Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 106. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 106  —  106. mál.
Beiðni um skýrslufrá forsætisráðherra um samninga, viljayfirlýsingar og fyrirheit ráðherra.

Frá Jóni Bjarnasyni, Atla Gíslasyni, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni,


Birni Val Gíslasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur,
Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni.


    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu þar sem eftirfarandi komi fram:
          Upplýsingar um viljayfirlýsingar, fyrirheit eða samninga, sem kunna að fela í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð á núverandi kjörtímabili og því næsta, sem ráðherrar gerðu frá 6. desember 2006 og þar til fyrrverandi ríkisstjórn lét af störfum án þess að bera þá upp á Alþingi.
          Enn fremur komi fram við hvaða fjárheimildir eða samþykktir Alþingis er stuðst í hverju tilviki. Skýrslan taki til rekstrar, stofnverkefna eða réttinda, hvort sem þau eru beint á vegum ríkisins eða á hendi annarra.
          Efni skýrslunnar verði sundurgreint eftir ráðherrum og þær fjárhæðir sem um er að tefla komi fram.
          Greint verði frá tímasetningum, skilyrðum, svo sem um mótframlög, fyrirvörum eða öðru sem áhrif getur haft á framvindu einstakra mála.
          Greint verði frá því hvar almenningur og þingmenn geti nálgast tilgreinda gerninga.
    Í skýrslunni verði lagt mat á það hvort framangreindir gerningar séu innan þess ramma sem markaður er í lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997.

Greinargerð.


    Með beiðninni er óskað eftir tæmandi upplýsingum um öll þau tilvik og allar þær fjárhæðir sem ráðherrar hafa, með samningum, fyrirheitum og viljayfirlýsingum, lofað að veita eða beita sér fyrir að veittar verði á tímabilinu frá því að fjárlög fyrir árið 2007 voru samþykkt 6. desember 2006 og þar til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lét af störfum.
    Það var áberandi á síðustu mánuðum og vikum fyrir alþingiskosningar í vor hvað einstakir ráðherrar og ráðuneyti þeirra sýndu skyndilega mikinn áhuga á að styðja ýmiss konar verkefni og gera vel við ýmsar stofnanir og félagasamtök með skriflegum samningum og fyrirheitum til næstu ára.
    Margar þessara undirskrifta lutu að samningum um brýn og þörf verkefni og í einhverjum tilfellum hafa ráðherrar verið að fullnusta mál sem þeim hafði áður verið falið að leysa úr eða ganga frá. Af fréttatilkynningum ráðuneytanna mátti þó oft ráða að um væri að ræða frumkvæði viðkomandi ráðherra. Í ljósi þess hversu nálægt kosningum var komið þegar brast á með þessari bylgju undirskrifta og loforða var haft á orði að ráðuneytin væru orðin eins og kosningaskrifstofur einstakra flokka og frambjóðenda.
    Það er mikilvægt að framkvæmdarvaldið standi undir því trausti og þeim skyldum sem á því hvíla um meðferð á fjármunum hins opinbera og að það sé hafið yfir vafa að einstakir ráðherrar misnoti ekki aðstöðu sína sjálfum sér og flokki sínum til framdráttar í aðdraganda kosninga.

Ákvæði fjárreiðulaga.
    Minnt er á ákvæði fjárreiðulaga, nr. 88/1997, um frumvarp til fjárlaga. Í 21. gr. segir: „Þannig skal fyrir fram leitað heimilda til greiðslna úr ríkissjóði, eftirgjafar krafna og til að gera hvers konar samninga um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð og ríkisstofnanir.“
    Í 30. gr. segir: „Einstökum ráðherrum er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneytið heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu í fjárlögum.“

Siðferði og lagalegar skyldur.
    Það er ljóst að ráðherrar gefa með undirskriftum sínum, viljayfirlýsingum eða fyrirheitum væntingar um að við þær verði staðið. Jafnframt er ljóst að vonbrigðin verða mikil þegar ekki er staðið við undirskriftirnar, og er þá hægt að velta fyrir sér í hvaða lagalegum eða siðferðilegum rétti ráðherra er að gefa slík fyrirheit.
    Þessi skýrslubeiðni er lögð fram öðru sinni til að fá samantekt á þessum aðgerðum ráðherra og ríkisstjórnar svo að hægt sé að fá sundurliðað heildaryfirlit yfir þessa gerninga og leggja mat á lögformlega en einnig siðferðilega hlið þessa máls nú að afstöðnum kosningum til Alþingis.