Ekki tókst að sækja gögn. Vinsamlegast endurhlaðið síðunni.
Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 128. máls.

Þskj. 129  —  128. mál.


Frumvarp til laga

um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Hlutverk og skipulag.
1. gr.

    Hagstofa Íslands er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra og vinnur að opinberri hagskýrslugerð samkvæmt lögum þessum. Hún er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forustu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar svo og um samskipti við alþjóðastofnanir um hagskýrslu- og tölfræðimál.
    Með opinberri hagskýrslugerð er átt við starfsemi Hagstofunnar og annarra bærra ríkisstofnana sem lýtur að söfnun gagna til tölfræðilegrar úrvinnslu um landshagi Íslands og þjóðfélagsleg málefni, úrvinnslu gagnanna og miðlun tölfræðilegra upplýsinga til almennings, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda á grundvelli laga og í samræmi við fyrirmæli sett samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

    Hagstofan skal ákveða verkefni sín og forgangsraða með hliðsjón af þörfum stjórnvalda fyrir tölfræðilegar upplýsingar til stefnumótunar og ákvarðana um þjóðfélagsmál, alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins um gerð hagskýrslna og af þörfum og óskum almennings, atvinnurekstrar og rannsóknar- og menntastofnana fyrir tölfræðilegar upplýsingar. Í þessu skyni skal stofnunin hafa virkt samráð við þessa aðila.
    Hagstofan skipuleggur starfsemi sína og einstök verkefni innan þess ramma sem ræðst af fjárveitingum á fjárlögum, öðrum framlögum og eigin tekjum, sbr. 14. gr.

3. gr.

    Hagstofan annast samræmingu opinberrar hagskýrslugerðar sem hún og aðrar ríkisstofnanir hafa með höndum skv. 1. gr. Samræming þessi tekur til verkefna og aðferða við hagskýrslugerðina, þar á meðal til notkunar staðla og flokkunarkerfa, skilyrða um gæði og birtingu svo og um meðferð gagna sem safnað er til tölfræðilegrar úrvinnslu.
    Hagstofan skal efna til reglubundins samráðs milli þeirra ríkisstofnana sem leggja stund á opinbera hagskýrslugerð eða safna gögnum sem eru mikilvæg til þeirra nota.

4. gr.

    Hagstofunni stýrir hagstofustjóri sem skipaður er af forsætisráðherra til fimm ára í senn. Hagstofustjóri skal hafa lokið háskólaprófi í hagfræði, tölfræði, félagsfræði eða skyldum greinum og hafa þekkingu og reynslu af hagskýrslugerð eða notkun hagtalna.
    Hagstofustjóri ræður aðra stjórnendur og starfslið Hagstofunnar. Hann er ábyrgur fyrir rekstri Hagstofunnar og skipuleggur starfsemi hennar í samræmi við ákvæði 1.–3. gr.
    Hagstofustjóri ber faglega ábyrgð á hagskýrslugerð Hagstofunnar. Hann tekur ákvarðanir um aðferðir og starfshætti við hagskýrslugerðina, um notkun flokkunarkerfa og staðla, um efni, tímasetningu og birtingu frétta, útgáfa og tölfræðilegra niðurstaðna og skýrslna stofnunarinnar.

II. KAFLI
Söfnun upplýsinga.
5. gr.

    Hagstofunni er heimilt að krefja stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri um gögn og upplýsingar sem hún þarfnast til hagskýrslugerðar sinnar samkvæmt lögum þessum og er þeim skylt að veita henni upplýsingarnar á því formi sem hún óskar eftir eða um semst og innan þeirra tímamarka sem hún ákveður. Hagstofan skal jafnan upplýsa í hvaða tilgangi gagna er aflað, hvernig úrvinnslu verði háttað, gögn varðveitt og niðurstöður birtar.

6. gr.

    Hagstofan skal haga gagnasöfnun sinni á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Hún skal leitast við að afla gagna úr stjórnsýsluskrám og öðrum opinberum skrám og gagnasöfnum þegar því verður við komið. Stjórnvöld sem afla gagna og halda skrár eða gagnasöfn vegna starfsemi sinnar skulu veita Hagstofunni upplýsingar úr þeim sem hún óskar eftir vegna hagskýrslugerðar sinnar og án þess að gjald komi fyrir.
    Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem afla eða hyggjast afla gagna til meiri háttar tölfræðilegrar úrvinnslu skulu upplýsa Hagstofuna um störf sín og áform á þessum vettvangi til að tryggja samræmi í verkefnum, aðferðum og vinnubrögðum og að gögnin nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofan getur í slíkum verkum lagt fyrir hlutaðeigandi aðila að afla viðbótarupplýsinga til hagskýrslugerðar.
    Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem halda skrár vegna starfsemi sinnar eða hyggjast halda slíkar skrár skulu hafa samráð við Hagstofuna um gerð nýrra skráa og endurnýjun eða breytingar eldri skráa til að þær nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofunni er heimilt að óska eftir breytingum á skrám í þessu skyni og skal orðið við þeim óskum eftir því sem við verður komið.

7. gr.

    Fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri er skylt að veita Hagstofunni umbeðnar upplýsingar um umsvif sín og rekstur. Við beina upplýsingaöflun frá aðilum í atvinnurekstri skal Hagstofan gæta þess að gagnasöfnunin sé sem auðveldust og hagkvæmust. Leitast skal við að rafrænni upplýsingatækni sé beitt eftir því sem unnt er, svo sem til útfyllingar gagnabeiðna, við gagnaskil og með tengingum við upplýsingakerfi fyrirtækja.

8. gr.

    Hagstofan skal afla nauðsynlegra hagskýrslugagna um einstaklinga og heimili úr opinberum skrám og á grundvelli stjórnsýslugagna eftir því sem kostur er. Hagstofunni er að öðru leyti heimilt að afla persónubundinna upplýsinga beint frá einstaklingum.

9. gr.

    Við tölfræðilega úrvinnslu og hagskýrslugerð er Hagstofunni heimilt að tengja saman eigin skrár og skrár frá öðrum aðilum með upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila á grundvelli kennitölu eða annars auðkennis.

III. KAFLI
Trúnaður í hagskýrslugerð.
10. gr.

    Þagnarskylda ríkir um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila. Slíkar upplýsingar teljast trúnaðargögn og skulu þær einvörðungu notaðar til hagskýrslugerðar. Sama gildir um upplýsingar um einstaklinga og lögaðila í opinberum skrám sem Hagstofan nýtir til hagskýrslugerðar. Þegar um stjórnsýsluupplýsingar er að ræða er Hagstofunni þó heimilt að veita hlutaðeigandi stjórnvaldi upplýsingar úr gögnum sem það hefur áður tekið þátt í að safna eða látið henni í té.     
    Við birtingu og miðlun hagskýrslna skal svo sem frekast er unnt komið í veg fyrir að rekja megi upplýsingar til tilgreindra einstaklinga eða lögaðila. Þetta gildir ekki hafi hlutaðeigandi einstaklingur eða lögaðili samþykkt þess háttar birtingu eða ef um er að ræða opinberar upplýsingar sem ekki þurfa að fara leynt.

11. gr.

    Starfsfólki Hagstofunnar er skylt að halda trúnað og gæta fyllstu þagmælsku um öll trúnaðargögn, trúnaðarupplýsingar og trúnaðarmál sem það verður áskynja í starfi sínu og leynt skulu fara, sbr. 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Þagnarskyldan helst þótt hlutaðeigandi hafi látið af starfi. Starfsfólk skal enn fremur umgangast allar aðrar upplýsingar um einstaklinga og lögaðila með aðgát og virðingu, jafnvel þótt um sé að ræða opinberar upplýsingar.

12. gr.

    Hagstofunni er skylt að varðveita öll tölfræðigögn um einstaklinga og lögaðila tryggilega og beita viðeigandi ráðstöfunum til að tryggja öryggi gagna.
    Trúnaðargögnum til hagskýrslugerðar skal eytt að lokinni hagnýtingu þeirra nema ástæða þyki til að varðveita þau til frekari rannsókna innan eða utan Hagstofunnar, en þá skal afmá persónuauðkenni þeirra eða dylja.
    Ákvæði laga um skilaskyldu til Þjóðskjalasafns, sbr. 5. gr. laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, gilda ekki um trúnaðargögn til hagskýrslugerðar og þeim skal ekki komið fyrir til geymslu þar.
    Hagstofan skal setja sérstakar reglur um öryggi og varðveislu trúnaðargagna, þar á meðal um varðveislu eða eyðingu pappírsgagna, hvort eða hvenær skuli eyða tölvugögnum og afmá eða dylja auðkenni þess háttar gagna.

13. gr.

    Hagstofan skal stuðla að því að gögn hennar nýtist til tölfræðilegra vísindarannsókna. Í því skyni er henni heimilt að veita viðurkenndum eða trúverðugum rannsóknaraðilum aðgang að gögnum eða afhenda gögn úr gagnasafni með almennum upplýsingum um einstaklinga eða fyrirtæki. Afhending eða hagnýting slíkra gagna skal háð þeim skilyrðum að auðkenni einstaklinga eða fyrirtækja hafi verið afmáð eða dulin og ráðstafanir verið gerðar eftir því sem unnt er til þess að upplýsingar verði ekki raktar til þekkjanlegra einstaklinga eða lögaðila.
    Hagstofunni er einnig heimilt að veita aðgang að gagnasafni með viðkvæmum persónuupplýsingum sé skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, fullnægt og hlutaðeigandi rannsóknaraðili heiti því að skila gögnunum eða eyða persónuauðkennum þeirra að rannsókn lokinni.
    Hagstofan skal setja nánari reglur um afhendingu og hagnýtingu gagna samkvæmt þessari grein og nánari skilyrði í því sambandi, svo sem um umsóknir þar að lútandi, tilgang rannsóknar og rannsóknaráætlun, samhengi gagnaþarfar og rannsóknar, varðveislu gagna og eyðingu gagna að rannsókn lokinni.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.

    Hagstofunni er heimilt að afla sértekna og taka gjald fyrir sérþjónustu í hagskýrslugerð og þjónustu við rannsóknaraðila og aðra gagnabeiðendur svo og vegna hagnýtingar á upplýsingakerfum hennar og þjónustu í því sambandi.

15. gr.

    Skirrist einhver við að veita Hagstofunni umbeðnar upplýsingar til hagskýrslugerðar samkvæmt lögum þessum er henni heimilt að gera hlutaðeigandi skylt að fullnægja upplýsingaskyldu sinni að viðlögðum dagsektum sem mega nema 10.000–50.000 kr. fyrir hvern dag. Dagsektir skulu ákveðnar með úrskurði og falla á fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu hans þar til upplýsingaskyldu er sinnt. Áfallnar dagsektir falla niður þegar Hagstofan telur að upplýsingaskyldu hafi verið fullnægt. Dagsektir renna í ríkissjóð og má án undangengins dóms gera aðför til fullnustu þeirra.

16. gr.

    Forsætisráðherra setur sérstakar verklagsreglur í hagskýrslugerð á grundvelli þessara laga og viðurkenndra reglna sem settar hafa verið á alþjóðavettvangi um opinbera hagskýrslugerð.
    Forsætisráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008. Jafnframt falla þá úr gildi eftirtalin lög:
     1.      Lög um hagstofu Íslands, nr. 24 20. október 1913.
     2.      Lög um hagfræðiskýrslur, nr. 29 8. nóvember 1895.
     3.      Lög um viðauka við lög nr. 29 8. nóvember 1895, um hagfræðiskýrslur, nr. 64 10. desember 1934.
     4.      Lög um launavísitölu, nr. 89 31. maí 1989.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara halda þeir starfsmenn Hagstofu Íslands sem ráðnir hafa verið með ráðningarsamningi, sbr. 41. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við sömu lög, störfum sínum og starfskjörum.
    Skrifstofustjórar við Hagstofu Íslands skulu við gildistöku laga þessara halda störfum sínum og starfskjörum, sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996 og ákvæði til bráðabirgða við þau lög. Hagstofustjóra skal boðið að taka við starfi hagstofustjóra samkvæmt lögum þessum með óbreyttum starfskjörum.
    Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessari grein þarf ekki að gæta 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Nauðsyn nýrra laga um Hagstofu Íslands.
    Með lögum nr. 109 25. júní 2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, var meðal annars ákveðið að leggja Hagstofu Íslands niður sem ráðuneyti frá og með árslokum 2007. Í athugasemdum með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands sagði um þetta efni að Hagstofu Íslands verði breytt úr ráðuneyti í sjálfstæða ríkisstofnun en sú breyting taki ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 2008. Því vinnist tími til að endurskoða lög um Hagstofuna. Forsætisráðherra fjallaði sérstaklega um þetta er hann mælti fyrir stjórnarráðsfrumvarpinu. Kom þar fram að ráðgert væri að endurskoða gömul lög um Hagstofu Íslands með það fyrir augum að búa henni lagaramma sem sjálfstæðri ríkisstofnun. Ætlunin væri að hún heyrði undir forsætisráðuneyti. Starfsemi Hagstofunnar væri á margan hátt öðruvísi en venjulegs ráðuneytis. Þar fari ekki fram hefðbundin stefnumótunarvinna eins og í öðrum ráðuneytum. Þessi breyting væri því til þess fallin að skapa meira samræmi milli ráðuneyta en nú væri og laga starfsemi Hagstofunnar að raunverulegu hlutverki hennar.
    Starfsemi Hagstofu Íslands byggist nú að hluta á mjög gömlum lögum, að hluta á lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands og á nokkrum sérlögum um einstök viðfangsefni. Grunnlöggjöf Hagstofunnar er þríþætt. Elstu lögin eru lög um hagfræðiskýrslur, nr. 29 frá 8. nóvember 1895. Með þeim var landsstjórninni gert að annast um að samdar væru árlega hagfræðiskýrslur um atvinnuvegi landsmanna og atvinnurekendum gert að láta hlutaðeigandi stjórnvöldum ár hvert í té skýrslur um reksturinn. Stofnlög Hagstofunnar eru nr. 24 frá 20. nóvember 1913. Með þeim var Hagstofunni komið á fót, helstu verkefni hennar talin upp og kveðið á um innheimtu hennar á gögnum og skýrslum. Loks voru árið 1934 sett lög um viðauka við lögin um hagfræðiskýrslur þar sem skylda til skýrsluskila var færð út til atvinnustarfsemi sem ekki var nefnd í eldri lögum.
    Lögin og reglugerðin um Stjórnarráð Íslands mynda aðra grunnstoðina undir starfsemi Hagstofunnar. Samkvæmt lögunum og reglugerðinni frá 1969 var Hagstofan ráðuneyti sem fór með þau mál er lutu að opinberri hagskýrslugerð, tilhögun hennar og framkvæmd. Hún fór jafnframt með þjóðskrá og almannaskráningu og eftir breytingu reglugerðarinnar árið 1997 einnig með skráningu fyrirtækja og hlutafélaga. Með útgáfu núgildandi reglugerðar um Stjórnarráðið árið 2004 og síðari breytingum voru ákvæði um Hagstofuna löguð að þeim breytingum sem orðið höfðu á hlutverki hennar. Þar má einkum nefna tilfærslu hagskýrsluverkefna Þjóðhagsstofnunar til Hagstofunnar árið 2002, flutning fyrirtækja- og félagaskráningar frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra árið 2003 og flutning Þjóðskrár til dómsmálaráðuneytis árið 2006. Samkvæmt 6. gr. gildandi reglugerðar fer Hagstofan með mál sem varða:
     1.      Tilhögun, samræmingu og framkvæmd opinberrar hagskýrslugerðar.
     2.      Söfnun gagna um landshagi, úrvinnslu þeirra, miðlun tölfræðilegra upplýsinga og útgáfu hagskýrslna.
     3.      Gerð þjóðhagsreikninga.
     4.      Vísitölur.
     5.      Samskipti við alþjóðastofnanir um hagskýrslu- og tölfræðimál.
    Auk ofangreindra laga og reglugerða eru í gildi þrenn lög um vísitölur sem Hagstofan reiknar: vísitölu neysluverðs, vísitölu byggingarkostnaðar og launavísitölu. Þau lög hafa verið sett vegna þess hlutverks sem vísitölurnar hafa gegnt við verðtryggingu fjárskuldbindinga.
    Við niðurfellingu á ráðuneytisstöðu Hagstofunnar 1. janúar 2008 falla úr gildi ákvæði stjórnarráðsreglugerðar um starfsemi hennar. Eftir standa þá gömlu lögin um Hagstofuna auk fyrrnefndra vísitölulaga. Þetta er ekki fullnægjandi lagagrundvöllur og kemur þá einkum tvennt til:
    Annars vegar hefur 6. gr. gildandi reglugerðar um Stjórnarráð Íslands að geyma mikilvæg ákvæði um starfsemi Hagstofunnar sem þurfa að vera lögfest, einkum ákvæði 1. tölul. um tilhögun og samræmingu opinberrar hagskýrslugerðar, ákvæði 2. tölul. um hið almenna hagskýrsluhlutverk Hagstofunnar og ákvæði 5. tölul. um alþjóðleg samskipti um hagskýrslu- og tölfræðimál.
    Hins vegar hafa gömlu lögin um Hagstofuna og hagfræðiskýrslur ekki að geyma ýmis ákvæði sem nú þykir óhjákvæmilegt að séu í hagstofu- og hagskýrslulöggjöf. Meðal þessara atriða má nefna almennar og nútímalegar heimildir til öflunar gagna meðal einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda, heimildir til aðgangs að stjórnsýsluskrám og hagnýtingar gagna úr slíkum skrám og gagnasöfnum, skyldu stjórnvalda og annarra til að láta í té upplýsingar vegna opinberrar hagskýrslugerðar, trúnaðarkvaðir og öryggiskvaðir vegna söfnunar og varðveislu auðkennanlegra upplýsinga og heimildir Hagstofunnar til að veita aðgang að gögnum til tölfræðilegra rannsókna.
    Frumvarp þetta er flutt í þeim tilgangi að búa Hagstofu Íslands og opinberri hagskýrslugerð viðhlítandi lagagrundvöll þar sem ofangreindum atriðum er til skila haldið.

