingatæknistefnunnar. Ekki er farið fram á fjölgun stöðugilda, en hinar veigamiklu breytingar sem nú eiga sér stað í upplýsingatæknimálum eftirlitsins kalla á endurmat á þörfum þess.

6.     „Útrás“ Fjármálaeftirlitsins.
    Íslensku viðskiptabankarnir eru alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða þróaða fjármálaþjónustu. Um 52% tekna þeirra koma erlendis frá, eignir erlendra dótturfélaga nema 45% af heildareignum af samstæðugrunni og 60% útlána bankanna eru til erlendra viðskiptamanna. Þróun þessi hefur verið mjög hröð og virðist halda áfram. Jafnframt hafa íslenskir fjárfestar sem eiga hluti í íslenskum fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum keypt hluti í norrænum vátryggingafélögum og koma þar til skoðunar reglur um fjármálasamsteypur í samstarfi við erlenda eftirlitsaðila.
    Auk viðskiptabankanna þriggja hafa önnur fjármálafyrirtæki hafið útrás og það sama á við um vátryggingafélögin, sem hafa keypt hluti í erlendum vátryggingafélögum eða hafið nánari samvinnu við erlenda vátryggjendur. Þessu til viðbótar er Kauphöll Íslands og Verðbréfaskráning Íslands komin í eigu erlends aðila, OMX A.B., en það kallar á þáttöku Fjármálaeftirlitsins í sérstöku samstarfi norrænna eftirlitsaðila með starfsemi OMX. Í maí 2007 er óljóst hvort áformuð kaup Nasdaq á OMX muni auka umfang á þessu sviði.
    Í lok ársins 2007 má búast við að starfsstöðvar íslensku bankanna verði í a.m.k. 20 löndum, þar af 22 útibú og 28 dótturfélög. Af töflunni hér fyrir neðan má sjá að fjölgunin hefur verið mjög hröð og ljóst er að töluverð auking verður til nk. áramóta. Jafnframt má gera ráð fyrir einhverri viðbót á árinu 2008. Það sem einkennir þróunina er mikil fjölgun útibúa sem leggur beina eftirlitsábyrgð á Fjármálaeftirlitið.

MYND 5: Erlend starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja


Árslok 2005

1. maí 2007
Í vinnslu
1. júní 2007
Dótturfélög 21 27 +1
Útibú 4 15 +7
Umboðsskrifstofur 1 4 0
Erlend ríki þar sem
starfsemi er stunduð
12 19 +1