Þróun hagskýrslulöggjafar á alþjóðavettvangi.
    Undangengna tvo áratugi hafa orðið talsverðar umræður um hagstofu- og hagskýrslulög á alþjóðavettvangi og hafa margar þjóðir breytt löggjöf sinni um þessi efni með hliðsjón af þeim. Greina má þrjár meginástæður fyrir þessum umræðum og breytingum.
     1.      Í fyrsta lagi hefur gætt almennra sjónarmiða um að starfsemi hagstofa og vinna við opinbera hagskýrslugerð þurfi að byggjast á traustum og opinskáum lagagrunni. Í þessu sambandi hefur áhersla verið lögð á nokkur meginatriði, svo sem faglegt sjálfstæði hagstofa og hagskýrslugerðar gagnvart stjórnvöldum og hagsmunahópum, að festa ríki um hagskýrslugerðina, um aðferðir hennar, skilgreiningar og flokkanir, að tilgangur starfseminnar sé ljós og skynsamlegt samhengi sé milli gagnaöflunar og þarfa fyrir tölfræðilegar upplýsingar, og að jafnræði sé milli notenda um aðgang að upplýsingum og skýrslum hagstofanna.
     2.      Í annan stað hafði sundurliðun Sovétríkjanna og stofnun sjálfstæðra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu fyrir og um 1990 mikil áhrif á þróun í setningu laga og meginreglna í hagskýrslugerð. Hagskýrslugerðin í austantjaldsríkjunum þótti afar ótrúverðug og einkum vera ætlað að styðja stjórnkerfi þessara ríkja og valdhafa á hverjum tíma. Við stofnun og á fyrstu árum nýrra lýðræðisríkja í Mið- og Austur-Evrópu var því við ramman reip að draga hvað snerti alla gagnasöfnun til hagskýrslugerðar þar sem almenningur og fyrirtæki treystu ekki hagstofum ríkjanna fyrir upplýsingum og gögnum og litið var á þær sem hluta af valdakerfinu á hverjum stað og tíma. Því var á þessum tíma mjög brýnt að sett yrðu lög og reglur um hagskýrslugerðina sem kvæðu skýrt á um heimildir og skyldur hagstofanna hvað snerti tilgang upplýsingasöfnunar, meðferð hagskýrslugagna, úrvinnslu og birtingu svo og um faglegt sjálfstæði hagstofanna gagnvart stjórnvöldum. Þessi umræða hafði áhrif á viðhorf til þessara mála langt út fyrir þau ríki sem hún tengdist á beinan hátt.
     3.      Allt frá stofnun innri markaðar Evrópusambandsins (ESB) á níunda áratug síðustu aldar hefur framkvæmdastjórn þess með hagstofu sína, Eurostat, í fararbroddi beitt sér fyrir að auka sem mest samræmi í opinberri hagskýrslugerð til þess að niðurstöður verði sem sambærilegastar milli aðildarríkja. Þetta hefur ekki síst verið gert með setningu laga og reglugerða um sem flest viðfangsefni hagskýrslugerðarinnar. Íslendingar hafa lent að fullu í þessari hringiðu aukinna verkefna, samræmingar og reglugerðarvinnu frá því hafist var handa við samningana um Evrópska efnahagssvæðið (EES) um og upp úr 1990. Þess má geta að við gildistöku EES-samningsins voru 26 reglugerðir í hagskýrsluviðauka hans en eru yfir 200 nú. Eftir Maastricht-samninginn og myndun hins sameiginlega myntbandalags ESB hefur þörfin fyrir sambærilegar hagskýrslur á sviði efnahagsmála orðið mjög brýn, einkum vegna þess að þátttaka í myntbandalaginu ræðst af frammistöðu aðildarríkja hvað snertir jafnvægi í verðlagsmálum, langtímavöxtum, ríkisfjármálum og skuldum hins opinbera. Þetta varð sérstaklega áleitið þegar ljóst varð að skýrslugerð eins aðildarríkis að myntbandalaginu, Grikklands, reyndist ekki trúverðug hvað snerti halla á fjárlögum ríkisins. Þetta, ásamt hliðstæðum álitamálum sem snertu önnur aðildarríki, varð til þess að framkvæmdastjórnin féllst á að þörf væri á skýrari reglum um hagskýrslugerðina en þáverandi regluverk ESB hafði að geyma.
    Vandamál hagstofanna í hinum nýfrjálsu ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu voru mikið rædd á alþjóðavettvangi í byrjun síðasta áratugar síðustu aldar. Á vettvangi hagstofustjóraþings Efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE) voru að beiðni þessara ríkja samin drög að grundvallarreglum í opinberri hagskýrslugerð. Þessi drög voru samþykkt á þingi hagstofustjóra árið 1991 og á 47. þingi Efnahagsstofnunarinnar í apríl árið 1992. Þessar reglur voru síðan samþykktar af Hagskýrslunefnd Sameinuðu þjóðanna árið 1994.
    Grundvallarreglur þessar voru einkum ætlaðar hagskýrsluyfirvöldum í nýfrjálsum ríkjum, en fljótlega kom í ljós að þær höfðu mjög almenna skírskotun og voru mikilvægar fyrir gamalgrónar hagstofur sem og hagstofur í nýfrjálsum ríkjum og þróunarríkjum. Í reynd hafa þær orðið grundvöllur að hagskýrslulöggjöf margra þjóða og fylgni við þær hefur orðið eitt af aðalsmerkjum opinberrar hagskýrslustarfsemi um víða veröld.
    Hagstofa Íslands tók þessum reglum tveim höndum þar sem þær þóttu fylla að nokkru upp í þau skörð sem voru í íslenskri hagskýrslulöggjöf, einkum hvað snerti tilgang upplýsingasöfnunar, gagnaleynd og trúnað við gagnaveitendur og takmörkun á hagnýtingu hagskýrslugagna við opinbera hagskýrslugerð. Grundvallarreglurnar voru þýddar á Hagstofunni og voru meðal þess sem fyrst var birt þegar Hagstofan kom sér upp vefsíðum árið 1995. Grundvallarreglurnar eru birtar hér í fylgiskjali I.
    Á vettvangi ESB og evrópska hagskýrslusamstarfsins hafa hagstofur aðildarríkjanna allt frá því um síðastliðin aldamót reynt að fá framkvæmdastjórn ESB til að endurskoða ákvæði Rómarsáttmálans um hagskýrslur og ákvæði hagskýrslulöggjafar ESB (reglugerð ráðsins nr. 322/1997 um hagskýrslur ESB og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 281/1997 um hlutverk Eurostat). Tillögur þar að lútandi voru lagðar fram á árunum 2003 og 2004 en fengu ekki hljómgrunn í Eurostat. Var þá gerð atlaga að því að semja verklagsreglur (enska: Code of Practice) fyrir hagskýrslugerðina en nokkrar hagstofur í Evrópu höfðu þá þegar sett sér eigin verklags- og siðareglur. Eftir þá miklu umræðu sem varð um ríkishallatölur Grikkja og trúverðugleika hagskýrslna þeirra og annarra þjóða í framhaldi af því, féllst framkvæmdastjórnin á að settar yrðu sérstakar verklagsreglur um evrópska hagskýrslugerð. Drög vinnunefndar hagstofanna og Eurostat voru samþykkt af hagskýrsluáætlunarnefnd EES-ríkjanna (nefnd allra hagstofustjóra EES-ríkja og Eurostat) í febrúar 2005 og gefin út af framkvæmdastjórninni sem tilmæli nr. 217/2005 í maí sama ár.
    Tilmæli þessi voru talin eiga erindi við öll EES-ríkin og voru þau samþykkt af sameiginlegu EES-nefndinni og tekin upp í EES-samninginn. Í því felst að mælst er til að þau gildi fyrir íslensk stjórnvöld, Hagstofu Íslands og aðrar opinberar stofnanir sem fást við opinbera hagskýrslugerð hér á landi. Hagstofa Íslands taldi að mikill fengur væri að þessum verklagsreglum þar sem þær tækju á mörgum ef ekki flestum þeim málum sem æskilegt væri að væru í löggjöf eða í innlendum verklagsreglum. Hagstofan þýddi reglur þessar og innleiddi þær á eigin vettvangi veturinn 2005. Í framhaldi af þessu varð að ráði að reglurnar yrðu gefnar út formlega og skyldu gilda um opinbera hagskýrslugerð hér á landi. Reglurnar voru birtar með auglýsingu um gildistöku verklagsreglna í hagskýrslugerð í Stjórnartíðindum nr. 578 9. júní 2006. Verklagsreglur þessar koma fram í fylgiskjali II með þessu frumvarpi.
    Setning verklagsreglna ESB var í reynd eins konar málamiðlun og af hálfu framkvæmdastjórnarinnar var þeim meðal annars ætlað að fullnægja þörf fyrir setningu nýrrar hagskýrslulöggjafar fyrir bandalagið. Eftir að reglurnar höfðu tekið gildi og farið var að fylgjast með framkvæmd þeirra hefur engu að síður orðið framhald á umræðum og vinnu að samningu nýrrar löggjafar. Að því hefur verið unnið af sameiginlegri nefnd hagstofa EES-ríkjanna og Eurostat. Nefndin hefur nú lagt fram drög að nýrri löggjöf sem lagt er til að leysi af hólmi þær reglugerðir sem nú fjalla um hagskýrslugerð, hagstofu ESB, meðferð trúnaðargagna og hagskýrsluáætlunarnefndina.

Formleg staða Hagstofu Íslands í áranna rás.
    Hagstofan var sett á laggirnar með lögum árið 1913. Formlega átti hún að taka til starfa 1. janúar 1914 og við þann stofndag er jafnan miðað þótt ekki sé vitað nákvæmlega hvenær hagstofustjórinn og aðstoðarmaður hans hófu störf á Hagstofunni sem slíkri. Lög um Hagstofu Íslands voru staðfest af konungi og gefin út sem lög nr. 24 20. október 1913. Þegar lögin um Hagstofuna tóku gildi var Stjórnarráð Íslands rétt tæplega 10 ára gamalt. Stjórnarráðið var frá upphafi myndað af landritara og þremur skrifstofum. Landritari var eins konar yfirskrifstofustjóri en verkaskipting milli skrifstofanna var þannig að I. skrifstofa fór með kennslumál og dómsmál, II. skrifstofa fór með atvinnu- og samgöngumál og III. skrifstofa fór með fjármál og endurskoðun. Auk þessa starfaði skrifstofa Stjórnarráðs Íslands í Kaupmannahöfn og voru verkefni hennar að afla upplýsinga erlendis fyrir Stjórnarráðið og annast afgreiðslu fyrir það við dönsk stjórnvöld auk ýmissa annarra starfa í þágu Stjórnarráðsins.
    Hagstofunni var komið á fót við hlið þessara skrifstofa eða ráðuneyta, eins og þau voru kölluð frá 1921. Öðrum stofnunum eða skrifstofum var ekki til að dreifa. Orðalag 1. gr. hagstofulaganna, að stofnunin standi beinlínis undir ráðherranum, gefur til kynna að Hagstofan hafi átt að vera jafnsett stjórnarskrifstofunum, en raunar var hún þó sjálfstæðari því hagstofustjórinn heyrði beinlínis undir ráðherrann en ekki undir landritara eins og skrifstofustjórar Stjórnarráðsins.
    Í ársbyrjun 1917 var ráðherrum fjölgað úr einum í þrjá. Jafnframt var Stjórnarráðið endurskipulagt og landritaraembættið lagt niður. Þá þurfti að taka afstöðu til þess undir hvaða ráðherra Hagstofan heyrði er þessi skipan var komin á. Var þetta gert með auglýsingu nr. 12 31. mars 1917 en þar segir: „Við hlið fjármáladeildar starfar Hagstofan sem sérstök stofnun, og stendur hún beint undir þeim ráðherra sem fer með fjármálin.“
    Þessi auglýsing virðist staðfesta að Hagstofunni hafi verið ætlað að vera sjálfstæð stjórnardeild. Þetta kemur meðal annars fram í riti Agnars Kl. Jónssonar, Stjórnarráð Íslands 1904–1964 (bls. 401), en hann lætur þess getið að þrátt fyrir að Hagstofunni hafi í raun verið ætlað að vera ráðuneyti hafi svo ekki verið í framkvæmd nema að nokkru leyti.
    Sú skipan, sem á var komið árið 1917, hélst til ársins 1956, en þá tók þáverandi forsætisráðherra „af skarið í þessu efni“ svo notað sé orðalag Agnars Kl. Jónssonar. Var það gert með bréfi forsætisráðherra til hagstofustjóra 15. október 1956, sem birt er í B-deild Stjórnartíðinda, nr. 112/1956, og er á þessa leið:

„Bréf forsætisráðherra til hagstofustjóra, um að hagstofan sé ráðuneyti hliðstæð öðrum stjórnardeildum.

    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/1913, um Hagstofu Íslands, stendur sú stofnun beint undir ráðherra, og er hún því í raun réttri ráðuneyti hliðstæð öðrum stjórnardeildum undir fjármálaráðherra, þ.e. fjármálaráðuneytinu og endurskoðunardeild þess. Þó að svo sé, hefur hingað til skort nokkuð á, að Hagstofan væri skoðuð sem ráðuneyti í framkvæmd, en nú vill ríkisstjórnin koma þessu í rétt horf og lýsir hér með yfir því, að héðan í frá skal staða Hagstofunnar vera í einu og öllu hin sama og staða annarra ráðuneyta, bæði gagnvart ríkisstjórninni sjálfri, öðrum ráðuneytum og öllum öðrum aðilum, sem Hagstofan á skipti við.
    Af þessu leiðir meðal annars, að úrskurðir og ákvarðanir Hagstofunnar í verkahring hennar hafa sama gildi og úrskurðir og ákvarðanir ráðuneytis, svo og að starfsmenn Hagstofunnar hafa að öllu leyti sömu stöðu og starfskjör og hliðstæðir starfsmenn annarra ráðuneyta hafa.
    Viðurkenning þess, að Hagstofan sé ráðuneyti, gefur ekki tilefni til breyttrar tilhögunar á meðferð og afgreiðslu mála í verkahring hennar frá því, sem verið hefur.“

    Þetta bréf mun hafa verið ritað að beiðni hagstofustjóra í ljósi þeirra breytinga, sem þá höfðu orðið á starfsemi Hagstofunnar. Samkvæmt lögunum frá 1913 var Hagstofan hrein hagskýrslu- og efnahagsstofnun og henni voru ekki falin bein stjórnsýsluverkefni önnur en þau sem e.t.v. má telja að hafi falist í hagskýrslugerðinni sjálfri og í þeirri aðstoð sem henni var ætlað að veita landsstjórninni. Á þessu varð hins vegar breyting á árunum 1952–1954 þegar þjóðskránni var komið á fót. Þjóðskráin starfaði fyrstu árin á grundvelli bráðabirgðalaga nr. 58 10. september 1952 um töku sérstaks manntals 16. október það ár til að komið yrði upp „vélspjaldaskrá yfir alla landsmenn“ og á 32. gr. tekjuskattslaga nr. 46/1954, sem mælti fyrir um að gjaldendur skyldu skattlagðir þar sem þeir ættu lögheimili samkvæmt „allsherjarspjaldskrá“ Hagstofunnar. Lög um þjóðskrá voru fyrst sett á árinu 1956 (lög nr. 31/1956). Með þessari lagasetningu voru tekin af tvímæli um að Hagstofan gegndi stjórnsýsluhlutverki. Þar með hefur jafnframt þótt þörf á að taka af tvímæli um stöðu Hagstofunnar. Þar má nefna annars vegar nauðsyn á að skýra eða styrkja stöðu stofnunarinnar gagnvart ýmsum embættum, embættismönnum og öðrum, sem áttu að starfa að almannaskráningunni eftir lögunum og fyrirmælum Hagstofunnar. Hins vegar var Hagstofunni ætlað að taka ýmsar ákvarðanir um skráningu manna og ekki síst að skera úr um lögheimili, en slíkir úrskurðir eru endanlegir í þeim skilningi að þeim verður ekki áfrýjað til æðra setts stjórnvalds. Þetta kemur fram í síðari hluta bréfs forsætisráðherra þar sem segir að úrskurðir og ákvarðanir Hagstofunnar hafi sama gildi og úrskurðir og ákvarðanir ráðuneytis. Bréfinu virðist raunar fyrst og fremst ætlað að staðfesta þetta með formlegum hætti, en ekki að koma á breytingum á starfsemi Hagstofunnar eins og niðurlag þess er til vitnis um.
    Sú lögformlega staða, sem staðfest var með bréfinu 1956, hélst til ársins 1969, er út voru gefin lög um Stjórnarráð Íslands, nr. 73 28. maí 1969. Í þeim lögum er Hagstofan talin eitt 13 ráðuneyta Stjórnarráðsins. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir enn fremur að ráðuneytisstjóri og hagstofustjóri stýri ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra. Í framhaldi af útgáfu Stjórnarráðslaganna var birt auglýsing nr. 96 31. desember 1969, um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Í reglugerðinni er kveðið á um verkaskiptingu milli ráðuneyta og eru verkefni Hagstofunnar þar talin upp í 6. gr. eins og áður var getið.
    Tímabilið 1917–1969 gilti sú tilhögun, eins og áður hefur verið rakið, að Hagstofan heyrði undir fjármálaráðherra. Lengst af þurfti því ekki við ákvörðun um skiptingu starfa milli ráðherra að víkja sérstaklega að stöðu Hagstofunnar. Árabilið 1956–1969 voru forsetaúrskurðir um skiptingu ráðherra mjög ítarlegir og voru þá talin upp einstök verkefni ráðherra en ekki þau ráðuneyti sem hver ráðherra fór með. Eftir útgáfu Stjórnarráðsreglugerðarinnar 1969 var þessa ekki þörf og hefur síðan verið látið nægja að geta þess með hvaða ráðuneyti hver ráðherra fer. Hefur Hagstofan þá jafnan verið hluti af þeirri upptalningu, þótt komið hafi fyrir að við hafi legið að hún gleymdist. Fróðlegt er að athuga með hvaða ráðuneytum Hagstofan hefur átt samleið þetta tímabil.
    Samkvæmt fyrstu auglýsingunni, sem út var gefin eftir setningu Stjórnarráðsreglugerðarinnar nr. 97/1969, fór Magnús Jónsson með fjármálaráðuneytið og Hagstofu Íslands. Þetta hélst þar til viðreisnarstjórnin féll og ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við 14. júlí 1971. Þar með lauk 58 ára samleið Hagstofunnar og fjármálaráðuneytis. Í vinstri stjórninni 1971– 1974 fór Magnús Torfi Ólafsson með menntamálaráðuneyti og Hagstofu Íslands. Í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 1974–1978 og ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978–1979 fóru forsætisráðherrarnir jafnframt með Hagstofuna. Hagstofan átti á ný samleið með fjármálaráðuneytinu er Sighvatur Björgvinsson fór með fjármálaráðuneytið og Hagstofuna í ríkisstjórn Benedikts Gröndals 1979–1980, en var aftur annað ráðuneyti forsætisráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen 1980–1983. Er Steingrímur Hermannsson myndaði ríkisstjórn sína 1983 varð Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra og ráðherra Hagstofunnar. Sú skipan stóð þar til Matthías lét af ráðherradómi árið 1985 og Þorsteinn Pálsson varð fjármálaráðherra en hann tók jafnframt að sér Hagstofuna. Fjölbreytni Hagstofunnar jókst enn er Þorsteinn Pálsson myndaði ráðuneyti sitt í júlí 1987. Þá varð Jón Sigurðsson ráðherra Hagstofunnar og átti hún þá til hausts 1988 samleið með dóms- og kirkjumálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Í lok september 1988 myndaði Steingrímur Hermannsson ráðuneyti að nýju. Fór hann þá enn fremur með Hagstofu Íslands. Sú skipan gilti þó einungis í tæplega eitt ár eða þar til Steingrímur myndaði nýtt ráðuneyti og fulltrúar Borgaraflokksins tóku sæti í ríkisstjórn. Júlíus Sólnes varð þá ráðherra Hagstofu Íslands. Fyrir Hagstofuna var þetta einstæður atburður því þennan dag, 10. september 1989, brá svo við að hún fékk ráðherra, sem hafði ekki önnur ráðuneyti. Við svo búið stóð þar til umhverfisráðuneyti var stofnað í febrúar 1990, en þá endurheimti forsætisráðherra „Hagstofuráðuneyti sitt“ eins og þá var farið að nefna Hagstofuna. Er Davíð Oddsson myndaði fyrsta ráðuneyti sitt 30. apríl 1991 fór hann auk forsætisráðuneytisins jafnframt með málefni Hagstofu Íslands. Hélst sú skipan í öllum ráðuneytum hans. Davíð Oddsson lét af embætti forsætisráðherra og tók við embætti utanríkisráðherra 15. september 2004 en gegndi áfram embætti sínu sem ráðherra Hagstofunnar. Er hann hvarf úr ríkisstjórn 27. september 2005 tók forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson við málefnum Hagstofunnar og hélst sú skipan þar til Geir H. Haarde myndaði ráðuneyti og varð forsætisráðherra og ráðherra Hagstofu Íslands 15. júní 2006. Sú skipan hélst óbreytt í þeirri ríkisstjórn sem tók við 24. maí 2007.

Breytingar á verkefnum Hagstofunnar undangengin ár.
    Samkvæmt stofnlögum Hagstofunnar skal hún fyrst og fremst sinna hagskýrslugerð en auk þess er henni falið „að aðstoða landsstjórnina með hagfræðis útreikningum og skýringum, er hún óskar eftir, og gefa henni álit og yfirlýsingar, þegar þess er leitað“ eins og segir í 2. gr. laganna. Hagstofan var því upphaflega hrein hagskýrslustofnun að heita má og hélst það þar til hún kom þjóðskrá á fót á árunum 1952–1954 eins og fyrr er getið. Með því og þeim lögum sem sett voru um þjóðskrá og almannaskráningu árið 1956, var Hagstofunni fengið stjórnsýsluhlutverk. Þetta var staðfest með Stjórnarráðsreglugerðinni 1969 hvað þjóðskrána varðar en enn fremur var henni falið að vinna skýrslur og úrskurði í þágu opinberra aðila.
    Árið 1969 kom Hagstofan á fót fyrirtækjaskrá og um það verkefni voru sett sérstök lög nr. 62/1969. Fyrirtækjaskráin var í reynd stjórnsýsluskrá þótt henni væri af hálfu Hagstofunnar fyrst og fremst ætlað að vera undirstaða hagskýrslugerðar um fyrirtæki. Þessar skrár, þjóðskrá og fyrirtækjaskrá, urðu grunnskrár fyrir stjórnsýsluna í landinu, bæði vegna þess að skrárnar voru þær einu sinnar tegundar og til almennrar hagnýtingar og vegna notkunar skránna á auðkennisnúmeri fyrir einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. Þjóðskráin hafði frá upphafi byggst á fæðingarnúmeri fyrir alla einstaklinga en það var nær eingöngu notuð við vinnslu skrárinnar. Hagstofan beitti hins vegar svonefndu nafnnúmeri til stafrófsröðunar í skrám sínum og var það smám saman að almennu auðkennisnúmeri. Stóð svo þar til núverandi kennitala var tekin upp árið 1986 en hún var byggð á fæðingarnúmeri einstaklinga og hliðstæðu númeri fyrir fyrirtæki sem miðast við stofndag þeirra eða fyrstu skráningu. Þessi auðkennisnúmer hafa frá upphafi verið hagnýtt af skattayfirvöldum og fljótlega af allri opinberri stjórnsýslu og í viðskiptalífinu.
    Árið 1997 var stjórnsýsluhlutverk Hagstofunnar aukið þegar henni var falið að halda skrár um hlutafélög, einkahlutafélög og samvinnufélög. Þetta var gert með breytingu á hlutaðeigandi löggjöf og með breytingu á Stjórnarráðsreglugerðinni frá 1969.
    Í apríl 2001 kynnti forsætisráðherra þá fyrirætlun sína að taka til endurskoðunar verkaskiptingu þeirra stofnana ríkisins sem færu með efnahagsmál og hagskýrslugerð. Vinnu að undirbúningi þessa lauk með framlagningu frumvarps til laga um brottfall laga um Þjóðhagsstofnun. Í athugasemdum við frumvarpið var gerð grein fyrir niðurstöðum þessarar endurskoðunar en þær voru að færa verkefni Þjóðhagsstofnunar til skyldra sviða í fjármálaráðuneyti og Hagstofunni og styrkja þau, en leggja Þjóðhagsstofnun sem slíka niður. Þetta frumvarp varð að lögum sem tóku gildi 1. júlí 2002.
    Þjóðhagsstofnun hafði annast hluta af hagskýrslugerð um efnahagsmál. Hér var einkum um að ræða gerð þjóðhagsreikninga og tengdra hagskýrslna svo sem um einkaneyslu, fjármunamyndun og búskap hins opinbera, rekstur og efnahag atvinnuvega, tekjur einstaklinga og tekjudreifingu auk athugana á sviði atvinnu og vinnumarkaðar. Þessi verkefni voru færð til Hagstofunnar þar sem talið var að betri forsendur væru til að samræma og bæta innihald, afköst og gæði opinberrar hagskýrslugerðar þegar verkefnin væru saman komin í einni sérhæfðri hagskýrslustofnun.
    Í tengslum við niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar og tilfærslu hagskýrsluverkefna hennar var enn fremur ákveðið að ná fram frekari hagræðingu í stjórnsýslunni og styrkja hagskýrslugerðina með því að endurskipuleggja Hagstofuna og flytja frá henni verkefni sem ekki tilheyrðu hagskýrslugerðinni beinlínis, það er þjóðskrá og almannaskráningu og skráningu fyrirtækja.
    Hagstofan hafði lengi haft hug á því að þessi stjórnsýsluverkefni hennar yrðu flutt frá henni. Ástæðan var sú að samsetning hagskýrslugerðar og rekstur þjóðskrár og fyrirtækjaskráa í einni stofnun þótti ekki lengur jafntrúverðug og heppileg og var þegar skrárnar voru stofnaðar. Þetta stafaði ekki síst af þeirri þróun sem orðið hafði í viðhorfum og reglum um meðferð persónubundinna gagna svo og þróun hagskýrslulöggjafar á alþjóðavettvangi sem lýst var hér á undan. Þannig þótti gagnasöfnun Hagstofunnar til hagskýrslugerðar ekki fara vel saman með gagnasöfnun hennar til skráningar fólks og fyrirtækja í stjórnsýsluskyni og rekstur opinberrar Þjóðskrár og fyrirtækjaskráa þar sem mismunandi reglur giltu um varðveislu og meðferð upplýsinganna eftir því hvort um væri að ræða trúnaðargögn til hagskýrslugerðar og gögn vegna opinberra skráa.
    Í framhaldi af þessu var skráning fyrirtækja flutt frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra 1. júlí 2003 og Þjóðskrá og almannaskráning flutt frá henni til dómsmálaráðuneytis 1. júlí 2006.
    Í frumvarpinu um niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar var því enn fremur lýst yfir að eftir að skráningarverkefnin hefðu verið flutt frá Hagstofunni væri ráðgert að ráðuneytisstaða Hagstofunnar yrði afnumin og Hagstofan gerð að stofnun forsætisráðuneytis. Hagstofan yrði við þetta hrein hagskýrslustofnun eins og systurstofnanir hennar í nágrannaríkjunum, með sömu verkefni og svipaða stöðu.