    Aukin alþjóðavæðing íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja og aukið Evrópusamstarf eftirlitsaðila hafa kallað á umtalsverða aukningu í erlendum samskiptum Fjármálaeftirlitsins. Sú starfsemi er í meginatriðum þríþætt.
    Í fyrsta lagi á Fjármálaeftirlitið í samskiptum við systurstofnanir í þeim löndum sem íslensku fyrirtækin eru með starfsemi. Ef starfsemin er rekin í formi útibús ber Fjármálaeftirlitið beina eftirlitsábyrgð með flestum starfsþáttum þess. Um er að ræða svokallað heimaríkiseftirlit þannig að Fjármálaeftirlitið hefur eftirlitið með starfseminni með sambærilegum hætti og með starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis á Íslandi. Sé um dótturfélag að ræða er Fjármálaeftirlitið eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli en gistiríkið hefur eftirlit með starfsemi dótturfélagsins. Starfsemi í formi útibús fremur en dótturfélags hefur því umtalsverð áhrif á verkefnaálag hjá Fjármálaeftirlitinu í formi athugana á starfstöðvum erlendis og aukinna samskipta við eftirlitsaðila í viðkomandi ríkjum. Í báðum tilvikum treysta viðkomandi erlend stjórnvöld á eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Sé um annars konar starfsemi að ræða, s.s. fjárfestingar eða veitingu þjónustu yfir landamæri, geta átt sér stað ýmis upplýsingasamskipti.
    Sérstakur þáttur í þessum samskiptum er gerð samstarfssamninga við erlend eftirlit sem er nauðsynlegt þegar um ríki utan EES er að ræða. Á árinu 2006 gerði Fjármálaeftirlitið einn slíkan samning, við eyjuna Mön, en í lok maí 2007 er unnið að gerð 5 slíkra samninga. Ljóst er að fjölgun samstarfssamninga mun auka kröfur á Fjármálaeftirlitið.
    Fjármálaeftirlitið er í samstarfi við systurstofnanir á öðrum Norðurlöndum um viðlagaáætlanir og viðbúnað vegna mögulegra erfiðleika á fjármálamarkaði. Ennfremur tekur Fjármálaeftirlitið þátt í umræðu og nefndastarfi á Evrópuvettvangi um viðbrögð við fjármálakreppum (Crisis Management).
    Í öðru lagi tekur Fjármálaeftirlitið þátt í norrænu- og Evrópusamstarfi eftirlitsaðila á fjármálaþjónustumarkaði. Á þessum vettvangi er m.a. unnið að leiðbeinandi reglusetningu fyrir fjármálaþjónustufyrirtæki og unnið að samræmingu eftirlitsframkvæmdar, s.s. vegna upplýsingaskipta og þjálfun starfsfólks. Á árinu 2006 áréttaði Ráðherraráð Evrópusambandsins mikilvægi einsleitrar framkvæmdar Evrópureglna og samvinnu eftirlitsstjórnvalda til að ná mætti ávinningi innri markaðarins í fjármálaþjónustu. Með aukinni alþjóðavæðing íslenska markaðarins eykst mikilvægi þess að sinna slíku samstarfi af kostgæfni.
    Í þriðja lagi er sífellt aukin eftirspurn eftir upplýsingagjöf um íslenska fjármálamarkaðinn frá ýmsum erlendum aðilum, s.s. alþjóðastofnunum, lánshæfismatsfyrirtækjum og greiningardeildum. Markmið Fjármálaeftirlitsins er að sinna þessu enn frekar með aukinni upplýsingamiðlun á ensku.
    Á fyrrihluta ársins 2007 setti Fjármálaeftirlitið sér sérstaka stefnu um eftirlit með erlendri starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja og framkvæmdi greiningu á vinnuálagi vegna þessa. Helstu atriði stefnunnar eru eftirfarandi:
          Eftirlit með útibúum: Vettvangsheimsóknir í stærri útibú á tveggja ára fresti en í minni útibú eftir þörfum en þó aldrei sjaldnar en á fjögurra ára fresti.
          Eftirlit með dótturfélögum: Þátttaka í vettvangsheimsóknum gistiríkis ef eignarhlutur nemur 10% af heildareignum samstæðu, auk þess sem slík dótturfélög verða heimsótt á tveggja ára fresti til að fá gott yfirlit yfir starfsemi.
          Upplýsingagjöf: Árleg skýrslugjöf vegna útibúa og dótturfélaga á (rafrænu) eyðublaði Fjármálaeftirlitsins, auk efnhags-og rekstrarreiknings allra útibúa og dótturfélaga sem nema 10% af heildareignum samstæðu.
          Samskipti við erlend eftirlit: Reglulega farið almennt yfir stöðuna þar sem umfang íslenskra fyrirtækja er mikið.
          MoU: Fylgja eftir „útrás“ til ríkja utan EES með gerð MoU.
          Kostnaður: Innheimta sérstakt gjald skv. 7 gr. laga nr. 99/1999 vegna nýrrar erlendrar starfsemi sem ekki er gert ráð fyrir í rekstraráætlun viðkomandi árs.

MYND 6: Áætluð starfsmannaþörf vegna vinnu við erlenda starfsemi

Innan EES Utan EES, þar sem MoU til staðar
Útibú 0,1 stm. 0,1 stm.
Virkur ehl. 0,01 stm. 0,01 stm.
Dótturfélag 0,07 stm. 0,11 stm.

    Niðurstöður greiningar á reglulegu vinnuálagi sýnir að m.v. fyrirliggjandi upplýsingar um væntanlega starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis, þyrfti Fjármálaeftirlitið að hafa rúmlega 4 aðila til að sinna þessum verkefnum. Í dag má gera ráð fyrir að tæplega eitt stöðugildi sinni þessum verkefnum með öðru. Í ljósi umfangs útrásarinnar er talin þörf á 3 starfsmönnum til að sinna útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og fjármálaþjónustufyrirtækja en jafnframt mun nýr starfsmaður á vátryggingasviði einnig sinna erlendri starfsemi.
    Með aukinni erlendri starfsemi er ljóst að ferðakostnaður Fjármálaeftirlitsins fer vaxandi. Einnig er rétt að geta þess að erlend starfsemi hefur jafnframt almenn áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

7.     Eftirsóknarverður vinnustaður.
    Forsenda þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt hlutverki sínu á trúverðugan hátt er að það búi yfir reynslu, þekkingu og nægum mannafla til að takast á við þau margbreytilegu og flóknu mál sem upp koma á fjármálamarkaði. Spurningar um fjölda starfsmanna, reynslu þeirra og starfsmannaveltu er nokkuð sem reglulega kemur upp í samskiptum við erlenda aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur átt því láni að fagna að búa yfir hæfu starfsfólki til að takast á við verkefnin, en ströng hæfnisskilyrði við nýráðningar og öflug símenntunarstefna gegna þar lykilhlutverki. Á næsta ári má búast við því að símenntunarstefnan fái nýja vídd með möguleikum á starfaskiptum milli Evrópskra eftirlitsaðila. Verið er að leggja lokahönd á útfærslu þessa.
    Fjármálaeftirlitið finnur verulega fyrir því að starfsfólk þess er eftirsóknarvert af ýmsum þeirra aðila sem tengjast fjármálamarkaðnum og til viðbótar er hörð samkeppni um hæft fólk við nýráðningar.
    Á síðustu 12 mánuðum (maí til maí) var starfsmannavelta sérfræðinga um 8% í kjölfar 21% starfsmannaveltu síðustu 12 mánuða þar á undan.
    Annar þeirra mælikvarða (á stefnu Fjármálaeftirlitins) sem metur þekkingu og reynslu starfsmanna mælir hversu hátt hlutfall starfsmanna, sem ráðnir voru eftir 1. janúar 2001, hafi náð 3 ára starfsreynslu. Þetta hlutfall er 36%.
    Sé litið á meðalstarfstíma þeirra starfsmanna sem hafa ráðið sig til Fjármálaeftirlitsins eftir 1. janúar 2001 kemur í ljós að meðalstarfstími þeirra sem látið hafa af störfum var 2,1 ár og er 2,5 ár (þann 31. maí) hjá þeim sem nú eru starfandi.
    Viðhorf utanaðkomandi aðila, m.a. ýmissa starfsmanna eftirlitsskyldra aðila, koma glöggt fram í Viðskiptablaðinu þann 4. maí 2007 en þar sagði:
     „Starfsemi banka og fjármálafyrirtækja hefur til dæmis þanist svo hratt út að Fjármálaeftirlitið hefur ekki fylgt henni eftir og draga má í efa að það hafi styrk til þess að veita nauðsynlegt aðhald. Fjármálaeftirlitið getur þannig ekki á nokkurn hátt keppt við bankana um færustu sérfræðingana og bestu starfsmennirnir eru jafnharðan keyptir út af þeim, sem þeir eiga að vera fylgjast með. Er það eðlilegt fyrir heilbrigt íslenskt fjármálalíf?“
    Eitt af markmiðum Fjármálaeftirlitsins er að vera eftirsóknarverður vinnustaður og að starfsfólk þess búi yfir fullnægjandi reynslu og þekkingu til að geta tekist á við verkefni sín. Ýmsir þættir hafa áhrif á þessi atriði en með hliðsjón af „burtfararviðtölum“ við fyrrum starfsmenn og launaþróun sérfræðinga á fjármálamarkaðnum, er ljóst að enn þarf að efla möguleika Fjármálaeftirlitsins til þess að vera samkeppnishæft í launum. Ef viðhalda á trúverðugleika Fjármálaeftirlitsins er mikilvægt að gæði starfsfólks þess sé ekki lakara en hjá þeim sem eftirlit er haft með. Jafnframt er rétt að benda á að starfsmannavelta hefur verulega truflandi áhrif á starfsemi eftirlitsins.
    Með hliðsjón af framansögðu er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið sé ávallt samkeppnishæft um starfsfólk og dregið sé úr starfsmannaveltu. Lagt er til að þetta verði gert á tvennan hátt. Annars vegar að Fjármálaeftirlitið fái svigrúm sem nemur 8% af heildarlaunum til að mæta almennri launaþróun, einkum í fjármálageiranum, þróa kælitímasamninga frekar og bregðast við óvæntri starfsmannaveltu. Hins vegar að Fjármálaeftirlitið fái svigrúm sem nemur 8% af heildarlaunum til að þróa árangurs- og frammistöðutengt launakerfi. Árangurstengdar greiðslur yrðu eingreiðslur sem bættust við í lok árs og færu ekki inn í almenna launakerfið.