Meginefni þessa frumvarps.
    Sem fyrr segir er frumvarp þetta flutt í þeim tilgangi að búa Hagstofu Íslands og opinberri hagskýrslugerð viðhlítandi lagagrundvöll. Við samningu frumvarpsins hefur einkum verið litið til þriggja þátta hvað snertir efnisatriði nýrra laga: þeirra ákvæða um Hagstofuna í núverandi reglugerð um Stjórnarráð Íslands sem felld verða niður 1. janúar 2008, meginreglna um opinbera hagskýrslugerð og starfsemi hagstofa sem er að finna í grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna og verklagsreglum í evrópskri hagskýrslugerð, sem áður er vikið að, og loks til löggjafar nokkurra nágrannaþjóða á þessu sviði sem og fyrirliggjandi tillagna að nýrri hagskýrslulöggjöf ESB.
    Hagskýrslulöggjöf Evrópuþjóða er býsna mismunandi og sýnist það meðal annars fara eftir aldri laganna og þjóðfélagsástandinu á þeim tíma sem löggjöfin var samin. Norræn hagskýrslu- og hagstofulög geyma fyrst og fremst meginreglur um verkefni og skilyrði hagskýrslugerðarinnar, um gagnasöfnun og notkun stjórnsýslugagna til hagskýrslugerðar, um rekstur og stjórnun hagstofu og um faglegt sjálfstæði hagstofunnar eða hagstofustjóra. Frá þessu eru þó töluverð frávik í einstökum atriðum. Þannig er í dönsku hagstofulögunum nákvæm upptalning á þeim atriðum sem gagnaveitendur skulu láta hagstofunni í té. Finnsku lögin geyma ekki ámóta upptalningu en hins vegar er þar að finna nákvæm fyrirmæli um hagnýtingu stjórnsýsluupplýsinga og gagna úr stjórnsýsluskrám til hagskýrslugerðar. Löggjöf fyrrum austantjaldsríkja er yfirleitt mun ítarlegri en norræna löggjöfin og sver sig meira í ætt við verklagsreglur en meginreglur, enda var nýjum hagstofulögum í þessum ríkjum ætlað að rjúfa tengslin við fortíðina og því nauðsyn á setningu nákvæmari fyrirmæla en ella.
    Fyrirliggjandi tillögur vinnunefndar hagstofa EES-ríkja og Eurostat um nýja hagskýrslulöggjöf ESB – og þar með EES – eru nokkuð nákvæmar og draga að hluta dám af evrópsku verklagsreglunum. Í tillögunum er meðal annars gert ráð fyrir mun skarpari ákvæðum en nú eru í löggjöf ESB um að hagskýrslugerð innan ESB skuli vera faglega sjálfstæð, óháð og óvilhöll, og um meðferð trúnaðargagna. Þá eru ákvæði um hlutverk og ábyrgð hagstofa aðildarríkja á hagskýrslugerðinni heima fyrir og um hlutverk hagstofu ESB. Lagt er til að hún skuli starfa samkvæmt reglugerðinni og lúta hagstofustjóra sem sé einn ábyrgur fyrir ákvörðunum um úrvinnslu, aðferðir, notkun staðla og verklag og um efni og birtingu hagskýrslna. Enn fremur eru svipuð ákvæði um gæði hagskýrslna og gæðaeftirlit og eru í evrópsku verklagsreglunum.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði fremur knöpp lög sem fjalli um meginreglur. Nánari útfærslu verði hins vegar að finna í sömu eða svipuðum verklagsreglum í hagskýrslugerð og settar voru í júní 2006 að fyrirmynd tilmæla framkvæmdastjórnar ESB og nú er beitt í öllum aðildarríkjum EES. Jafnframt er gert ráð fyrir að settar verði reglur um framkvæmd einstakra atriða.
    Lagt er til að ný lög um Hagstofuna taki gildi 1. janúar 2008 um leið og ákvæði um hana í lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands falla úr gildi. Þá er jafnframt lagt til að á sama tíma falli úr gildi gömlu hagstofulögin frá 1913 og lögin um hagfræðiskýrslur frá 1895 og 1934. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að núverandi lög um vísitölu neysluverðs og um vísitölu byggingarkostnaðar haldi gildi sínu vegna notkunar þessara vísitalna við verðtryggingu á fjármagnsmarkaði og í byggingarstarfsemi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin fjallar um stöðu Hagstofu Íslands, störf hennar að hagskýrslugerð og hlutverk hennar sem miðstöðvar opinberrar hagskýrslugerðar í landinu.
    Í 1. mgr. segir að Hagstofan sé sjálfstæð stofnun sem heyri undir forsætisráðherra. Með þessu er Hagstofunni mörkuð sama staða og gegnir um flestar hagstofur í nágrannaríkjunum. Þær eru ríkisstofnanir sem heyra undir tiltekinn ráðherra eða ráðuneyti, hlíta almennum skilyrðum slíkra stofnana, starfa á grundvelli fjárveitinga á fjárlögum, hafa skýrt afmarkað hlutverk að lögum og er skylt að taka sjálfstæðar ákvarðanir um einstök viðfangsefni, aðferðir og verklag. Á alþjóðavettvangi er mikil áhersla lögð á faglegt sjálfstæði hagstofa og kemur það skýrt fram í grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna í opinberri hagskýrslugerð, verklagsreglum í evrópskri hagskýrslugerð og í hinum nýju drögum að hagskýrslulöggjöf ESB. Ekki þykir nægja að í þessu efni gildi langar og traustar hefðir, eins og raunin er hér á landi, heldur sé faglegt sjálfstæði tryggt í lögum. Þessa gætir í nýlegri „jafningjaúttekt“ sem gerð var á Hagstofu Íslands af hálfu evrópska hagskýrslusamstarfsins fyrr á þessu ári, en í niðurstöðum hennar er meðal annars mælst til þess að ákvæði af þessi tagi verði sett í nýja og heildstæða hagskýrslulöggjöf hér á landi.
    Í 1. mgr. er einnig kveðið á um að Hagstofan vinni að opinberri hagskýrslugerð samkvæmt lögum þessum og jafnframt sé hún miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu. Sem slíkri ber henni að hafa forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd opinberrar hagskýrslugerðar og um alþjóðasamskipti á þessu sviði. Sömu efnisákvæði eru nú í 6. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004.
    Í 2. mgr. er fjallað um hvað sé opinber hagskýrslugerð. Segir þar að með því sé átt við hagskýrslustarfsemi Hagstofu Íslands og annarra bærra ríkisstofnana sem unnin sé á grundvelli laga og í samræmi við fyrirmæli sett samkvæmt lögum þessum. Í þessu sambandi þykir rétt að opinber hagskýrslugerð sé bundin því skilyrði að hún sé reist á lögum. Einnig er nauðsynlegt að slík starfsemi uppfylli tilteknar kröfur um forsendur, verklag og gæði eins og er að finna í verklagsreglum í hagskýrslugerð frá 9. júní 2006. Eins og rakið er í almennum athugasemdum hér að framan eru verklagsreglur þessar íslensk útgáfa af verklagsreglum í evrópskri hagskýrslugerð sem samdar voru af vinnunefnd hagstofa EES-ríkja og Eurostat, hagstofu ESB, í febrúar 2005 og gefnar út sem tilmæli í maí 2005. Þessi tilmæli hafa verið tekin upp í EES-samninginn og gilda því jafnt í öllum ríkjum EES. Í 16. gr. er gert ráð fyrir að forsætisráðherra setji sérstakar verklagsreglur á grundvelli þessara laga og viðurkenndra reglna sem settar hafa verið á alþjóðavettvangi um opinbera hagskýrslugerð.
    Rétt er að taka fram að orðin „miðlun tölfræðilegra upplýsinga“ vísa bæði til miðlunar tölfræðilegra niðurstaðna og tölfræðilegra gagna til rannsókna og frekari úrvinnslu eins og kveðið er á um í 13. gr. Hvort tveggja er hluti af hefðbundinni hagstofustarfsemi.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað langrar upptalningar á einstökum verkum og efnisatriðum sem hagskýrslugerðin skuli beinast að, skuli Hagstofan ákveða verkefni sín og forgangsraða með hliðsjón af þörfum stjórnvalda fyrir tölfræðilegar upplýsingar, alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins um gerð hagskýrslna og af þörfum og óskum almennings, atvinnurekstrar og rannsóknar- og menntastofnana fyrir tölfræðilegar upplýsingar. Í þessu skyni skuli stofnunin hafa virkt samráð við hlutaðeigandi aðila.
    Ekki þykir ástæða til að ákveða í lögum hvernig slíku samráði skuli háttað heldur látið nægja að skuldbinda Hagstofuna til þess að ástunda það. Tekið er fram að samráðið skuli vera virkt, en með því er átt við að það sé ástundað með samfelldum og reglubundnum hætti.
    Mjög er misjafnt hvernig þess háttar samráði er hagað í nágrannaríkjum. Í sumum ríkjum eru starfandi sérstök hagskýrsluráð sem gegna mismunandi hlutverkum, svo sem að vera fulltrúar notenda, veita ráðgjöf um hagskýrslugerðina o.fl. Reynsla af störfum slíkra ráða þykir misjöfn. Þá hafa ýmsar hagstofur samráð við notendur með starfrækslu notendahópa. Hagstofa Íslands hefur ágæta reynslu af því að styðjast við ráðgjafar- og notendahópa á ýmsum sviðum hagskýrslugerðarinnar. Nú eru starfandi eftirtaldar fastanefndir og hópar:
     *      Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs samkvæmt lögum nr. 12 /1995.
     *      Ráðgjafarnefnd um launakannanir og aðrar vinnumarkaðskannanir sem starfar á grundvelli samnings Hagstofunnar og Kjararannsóknarnefndar frá árinu 2004 um að Hagstofan yfirtæki það starf að kjararannsóknum sem nefndin hafði haft með höndum.
     *      Notendahópur um verðvísitölur.
     *      Notendahópur um þjóðhagsreikninga.
    Notendahóparnir starfa að beiðni Hagstofunnar og eru skipaðir fulltrúum frá fjármálaráðuneyti, Seðlabanka Íslands, viðskipta- og hagfræðideildum háskóla, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og greiningardeildum bankanna. Þeir hittast um það bil tvisvar á ári eða oftar eftir því sem þurfa þykir. Nánari upplýsingar um hópanna er að finna á vef Hagstofunnar.
    Þá er nú einnig unnið að því að koma á fót notendahópi um vinnumarkaðstölfræði.
    Auk þessa hefur Hagstofan oft kallað saman tímabundna ráðgjafarhópa til að leggja á ráðin um einstök verkefni, innleiðingu nýrra flokkunarkerfa o.fl. Þannig er nú starfandi ráðgjafarhópur um innleiðingu á nýrri atvinnugreinaflokkun.
    Að mati Hagstofunnar er ágæt reynsla af þessu fyrirkomulagi og starfi þessara hópa og hyggst hún sinna samráðsskyldu sinni við notendur á þennan hátt. Þá er æskilegt að færa þetta starf út til fleiri sviða, svo sem félags- og velferðarmála.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Hagstofan annist samræmingu opinberrar hagskýrslugerðar í landinu. Þetta er eitt þeirra hlutverka sem Hagstofan hefur nú með höndum og kveðið er á um í 6. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands. Þetta efnisákvæði er útfært hér nánar og tekið fram til hvaða helstu þátta samræmingin skuli ná, þ.e. notkunar staðla og flokkunarkerfa, skilyrða um gæði og birtingu svo og um meðferð gagna sem safnað er til tölfræðilegrar úrvinnslu.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að Hagstofan skuli efna til reglubundins samráðs milli þeirra ríkisstofnana sem leggja stund á opinbera hagskýrslugerð eða safna gögnum sem eru mikilvæg til opinberrar hagskýrslugerðar. Tilgangur þessa er annars vegar að tryggja að samráðið verði virkt og samfellt og hins vegar að stofnanir séu meðvitaðar um mikilvægi þess að stjórnsýslugögn séu hagnýtt til hagskýrslugerðar eftir því sem kostur er. Þeim mun meiri og betri sem slík not eru, þeim mun skilvirkari og ódýrari verður gagnasöfnunin og þeim mun minna þarf að ónáða fólk og fyrirtæki með beiðnum um gögn og upplýsingar.
    Tillögur þessarar greinar eru meðal annars sniðnar eftir hliðstæðum ákvæðum í lögum eða reglum norsku og finnsku hagstofanna. Þar þykir samráð af þessu tagi hafa verið árangursríkt.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um skipun, hlutverk og ábyrgð hagstofustjóra.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hvaða skilyrði hagstofustjóri skuli uppfylla. Lagt er til að forsætisráðherra skipi hagstofustjóra til fimm ára í senn og er þá hvað skipunartíma varðar fylgt þeim reglum sem nú gilda um skipun embættismanna. Þá er lagt til að hagstofustjóri skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði, tölfræði, félagsfræði eða skyldum greinum og hafa þekkingu og reynslu af hagskýrslugerð eða notkun hagtalna. Hér gætir þess sjónarmiðs að brýnt sé að hagstofustjóri hafi til að bera faglega þekkingu á opinberri hagskýrslugerð og opinberum hagtölum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að hagstofustjóri ráði aðra stjórnendur og starfslið Hagstofunnar, hann sé ábyrgur fyrir rekstri hennar og skipuleggi starfsemina í samræmi við ákvæði 1.–3. gr.
    Í 3. mgr. er kveðið á um faglega ábyrgð hagstofustjóra á hagskýrslugerðinni. Tekið skal fram að tillögur 2. og 3. mgr. fela í reynd í sér staðfestingu á gildandi hlutverki og ábyrgð hagstofustjóra hér á landi og eru í samræmi við það sem tíðkast í nágrannaríkjum, svo sem í hinum norrænu ríkjunum.

Um 5. gr.

    Ákvæði um gagnaöflun Hagstofunnar er að finna í 5.–8. gr. Í 5. gr. er fjallað almennt um heimild Hagstofunnar til öflunar gagna til hagskýrslugerðar en í 6.–8. gr. eru ítarlegri ákvæði í því efni.
    Með 5. gr. er Hagstofunni heimilað að afla gagna til hagskýrslugerðar frá stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri og þeim gert skylt að veita umbeðnar upplýsingar. Hliðstæð ákvæði eru nú í lögum um hagfræðiskýrslur frá 1895 og viðauka við þau frá 1934. Þá eiga þessi ákvæði sér hliðstæðu í hagskýrslulöggjöf nágrannaríkja. Hér er enn fremur lagt til að Hagstofan skuli upplýsa gagnaveitendur og upplýsingagjafa um tilgang gagnasöfnunarinnar, úrvinnslu gagnanna, varðveislu þeirra og birtingu. Þetta er í reynd staðfesting á gildandi verklagi Hagstofunnar. Nefna má að upplýsingar af þessu tagi koma fram í kynningarbréfum til þátttakenda í úrtaksathugunum og öðrum könnunum svo og í upplýsingaefni um einstakar kannanir þar sem því er að skipta, meðal annars á vef Hagstofunnar.

Um 6. gr.

    Hagstofur EES-ríkja byggja gagnasöfnun sína bæði á beinum könnunum meðal almennings og fyrirtækja og á stjórnsýsluupplýsingum. Með stjórnsýsluupplýsingum og stjórnsýslugögnum er átt við upplýsingar og gögn sem stjórnvöld afla vegna stjórnsýslu sinnar og upplýsingaveitendur láta í té í því skyni. Á Norðurlöndunum er löng hefð fyrir því að hagnýta stjórnsýslugögn til hagskýrslugerðar. Þetta er gert í ríkum mæli hér á landi, ýmist á grundvelli hinar almennu heimildar Hagstofunnar til gagnaöflunar frá stjórnvöldum og á grundvelli sérstakra lagaákvæða þar að lútandi. Þannig er ákvæði um miðlun gagna og upplýsinga til Hagstofunnar að finna í lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, í lögum um fyrirtækjaskrá, í skattalögum, tollalögum o.fl. Þessi aðferð til öflunar hagskýrslugagna er afar mikilvæg í litlum ríkjum. Hún er sérstaklega brýn hér á landi vegna smæðar þjóðfélagsins og mikils kostnaðar af því að afla upplýsinga með könnunum og fyrirspurnum meðal fyrirtækja og almennings. Nefna má þrjár meginástæður fyrir því að takmarka notkun beinna kannana meðal einstaklinga og fyrirtækja hér á landi:
     *      Upplýsingagjöf krefst óhjákvæmilega vinnu og tíma af þeim sem láta upplýsingar í té. Það ætti því að vera keppikefli að hafa sem mest hóf á beinni gagnasöfnun og leita ekki eftir sömu eða svipuðum upplýsingum og hafa þegar verið látnar í té til stjórnvalda.
     *      Fjöldi gagnaveitenda sem úrtaksathuganir og aðrar beinar kannanir beinast að verður hlutfallslega miklum mun meiri hér á landi en í stærri ríkjum. Kostnaðurinn við þessar aðferðir við gagnasöfnum er að sama skapi meiri.
     *      Í litlum ríkjum verður miklum mun oftar að leita til sömu fyrirtækja og einstaklinga en í stórum ríkjum. Þetta eykur líkur á að fyrirtæki og almenningur þreytist á því að láta í té upplýsingar.
    Í 6. gr. er fyrst að finna almennt ákvæði um að Hagstofan skuli haga gagnasöfnun sinni á þann hátt að fyrirhöfn upplýsingagjafa við að láta í té gögn sé hófleg. Í framhaldi af því fjallar greinin um hagnýtingu stjórnsýsluupplýsinga til hagskýrslugerðar. Í 1. mgr. er kveðið á um að Hagstofan skuli leitast við að afla gagna úr stjórnsýsluskrám og öðrum opinberum skrám og gagnasöfnum þegar því verði við komið og að stjórnvöld sem afla gagna og halda skrár og gagnasöfn vegna starfsemi sinnar skuli veita Hagstofunni upplýsingar úr þeim sem hún óskar eftir og án þess að gjald komi fyrir. Sem fyrr segir eru svipuð ákvæði nú í ýmsum lögum og hefur Hagstofan um árabil byggt mikinn hluta gagnasöfnunar sinnar á opinberum skrám.
    Í 2. mgr. er lagt til að ríkisstofnunum og sveitarfélögum sem afla gagna til meiri háttar tölfræðilegrar úrvinnslu eða hafa áform um það skuli upplýsa Hagstofuna um þetta til að tryggja samræmi í verkefnum, aðgerðum og vinnubrögðum og til þess að gögnin nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Jafnframt geti Hagstofan þegar um slík verk er að ræða lagt fyrir hlutaðeigandi aðila að afla viðbótarupplýsinga til hagskýrslugerðar.
    Í 3. mgr. er lagt til að ríkisstofnanir og sveitarfélög sem halda skrár vegna starfsemi sinnar eða hyggjast halda slíkar skrár skuli hafa samráð við Hagstofuna um gerð nýrra skráa eða breytingar eldri skráa til þess að þær nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofunni sé og heimilt að óska eftir tilteknum breytingum á skrám í þessu skyni og skuli orðið við þeim eftir því sem við verður komið. Þetta orðalag sem og orðalag í niðurlagi 2. mgr. er vitaskuld fremur óákveðið en markmiðið er hér að kveða almennt á um skyldu ríkisstofnana og sveitarfélaga til að verða við óskum Hagstofunnar um öflun viðbótarupplýsinga og breytingar á skrám enda séu slíkar óskir innan skynsamlegra marka hvað snertir fyrirhöfn og kostnað.
    Hliðstæð ákvæði um öflun viðbótarupplýsinga og um samráð um gerð skráa o.þ.h. eru í lögum annarra norrænna hagstofa. Þau þykja hafa gefist vel og orðið til þess að styrkja gagnaöflun hagstofanna úr opinberum skrám og samnýtingu opinberra gagna. Hagstofa Íslands hefur um árabil átt mikil og góð samskipti við opinbera aðila um hagnýtingu gagna. Dæmi eru um að Hagstofan hafi óskað eftir að aflað væri tiltekinna viðbótarupplýsinga vegna hagskýrslugerðar, ýmist með góðum eða döprum árangri. Þá eru enn fremur dæmi um að opinberir aðilar hafi leitað samráðs við Hagstofuna um uppbyggingu gagnasafna vegna hagnýtingar gagna til hagskýrslugerðar og að Hagstofan hafi óskað eftir tilteknum breytingum til að gögn nýttust sem best. Þau ákvæði sem hér er um að ræða ber meðal annars að skoða í samhengi við tillögur 3. gr. um reglubundið samráð milli Hagstofunnar og ríkisstofnana sem leggja stund á hagskýrslugerð eða safna gögnum sem eru mikilvæg til þeirra nota. Með þessum tveimur ákvæðum er stefnt að því að tryggja samráð og samstarf opinberra aðila í þessum efnum.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um að fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri sé skylt að veita Hagstofunni umbeðnar upplýsingar um umsvif sín og rekstur. Hins vegar skuli Hagstofan gæta þess við beina upplýsingaöflun frá aðilum í atvinnurekstri að gagnasöfnunin sé sem auðveldust og hagkvæmust, Sérstaklega skuli leitast við að rafrænni upplýsingatækni sé beitt eftir því sem unnt er, svo sem til útfyllingar gagnabeiðna, við gagnaskil og með tengingum við upplýsingakerfi fyrirtækja.
    Á undanförnum árum hafa ýmsar aðferðir verið þróaðar og teknar upp af hagstofum sem hagnýta rafræna tækni til öflunar upplýsinga. Hagstofa Íslands hefur gert þetta í nokkrum mæli og vinnur að frekari útfærslu slíkra aðferða. Meðal annars má nefna rafræna söfnun gagna úr bókhalds- og launakerfum fyrirtækja, gagnasöfnun á vef og notkun veflausna til flutnings gagnasafna og skráa. Brýnt er að framhald verði á þessu enda er hér um mjög hagkvæmar aðferðir að ræða sem spara bæði gagnaveitendum og Hagstofunni tíma og fyrirhöfn.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er fjallað um söfnun upplýsinga um einstaklinga og heimili. Mælt er fyrir um að Hagstofan skuli afla slíkra upplýsinga úr opinberum skrám og á grundvelli stjórnsýslugagna svo sem kostur er en henni sé að öðru leyti heimilt að afla persónubundinna upplýsinga beint frá einstaklingunum. Hér er enn lögð áhersla á notkun stjórnsýslugagna, bæði til að draga úr fyrirhöfn einstaklinga við að láta í té upplýsingar og til að hvetja til samnýtingar á gögnum opinberra stofnana til stjórnsýsluþarfa og hagskýrslugerðar.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er lagt til að Hagstofan hafi skýra heimild til samtengingar skráa vegna hagskýrslugerðar sinnar á þá leið að kveðið verði á um að við tölfræðilega úrvinnslu og hagskýrslugerð sé Hagstofunni heimilt að tengja saman skrár, bæði eigin og skrár frá öðrum aðilum, með upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila á grundvelli kennitölu eða annars auðkennis.
    Samkvæmt gildandi lögum hefur Hagstofan heimild til hagnýtingar þjóðskrár og fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar sinnar og þar með til samtengingar þeirra við önnur gögn á grundvelli kennitölu eða annars auðkennis. Þá hefur hún ríkar heimildir til notkunar annarra skráa, svo sem skattskráa, tollskrár o.fl. Hagstofan hefur í áranna rás og allan þann tíma sem hún fór með Þjóðskrá og fyrirtækjaskrár byggt mikinn hluta hagskýrslugerðar sinnar á hagnýtingu skráa, meðal annars með því að tengja saman mismunandi gagnasöfn og skrár. Þessi aðferð er afar gagnleg við hagskýrslugerð. Henni er mikið beitt af norrænu hagstofunum er þær byggja opinbera hagskýrslugerð sína að miklu leyti á stjórnsýsluskrám. Meðal annars eru manntöl Dana, Finna og Norðmanna byggð á stjórnsýsluskrám þar sem hluti upplýsinganna er fenginn með því að tengja saman mismunandi skrár og gagnasöfn.
    Í þessu sambandi ber að hafa í huga að samkvæmt þessu frumvarpi er meðferð upplýsinga um tilgreinda einstaklinga og lögaðila háð ströngum skilyrðum. Skilyrt er að sé slíkum upplýsingum safnað til hagskýrslugerðar megi einungis hagnýta þær í þeim tilgangi en engum öðrum, sbr. 1. mgr. 10. gr. Þá er kveðið á um að birtingu niðurstaðna beri jafnan að haga þannig að komið sé í veg fyrir svo sem unnt er að upplýsingar séu rekjanlegar til einstakra aðila, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 10. gr. Þá eru ríkar trúnaðarskyldur lagðar á Hagstofuna og starfslið hennar í 10. og 11. gr. Loks eru í 12. gr. almenn fyrirmæli um öryggi gagna og sérstök fyrirmæli um að trúnaðargögnum skuli eytt að lokinni hagnýtingu eða auðkenni þeirra afmáð eða dulin ef ástæða sé til að varðveita þau til frekari rannsókna.

Um 10. og 11. gr.

    Í þessum greinum eru tillögur um ákvæði um trúnaðarskyldur Hagstofunnar. Í 1. mgr. 10. gr. er kveðið á um að þagnarskylda ríki um allar upplýsingar sem Hagstofan safnar til hagskýrslugerðar og snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila, að slíkar upplýsingar teljist trúnaðargögn og skuli einungis notaðar til hagskýrslugerðar. Þetta er meginregla við opinbera hagskýrslugerð í flestum ríkjum. Hún byggist á ákvæðum í grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna sem hafa verið tekin upp í hagstofulög margra þjóða, í verklagsreglur í evrópskri hagskýrslugerð og í íslensku verklagsreglurnar frá 9. júní 2006.
    Í 2. mgr. 10. gr. er sem fyrr segir mælt fyrir um að við birtingu og miðlun hagskýrslna skuli jafnan komið í veg fyrir, svo sem frekast er unnt, að upplýsingar séu rekjanlegar til tilgreindra einstaklinga eða lögaðila. Þessa meginreglu er enn fremur að finna í fyrrnefndum reglum og lögum annarra þjóða. Tekið skal fram að þetta atriði er vandmeðfarnara hjá litlum ríkjum en stórum og aðgát í þessu efni er sífellt viðfangsefni Hagstofunnar.
    Engin bein ákvæði um trúnaðarkvaðir í hagskýrslugerð hafa verið í íslenskum lögum. Hagstofan hefur hins vegar jafnan gætt vandlega að slíkum atriðum þótt óskráð væru og farið í því efni eftir þeim sjónarmiðum og verklagi sem tíðkast hefur í Vestur-Evrópu um árabil. Þá hefur hún farið eftir ákvæðum grundvallarreglna Sameinuðu þjóðanna frá því þær voru settar. Loks setti hún sér fyrir nokkrum árum eigin reglur um meðferð trúnaðargagna í hagskýrslugerð og hafa þær verið birtar á vefsíðum Hagstofunnar.
    Í 11. gr. er loks að finna sérstök ákvæði um trúnaðarskyldur starfsfólks og eru þau í samræmi við reglur 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þess má geta að á grundvelli þeirra undirrita allir starfsmenn Hagstofunnar sérstakt trúnaðarheit er þeir hefja störf og hefur svo verið um árabil.

Um 12. gr.