8.     Verkefni, stöðugildi og hagræðing.
    Verkefni Fjármálaeftirlitsins hafa aukist verulega á undanförnum árum í kjölfar aukinna umsvifa fjármálamarkaðarins. Jafnframt hefur löggjafinn falið Fjármálaeftirlitinu ný verkefni, s.s. ný samþykkt lög um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði nr. 55/2007. Fjöldi skráðra mála hefur aukist en ekki síður ýmis konar fyrirspurnir og óskir um leiðbeiningar. Þessu til viðbótar hafa verkefnin orðið flóknari, s.s. vegna stækkandi fyrirtækja, landfræðilegra þátta, nýrra afurða eða ógegnsæis, t.d. varðandi eignatengsl.
    Á síðustu tveimur árum hefur starfsmönnum hjá Fjármálaeftirlitinu fjölgað nokkuð, sem hefur gert auðveldara að sinna verkefnum, en engu að síður hefur ekki tekist fullkomlega að halda í við aukinn verkefnaþunga og starfsmenn eftirlitsins finna verulega fyrir verkefnaálagi. Auknu verkefnaálagi hefur frá og með árinu 2006 verið mætt með lausráðningum starfsmanna sem eru á lokaári í háskóla eða nýútskrifaðir enda ljóst að ekki yrði um viðvarandi störf að ræða. Reynt verður að mæta auknu verkefnaálagi á árinu 2008 með sambærilegum hætti ef þörf verður talin á.
    Gert er ráð fyrir að á seinni hluta ársins 2007 verði ráðnir 2 starfsmenn vegna nýsamþykktra laga, nr. 55/2007, um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði, og er það viðbót frá upphaflegri áætlun fyrir árið 2007. Í umsögn Fjársýslunnar um frumvarpið sem varð að lögum var gert ráð fyrir að þörf væri á 2-3 starfsmönnum, en Fjármálaeftirlitið vill gæta hófs og meta síðan þörfina. Eftirfarandi mynd sýnir þróun í fjölda starfsmanna frá árinu 2004 í lok hvers ár að undanskildum lausráðnum starfsmönnum.

MYND 7:    Fjöldi starfsmanna hjá Fjármálaeftirlitinu í árlsok 2004-2008, án lausráðinna starfsmanna

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




    Á mynd 8 er að finna samanburð á vexti í álagningarstofnum helstu flokka eftirlitsskyldra aðila við þróun rekstrarkostnaðar hjá fjármálaeftirlitinu. Það athugist að álagningarstofnar miðast við tölur úr ársreikningum eftirlitsskyldra aðila 2 árum fyrir álagningarár.











MYND 8: Vöxtur í álagningarstofnum helstu flokka eftirlitsskyldra aðila


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þróun í álagningarstofnum annars vegar og rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins sem sýnd er í mynd 8 endurspeglast síðan í álagningarhlutföllum, sbr. mynd 9. Þar kemur fram að að veruleg lækkun hefur orðið á álagningarhlutfalli lánastofnana en álagningarhlutfall vátryggingarfélaga og lífeyrissjóða hefur hækkað undanfarið einkum hjá vátryggingafélögum þrátt fyrir áformaða breikkun á álagningarstofnun með því að innheimt verði sérstakt eftirlitsgjald á útgefendur skráðra verðbréfa vegna eftirlits með verðbréfaviðskiptum.



















MYND 9: Þróun álagningarhlutfalla


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjármálaeftirlitið hefur leitast við að sýna hagkvæmni í rekstri og mæta verkefnaaukningu með breytingum á innra skipulagi og hagræðingu. Þannig hefur skipuriti verið breytt til að auka skilvirkni í meðferð einstakra mála. Símaþjónusta hefur verið útvistuð sem bæði bætir gæði og eykur skilvirkni í vinnu við almenn skrifstofustörf. Verið er að innleiða nýtt upplýsingatæknikerfi sem gert er ráð fyrir að muni bæta nýtingu á tíma sérfræðinga. Að síðustu, lagði Fjármálaeftirlitið niður eina stöðu á skrifstofu á síðasta ári og nýtti stöðuna til ráðningar sérfræðings.
    Fjármálaeftirlitið mun áfram verða vakandi fyrir hagræðingarmöguleikum bæði í almennum rekstri og með reglulegu endurmati á verkefnum starfsmanna og nýtingu tímabundinna starfsmanna eða sérfræðinga. Hins vegar er ljóst að slíkt dugar skammt í ljósi vaxtar fjármálamarkaðarins.