    Ákvæði greinarinnar lúta að varðveislu gagna og sérstaklega að meðferð gagna með persónuauðkennum. Gert er ráð fyrir að meginreglan sé sú að trúnaðargögnum til hagskýrslugerðar skuli eytt að lokinni hagnýtingu nema ástæða þyki til að varðveita þau til frekari rannsókna en þá skuli afmá persónuauðkenni þeirra eða dylja. Lagt er til að setja skuli sérstakar reglur um þetta efni.
    Hagstofan hefur um nokkurra ára skeið fylgt eigin reglum um meðferð trúnaðargagna og eru þær birtar á vef hennar. Gera má ráð fyrir að þær reglur og það verklag sem beitt hefur verið samkvæmt þeim verði eftir því sem við á uppistaðan í þeim reglum sem hér er lagt til að settar verði um meðferð trúnaðargagna. Gildandi reglur kveða meðal annars á um að gögn skuli varðveitt þar til úrvinnslu er lokið og niðurstöður hafa verið birtar en að lokinni hagnýtingu skuli gögnunum eytt eða persónuauðkenni þeirra afmáð eða dulin. Jafnframt er við það miðað að trúnaðargögn séu að jafnaði ekki varðveitt lengur en svo að ætla megi að nægur tími hafi liðið til þess að orðið hafi vart við hugsanlegar skekkjur og álitamál sem krefjist þess að grunngögn séu tiltæk.
    Í ýmsum tilvikum þykir ástæða til að varðveita trúnaðargögn um langa hríð til frekari úrvinnslu eða rannsókna. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að ýmis hagskýrslugögn má hagnýta löngu eftir að þeirra er aflað og því ástæða til að varðveita þau. Í þeim tilvikum er nauðsynlegt að gaumur sé gefinn að varðveislu auðkennanlegra gagna og því er í 12. gr. gert ráð fyrir öðru af tvennu, að auðkenni séu afmáð til að gögnin verði ekki rekjanleg eða að auðkennin verði dulin í sama skyni. Í síðara tilvikinu er þá gert ráð fyrir að halda opnum þeim möguleika að tengja saman gögnin við önnur gögn á grundvelli auðkennis. Enn ber að geta þess að þessi regla felur í sér svipað verklag og við er haft í hinum norrænu hagstofunum.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að trúnaðargögnum sem aflað er til hagskýrslugerðar skuli ekki skilað til Þjóðskjalasafns til varðveislu. Þessara gagna er aflað beinlínis til hagskýrslugerðar og þau verða eingöngu notuð til hagskýrslugerðar samkvæmt grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna, viðteknu verklagi evrópskra hagstofa og samkvæmt tillögum þessa frumvarps, sbr. 1. mgr. 10. gr. Þá er gagnanna aflað á þeim forsendum að þeim verði eytt eða auðkenni þeirra afmáð að lokinni hagnýtingu.
    Loks er í 4. mgr. kveðið á um að Hagstofan skuli setja sérstakar reglur um öryggi og varðveislu trúnaðargagna, þar með talið varðveislu og eyðingu pappírsgagna, hvort eða hvenær skuli eyða tölvugögnum og afmá eða dylja auðkenni þess háttar gagna.

Um 13. gr.

    Áhugi á aðgangi að grunngögnum hagstofa til tölfræðilegra rannsókna, svo sem á sviði hagfræði, félagsfræði, læknisfræði o.fl., hefur farið vaxandi að undanförnu, bæði hér á landi og í öðrum EES-ríkjum. Hagstofurnar hafa reynt í auknum mæli að verða við þessari eftirspurn enda eykur það virði gagnanna ef þau nýtast til annarra tölfræðilegra rannsókna en þeirra sem hagstofurnar annast. Sameiginlegt álit hagstofa, svo sem það hefur komið fram á þingi hagstofustjóra Efnahags- og samvinnustofnunar Evrópu og í hagskýrsluáætlunarnefnd EES-ríkja, er að afhending gagna af þessu tagi sé æskileg en hljóti að vera háð skilyrðum um gagnaleynd og gagnavernd. Auk þess þurfi að vera ljóst að um sé að ræða vel grundaðar rannsóknir, þær gerðar af sérfræðingum og af faglegri þekkingu og samhengi sé milli rannsóknaráforma og yfirlýstrar gagnaþarfar.
    Í þessari grein er fyrst kveðið á um að Hagstofan skuli stuðla að því að gögn hennar nýtist til tölfræðilegra vísindarannsókna. Þá eru gerðar tillögur um heimildir til Hagstofunnar til að veita aðgang að gagnasöfnum með upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila í rannsóknarskyni og skilyrði í því sambandi. Þessar tillögur eru byggðar á sjónarmiðum sem fram hafa komið í alþjóðlegri umræðu um aðgang að grunngögnum hagstofa og verklagi sem mælt er með í þessu sambandi. Svipuð ákvæði hafa verið um nokkurt skeið í reglum Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna sem áður var getið.
    Í 1. og 2. mgr. er greint á milli veitingar aðgangs að gagnasöfnum með almennum upplýsingum og viðkvæmum persónuupplýsingum. Í fyrra tilvikinu er afhendingin háð þeim skilyrðum að auðkenni einstaklinga og fyrirtækja hafi verið afmáð eða dulin og ráðstafanir verið gerðar til þess að upplýsingar verði ekki raktar til þekkjanlegra einstaklinga eða lögaðila. Þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd er lagt til að Hagstofunni sé heimilt að veita aðgang að gagnasafni eða gögnum með slíkum upplýsingum til tölfræðilegra vísindarannsókna sé skilyrðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga fullnægt og rannsóknaraðili hafi heitið því að skila gögnunum eða eyða persónuauðkennum þeirra að rannsókn lokinni. Hvað gögn Hagstofunnar snertir lúta ákvæði 2. mgr. fyrst og fremst að dánarvottorðum og dánarmeinaskrá en samkvæmt lögum varðveitir Hagstofan dánarvottorð og semur upp úr þeim skýrslur um dánarorsakir. Þessi gögn eru mikið notuð til læknisfræðilegra rannsókna og brýnt þykir að á því geti orðið framhald. Persónuvernd hefur bent á að vafi leiki á heimild Hagstofunnar til að veita persónubundnar upplýsingar úr þessum gögnum og er ákvæðum 2. mgr. ætlað að taka af tvímæli í því efni hvað snertir viðkvæmar persónuupplýsingar, þar með talið úr dánarmeinaskrá.
    Sameiginlegt skilyrði er að um sé að ræða viðurkenndan eða trúverðugan rannsóknaraðila. Er þá gert ráð fyrir að rannsakandinn hafi aflað sér viðurkenningar með rannsóknum sínum, hann komi frá viðurkenndri rannsóknarstofnun og slík stofnun taki ábyrgð á hlutaðeigandi rannsókn og rannsakanda.
    Í 3. mgr. segir að Hagstofan skuli setja nánari reglur um afhendingu og hagnýtingu gagna samkvæmt þessari grein. Tekið er fram að meðal þeirra atriða sem reglurnar skuli fjalla um séu skilyrði um umsóknir um aðgang að gögnum, upplýsingar um tilgang rannsóknar, framlagningu rannsóknaráætlunar, hvernig gert sé ráð fyrir að gögn verði nýtt til rannsóknar, hvernig varðveislu gagna verði háttað og um eyðingu gagna að lokinni rannsókn. Hagstofan hefur sett allnákvæmar reglur um þetta efni í reglum sínum um meðferð trúnaðargagna. Samkvæmt þeim er sérstök trúnaðargagnanefnd starfrækt innan Hagstofunnar til að fjalla um beiðnir um einstaklingsbundin gögn. Af hálfu Hagstofunnar er aðgangur að slíkum gögnum háður þeim skilyrðum að sótt sé skriflega um aðganginn, upplýsingar veittar um tilgang rannsóknar, rannsóknaráætlun sé lögð fram og upplýsingar veittar um hvernig ætlað sé að umbeðin gögn nýtist í rannsókninni. Gert er ráð fyrir að þær reglur sem setja á samkvæmt greininni verði í svipuðum dúr.

Um 14. gr.

    Í þessari grein er lagt til að Hagstofunni sé heimilt að afla sértekna og taka gjald fyrir sérþjónustu í hagskýrslugerð og þjónustu við rannsóknaraðila og aðra gagnabeiðendur svo og vegna hagnýtingar á upplýsingakerfum hennar og þjónustu í því sambandi. Langmestur hluti ráðstöfunarfjár Hagstofunnar kemur úr ríkissjóði á grundvelli fjárlaga. Þá nýtur Hagstofan nokkurra framlaga úr sjóðum ESB til sérstakra sameiginlegra eða samræmdra verkefna sem byggjast á reglugerðum eða tilskipunum þar að lútandi. Loks hefur Hagstofan takmarkaðar sértekjur af sölu rita og sérstakri þjónustu sem látin er í té þegar um er að ræða verkefni sem krefjast sérstaks undirbúnings gagna eða vinnu við gerð sérhæfðra skráa fyrir rannsakendur og aðra gagnabeiðendur. Meginreglan er sú að upplýsingar Hagstofunnar séu veittar án endurgjalds, aðallega á vef hennar, en eðlilegt þykir að kostnaði við prentun rita sé mætt með sölu þeirra. Svipuðu máli gegnir ef sú vinna sem Hagstofan innir af hendi vegna sértækra óska um gögn eða þjónustu er sérstaklega umfangsmikil og meiri eða sértækari en felst í almennu hagskýrsluhlutverki hagstofu.

Um 15. gr.

    Í þessari grein er lagt til að Hagstofunni sé heimilt að gera þeim sem verða ekki við óskum hennar um upplýsingar skylt að fullnægja upplýsingaskyldu sinni að viðlögðum dagsektum. Ákvæði er sniðið eftir hliðstæðu ákvæði í lögum um fyrirtækjaskrá en þau veita ríkisskattstjóra heimild til þessa.
    Svipuð ákvæði er að finna í nokkrum lögum nágrannaríkja. Á Norðurlöndunum er það einkum norska hagstofan sem hefur ákveðnar heimildir til beitingar viðurlaga sé upplýsingaskyldu ekki fullnægt og eru þau ákvæði bæði virk og virt. Hér á landi hefur Hagstofuna skort heimildir til að geta með valdboði aflað allra nauðsynlegustu upplýsinga. Tekið skal fram að enda þótt ákvæði þetta verði lögfest mun Hagstofan eftir sem áður leitast við að byggja gagnaöflun sína sem mest á samvinnu við upplýsingagjafa og samþykki þeirra. Hins vegar á Hagstofan oft í erfiðleikum með að afla nauðsynlegra upplýsinga frá fyrirtækjum þrátt fyrir skýlausa skyldu til að veita þær. Í þeim tilvikum er brýnt að Hagstofan hafi heimildir til að beita viðurlögum til að afla mjög brýnna upplýsinga.

Um 16. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um að ráðherra skuli setja sérstakar verklagsreglur í hagskýrslugerð á grundvelli laga þessara og viðurkenndra reglna sem settar hafa verið á alþjóðavettvangi um opinbera hagskýrslugerð. Er þá fyrst og fremst átt við samþykktir Sameinuðu þjóðanna um grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð og verklagsreglur í evrópskri hagskýrslugerð samkvæmt tilmælum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 217/2005. Um þetta efni vísast til almennra athugasemda hér á undan svo og til gildandi verklagsreglna í hagskýrslugerð frá 9. júní 2006 sem prentaðar eru sem fylgiskjal II með þessu frumvarpi.
    Í 2. mgr. er að finna almennt heimildarákvæði til handa ráðherra um setningu nánari reglna um framkvæmd laganna. Sem dæmi um slíkar reglur má nefna reglur um öryggi og varðveislu trúnaðargagna skv. 12. gr. og um afhendingu og hagnýtingu gagna skv. 13. gr.

Um 17. gr.

    Lagt er til að ný lög um Hagstofu Íslands öðlist gildi 1. janúar 2008 um leið og ákvæði um hana í lögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands falla úr gildi. Jafnframt er lagt til að gömlu lögin um hagstofu Íslands og um hagfræðiskýrslur falli úr gildi á sama tíma svo og lög um launavísitölu, nr. 89/1989.
    Sem fyrr segir eru nú í gildi þrenn sérlög um vísitölur sem Hagstofan reiknar. Þetta eru lög um vísitölu neysluverðs, vísitölu byggingarkostnaðar og um launavísitölu.
    Lögin um launavísitölu voru sett vegna notkunar þeirrar vísitölu til myndunar lánskjaravísitölu sem var um skeið helsta verðtryggingarvísitala hér á landi. Notkun þeirrar vísitölu var hætt árið 1995 þegar leitt var í lög að verðtrygging fjárskuldbindinga skyldi miðast við vísitölu neysluverðs samkvæmt lögum nr. 12/1995. Lögin um launavísitölu eru því úrelt og því er lagt til að þau verði felld úr gildi. Það hefur vitaskuld engin áhrif á útreikning ýmiss konar launavísitalna sem hluta af hagskýrslugerð á sviði launa- og efnahagsmála.
    Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að núverandi lög um vísitölu neysluverðs og um vísitölu byggingarkostnaðar haldi gildi sínu vegna notkunar þessara vísitalna við verðtryggingu á fjármagnsmarkaði og í byggingarstarfsemi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara verður Hagstofa Íslands gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun. Sú aðgerð hefur ekki í för með sér breytingar á verkefnum starfsmanna. Réttarstaða þeirra er engu að síður ólík eftir því hvort þeir hafa verið skipaðir embættismenn, eins á við á um hagstofustjóra og skrifstofustjóra, sbr. 1. mgr. 2. tölul. 22. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eða ráðnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti.
    Í 1. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem ráðnir hafa verið með gagnkvæmum uppsagnarfresti haldi störfum sínum og óbreyttum starfskjörum. Þannig verður aðild að lífeyrissjóði óbreytt og laun fara eftir þeim kjarasamningum sem við eiga. Í þessu felst enn fremur að núverandi starfsmenn geta, á meðan þeir starfa hjá Hagstofunni, kosið að taka áfram laun samkvæmt kjarasamningum þeirra stéttarfélaga sem fram til þessa hafa samið um starfskjör þeirra. Hjá Hagstofunni eru starfsmenn sem á sínum tíma hafa verið skipaðir til starfa hjá Hagstofunni. Af 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 70/1996 leiðir að nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um að þeir skuli með sama hætti halda störfum sínum. Samkvæmt þessu er ekki gert ráð fyrir því að rof verði á ráðningu starfsmanna og að sérstaklega þurfi að bjóða þeim störf hjá Hagstofunni. Með þeim hætti er reynt að tryggja að breytingin hafi sem minnsta röskun í för með sér.
    Hvað viðkemur störfum skrifstofustjóra er í 2. mgr. gert ráð fyrir því að þeir skuli halda störfum sínum. Lagt er til að núverandi skrifstofustjórum verði boðin sambærileg stjórnunarstörf hjá Hagstofu Íslands samkvæmt hinum nýju lögum án breytinga á starfskjörum, þ.e. á þeim kjörum sem skrifstofustjórar við Stjórnarráð Íslands njóta. Í því felst enn fremur að þeir teljast áfram vera skipaðir í embætti til fimm ára í senn, sbr. 23. gr. laga nr. 70/1996, eða ótímabundið þar sem það á við, sbr. ákvæði til bráðabirgða við þau lög. Er þá gert ráð fyrir að nýir stjórnendur, sem ráðnir verða í tímans rás í stað núverandi skrifstofustjóra, verði ráðnir til starfa á grundvelli ótímabundins ráðningarsamnings.
    Í 2. mgr. er enn fremur lagt til að núverandi hagstofustjóra verði boðið að taka við starfi hagstofustjóra samkvæmt hinum nýju lögum og að hann njóti óbreyttra starfskjara, þ.e. starfskjara ráðuneytisstjóra. Þegar kemur til skipunar nýs hagstofustjóra er gert ráð fyrir því að hagstofustjóri verði forstöðumaður Hagstofunnar, sbr. 13. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 70/1996 að fengnum úrskurði fjármálaráðherra, sbr. 2. mgr. 22. gr. sömu laga. Um laun hans og önnur starfskjör fer því eftir ákvörðun kjararáðs.
    Loks er í 3. mgr. tekið fram að við ráðstöfun starfa samkvæmt ákvæðinu þurfi ekki að gæta ákvæða um auglýsingu starfa í 7. gr. laga nr. 70/1996.



Fylgiskjal I.

Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð í ríkjum Sameinuðu þjóðanna

Hagskýrslunefnd Sameinuðu þjóðanna samþykkir eftirfarandi:

Forsendur
Hafa ber í huga að opinberar, tölfræðilegar upplýsingar eru nauðsynleg forsenda framfara á sviði efnahagsmála, mannfjöldamála, félagsmála og umhverfismála og gagnkvæmrar þekkingar og viðskipta milli ríkja og þjóða heims.

Hafa ber í huga að nauðsynlegt traust almennings á opinberum hagtölum byggist að miklu leyti á virðingu fyrir þeim grundvallargildum og meginreglum sem eru undirstaða allra þjóðfélaga sem leitast við að skilja sjálf sig og bera virðingu fyrir rétti þegnanna.

Hafa ber í huga að gæði opinberra hagskýrslna, og þar með áreiðanleiki þeirra upplýsinga sem stjórnvöld, efnahagslíf og almenningur eiga kost á, eru að miklu leyti komin undir samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki og aðra um að láta í té viðeigandi og áreiðanleg gögn, sem nauðsynleg eru til tölfræðilegrar úrvinnslu, svo og undir samvinnu notenda og framleiðenda opinberra hagskýrslna um hvernig upplýsingaþörfum notenda skuli fullnægt.

Minnt skal á viðleitni alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka, sem fást við hagskýrslugerð, til að koma á stöðlum og samræma hugtök til að auðvelda samanburð milli landa.

Ennfremur skal minnt á yfirlýsingu Alþjóðatölfræðistofnunarinnar um siðareglur í hagskýrslugerð.

Hagskýrslunefndin hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að efni Ályktunar C (47), sem Efnahagsstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu samþykkti 15. apríl 1992, sé mikilvægt hvar sem er í heiminum.

Bent skal á að vinnuhópur sérfræðinga á vegum hagskýrslunefndar Efnahags- og félagsmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Asíu og Kyrrahafsríki komst að þeirri niðurstöðu á áttunda fundi sínum í Bangkok í nóvember 1993 að fallast bæri á Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð samkvæmt ályktun Efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu og að þær ættu erindi við allar þjóðir.

Ennfremur skal bent á að Samtök afrískra skipulagsfræðinga, tölfræðinga og mannfjöldafræðinga ályktuðu á áttunda fundi sínum í Addis Ababa í mars 1994 að Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð séu mikilvægar hvar sem er í heiminum.

Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð

     1.      Opinberar hagskýrslur eru ómissandi þáttur í upplýsingakerfi lýðræðisþjóðfélags. Þær veita stjórnvöldum, efnahagslífi og almenningi upplýsingar um stöðu efnahagsmála, um mannfjöldann og stöðu félags- og umhverfismála. Til að þjóna þessum tilgangi skulu hagskýrslustofnanir hins opinbera taka saman opinberar hagskýrslur, sem standast kröfur um hagnýtt notagildi, gera þær aðgengilegar og setja fram á hlutlausan hátt til að tryggja rétt borgaranna til almennra upplýsinga.

     2.      Til þess að varðveita traust til opinberra hagskýrslna er nauðsynlegt að opinberar hagskýrslustofnanir ákveði á grundvelli strangra faglegra sjónarmiða, þar á meðal um vísindaleg vinnubrögð og siðareglur, hvaða aðferðum og vinnureglum skuli beita við söfnun, úrvinnslu, geymslu og framsetningu á tölulegum upplýsingum.

     3.      Til þess að auðveldar sé að túlka gögn rétt verða hagskýrslustofnanir að birta upplýsingar samkvæmt vísindalegum stöðlum um heimildir gagnanna og þær aðferðir og vinnubrögð sem beitt er við skýrslugerðina.

     4.      Hagskýrslustofnanir eiga rétt á að gera athugasemdir við ranga túlkun og misnotkun hagtalna.

     5.      Tölfræðileg gögn má sækja í margs konar heimildir, hvort heldur er kannanir eða opinberar skrár. Hagskýrslustofnanir verða að velja sér heimildir með hliðsjón af gæðum, tímasetningu, kostnaði og þeirri byrði sem lögð er á skýrslugjafa.

     6.      Upplýsingar um einstaka aðila sem hagskýrslustofnun safnar til tölfræðilegrar úrvinnslu, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila, skulu vera algert trúnaðarmál og notaðar eingöngu til hagskýrslugerðar.

     7.      Lög, reglugerðir og ákvarðanir, sem hagskýrslustofnunum er ætlað að starfa eftir, skulu gerð opinber.

     8.      Nauðsynlegt er að samhæfa störf innlendra hagskýrslustofnana til þess að samræmi og skilvirkni náist í hagskýrslukerfi hins opinbera.

     9.      Notkun hagskýrslustofnana í hverju landi á alþjóðlegum hugtökum, flokkunum og aðferðum stuðlar að samræmi og skilvirkni hagskýrslukerfa hins opinbera á öllum stjórnsýslustigum.

     10.      Samstarf í hagskýrslugerð milli einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi stuðlar að því að bæta hagskýrslukerfi í öllum ríkjum.

Grundvallarreglur þessar voru samþykktar á sérstökum fundi Hagskýrslunefndar Sameinuðu þjóðanna 11.–15. apríl 1994 (reglurnar höfðu áður verið samþykktar á 47. fundi Efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu í Genf 15. apríl 1992; Ísland átti aðild að þeirri samþykkt).
 
Grundvallarreglurnar og forsendur þeirra hafa verið þýddar á íslensku hjá Hagstofu Íslands eftir enska frumtextanum sem birtur er í hinum enska hluta þessara vefsíðna.


Fylgiskjal II.


AUGLÝSING
um gildistöku verklagsreglna í hagskýrslugerð.
(B-deild Stjórnartíðinda nr. 578/2006, útgáfud. 10. júlí 2006.)


    Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur samþykkt verklagsreglur í evrópskri hagskýrslugerð og gefið þær út sem tilmæli nr. 217/2005. Þessar reglur eru ætlaðar stjórnvöldum ESB og aðildarríkja þess og hagskýrslustofnunum, þ.e. Hagstofu ESB (Eurostat), hagstofum og öðrum stofnunum sem hafa með höndum opinbera hagskýrslugerð í aðildarríkjum ESB.
    Hagstofa Íslands tekur ásamt öðrum hagstofum EFTA-ríkjanna fullan þátt í evrópska hagskýrslusamstarfinu á grundvelli EES-samningsins. Tilmælin nr. 217/2005 hafa verið tekin upp í EES-samninginn en í því felst að mælst er til að verklagsreglurnar gildi fyrir íslensk stjórnvöld, Hagstofu Íslands og aðrar opinberar stofnanir sem fást við opinbera hagskýrslugerð hér á landi.
    Verklagsreglurnar, sem birtar eru sem fylgiskjal með auglýsingu þessari, öðlast þegar gildi og skal beita við opinbera hagskýrslugerð hér á landi, sbr. lög um hagstofu Íslands nr. 24/1913.

Hagstofu Íslands, 9. júní 2006.

Halldór Ásgrímsson.

Hallgrímur Snorrason.

Fylgiskjal.

Verklagsreglur í hagskýrslugerð.


    Skilgreiningar:
    Evrópskar hagskýrslur merkja í þessu skjali hagskýrslur Evrópusambandsins eins og þær eru skilgreindar í reglugerð ráðsins (EB) nr. 322/97 frá 17. febrúar 1997 um hagskýrslur bandalagsins sem eru unnar og gefnar út af hagskýrsluyfirvöldum hvers ríkis og hagskýrsluyfirvöldum sambandsins (Hagstofu Evrópusambandsins) í samræmi við grein 285(2) Rómarsáttmálans.
    Hagskýrsluyfirvöld merkja, í hverju ríki, hagstofa ríkisins og aðrar hagskýrslustofnanir, sem eru ábyrgar fyrir að taka saman og miðla evrópskum hagskýrslum, og í Evrópusambandinu, Hagstofa Evrópusambandsins.
    Með evrópska hagskýrslukerfinu er átt við samstarf Hagstofu Evrópusambandsins, hagstofa ríkjanna og annarra hagskýrslustofnana ríkjanna sem ábyrgar eru fyrir gerð og miðlun evrópskra hagskýrslna í hverju aðildarríki.
    Í samræmi við Rómarsáttmálann, sér í lagi grein 285(2) ásamt reglugerð ráðsins (EB) nr. 322/97 frá 17. febrúar 1997 um hagskýrslur bandalagsins, og í samræmi við grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð sem samþykktar voru af hagskýrslunefnd Sameinuðu þjóðanna 14. apríl 1994, gegna þessar verklagsreglur tvennum tilgangi:
     *      Að auka traust og tiltrú á sjálfstæði, heiðarleika og ábyrgð, bæði á hagstofum einstakra ríkja og Hagstofu Evrópusambandsins, og á trúverðugleika og gæðum hagskýrslna sem þær taka saman og miðla (þ.e. ytra viðhorf).
     *      Að stuðla að því að allir sem koma að gerð evrópskra hagskýrslna temji sér bestu alþjóðlegu hagskýrslureglur, aðferðir og verklag til að auka gæði hagskýrslugerðarinnar (þ.e. innra viðhorf).

     Verklagsreglurnar eru ætlaðar til beitingar af:
     Stjórnvöldum (þ.e. ríkisstjórnum, ráðuneytum, framkvæmdastjórninni og ráðinu) – til að veita þeim leiðbeiningar til að tryggja að hagskýrslustofnanir þeirra séu faglega skipulagðar og hafi bolmagn til að taka saman trúverðugar evrópskar hagskýrslur á þann hátt að sjálfstæði, heiðarleiki og áreiðanleiki þeirra sé tryggður.
     Hagskýrsluyfirvöldum og starfsliði þeirra – til að skapa viðmiðun í meginreglum í hagskýrslugerð og fyrir gildi og bestu vinnubrögð sem auðveldar þeim að vinna og miðla samræmdum hagskýrslum í háum gæðaflokki.

     Verklagsreglurnar eru ætlaðar til upplýsingar fyrir:
     *      Notendur – til að sýna þeim að hagskýrsluyfirvöld Evrópusambandsins og einstakra ríkja séu óhlutdræg og að hagskýrslurnar, sem þau semja og miðla, séu trúverðugar, hlutlægar og áreiðanlegar.
     *      Gagnaveitendur – til að sýna að gætt sé fyllsta trúnaðar um þær upplýsingar sem þeir láta í té og að óþarfa kröfur séu ekki gerðar til þeirra sem veita þær.

    Verklagsreglurnar eru byggðar á 15 meginreglum. Stjórnvöld og hagskýrsluyfirvöld Evrópusambandsins skuldbinda sig til þess að fara eftir þessum meginreglum og endurskoða framkvæmd þeirra reglubundið með því að leggja mælistikur „góðra vinnubragða“, sem miða skal við, á hverja þessara 15 meginreglna.
    Hagskýrsluáætlunarnefndin sem sett var á fót samkvæmt ákvörðun ráðsins 89/382/ESB frá 19. júní 1989 mun fylgjast reglubundið með framkvæmd þessara verklagsreglna á jafningjagrundvelli.

    Stofnanaumhverfi.
    Stofnanabundnir og skipulagslegir þættir hafa umtalsverð áhrif á skilvirkni og trúverðugleika hagskýrsluyfirvalda sem taka saman evrópskar hagskýrslur og miðla þeim. Það sem máli skiptir er faglegt sjálfstæði, heimildir til gagnasöfnunar, fjárhagslegt bolmagn, hár gæðastaðall, trúnaður í hagskýrslugerð, óhlutdrægni og hlutlægni.

Meginreglur.


    1. meginregla: Faglegt sjálfstæði.
    Faglegt sjálfstæði hagskýrsluyfirvalda gagnvart öðrum stjórnardeildum eða stofnunum sem annast stefnumótun, stjórnun eða framkvæmd mála, svo og gagnvart einkageiranum, stuðlar að trúverðugleika evrópskra hagskýrslna.

     Mælistikur:
     *      Sjálfstæði hagskýrsluyfirvalda gagnvart stjórnmálaöflum og annarri utanaðkomandi íhlutun við gerð og dreifingu opinberra hagskýrslna sé bundið í lögum.
     *      Hagstofustjóri sé það hátt settur í embættismannastiganum að hann eigi aðgang að stjórnvöldum og stofnunum framkvæmdarvaldsins. Fagleg hæfni hans sé óvéfengjanleg.
     *      Hagstofustjóri og, þar sem það á við, yfirmenn undirstofnana, bera ábyrgð á því að evrópskar hagskýrslur séu unnar og þeim miðlað án íhlutunar annarra.
     *      Hagstofustjóri og, þar sem það á við, yfirmenn undirstofnana, bera einir ábyrgð á ákvörðunum um tölfræðilegar aðferðir, staðla og verklag, um efni frétta og hagtalna og hvenær þær skuli birtar.
     *      Hagskýrsluáætlanir séu birtar og reglubundnar skýrslur unnar um framgang mála.
     *      Hagskýrsluútgáfum sé haldið skýrt aðgreindum frá stjórnmála- og stefnuyfirlýsingum.
     *      Hagstofan geri, eftir því sem við á, opinberlega athugasemdir við hagskýrslumál, þ.m.t. gagnrýni á hagskýrslur og misnotkun þeirra.

     2. meginregla: Heimildir til gagnasöfnunar.
    Hagstofur verða að hafa skýrar lagaheimildir til að safna upplýsingum til hagskýrslugerðar. Með lögum má skylda stjórnvöld, fyrirtæki, heimili og almenning til að veita hagstofum aðgang að eða láta þeim í té gögn til hagskýrslugerðar.

    Mælistikur:
     *      Heimildir hagstofa til söfnunar gagna til úrvinnslu og miðlunar opinberra hagskýrslna sé lögbundin.
     *      Hagstofa hafi lagaheimildir til að nota stjórnvaldsgögn til hagskýrslugerðar.
     *      Hagstofa hafi lagalega heimild til að krefjast svara við tölfræðilegum könnunum.

     3. meginregla: Nægilegt bolmagn.
    Hagskýrsluyfirvöld skulu hafa nægilegt fjármagn til að standast kröfur um gerð evrópskra hagskýrslna.