9.     Húsnæðismál.
    Í skýrslu um rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár sem var fylgiskjal með rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2007 var gerð grein fyrir því að mjög þröngt væri orðið um starfsemina í núverandi húsnæði og að fyrirhugað væri að flytja í stærra og hentugra húsnæði á síðari hluta ársins 2007. Gert var ráð fyrir því í rekstraáætlun ársins. Í skýrslunni er gerð grein fyrir stærð þess húsnæðis sem Fjármálaeftirlitið hefur nú til ráðstöfunar og áætlaðri viðbótarþörf hvað stærð og aðstöðu varðar. Bent var á mikilvægar breytingar sem orðið hafa í starfsumhverfi eftirlitsins síðustu árin, m.a. tengt aukinni erlendri starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja, sem kalla frekar en áður á frambærilega, trausta og vel staðsetta aðstöðu fyrir Fjármálaeftirlitið til styrktar ímynd starfseminnar í nýju fjölþjóðlegu umhverfi.
    Með hliðsjón af framangreindu sneri Fjármálaeftirlitið sér til viðskiptaráðuneytis í byrjun desember 2006 með ósk um samvinnu ráðuneytisins við öflun nýs húsnæðis fyrir stofnunina. Í framhaldi af því vann Framkvæmdasýsla ríkisins, samkvæmt beiðni fjármálaráðuneytis, síðan í samvinnu við Fjármálaeftirlitið húsrýmisáætlun fyrir stofnunina og húslýsingu eða hliðstæð gögn og venja mun við mat á húsnæðisþörf fyrir opinberar stofnanir og til undirbúnings auglýsingar eftir húsnæði. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að húsrýmisþörf Fjármálaeftirlitsins sé um 1600 m2 fyrir um 60 starfsmenn til næstu 10 ára en jafnframt er talið æskilegt að nýtt húsnæði gefi framtíðarmöguleika á leigu umfram núverandi húsnæðisþörf.
    Ríkiskaup auglýsti síðan eftir húsnæði fyrir Fjármálaeftirlitið á grundvelli framangreinds undir lok febrúar 2007. Viðbrögð við auglýsingunni voru ekki samkvæmt vonum Fjármálaeftirlitsins og leigutilboðin fá. Eftir ítarlega skoðun varð það svo niðurstaða stjórnar stofnunarinnar að afþakka framkomin leigutilboð af ýmsum ástæðum. Ýmist var að boðin leiguverð samræmdust ekki því sem vænst hafði verið, leigutilboð stóðust ekki stærðarviðmið húslýsingar, eða húsnæðið þótti ekki henta vegna innra og yrtra skipulags. Ákveðið var að auglýsa aftur eftir húsnæði fyrir Fjármálaeftirlitið í haustbyrjun 2007 í trausti þess að betri lausn náist þá í þessum málum og dráttur á flutningi frá upphaflegri áætlun verði ekki verulegur.
    Í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008 er því gert ráð að stofnunin muni flytja í nýtt húsnæði byrjun mars 2008. Við áætlun leigukostnaðar eftir flutning er tekið mið af meðaltölum brúttóstærða húsnæðis og leiguverða sem fram komu í nefndum leigutilboðum til Fjármáleftirlitsins. Gert er því ráð fyrir að leigugjöld og húsfélagskostnaður muni hækka verulega á árinu 2008 og verði alls 57 m.kr. á árinu en endurskoðuð áætlun fyrir árið 2007 er 17.7 m.kr. Ýmsir kostnaðarliðir sem tengjast stærð húsnæðis s.s. rafmagn, hiti og ræstingarkostnaður munu að sama skapi hækka umtalsvert við húsnæðisskiptin.
    Í tengslum við fyrirhuguð húsnæðisskipti hefur Fjármálaeftirlitið látið verkfræðistofu meta ástand og nýtanleika húsbúnaðar í eigu stofnunarinnar komi til flutnings í nýtt húsnæði og gera áætlun um kostnað við endurnýjun þess búnaðar sem þörf er á. Niðurstaða matsins er að stærstur hluti þessa búnaðar er þegar búinn með 60-80% þess endingartíma sem vænta má miðað við þau gæði sem krafist er á álíka vinnustöðum. Í rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2008 eru því áætlaðar 19 m.kr. til endurnýjunar húsbúnaðar stofnunarinnar. Þá áætlar Fjármálaeftirlitið 2 m.kr. í kostnað við sjálfa flutningana í rekstaráætlun sinni fyrir árið 2008.
    Náðst hefur samkomulag við leigusala Fjármálaeftirlitsins um viðbótarákvæði við leigusamninga vegna núverandi húsnæðis og getur stofnunin nú sagt húsnæðinu upp með 6 mánaða fyrirvara en leigusamningarnir voru áður bundnir til ársins 2011.

10.     Lokaorð.
    Á undanförnum árum hefur íslenskur fjármálamarkaður vaxið hröðum skrefum og er orðin sú atvinnugrein sem leggur mest til þjóðarframleiðslunnar. Starfsemin er alþjóðleg og á sér nú stað í 20 löndum í yfir 50 starfseiningum. Þessi umsvif eru mest hjá fjármálafyrirtækjunum en aðrir aðilar eru í síauknum mæli að auka erlend umsvif sín, s.s. vátryggingafélög, fjárfestingafélög og stækkandi hlutur fjárfestinga lífeyrissjóða er erlendis. Gera má ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram á næstu árum.
    Auk þessa hafa verið uppi hugmyndir um að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, s.s. á sviði alþjóðlegra lífeyrissjóða og alþjóðlegra sjálfseignasjóða (e. trusts)
    Aukið umfang og flóknari starfsemi eftirlitsskyldra aðila leggur bæði nýjar og auknar kröfur á Fjármálaeftirlitið. Þannig þarf starfsemi Fjármálaeftirlitsins að verða alþjóðlegri, það þarf að hafa þekkingu á og yfirsýn yfir starfsemi og áhættur eftirlitsskyldra aðila og að síðustu bolmagn til þess að framfylgja settum reglum. Slíkt kallar á að Fjármálaeftirlitið hafi nægan fjölda hæfs starfsfólks.
    Rekstraráætlanir Fjármálaeftirlitsins fyrir árin 2006 og 2007 gerðu ráð fyrir auknum útgjöldum og nokkurri fjölgun starfsfólks. Þetta hefur auðveldað Fjármálaeftirlitinu að takast á við verkefni sín en á sama tíma hefur starfsmannavelta verið töluverð og nokkurn tíma hefur tekið að ráða hæft fólk til starfa. Jafnframt hafa umsvif fjármálamarkaðar aukist meira en búist hefur verið við.
    Í þriggja ára áætlun sem fylgdi rekstraráætlun fyrir árið 2007 var þegar fyrirséð að nokkur kostnaðaraukning yrði þegar á árinu 2008. Þetta var vegna fyrirhugaðs flutnings í nýtt húsnæði í árslok 2007 og þörf á fjölgun um 3-4 starfsmenn vegna eftirlits með verðbréfamarkaðnum og lífeyrissjóðum. Jafnframt var sagt að setja yrði fyrirvara um starfsmannafjölda varðandi þróun í umsvifum íslenskra fyrirtækja erlendis.
    Við gerð rekstraráætlunar 2008 er ljóst að hækka þarf rekstrarútgjöld til að mæta auknum kröfum til Fjármálaeftirlitsins. Skýrist það fyrst og fremst af eftirfarandi:
     1.      Leigukostnaður vegna nýs húsnæðis, en stefnt er að því að flytja þann 1. mars 2008. Þessa var getið í síðustu þriggja ára áætlun.
     2.      Fjölgun starfsmanna um 10. Að mati Fjármálaeftirlitins mátti sjá fyrir mestan hluta þessarar fjölgun m.v. síðustu rekstraráætlun.
                  –      Verðbréfamarkaður; 3 starfsmenn vegna aukinna verkefna á grundvelli Mifid og Transparency tilkskipanna, en þessa var getið í síðustu þriggja ára áætlun. Jafnframt, hafa verkefni aukist vegna alþjóðlegrar samvinnu um eftirlit með OMX.
                  –      Lífeyrissjóðir; 2 starfsmenn vegna aukinna verkefna við stækkandi sjóði, flóknari fjárfestingaafurðir, rýmkaðar fjárfestingaheimildir og lágmarksskipulags vegna nýrra laga um starfstengda eftirlaunasjóði. Í síðustu þriggja ára áætlun var gert ráð fyrir að fjölga þyrfti um 1 en m.v. þróun er talið að það hafi verið vanætlað.
                  –      Lánamarkaður; 3 starfsmenn vegna aukningar í starfsemi íslenskra fyrirtækja erlendis. Í síðustu þriggja ára áætlun var settur fyrirvari um þróun í „útrás“ íslenskra fyrirtækja.
                  –      Vátryggingamarkaður; 1 starfsmaður vegna aukningar í umsvifum á vátryggingamarkaði, einkum vegna nýrra tilskipanna og erlendrar starfsemi vátryggingafélaga og stórra eigenda þeirra. Viðkomandi starfsmaður myndi m.a. fá það hlutverk að fylgjast með reglum um fjármálasamsteypur. Í síðustu þriggja ára áætlun var settur fyrirvari um þróun í „útrás“ íslenskra fyrirtækja.
                  –      Verðbréfasjóðir; 1 starfsmaður vegna fjölgunar rekstrarfélaga undir eftirliti, aukningu fjármagns í vörslum slíkra sjóða, flóknari fjármálaafurða og fyrirsjáanlegrar markaðssetningar íslenskra sjóða erlendis. Þetta var ekki fyrirséð við gerð síðustu 3ja ára áætlunar.
     3.      Til að minnka starfsmannaveltu og gera Fjármálaeftirlitið samkeppnishæfara um starfsfólk er óskað eftir 16% hækkun til að mæta óvæntum útgjöldum og launaskriði og þróa árangurstengt launakerfi.
    Ef litið er fram til ársins 2009 er erfitt að segja hvort að þörf verður á fleiri starfsmönnum. Engar tilskipanir virðast fyrirsjáanlegar sem kalla á slíkt nema þá helst „Solvency II“ varðandi vátryggingamarkaðinn, sem þó er óljóst. Ef litið er á aðra þætti sem óvissa er um en myndu hafa áhrif í þessu veru má nefna eftirfarandi:
          Þróun í umsvifum íslenskra fyrirtækja erlendis.
          Aukin áhersla á upplýsingatækni og upplýsingaskipti á milli landa.
          Meta þarf umsvif vinnu vegna laga nr. 55/2007 og nýrrar löggjafar um verðbréfamarkaðinn.
          Hugsanlegar lagabreytingar um sértryggð skuldabréf og fjárvörslusjóði.
          Möguleg starfsemi alþjóðlegs eftirlaunasjóðs.
    Það verður seint nægilega undirstrikað að öflugt Fjármálaeftirlit er samgæði sem nýtist öllum markaðnum. Fjármálaeftirlitið gegnir veigamiklu hlutverki sem grunngerð íslenska fjármálamarkaðarins, en traust erlendra aðila á þeirri grunngerð skiptir verulegu máli fyrir starfsemi íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja og fjárfesta erlendis. Þetta styður síðan við samkeppnishæfni markaðarins og möguleika hans til vaxtar og arðssköpunar.
    Fjármálaeftirlit á Íslandi þarf að geta sinnt alþjóðlegu hlutverki sínu og hafa til þess burði, hvort heldur sem litið er til lagaumgjarðar, hæfni starfsfólks, gæði upplýsingakerfa eða annarra atriða. Markmið þess er að vera í fremstu röð á sínu sviði eins og íslensku fjármálaþjónustufyrirtækin.




Fylgiskjal III.


Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila:

UM REKSTRARÁÆTLUN FJÁRMÁLAEFTIRLITSINS FYRIR ÁRIÐ 2008


(28. júní 2007.)



    Meðfylgjandi eru athugasemdir samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila við greinargerð um áætlað rekstrarumfang FME árið 2008 og fylgiskjal um rekstur og starfsumhverfi næstu þrjú ár, sem kynnt voru nefndinni í. júní.

Fjárhagsáætlun 2008.
     1.      Samráðsnefnd vill öflugt Fjármálaeftirlit á Íslandi og styður eflingu núverandi starfsemi. Samráðsnefnd telur samt meir en 50% hækkun á rekstrarkostnaði FME milli áranna 2007 og 2008 ekki réttlætanlega. Fyrir FME líkt og aðra rekstaraðila er 50% vöxtur á milli ára ærið verkefni að vinna úr.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Launakostnaður nemur rúmum 70 prósentum af heildarrekstrarkostnaði FME. Í drögum að rekstraráætlun fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir 64% hækkun launakostnaðar eða um 264 millj. kr. Heildarrekstrarkostnaður hækkar um 372 millj. kr. milli ára þegar búið er að draga frá sérstakra eingreiðslu í Lífeyrissjóð bankamanna árið 2007, sem ekki getur fallið undir hefðbundinn rekstrarkostnað eftirlitsins. Þetta nemur 61,2% hækkun milli ára.
     3.      Í skýrslu FME er gert ráð verulegum fjárhæðum fyrir óvænt launaútgjöld og kælisamninga. Eðlilegt er að áætla lægri fjárhæð vegna þessa þáttar, sem samt mun gefa ríflegt svigrúm. Þess ber að geta að þróunin verður líklega sú að ef starfsmenn hjá FME færa sig yfir í fjármálafyrirtæki muni fjármálafyrirtækið sjálft reiðubúið að greiða fyrir hinn svokallaða kælitíma.
     4.      Í skýrslu FME er gert ráð fyrir 121 millj. kr. í ný stöðugildi til þess m.a. að mæta kröfum laga nr. 55/2007. Tillaga FME myndar mikið rými til ráðningar nýrra starfsmanna og að mati samráðsnefndar er til staðar svigrúm sem dregur úr þessari hækkun.
     5.      Í skýrslu FME er heildarlaunakostnaður 2008 áætlaður kr. 676 millj. og stöðugildi alls 55.4. FME er að mati samraðsnefndar að greiða laun sem eru mjög samkeppnishæf í samanburði við aðili sem lúta eftirliti FME.
     6.      Samantekt á athugasemdum. FME er að um verulega hækkun er að ræða og að mati samráðsnefndar er hægt að rúma verkefni FME innan 50% hækkunar milli ára. Rekstrarkostnaður FME hefur hækkað verulega síðust árin og að mati samráðsnefndar ætti starfsemin að rúmast vel innan þess ramma sem FME gerir tillögur um að teknu tilliti til ábendinga samráðsnefndar.

Nýting fjármuna FME.
     7.      Samráðsnefnd undirstrikar mikilvægi þess að helmingshækkun til FME verði nýtt til sem best til að auka enn frekar gæði í störfum eftirlitsins. Hlutverk og ábyrgð lykilstarfsmanna og skipulag starfsemi skiptir þar miklu. Gott samstarf markaðsaðila og eftirlits er lykillinn að því að þróa samkeppnishæfan fjármálamarkað. Miklu skiptir einnig að FME skynji þarfir fjármálamarkaðarins, svo sem mikilvægi þess að leiða mál fljótt og örugglega til lykta enda er mikilvægi skjótrar ákvarðanatöku meira í fjármálastarfsemi en víðast annars staðar.

Skipting eftirlitsgjalds.
     8.      Samráðasnefnd fagnar áformum um að láta útgefendur verðbréfa greiði fyrir þann hluta rekstrarkostnaðar eftirlitsins sem snýr að verkefnum sem snúa að verðbréfum en ekki hefðbundnu fjármálaeftirliti, svo sem innherjaskrám, flöggunarreglum o.fl.
     9.      Samráðsnefnd telur eðlilegt að ríkið greiði fyrir þá beinu þjónustu sem starfsfólk FME sinnir fyrir það, s.s. í tengslum við laga- og reglusetningu. Í því felast bæði sanngirnissjónarmið auk þess sem með því móti er kostnaðaraðhald ríkisins gagnvart eftirlitinu virkara.
     10.      Samráðsnefnd metur mikils að FME sé farið að leggja fram tímaskiptingu starfa FME milli einstakra hópa eftirlitsskyldra aðila. Miklu skiptir að þetta sé sem skýrast þannig að kostnaðarskiptingin verði í réttum hlutföllum á hverjum tíma.

Reykjavík 28. júní 2007,


f.h. samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila,



Guðjón Rúnarsson,


formaður.




Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999,
um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að kveða á um álagningarstofna eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Ár hvert skal Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skila viðskiptaráðherra skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til breytinga á eftirlitsgjaldi skal viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi.
    Með frumvarpinu er sú breyting gerð að gert er ráð fyrir að útgefendur hlutabréfa skuli greiða fastagjald sem verði tengt virði útgefinna hlutabréfa. Í frumvarpinu er lagt til að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rekstrarfélaga, kauphalla og verðbréfamiðstöðva lækki en álagningarhlutföll annarra aðila, þ.e. vátryggingafélaga, vátryggingamiðlara, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs, hækki. Þá eru gerðar ýmsar breytingar lágmarks- og fastagjöldum samkvæmt frumvarpinu. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald á árinu 2007 verði samtals 601,9 m.kr. en 915 m.kr. árið 2008 og nemur áætluð hækkun á milli ára 313,1 m.kr. eða 52%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2007 er 607,6 m.kr. en 946,1 m.kr. árið 2008 og er áætluð hækkun á milli ára 338,6 m.kr. eða 55,7%. Hækkun á rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins felst fyrst og fremst í auknum launakostnaði sem áætlað er að hækki um 263,7 m.kr. eða 64%. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi um tvo á þessu ári og um tíu árið 2008. Áætluð hækkun annars rekstarkostnaðar nemur 108,3 m.kr. eða 66,8% og vegur húsnæðiskostnaðurinn þar þyngst eða um 60 m.kr.
    Rekstur Fjármálaeftirlitsins er alfarið fjármagnaður með eftirlitsgjaldi sem lagt er á eftirlitsskylda aðila. Mismunurinn á áætluðum tekjum og gjöldum árið 2007 greiðist af uppsöfnuðum tekjuafgangi stofnunarinnar ásamt sértekjum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.