    Mælistikur:
     *      Starfslið, fjármagn og tölvubúnaður sé nægur, bæði að magni og gæðum, til að svara kröfum evrópskrar hagskýrslugerðar hverju sinni.
     *      Umfang, sundurliðun og kostnaður við evrópska hagskýrslugerð sé í samræmi við þarfir.
     *      Vinnureglur séu tiltækar til að meta þörf fyrir nýja, evrópska hagskýrslugerð miðað við kostnað.
     *      Vinnureglur séu tiltækar til að meta áframhaldandi þörf fyrir alla þætti evrópskrar hagskýrslugerðar og athuga hvort leggja megi niður einhverja þeirra eða draga úr þeim til að koma að öðrum verkefnum.

     4. meginregla: Gæðaskuldbindingar.
    Aðilar að evrópska hagskýrslukerfinu skuldbinda sig til að vinna eftir og framfylgja gæðayfirlýsingu þess.

    
Mælistikur:
     *      Fylgst sé reglubundið með gæðum hagskýrslna samkvæmt gæðastaðli evrópska hagskýrslukerfisins.
     *      Vinnureglur séu tiltækar til að fylgjast með gæðum gagnasöfnunar, úrvinnslu og miðlunar.
     *      Vinnureglur séu tiltækar til að meta gæðamál, þar með talin forgangsröðun með tilliti til gæða, og til að yfirfara skipulag yfirstandandi og nýrra athugana.
     *      Viðmiðunarreglur gæðamála séu skráðar og starfslið vel þjálfað. Þessar viðmiðunarreglur séu birtar og gerðar aðgengilegar fyrir almenning.
     *      Helstu hagskýrsluafurðir séu endurmetnar reglulega og ítarlega, með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga þegar við á.

     5. meginregla: Trúnaðarkvaðir við hagskýrslugerð.
    Fyllilega sé tryggt að friðhelgi gagnaveitenda (heimila, fyrirtækja, stjórnvalda og annarra svarenda) sé virt, að farið sé með upplýsingar sem þeir veita sem trúnaðarmál og þær eingöngu notaðar til hagskýrslugerðar.

    
Mælistikur:
     *      Trúnaðarkvaðir við hagskýrslugerð séu lögbundnar.
     *      Starfslið við hagskýrslugerð undirriti trúnaðarheit við ráðningu.
     *      Ströng viðurlög séu við trúnaðarbroti af yfirlögðu ráði.
     *      Reglur og leiðbeiningar séu fyrir hendi um gagnaleynd í úrvinnslu og miðlun. Þessar leiðbeiningar séu birtar skriflega og gerðar almenningi kunnar.
     *      Efnislegum og tæknilegum ráðstöfunum sé beitt til að tryggja öryggi og heilleika tölfræðilegra gagnasafna.
     *      Strangar reglur gildi um aðgang utanaðkomandi aðila að tölfræðilegum gögnum um einstaka aðila í rannsóknarskyni.

     6. meginregla: Óhlutdrægni og hlutlægni.
    Hagstofur verða að vinna evrópskar hagskýrslur og miðla þeim af vísindalegum heilindum og á hlutlægan, faglegan og gagnsæjan hátt svo að allir notendur standi jafnt að vígi.

    
Mælistikur:
     *      Hagskýrslur séu byggðar á hlutlægum grunni sem ræðst af tölfræðilegum sjónarmiðum.
     *      Val á gögnum og aðferðum ráðist af tölfræðilegum sjónarmiðum.
     *      Villur sem finnast í útgefnum skýrslum séu leiðréttar og leiðréttingarnar birtar svo skjótt sem auðið er.
     *      Upplýsingar um aðferðir og verklag hagstofa séu almenningi aðgengilegar.
     *      Birtingardag og -stund hagskýrslufrétta skal tilkynna fyrirfram.
     *      Allir notendur hafi jafnan aðgang að hagskýrslufréttum og á sama tíma. Forgangur utanaðkomandi að efni þeirra sé takmarkaður, undir eftirliti og gerður opinber. Leki fréttir út ber að endurskoða forgangsheimildir til að tryggja óhlutdrægni.
     *      Hagskýrslufréttir og yfirlýsingar á fréttamannafundum séu hlutlægar og dragi ekki taum neins.

     Starfshættir í hagskýrslugerð.
    Fara skal að fullu eftir evrópskum og alþjóðlegum stöðlum, leiðbeiningum og verklagsreglum við skipulag, gagnasöfnun, úrvinnslu og miðlun opinberra hagskýrslna. Orðspor góðs reksturs og skilvirkni við hagskýrslugerð eykur traust á hagskýrslum. Mestu máli skiptir traust aðferðafræði, réttir tölfræðilegir verkferlar, hófleg svarbyrði og hagkvæmur rekstur.

    7. meginregla: Traust aðferðafræði.
    Gæði hagskýrslna byggjast á traustri aðferðafræði. Þetta krefst haldgóðrar tækni, góðs verklags og sérfræðiþekkingar.

    
Mælistikur:
     *      Hjá hagstofu ráðist aðferðafræðileg undirstaða af evrópskum og alþjóðlegum stöðlum, forskriftum og góðu verklagi.
     *      Tryggt sé á kerfisbundinn hátt að viðurkenndum hugtökum, skilgreiningum og flokkunum sé beitt markvisst innan hagstofunnar.
     *      Fyrirtækjaskrá og úrtaksrammar einstaklingskannana séu yfirfarnir reglulega og lagfærðir ef nauðsyn krefst til þess að tryggja gæði.
     *      Innlendar flokkanir og sundurgreiningar séu í fullu samræmi við samsvarandi evrópsk kerfi.
     *      Háskólamenntað fólk í viðeigandi greinum sé ráðið til starfa.
     *      Starfslið sæki alþjóðleg námskeið og ráðstefnur eftir því sem við á og leiti samstarfs við starfsystkin sín á alþjóðavettvangi til að læra af þeim fremstu og auka færni sína.
     *      Skipulegt samstarf sé við vísindasamfélagið til að bæta aðferðafræði og leitað sé utanaðkomandi ráðgjafar þegar henta þykir um gæði og skilvirkni þeirra aðferða sem beitt er.

    8. meginregla: Viðeigandi verklag.
    Réttu verklagi verður að beita á öllum stigum hagskýrslugerðar til þess að tryggja gæði hennar.

    
Mælistikur:
     *      Sé evrópsk hagskýrslugerð byggð á stjórnsýslugögnum verða skilgreiningar og hugtök þeirra að svara nokkurn veginn til þess sem krafist er í tölfræðilegum tilgangi.
     *      Spurningalistar kannana séu prófaðir skipulega áður en þeim er beitt til gagnasöfnunar.
     *      Snið kannana, úrtök og úrtaksvogir byggist á traustum grunni og þær yfirfarnar, endurskoðaðar og uppfærðar reglulega.
     *      Söfnun, skráning og kóðun gagna sé háð reglubundnu eftirliti og endurskoðuð eftir þörfum.
     *      Beitt sé viðeigandi tölvutækni til gagnahreinsunar og tilreiknunar gagna og hún endurmetin og endurnýjuð eftir þörfum.
     *      Endurskoðun á niðurstöðum fylgi viðurkenndu, traustu og gagnsæju verklagi.

     9. meginregla: Hófleg svarbyrði gagnaveitenda .
    Svarbyrði skal vera í samræmi við þarfir notenda og ekki íþyngja svarendum óhóflega. Hagstofur fylgist með svarbyrðinni og setji sér það markmið að draga úr henni með tímanum.

    
Mælistikur:
     *      Kröfur evrópskrar hagskýrslugerðar um umfang og sundurliðun takmarkist við það sem talið er algerlega nauðsynlegt.
     *      Svarbyrðinni sé dreift eins og kostur er með viðeigandi úrtaksaðferðum.
     *      Upplýsingar sem leitað er frá fyrirtækjum, miðist eftir því sem unnt er, við það sem er tiltækt í bókhaldi þeirra, og tölvutækni beitt, þegar þess er kostur, til að auðvelda gagnaskil.
     *      Besta mat og áætlanir skulu teknar gildar þegar ekki er auðvelt að afla nákvæmra, sundurliðaðra gagna.
     *      Stjórnsýslugögn séu jafnan notuð þegar þau eru tiltæk til að koma í veg fyrir að beðið sé oft um sömu upplýsingar.
     *      Hagskýrslustofnanir hagnýti gögn sameiginlega til að koma í veg fyrir óþarfar kannanir.

     10. meginregla: Hagkvæmni í rekstri.
    Fjármunir skulu nýttir af ýtrustu hagkvæmni.

    Mælistikur:
     *      Notkun fjármuna hagstofu skal háð innra eftirliti og óháðu ytra eftirliti.
     *      Einhæf skrifstofustörf (svo sem skráning, kóðun og yfirferð gagna) séu gerð sjálfvirk eftir því sem kostur er.
     *      Afkastageta í upplýsinga- og samskiptatækni sé nýtt eins og kostur er til gagnasöfnunar, úrvinnslu og miðlunar.
     *      Áhersla sé lögð á að gera stjórnsýslugögn þannig úr garði að þau séu tæk til hagskýrslugerðar svo að ekki þurfi beinar, kostnaðarsamar kannanir.

     Gagnsemi hagskýrslna.
    Hagskýrslur verða að uppfylla þarfir notenda. Hagskýrslur skulu fylgja gæðastöðlum evrópska hagskýrslukerfisins og gagnast stofnunum Evrópusambandsins, ríkisstjórnum aðildarríkjanna, rannsóknarstofnunum, fyrirtækjum og almenningi. Mestu máli skiptir að hvaða marki hagskýrslurnar eru hagnýtar, nákvæmar og áreiðanlegar, tímanlegar, samfelldar, samanburðarhæfar milli svæða og ríkja og aðgengilegar notendum.

    11. meginregla: Notagildi.
    Evrópskar hagskýrslur verða að fullnægja þörfum notenda.

    Mælistikur:
     *      Á skipulagðan hátt sé ráðgast við notendur um mikilvægi og notagildi fyrirliggjandi hagskýrslugerðar, um nýjar þarfir fyrir hagskýrslur og áherslur í forgangsröðun verkefna.
     *      Verkáætlanir greini brýnustu þarfir og hvernig þeim skuli fullnægt.
     *      Notendakannanir séu gerðar með reglubundnu millibili.

    12. meginregla: Nákvæmni og áreiðanleiki.
    Evrópskar hagskýrslur skulu lýsa raunveruleikanum á nákvæman og áreiðanlegan hátt.

    
Mælistikur:
     *      Hrágögn, niðurstöður á vinnslustigi og hagskýrsluafurðir séu metnar og sannreyndar.
     *      Úrtaksskekkjur og aðrar skekkjur séu metnar og skráðar kerfisbundið samkvæmt gæðareglum evrópska hagskýrslukerfisins.
     *      Endurskoðanir hagtalna sæti reglubundnum athugunum og greiningu og niðurstöðurnar notaðar til að bæta verkferla í hagskýrslugerð.

     13. meginregla: Skjótvirkni og stundvísi.
    Evrópskum hagskýrslum skal miðlað svo fljótt sem kostur er og á tilsettum tíma.

    Mælistikur:
     *      Skýrslur séu birtar jafnfljótt og gert er ráð fyrir í evrópska hagskýrslukerfinu og alþjóðlegu samstarfi.
     *      Hagskýrslufréttir séu jafnan birtar á sama tíma á deginum.
     *      Tíðni evrópskra hagskýrslna miðist við þarfir notenda eftir því sem við verður komið.
     *      Öll frávik frá birtingaráætlun séu auglýst fyrirfram, þau skýrð og nýr birtingartími tilkynntur.
     *      Birta má bráðabirgðaniðurstöður af ásættanlegum gæðum þegar það er talið gagnlegt.

    14. meginregla: Samræmi og samanburðarhæfni .
    Evrópskar hagskýrslur skulu vera sjálfum sér samkvæmar, samfelldar frá tímabili til tímabils og samanburðarhæfar milli svæða og ríkja. Hægt skal vera að tengja og samnýta skyld gögn af mismunandi uppruna.

    
Mælistikur:
     *      Hagskýrslur séu innbyrðis samræmdar og sjálfum sér samkvæmar (til dæmis sé gerður greinarmunur á reiknuðum niðurstöðum og bókhaldsniðurstöðum).
     *      Hagskýrslur séu samfelldar og sambærilegar frá einum tíma til annars.
     *      Hagskýrslur séu byggðar á sömu stöðlum hvað snertir umfang, skilgreiningar, einingar og flokkanir í mismunandi könnunum og gagnauppsprettum.
     *      Niðurstöður úr mismunandi könnunum og gögnum séu bornar saman og samræmdar.
     *      Samanburðarhæfni gagna milli þjóða sé tryggð með reglubundnum samskiptum evrópska hagskýrslukerfisins og annarra hagskýrslukerfa. Aðferðafræðilegar athuganir fari fram í náinni samvinnu milli hagstofa aðildarríkja og Hagstofu Evrópusambandsins.

    15. meginregla: Aðgengi og skýrleiki.
    Evrópskar hagskýrslur skulu settar fram á skýru og auðskildu formi, þeim skal miðlað á hagkvæman og hentugan hátt, hafðar tiltækar og aðgengilegar á hlutlausum grunni og vera studdar lýsigögnum og leiðbeiningum.

    
Mælistikur:
     *      Framsetning hagskýrslna gefi færi á réttri túlkun og raunhæfum samanburði.
     *      Við miðlun hagtalna sé beitt nýjustu upplýsinga- og samskiptatækni og, ef við á, hefðbundnu prentverki.
     *      Sérsniðin greining skal látin í té eftir föngum og hún gerð opinber.
     *      Veita má aðgang að gögnum um einstaka aðila í rannsóknarskyni eftir ströngum reglum þar að lútandi.
     *      Lýsigögn séu skjalfest í samræmi við stöðluð lýsigagnakerfi.
     *      Notendur séu upplýstir um aðferðafræði við gerð hagskýrslna og gæði hagskýrsluafurða með tilliti til gæðastaðla evrópska hagskýrslukerfisins.

Hagstofa Íslands, 9. júní 2006.




Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um Hagstofu Íslands
og opinbera hagskýrslugerð.

    Með lögum nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, var meðal annars ákveðið að leggja Hagstofu Íslands niður sem ráðuneyti frá og með 1. janúar 2008. Við niðurfellingu á ráðuneytisstöðu Hagstofunnar falla jafnframt úr gildi ákvæði reglugerðar um Stjórnarráð Íslands er varða málefni Hagstofu Íslands. Gildandi lög um Hagstofu Íslands eru að stofni til gömul og tilgangur þessa frumvarps er að búa Hagstofu Íslands og opinberri hagskýrslugerð viðhlítandi lagagrundvöll sem sjálfstæðri ríkisstofnun í samræmi við raunverulegt hlutverk og starfsemi Hagstofunnar. Ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á starfsemi Hagstofunnar frá því sem nú er og verður því ekki séð að lögfesting frumvarpsins leiði til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð.