Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 130. máls.

Þskj. 131  —  130. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna
innan Stjórnarráðs Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála til samgönguráðuneytis.
I. KAFLI
Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.
1. gr.

     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðuneytið“ í 1. mgr. 2. gr. og 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I við lögin kemur: Samgönguráðuneytið.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 3. mgr. 73. gr. og 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I við lögin kemur: samgönguráðherra.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.
2. gr.

     a.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 15., 16. og 18. gr. laganna kemur: samgönguráðherra.
     b.      Í stað orðsins: „félagsmálaráðuneytisins“ í 16. gr. laganna kemur: samgönguráðuneytisins.

III. KAFLI
Breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum.
3. gr.

     a.      Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytið“ í 2. mgr. 1. gr., 8. gr., 1. mgr. 42. gr. og 1. og 2. mgr. 46. gr. laganna kemur: samgönguráðuneytið.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytisins“ í 3. mgr. 93. gr. og 3. mgr. 98. gr. laganna kemur: samgönguráðuneytisins.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971.
4. gr.

     a.      Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: samgönguráðherra.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytinu“ í 4. mgr. 6. gr. laganna kemur: samgönguráðuneytinu.

V. KAFLI
Breyting á lögum um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, með síðari breytingum.
5. gr.

     a.      Í stað orðsins „Félagsmálaráðherra“ í 1. og 2. málsl. 2. gr. laganna kemur: Samgönguráðherra.
     b.      Í stað orðsins „félagsmálaráðuneytið“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: samgönguráðuneytið.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um gatnagerðargjald, nr. 153/2006.
6. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: samgönguráðherra.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 150/2006.
7. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í ákvæði til bráðabirgða IV við lögin kemur: samgönguráðherra.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997.
8. gr.

    Á eftir orðunum „Samband íslenskra sveitarfélaga“ í 21. gr. laganna kemur: og samgönguráðuneytið.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995.
9. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: samgönguráðherra.

X. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997.
10. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: samgönguráðherra.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda,
þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.
11. gr.

    Orðið „félagsmálaráðherra“ í 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

XII. KAFLI
Breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.
12. gr.

    Í stað orðsins „félagsmálaráðherra“ í 2. mgr. 12. gr. a laganna kemur: samgönguráðherra.

2. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings ferðamála til iðnaðarráðuneytis.
XIII. KAFLI
Breyting á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005.
13. gr.

    Í stað orðsins „samgönguráðherra“ í 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 2. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laganna kemur: iðnaðarráðherra.

3. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings alferða til viðskiptaráðuneytis.
XIV. KAFLI
Breyting á lögum um alferðir, nr. 80/1994, með síðari breytingum.
14. gr.

    Í stað orðsins „Samgönguráðherra“ í 16. gr. laganna kemur: Viðskiptaráðherra.

4. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings landbúnaðarskóla til menntamálaráðuneytis.
XV. KAFLI
Breyting á lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum. 15. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Menntastofnanir landbúnaðarins lúta yfirstjórn menntamálaráðherra, sbr. einnig lög nr. 63/2006, um háskóla, og lög nr. 80/1996, um framhaldsskóla.

16. gr.

    Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 23. gr., 1. mgr. 25. gr., 2. mgr. 31. gr., 32. gr., 1. og 2. mgr. 35. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: Menntamálaráðherra.

17. gr.

    2. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    II. kafli laga nr. 63/2006, sem fjallar um viðurkenningu háskóla, gildir um menntastofnanir landbúnaðarins.

19. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    III. kafli laga nr. 63/2006, sem fjallar um námsframboð og prófgráður í háskólum, gildir um menntastofnanir landbúnaðarins.

20. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Viðmið, útgefin af menntamálaráðherra skv. 5. gr. laga nr. 63/2006, gilda um æðri menntun og prófgráður sem menntastofnanir landbúnaðarins veita.

21. gr.

    Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 3. mgr. 27. gr. og 4. mgr. 34. gr. laganna kemur: menntamálaráðuneytis.

22. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Þeir sem við gildistöku bráðabirgðaákvæðis þessa eru skipaðir í háskólaráð Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla halda sætum sínum út skipunartímann, nema önnur skipan verði ákveðin. Láti fulltrúi af setu í háskólaráði á skipunartímanum skipar menntamálaráðherra annan í hans stað á grundvelli tilnefningar eftir því sem við á.
    Ákvæði um háskólaráð og stjórnskipan Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla skulu endurskoðuð með tilliti til rammalaga um háskóla.

5. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings landgræðslu og skógræktar, að undanskilinni ræktun nytjaskóga, til umhverfisráðuneytis og breytingar er lúta að því að skýra valdmörk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis.
XVI. KAFLI
Breyting á lögum um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum.
23. gr.

    Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 3. gr. og 13. gr. laganna kemur: umhverfisráðherra.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum um skógrækt, nr. 3/1955, með síðari breytingum.
24. gr.

    1. málsl. 2. gr. laganna orðast svo: Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn skógræktarmála samkvæmt lögum þessum, sbr. þó ákvæði IV. kafla.

25. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með þau málefni er varða ræktun nytjaskóga á bújörðum sem fjallað er um í IV. kafla.

26. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 4. málsl. b-liðar 28. gr. og 3. mgr. 29. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðuneytið“ í 31. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
     c.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 34. gr. laganna kemur: Umhverfisráðherra.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993,
með síðari breytingum, sbr. lög nr. 58/2007.
27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Ráðherra er heimilt að gera samninga við ríkisstofnanir og/eða einkaaðila um að annast verkefni við úttekt og eftirlit á landi sem nýtt er við gæðastýrða framleiðslu.
     b.      Orðin „og Landgræðslu ríkisins“ í 3. málsl. 3. mgr. falla brott.
     c.      4. málsl. 3. mgr. fellur brott.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum um dýravernd, nr. 15/1994.
28. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um flutning á dýrum öðrum en búfé að höfðu samráði við Matvælaeftirlitið.

29. gr.

    2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Umhverfisráðherra er heimilt , að höfðu samráði við Matvælaeftirlitið, að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um hvernig staðið skuli að aflífun dýra annarra en búfjár.

XX. KAFLI
Breyting á lögum um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, með síðari breytingum.
30. gr.

    Við 17. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir er orðast svo:
     5.      Reglugerð um flutning búfjár. Í reglugerðinni skulu m.a. sett fyrirmæli er tryggja velferð búfjár í tengslum við flutninga. Þá skal setja fram kröfur um flutning búfjár frá brottfararstað til áfangastaðar, þ.m.t. hleðsla, umferming og afferming, og um þær kröfur sem gerðar eru til flutningstækja sem flytja búfé auk hleðslubúnaðar. Heimilt er að setja reglur um flutningsskilríki flutningsaðila, skyldur gæsluaðila með búfé, sérstök leyfi flutningsaðila sem veitt verða af Matvælaeftirlitinu og reglur til að skylda aðila sem vinna við flutning á búfé til að sækja námskeið. Við setningu reglugerðar um flutning búfjár skal aflað umsagnar Umhverfisstofnunar.
     6.      Reglugerð um aflífun búfjár. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um að búfé skuli aflífað með skjótum og sársaukalausum hætti og án þess að önnur dýr verði þess vör, sem og að búfé skuli ávallt svipt meðvitund áður en blóðtæming fer fram. Þá skal setja í reglugerðina fyrirmæli um hvernig nánar verði staðið að meðferð, skoðun og aflífun búfjár í sláturhúsum og utan sláturhúsa, svo og vegna aflífunar búfjár vegna sjúkdómavarna. Heimilt er að setja kröfur um fræðslu og hæfi aðila sem vinna við aflífun búfjár, t.d. um skyldu til að sækja námskeið. Við setningu reglugerðar um aflífun búfjár skal aflað umsagnar Umhverfisstofnunar.

XXI. KAFLI
Breyting á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.
31. gr.

    Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Með umsókn um leyfi til innflutnings á nýjum dýrategundum skal fylgja áhættumat sem umsækjandi um leyfi hefur aflað. Í áhættumati skal m.a. meta hættu á því hvort viðkomandi tegund geti sloppið út í umhverfið og þá hvaða áhrif það kunni að hafa á lífríkið.
    Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um það með hvaða hætti áhættumat skuli fara fram.

6. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings vatnamælinga til umhverfisráðuneytis.
XXII. KAFLI
Breyting á lögum um Orkustofnun, nr. 87/2003.
32. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

33. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:

    a. (I.)
    Starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar heyrir undir umhverfisráðuneytið frá 1. janúar 2008. Umhverfisráðherra skal vinna að sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar í eina stofnun eigi síðar en 1. janúar 2009.
    Umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra í samráði við orkumálastjóra ákveða hvaða eignir og gögn skuli færast með vatnamælingum til hinnar nýju stofnunar.

    b. (II.)
    Starfsmönnum Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar skal boðið starf hjá nýrri stofnun sem verður til við sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

7. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings matvælamála til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
XXIII. KAFLI
Breyting á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.
34. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í lögum þessum nefndur ráðherra, fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Matvælaeftirlitið er ráðherra til ráðgjafar.

35. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Matvælaeftirlitið annast opinbert eftirlit samkvæmt lögum þessum með:
     a.      innflutningi og útflutningi búfjárafurða,
     b.      smitsjúkdómum búfjár,
     c.      meðferð, skoðun og mati á sláturafurðum,
     d.      heilbrigðisskoðun eldisfisks,
     e.      meðferð, flutningi, geymslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, að undanskilinni smásölu,
     f.      innflutningi annarra matvæla en getið er í a–e-lið.

36. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

37. gr.

    8. gr. laganna fellur brott.

38. gr.

    Í stað orðanna „hlutaðeigandi ráðherra“ í 2. mgr. 10. gr. og 18. gr. laganna kemur: ráðherra.

39. gr.

    1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
    Matvælaeftirlitið skal sjá um að halda uppi fræðslu fyrir almenning um þau málefni sem lög þessi ná til. Jafnframt skal stofnunin vinna að eflingu fræðslustarfs fyrir þá sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla og veita ráðgjöf við gerð námsefnis fyrir kennslu um matvæli og meðferð þeirra, sbr. 2. mgr.

40. gr.

    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðisnefndar. Heimilt er að binda slíkar leyfisveitingar ákveðnum kröfum til þess að tryggja að matvæli verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Þegar ákvæði þessi eiga við um starfsemi sem er undir opinberu eftirliti Matvælaeftirlitsins skv. 6. gr. er leyfisveiting í höndum þeirrar stofnunar.

41. gr.

    21. gr. laganna fellur brott.

42. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Heilbrigðisnefnd hefur undir yfirumsjón Matvælaeftirlitsins opinbert eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla. Matvælaeftirlitið hefur þó opinbert eftirlit með matvælum sem falla undir ákvæði 6. gr. Matvælaeftirlitið skráir nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslu og dreifingu matvæla vegna matvælaeftirlits. Matvælaeftirlitið skal hafa aðgang að niðurstöðum úr sýnatökum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Þá er ráðherra heimilt að fela stofnuninni eftirlit með afmörkuðum þáttum.

43. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hlutaðeigandi ráðherra“ hvarvetna í 1. og 2. mgr. kemur: ráðherra.
     b.      3. mgr. fellur brott.

44. gr.

    Í stað orðanna „til hlutaðeigandi stofnana, sem eru ráðuneytum til ráðgjafar samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna“ í 3. mgr. 24. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitinu.

45. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hlutaðeigandi ráðherra“ hvarvetna í 1. mgr. kemur: ráðherra.
     b.      Í stað orðanna „Umhverfisstofnunar, Fiskistofu og Landbúnaðarstofnunar“ í 1. og 4. málsl. 1. mgr. kemur: Matvælaeftirlitsins.

46. gr.

    Í stað orðanna „Hlutaðeigandi ráðherra“ í 26. gr. laganna kemur: Ráðherra.

47. gr.

    Í stað orðanna „Umhverfisstofnun, Landbúnaðarstofnun eða Fiskistofu“ í 28. gr. laganna kemur: eða Matvælaeftirlitið.

48. gr.

    Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Matvælaeftirlitið getur gripið til þvingunarúrræða og viðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara sem varða eftirlit með innflutningi matvæla skv. f-lið 6. gr.

49. gr.

    Á eftir 30. gr. laganna kemur ný grein sem verður 30. gr. a, svohljóðandi:
    Rísi ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd þessara laga skal vísa málinu til fullnaðarúrskurðar ráðherra. Sama gildir um ágreining milli Matvælaeftirlitsins og heilbrigðisnefnda um framkvæmd laganna.

XXIV. KAFLI
Breyting á lögum um Umhverfisstofnun, nr. 90/2002.
50. gr.

    Orðin „lögum nr. 93/1995, um matvæli, með síðari breytingum“ í a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna falla brott.

XXV. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða,
nr. 55/1998, með síðari breytingum.
51. gr.

     a.      Í stað orðsins „Fiskistofa“ í 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     b.      Í stað orðsins „hún“ í 1. málsl. 4. mgr. 21. gr. laganna kemur: það.

52. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra getur falið Matvælaeftirlitinu að gera samkomulag við aðrar ríkisstofnanir um að annast tiltekna þætti í starfsemi stofnunarinnar samkvæmt þessum lögum.

53. gr.

    Í stað orðsins „Sjávarútvegsráðuneytið“ í 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 22. gr. laganna kemur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið; og í stað orðsins „sjávarútvegsráðuneytis“ í 5. mgr. 14. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

XXVI. KAFLI
Breyting á lögum um eldi nytjastofna sjávar, nr. 33/2002,
með síðari breytingum.
54. gr.

     a.      Í stað orðsins „sjávarútvegsráðherra“ í 1. mgr. 3. gr., 4. gr., 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Fiskistofu“ í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „hún“ í 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 7. gr. og orðsins „hennar“ í 1. og 3. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: það, og: þess.
     d.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 4. gr. laganna kemur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     e.      Í stað orðanna „Landbúnaðarstofnun“ og „Landbúnaðarstofnunar“ í 6. gr. laganna kemur Matvælaeftirlitið, og: Matvælaeftirlitsins.

XXVII. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir,
nr. 7/1998, með síðari breytingum.
55. gr.

    Orðið „matvælum“ í 2. mgr. 3. gr. laganna og orðin „matvælum og“ í ákvæði til bráðabirgða III við lögin falla brott.

XXVIII. KAFLI
Breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
nr. 99/1993, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 58/2007.
56. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 1. mgr. 38. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Orðin „laga nr. 7 12. mars 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og“ í 1. mgr. 66. gr. laganna falla brott.
     d.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðuneytis“ í 3. mgr. 85. gr. A laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

XXIX. KAFLI
Breyting á lögum um Landbúnaðarstofnun, nr. 80/2005, með síðari breytingum.
57. gr.

     a.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 1. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 1. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

58. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast þrír nýir stafliðir er orðast svo:
     h.      að annast eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða samkvæmt lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998,
     i.      að annast eftirlit með matvælum samkvæmt lögum um matvæli, nr. 93/1995,
     j.      að annast eftirlit með fiskeldi samkvæmt lögum nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, og lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar.

59. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 5. gr. a, sem orðast svo:
    Ráðherra getur falið Matvælaeftirlitinu að gera samkomulag við aðrar ríkisstofnanir um að annast tiltekna þætti í starfsemi stofnunarinnar.

60. gr.

    Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a.     (I.)
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða með auglýsingu, er birta skal í B-deild Stjórnartíðinda, að flutningur málefna frá Fiskistofu til Matvælaeftirlitsins, sbr. h-, i- og j-lið 2. gr., komi til framkvæmda að hluta eða öllu leyti síðar á árinu 2008.

    b.     (II.)
    Við flutning á málefnum frá Fiskistofu og Umhverfisstofnun til Matvælaeftirlitsins skv. h-, i- og j-lið 2. gr. halda starfsmenn störfum sínum og starfskjörum. Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

    c.     (III.)
    Á árinu 2008 skal heimild skv. 5. gr. a til að gera samninga við Fiskistofu um að annast tiltekna þætti í starfsemi Matvælaeftirlitsins ná til allra verkefna sem við gildistöku þessara laga eru á verksviði stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum, þ.m.t. ákvarðana um þvingunarúrræði og viðurlög skv. III.–VI. kafla laganna, svo sem leyfissviptinga, ákvarðana um stöðvun vinnslu og dreifingar afurða, stöðvun innflutnings, innköllun, endursendingu, förgun, eyðingu, geymslu og ráðstöfun afurða, og ákvarðana um önnur þvingunarúrræði og viðurlög, svo og ákvarðana um kostnað við að framfylgja ákvæðum laganna.

61. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um Matvælaeftirlitið.

XXX. KAFLI
Breyting á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992, með síðari breytingum.
62. gr.

    2. málsl. 2. gr. laganna fellur brott.

XXXI. KAFLI
Breyting á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,
nr. 66/1998, með síðari breytingum.
63. gr.

     a.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „vör“ í 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: vart.

XXXII. KAFLI
Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
nr. 25/1993, með síðari breytingum.

64. gr.

     a.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 2. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XXXIII. KAFLI
Breyting á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum.
65. gr.

     a.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     b.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðuneytisins“ tvívegis í 3. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis; og í stað orðanna „landbúnaðarráðuneyti“ og „landbúnaðarráðuneytinu“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
     c.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     d.      Í stað orðsins „Hún“ í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitið.

XXXIV. KAFLI
Breyting á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl.,
nr. 6/1986, með síðari breytingum.
66. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 27. gr., 2. mgr. 63. gr., 2. mgr. 66. gr., 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 2. mgr. 69. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitsins.

XXXV. KAFLI
Breyting á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru,
nr. 22/1994, með síðari breytingum.

67. gr.

     a.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 1. mgr. 3. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XXXVI. KAFLI
Breyting á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu,
nr. 162/1994, með síðari breytingum.

68. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr. og 6. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ tvívegis í 4. gr. og 5. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XXXVII. KAFLI
Breyting á lögum um útflutning hrossa, nr. 55/2002, með síðari breytingum.
69. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 2. gr., 2. mgr. 4. gr. og 7. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 2. gr. og orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 6. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitsins, og: Matvælaeftirlitið.

XXXVIII. KAFLI
Breyting á lögum um innflutning dýra, nr. 54/1990, með síðari breytingum.
70. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 2. mgr. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ tvívegis í 2. mgr. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðuneytið“ í 6. gr. laganna kemur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
     d.      Í stað orðanna „Landbúnaðarstofnun eða fulltrúi hennar“ í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitið eða fulltrúi þess.

XXXIX. KAFLI
Breyting á lögum um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, með síðari breytingum.
71. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. og 2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 5. gr., 2. mgr. 13. gr., 15. gr. og 17. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 4. gr., 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. og 5. mgr. 16. gr. og 3. tölul. 17. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðuneytið“ í 11. gr. og „landbúnaðarráðuneytisins“ í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, og: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

XL. KAFLI
Breyting á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.
72. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 44. gr. og 1. og 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I við lögin kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „hún“ í 3. mgr. 12. gr., 5. mgr. 26. gr. og 3. mgr. 27. gr. laganna kemur: það.

XLI. KAFLI
Breyting á lögum um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum,
nr. 67/1990, með síðari breytingum.

73. gr.

    Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ þrívegis í 2. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XLII. KAFLI
Breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.
74. gr.

    Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 2. mgr. 1. gr., 4. mgr. 11. gr., 6. mgr. 33. gr. og 5. mgr. 43. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XLIII. KAFLI
Breyting á lögum um dýravernd, nr. 15/1994, með síðari breytingum.
75. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 5. gr. laganna kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 2. mgr. 11. gr., 2. mgr. 13. gr. og 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitið.

XLIV. KAFLI
Breyting á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, með síðari breytingum.
76. gr.

    Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í 3. mgr. 4. gr., 2. mgr. 6. gr., fyrirsögn á undan 11. gr. og 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XLV. KAFLI
Breyting á lögum um almannavarnir, nr. 94/1962, með síðari breytingum.
77. gr.

    Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnun“ í e-lið 2. mgr. 6. gr. laganna kemur: Matvælaeftirlitið.

XLVI. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006.
78. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 8. gr. og ákvæði til bráðabirgða við lögin kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.

XLVII. KAFLI
Breyting á lögum um fiskrækt, nr. 58/2006.
79. gr.

     a.      Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 4. gr., 13. gr. og ákvæði til bráðabirgða við lögin kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „hún“ í 1. málsl. 12. gr. laganna kemur: það.

XLVIII. KAFLI
Breyting á lögum um eldi vatnafiska, nr. 57/2006.
80. gr.

     a.      Í stað orðsins „Landbúnaðarráðherra“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.
     c.      Í stað orðsins „hennar“ í 5. mgr. 14. gr. laganna kemur: þess.

8. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til iðnaðarráðuneytis.
XLIX. KAFLI
Breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997.
81. gr.

    Í stað orðsins „viðskiptaráðherra“ í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: iðnaðarráðherra.

82. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Viðskiptaráðherra“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: Iðnaðarráðherra.
     b.      Í stað orðanna „einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: einn án tilnefningar, einn.

83. gr.

    Orðin „iðnaðarráðherra og“ í 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

9. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings Einkaleyfastofu til viðskiptaráðuneytis.
L. KAFLI
Breyting á lögum um einkaleyfi, nr. 17/ 1991, með síðari breytingum.
84. gr.

     a.      Í stað orðsins „Iðnaðarráðherra“ í 2. mgr. 3. gr. b laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: viðskiptaráðherra.
     b.      Í stað orðsins „iðnaðarráðuneytið“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: viðskiptaráðuneytið.

LI. KAFLI
Breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998.
85. gr.

    Í stað orðsins „Iðnaðarráðherra“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur: Viðskiptaráðherra.

LII. KAFLI
Breyting á lögum um hönnun, nr. 46/2001, með síðari breytingum.
86. gr.

     a.      Í stað orðsins „iðnaðarráðuneyti“ í 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: viðskiptaráðuneyti.
     b.      Í stað orðsins „Iðnaðarráðherra“ í 2. mgr. 52. gr. og 1. mgr. 53. gr. laganna kemur: Viðskiptaráðherra.

LIII. KAFLI
Breyting á lögum um félagamerki, nr. 155/2002.
87. gr.

     a.      Í stað orðsins „iðnaðarráðuneyti“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: viðskiptaráðuneyti.
     b.      Í stað orðsins „Iðnaðarráðherra“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: Viðskiptaráðherra.

10. ÞÁTTUR
Breytingar vegna flutnings fasteignakaupa og fasteignasölu til viðskiptaráðuneytis.
LIV. KAFLI
Breyting á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa,
nr. 99/2004, með síðari breytingum.
88. gr.

     a.      Í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í 2. mgr. 1. gr., fyrirsögn 23. gr. og 26. gr. kemur: viðskiptaráðherra.
     b.      Í stað orðsins „dómsmálaráðuneytis“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: viðskiptaráðuneytis.

11. ÞÁTTUR
Breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands.
LV. KAFLI
Breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.
89. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta, sbr. 8. gr., og skal þá ljúka meðferð ólokinna stjórnsýslumála í því ráðuneyti sem við málefni tekur.

LVI. KAFLI
Gildistaka.
90. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við myndun núverandi ríkisstjórnar var ákveðið að fara heildstætt yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Var lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, breytt í þessu skyni á síðasta löggjafarþingi, sbr. lög nr. 109/2007. Þar voru landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti sameinuð frá og með 1. janúar næstkomandi, Hagstofu Íslands breytt úr ráðuneyti í ríkisstofnun frá sama tíma og nöfnum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis annars vegar og félagsmálaráðuneytis hins vegar breytt til samræmis við áformaða verkaskiptingu. Jafnframt var skilið á milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta en þau ráðuneyti höfðu um árabil verið rekin sameiginlega. Sú nýbreytni kallaði ekki á lagabreytingu því ráðuneytin tvö höfðu ekki verið formlega sameinuð.
    Eins og kom fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 109/2007 verður gefin út ný reglugerð um Stjórnarráð Íslands þar sem er að finna nánari lýsingu á verkefnum einstakra ráðuneyta.
    Verða nú stuttlega raktar helstu breytingar sem ákveðnar hafa verið. Fyrirkomulag heilbrigðis- og tryggingakerfisins verður stokkað upp til að gera það auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi. Það verður m.a. gert með því að samhæfa og gera skilvirkara hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem hana veita. Verkefnum Tryggingastofnunar ríkisins verður skipt upp og sjúkratryggingar betur afmarkaðar innan heilbrigðisráðuneytis en lífeyristryggingar og félagslegar bætur færðar til félagsmálaráðuneytis. Sveitarstjórnarmál verða færð frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis. Sú breyting ræðst af því annars vegar að félagsmálaráðuneytið mun taka við veigamiklum málaflokkum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hins vegar fer vel saman að efla samgöngur og að sinna málefnum sveitarfélaga.
    Ferðamál færast frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Iðnaðarráðuneytið fer nú þegar með skylda málaflokka eins og nýsköpun og atvinnuþróun. Af sama toga er sú breyting að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun flytjast frá viðskiptaráðuneyti til iðnaðarráðuneytis. Alferðir, sbr. lög um alferðir nr. 80/1994, færast frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis enda er þar fyrst og fremst um neytendamálefni að ræða. Lög um fasteignakaup heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Öll önnur lög á sviði kauparéttar, þ.e. lög um lausafjárkaup, lög um neytendakaup og lög um þjónustukaup, heyra undir viðskiptaráðuneytið. Telja verður eðlilegt að lagabálkar þessir heyri allir undir sama ráðuneyti, enda efni þeirra náskylt. Varðandi lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa má segja að þau falli vel að þeim málefnum sem ráðuneytið fer með, t.d. málefnum er varða verslun og viðskipti almennt auk þess sem neytendaverndin kemur inn í þar. Þá munu einkaleyfi og önnur hugverkaréttindi sem lúta að atvinnulífinu færast frá iðnaðarráðuneyti til viðskiptaráðuneytis enda fer síðarnefnda ráðuneytið með aðra málaflokka sem snerta mjög starfsskilyrði fyrirtækja í landinu. Landbúnaðarskólar færast frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis enda fer síðarnefnda ráðuneytið með málefni annarra skóla í landinu. Landgræðsla og skógrækt annars vegar og vatnamælingar hins vegar flytjast frá landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis enda er þar um málaflokka að ræða sem eru mjög nátengdir öðrum verkefnum umhverfisráðuneytisins. Ræktun nytjaskóga verður hins vegar undanskilin þessum flutningi. Matvælaeftirlit verður sameinað undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og þeir hlutar þess sem nú eru hjá umhverfisráðuneyti færast yfir til hins nýja sameinaða ráðuneytis. Sú sameining mun auka samhæfingu og bæta eftirlit á öllum stigum matvælaframleiðslu en einnig efla samkeppnisstöðu og orðspor íslenskrar matvælaframleiðslu á mörkuðum.
    Breytt verkaskipting kallar á breytingu á ýmsum sérlögum. Tillögur um þær breytingar eru hér fluttar í einu lagi eins og boðað hafði verið í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 109/2007. Lagabreytingar þær sem leiðir af breyttri verkaskiptingu milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis eru hins vegar það viðamiklar að ákveðið hefur verið að gera tillögu um þær í sérstöku frumvarpi. Þá verða einnig flutt sjálfstæð frumvörp um Keflavíkurflugvöll, en yfirstjórn hans mun færast frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis, og Hagstofu Íslands sem verður sjálfstæð ríkisstofnun eins og fyrr segir.
    Flest ákvæði þessa frumvarps fela í sér orðalagsbreytingar vegna þess að málaflokkar færast milli ráðuneyta. Helstu efnislegar breytingar tengjast sameiningu matvælaeftirlits hjá Landbúnaðarstofnun, sem lagt er til að fái heitið Matvælaeftirlitið, til samræmis við aukin verkefni. Rétt er að taka fram að ekki hefur verið talin ástæða til að gera á þessu stigi allsherjartillögu um breytingu í lögum á nöfnum ráðuneyta sem breytast um áramót. Það er einungis ef lögum er breytt á annað borð vegna verkefnaflutninga sem slíkar breytingar eru gerðar. Verður að telja að þótt áfram megi finna til dæmis orðið „landbúnaðarráðherra“ eða „sjávarútvegsráðherra“ víða í lögum muni það ekki valda vafa hvaða ráðherra eigi í hlut.
    Verður nú gefið yfirlit yfir helstu breytingar sem fólgnar eru í frumvarpinu:
    Í 1. þætti frumvarpsins er að finna tillögu um lagabreytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis.
    Í 2. þætti frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum vegna flutnings ferðamála frá samgönguráðuneyti til iðnaðarráðuneytis.
    Í 3. þætti frumvarpsins eru breytingar lagðar til vegna flutnings alferða frá samgönguráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.
    Í 4. þætti frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um búnaðarfræðslu vegna fyrirhugaðs flutnings menntastofnana landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis. Jafnframt eru ákvæði um viðurkenningu, námsframboð og prófgráður þessara stofnana færð til samræmis við gildandi rammalög um háskóla, nr. 63/2006.
    Frumvarpið snertir fyrst og fremst þau formsatriði sem ákvarða þarf vegna flutnings milli ráðuneyta. Búfræðslulög munu hins vegar áfram gilda sem sérlög um skólana með hliðstæðum hætti og sérlög sem í gildi eru um einstaka ríkisháskóla. Um þessar mundir er unnið að endurskoðun sérlaga um opinbera háskóla. Áfram verður unnið að þeirri endurskoðun og samræmingu sem mælt er fyrir um í ákvæði til bráðabirgða með gildandi rammalögum um háskóla.
    Vakin er athygli á því að samkvæmt lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965, segir að á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands skuli stundaðar rannsóknir í þágu landbúnaðarins á sérstöku rannsóknasviði er hafi aðgreindan fjárhag frá annarri starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands. Miðað er við að þetta ákvæði haldist óbreytt.
    Stefnt er að því að kennsluframlög til landbúnaðarskólanna verði skilgreind með sambærilegum hætti og framlög til annarra ríkisháskóla. Hvað varðar framlög til rannsókna er annars vegar stefnt að því að styrkja forsendur háskóla til rannsókna, en hlutfall framlaga til rannsókna miðað við kennslu er á bilinu 40–100% meðal skóla sem heyra undir menntamálaráðuneytið, og endurspeglar mishátt rannsóknaframlag til einstakra skóla vísindalega stöðu þeirra.
    Samtals nema tekjur Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri tæpum 885 millj. kr. á ári samkvæmt fjárlögum 2007, en þar af eru um 270 millj. kr. sértekjur. Gert er ráð fyrir að núverandi fjárframlög og sértekjur skili sér að fullu til Landbúnaðarháskóla Íslands. Í annan stað munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og menntamálaráðherra standa í sameiningu að gerð rannsóknasamnings við skólann til þriggja til fimm ára, sbr. lög um háskóla, nr. 63/2006. Af framlagi til rannsókna við skólann verða 160 millj. kr. vistaðar hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti mun í samráði við Bændasamtök Íslands og menntamálaráðuneyti semja sérstaklega við skólann til þriggja til fimm ára um rannsóknir í þágu landbúnaðar fyrir andvirði þeirrar fjárhæðar. Loks munu afnot Landbúnaðarháskólans af jörðum á forræði landbúnaðarráðuneytis haldast óbreytt.
    Í 5. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð á Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins færist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Samhliða þessum breytingum eru gerðar tillögur um lagabreytingar til að einfalda framkvæmd dýraverndar með búfé og til að tryggja betur sjónarmið umhverfisverndar við innflutning á dýrum. Áfram verður unnið að endurskoðun laga um búfjárhald og laga um dýravernd til að skýra valdmörk og einfalda stjórnsýslu í málaflokknum.
    Samkomulag er á milli viðkomandi ráðuneyta um að fjármunir til verkefnisins Bændur græða landið, sem ætlaðir eru til uppgræðslu á heimajörðum bænda og eru nú á fjárlagalið Landgræðslunnar, verði á forræði og fjárlagalið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Ráðuneytið mun gera samning til þriggja ára um að Landgræðslan annist framkvæmd og eftirlit með þeim verkefnum á sama hátt og stofnunin hefur gert til þessa.
    Enn fremur verða fjármunir til framkvæmda á grundvelli laga nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Ráðuneytið mun gera samning við Landgræðslu ríkisins til þriggja ára um óbreytt hlutverk Landgræðslunnar varðandi yfirstjórn og framkvæmd varna gegn landbroti. Á þeim tíma er stefnt að því að endurskoða lögin um varnir gegn landbroti undir forystu forsætisráðuneytis.
    Þá munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra standa í sameiningu að gerð rannsóknasamnings við Rannóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá til þriggja til fimm ára um rannsóknir í þágu skógræktar, í fyrsta sinn á árinu 2008. Fjármunir til hagnýtra rannsóknaverkefna á sviði landbúnaðar, sem nú eru á viðfangsefni 04-321-1.10 Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, verða áfram hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Gert er ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í samráði við Bændasamtök Íslands og umhverfisráðuneyti geri samning til þriggja ára við Skógrækt ríkisins um að Rannsóknastöðin að Mógilsá annist tilteknar rannsóknir í þágu landbúnaðar fyrir a.m.k. andvirði þeirrar fjárhæðar árlega með sama hætti og verið hefur til þessa.
    Loks munu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfisráðherra og forstöðumenn Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins gera með sér samning um áframhaldandi umsjón tveggja síðasttöldu stofnananna á jörðum og jarðarhlutum sem tilgreind eru í viðaukum við þann samning. Í samkomulaginu verða ákvæði þess efnis að landbúnaðarráðuneytið beiti sér fyrir því að lagt verði fram lagafrumvarp er kveði á um að forræði þeirra svæða sem nefnd hafa verið einu nafni „þjóðskógar“, færist til umhverfisráðuneytisins.
    Í 6. þætti er að finna tillögur um lagabreytingar vegna fyrirhugaðs flutnings vatnamælinga frá iðnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Vatnamælingar sem nú eru hluti af Orkustofnun verði færðar til nýrrar stofnunar ásamt núverandi starfsemi Veðurstofu Íslands. Til að gefa nægilegt svigrúm til þessarar sameiningar er lagt til að umhverfisráðherra verði falið að undirbúa hana á árinu 2008, m.a. að því er varðar nauðsynlegar lagabreytingar.
    Í 7. þætti frumvarpsins er lagt til að stjórnsýslulegt forræði og ábyrgð matvælamála sem nú heyra undir umhverfisráðuneytið flytjist á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Þetta þýðir að sú starfsemi Umhverfisstofnunar sem tengist lögum nr. 93/1995, um matvæli, og nú fellur undir matvælasvið Umhverfisstofnunar flyst frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
    Aukið verður við hlutverk Landbúnaðarstofnunar að þessu leyti og er lagt til að hún fái heitið Matvælaeftirlitið. Mun hún taka við matvælaeftirliti sem nú er hjá Fiskistofu og Umhverfisstofnun. Þá er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti gert samninga við stofnanirnar um að sinna þeim verkefnum sem eru á verksviði þeirra við gildistöku þessara laga, allt til ársloka 2008.
    Í 8. þætti frumvarpsins er lagt til að málefni er varða Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins verði flutt frá viðskiptaráðherra til iðnaðarráðherra. Því eru í XLIX. kafla frumvarpsins lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997.
    Samkvæmt 1. tölul. 8. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands eru nýsköpun og tækniþróun á meðal þeirra verkefna sem falla undir verksvið iðnaðarráðuneytisins. Málefni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hafa hins vegar heyrt undir viðskiptaráðuneytið.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem tók til starfa 1. janúar 1998. Hlutverk sjóðsins var í upphafi að stuðla að arðbærri uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar með áhættufjármagni og að styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Stofnfé sjóðsins samanstóð af sameiginlegu eigin fé Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, en Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. var stofnaður um leið og reistur á grunni fyrrgreindra sjóða. Á starfstíma Nýsköpunarsjóðs hafa orðið mjög miklar breytingar á starfsumhverfinu og hefur sjóðurinn gegnt veigamiklu hlutverki í fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja með því að vera einna fyrstur fjárfesta til að kaupa hluti í þeim. Nýsköpunarsjóður er hluti af stærri heild, en hann er veigamikill þáttur í stuðningskerfi atvinnulífsins. Starfsemi hans þarf því að taka mið af heildstæðri stefnumótun um nýsköpun og atvinnuþróun. Á árinu 2007 voru samþykktar breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, en samhliða því frumvarpi var samþykkt frumvarp um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Með því er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tengdur við stefnumótun í málefnum rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Í ljósi þessa þykir eðlilegt að málefni sjóðsins heyri undir iðnaðarráðuneytið.
    Í 9. þætti frumvarpsins er að finna breytingar sem leiðir af tillögu um að Einkaleyfastofa og hugverkaréttindi önnur en höfundaréttur, svo sem einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd, heyri undir viðskiptaráðuneytið. Áfram er gert ráð fyrir því að málefni er snúa að hönnun heyri undir iðnaðarráðuneytið.
    Í 10. þætti frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem leiðir af flutningi málefna er varða fasteignir frá dómsmálaráðuneyti til viðskiptaráðuneytis, en gert er ráð fyrir því að forræði á lögum um fasteignakaup og lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa færist til viðskiptaráðuneytisins 1. janúar 2008.
    Við undirbúning frumvarpsins í hlutaðeigandi ráðuneytum hefur verið haft víðtækt samráð við þær stofnanir sem í hlut eiga. Þar sem frumvarpið varðar eingöngu tilfærslu verkefna milli ráðuneyta og hagræðingu sem því fylgir mun það fyrst og fremst hafa áhrif á stjórnsýsluna sjálfa. Ætla má að hún verði almennt talað betur í stakk búin en fyrr til að sinna verkefnum sínum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Athugasemdir við 1. þátt, breytingar vegna flutnings sveitarstjórnarmála
til samgönguráðuneytis.

Um 1.–12. gr.

    Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að færa sveitarstjórnarmál frá félagsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis eru hér lagðar til breytingar á ýmsum lögum er varða aðkomu ráðherra að sveitarstjórnarmálum. Um 11. gr. sérstaklega má það segja að í 1. mgr. 4. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, er mælt fyrir um skipan í samstarfsnefnd um málefni þjóðlendna. Er því lagt til að félagsmálaráðherra eigi ekki lengur fulltrúa í samstarfsnefndinni þar sem seta fulltrúa hans tengist yfirstjórn sveitarstjórnarmála. Samgönguráðherra á eftir sem áður fulltrúa í nefndinni.

Athugasemdir við 2. þátt, breytingar vegna flutnings ferðamála til iðnaðarráðuneytis.
Um 13. gr.

    Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að færa ferðamál frá samgönguráðuneytinu til iðnaðarráðuneytisins er í XIII. kafla frumvarpsins lagt til að þar sem kveðið er á um aðkomu ráðherra í lögum um skipan ferðamála verði vísað til iðnaðarráðherra í stað samgönguráðherra nú.

Athugasemdir við 3. þátt, breytingar vegna flutnings alferða til viðskiptaráðuneytis.
Um 14. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að forræði laga um alferðir flytjist frá samgönguráðherra til viðskiptaráðherra. Með lögum um alferðir er innleidd tilskipun ráðherraráðs Evrópubandalagsins nr. 90/314/EBE um ferðapakka, sumarleyfis- og skoðunarferðapakka, en tilskipunin fellur undir XIX. viðauka EES-samningsins um neytendavernd. Eftirlit með framkvæmd laga um alferðir hefur frá upphafi verið í höndum undirstofnana viðskiptaráðuneytisins, fyrst Samkeppnisstofnunar og frá árinu 2005 Neytendastofu. Á grundvelli lagabreytingar sem gerð var á vorþingi er nú heimilt að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um alferðir til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda. Í ljósi þessa þykir eðlilegt að lög um alferðir heyri undir viðskiptaráðherra í stað þess ráðherra sem fer með ferðamál.

Athugasemdir við 4. þátt, breytingar vegna flutnings landbúnaðarskóla
til menntamálaráðuneytis.

Um 15. gr.

    Menntastofnanir landbúnaðarins, sem eru Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, verða færðar undir yfirstjórn menntamálaráðherra. Báðir skólar bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi og á háskólastigi samkvæmt þeim lögum sem gilda um hvort skólastig. Þá hafa báðir skólarnir ákveðið að sækja um viðurkenningu menntamálaráðherra á grundvelli II. kafla rammalaga um háskóla og reglna settra með stoð í þeim. Uppfylla þeir þannig gildissviðsákvæði 1. gr. rammalaganna.

Um 16. og 21. gr.

    Ákvæðum gildandi laga er breytt að því marki sem þau gera ráð fyrir atbeina ráðherra við rekstur og starfsemi skólanna.

Um 17. gr.

    Báðir skólar eru aðilar að viðurkenningarferli samkvæmt rammalögum um háskóla, sem byggist á alþjóðlegum viðmiðum um háskólastarfsemi. Ekki er því þörf á að vísa sérstaklega til erlendra háskóla hvað þetta varðar.

Um 18.–20. gr.

    Ákvæði um viðurkenningu, námsframboð og prófgráður skólanna tveggja eru hér færð til samræmis við gildandi rammalög um háskóla, nr. 63/2006. Formleg viðmið um æðri menntun og prófgráður voru gefin út af menntamálaráðuneytinu í febrúar 2007.

Um 22. gr.

    Lagt er til að háskólaráð beggja skóla haldi áfram án þess að til nýrrar skipunar komi að svo stöddu. Í samræmi við aðrar breytingar er hins vegar gengið út frá því að menntamálaráðherra skipi fulltrúa í stað þeirra sem láta af setu áður en skipunartíminn er úti.

Athugasemdir við 5. þátt, breytingar vegna flutnings landgræðslu og skógræktar, að undanskilinni ræktun nytjaskóga, til umhverfisráðuneytis og breytingar er lúta að því að skýra valdmörk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis.
Um 23.–26. gr.

    Í samræmi við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að færa málefni skógræktar og landgræðslu, utan nytjaskóga og skógræktar á bújörðum, frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis kemur orðið umhverfisráðherra í stað landbúnaðarráðherra í viðeigandi greinum. Í öðrum greinum koma orðin sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í stað landbúnaðarráðherra.
    Í IV. kafla laga um skógrækt, nr. 3/1955, er fjallað um skógrækt á bújörðum. Í samræmi við áframhaldandi forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á þeim málaflokki er í 25. gr. frumvarpsins kveðið skýrt á um forræði þeirra mála.

Um 27. gr.

    Í þessari grein frumvarpsins er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fái heimild í 41. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum til að gera samninga við ríkisstofnanir og einkaaðila um verkefni við úttekt á landi sem nýtt er við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Verkefni þessi yrðu nánar afmörkuð í reglugerð. Í lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, eins og þeim var breytt með lögum nr. 58/2007, sem sett voru í kjölfar nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar, er nú gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra hafi heimild til að fela Landgræðslu ríkisins þessi verkefni í reglugerð með líkum hætti og þegar er gert í núgildandi reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, nr. 175/2003. Lög nr. 58/2007 öðlast gildi 1. janúar 2008 rétt eins og nefndur samningur.
    Gert er ráð fyrir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra muni gera samning við Landgræðslu ríkisins um tiltekna framkvæmdaþætti en stjórnsýsluverkefni verði þó á könnu Matvælaeftirlitsins. Til samræmis við útvistunarstefnu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að ráðherra hafi einnig heimild til að fela einkaaðilum verkefni við gæðastýringu en möguleikar kunna að skapast til þess, t.d. við úttekt á landi og gerð landbóta eða landnýtingaráætlana.
    Mælt er fyrir um brottfall 4. málsl. 3. mgr. lagagreinarinnar þar sem það ákvæði verður óþarft við þá breytingu sem lögð er til að gerð verði á 2. málsl. 3. mgr. enda rúmast heimildir 4. málsl. 3. mgr. innan þeirrar heimildar.

Um 28.–29. gr.

    Í greinunum er fjallað um breytingar á lögum nr. 15/1994, um dýravernd. Breytingarnar miða að því að draga skýrari valdmörk milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra annars vegar og umhverfisráðherra hins vegar. Samkvæmt lögum um búfjárhald o.fl., nr. 103/2002, fer sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með málefni er varða búfé og eru þessi skil gerð skýrari með þeirri breytingu sem lögð er til.

Um 30. gr.

    Í greininni er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setji tvær nýjar reglugerðir. Í fyrsta lagi er ráðherra ætlað að setja reglugerð er fjalli um flutninga búfjár, m.a. um kröfur til flutningstækja sem flytja búfé. Í öðru lagi skal ráðherra setja reglugerð er fjalli um aflífun búfjár. Með lagabreytingunni er stjórnsýsla ráðuneyta gerð skýrari og ábyrgð á þessum þáttum búfjárhalds, þ.e. flutningi búfjár og aflífun þess, gleggri. Reglugerðarbreytingin veitir ráðherra jafnframt heimild til þess að auka kröfur til þeirra aðila sem annast flutninga og aflífun á búfé.

Um 31. gr.

    Í fyrri efnismálsgreininni er að finna nýmæli. Gerð er krafa um að með umsókn um innflutning á nýrri dýrategund til landsins skuli ávallt fylgja áhættumat sem umsækjandi skuli leggja fram með umsókn sinni. Markmið slíks áhættumats er að leggja mat á þá hættu sem fylgir því að leyfa innflutning viðkomandi tegundar fyrir lífríkið. Þannig á áhættumatið að leiða í ljós líkur þess að viðkomandi tegund geti sloppið út í umhverfið og ef slíkt gerðist hvaða áhrif það gæti haft á lífríkið, svo sem líffræðilega fjölbreytni o.s.frv. Áhættumatið mun liggja fyrir þegar umsagnaraðilar veita umsögn sína um erindið og taka þeir þannig afstöðu til þess í umsögn sinni. Gert er ráð fyrir því að ráðherra geti í reglugerð sett nánari fyrirmæli um hvernig áhættumat skuli fara fram og til hvaða þátta það skuli taka.

Athugasemdir við 6. þátt, breytingar vegna flutnings vatnamælinga til umhverfisráðuneytis.
Um 32.–33. gr.

    Lagt er til að vatnamælingar Orkustofnunar heyri undir umhverfisráðuneytið frá 1. janúar 2008 en starfsemi vatnamælinga hefur verið rekin sem sjálfstæð eining innan Orkustofnunar og verið fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar. Til samræmis við þetta er lagt til að 1. mgr. 3. gr. gildandi laga nr. 87/2003 um starfsemi Vatnamælinga innan Orkustofnunar falli brott. Í samræmi við 2. og 3. tölul. 2. gr. laga um Orkustofnun skal áréttað forræði stofnunarinnar á rannsóknum á orkubúskap og gagnasöfnun um orkulindir. Talið er rétt að sameina Veðurstofu Íslands og vatnamælingar Orkustofnunar í eina stofnun þar sem verkefni vatnamælinga eru eðlislík ákveðnum verkefnum sem falla undir verksvið Veðurstofu Íslands. Gert er ráð fyrir að hafist verði handa við að sameina starfsemi Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar við gildistöku frumvarps þessa, frekari lagabreytingar undirbúnar og sameiningunni verði lokið eigi síðar en 1. janúar 2009. Fram að þeim tíma mun starfsemi vatnamælinga vera vistuð hjá Orkustofnun.
    Gert er ráð fyrir að réttindi og skyldur starfsmanna vatnamælinga samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, haldist óbreytt, enda sé um flutning starfa að ræða.

Athugasemdir við 7. þátt, breytingar vegna flutnings matvælamála
til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Um 34. gr.

    Í samræmi við tilfærslu málefna matvæla frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis koma orðin sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í stað umhverfisráðherra. Gert er ráð fyrir því að Landbúnaðarstofnun taki við verkefnum matvælasviðs Umhverfisstofnunar og verkefnum matvælaeftirlitssviðs Fiskistofu. Stofnunin mun fá nýtt nafn, Matvælaeftirlitið.

Um 35. gr.

    Þar sem einn ráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun fara með málefni matvæla, þ.e. sjávarafurða, landbúnaðarafurða og unninna matvæla, er ekki þörf á sérstakri upptalningu eða lýsingu á verksviði landbúnaðarráðherra. Í þessu lagaákvæði eru hins vegar talin upp þau svið sem Matvælaeftirlitið sinnir samkvæmt lögunum.
    A–d-liðir eru teknir óbreyttir úr 6. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Þessir liðir féllu undir yfirstjórn landbúnaðarráðherra og voru því á forræði Landbúnaðarstofnunar áður. E-liður er í samræmi við 7. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, og féll undir yfirstjórn sjávarútvegsráðherra og var því á forræði matvælasviðs Fiskistofu áður. Þó eru gerðar nokkrar breytingar á e-liðnum til að samræma verksvið Matvælaeftirlitsins betur ákvæðum laga nr. 55/1998 þannig að það nái ekki eingöngu til meðferðar, flutnings, geymslu og vinnslu sjávarafurða til útflutnings heldur einnig til annarrar meðferðar, flutnings, geymslu og vinnslu sjávarafurða, auk dreifingar, þ.m.t. innflutnings. Smásala sjávarafurða verður hins vegar ekki undir opinberu eftirliti Matvælaeftirlitsins heldur munu heilbrigðisnefndir fara áfram með það eftirlit með sama hætti og verið hefur. F-liður lýsir núverandi verksviði matvælasviðs Umhverfisstofnunar samkvæmt bráðabirgðaákvæði III við lög nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það er nauðsynlegt að gera grein fyrir verksviði Matvælaeftirlitsins samkvæmt lögunum þar sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sinna jafnframt verkefnum samkvæmt lögunum. Ekki er ætlunin að breyta verksviði heilbrigðisnefndanna gagnvart Matvælaeftirlitinu heldur á það að vera óbreytt. Skv. 6. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, fór Landbúnaðarráðherra með yfirstjórn mála er varða eftirlitsstörf dýralækna. Enda þótt þessa sé ekki getið í nýju lagaákvæði fer Matvælaeftirlitið með mál er varða eftirlitsstörf dýralækna í samræmi við lög nr. 80/2005, um landbúnaðarstofnun. Hugtakið opinbert eftirlit er skilgreint í 4. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, og er hér notað sem slíkt.

Um 36. gr.

    Í samræmi við fyrri athugasemdir er ekki þörf á sérstakri upptalningu eða lýsingu á verksviði sjávarútvegsráðherra og því fellur ákvæðið brott.

Um 37. gr.

    Samstarfsráði var falið að vinna að samræmingu matvælaeftirlits og samræmingu löggjafar á sviði matvæla. Ekki er þörf á slíku ráði nú þegar matvælaeftirlit flyst á eina hendi í stað þriggja.

Um 38.–39. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laganna um matvæli vegna tilfærslu málefna matvæla frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Um 40. gr

    1. mgr. 20. gr. laganna er breytt til samræmis við sameinað verksvið Matvælaeftirlitsins sem er útlistað í 6. gr. laganna. Gert er ráð fyrir óbreyttu verksviði heilbrigðisnefnda hvað varðar leyfisveitingar frá því sem áður var.

Um 41. gr.

    Ekki er þörf á þessu ákvæði þar sem einn ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum.

Um 42. gr.

    Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa sinnt opinberu eftirliti með tilteknum matvælum undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar. Gert er ráð fyrir að þetta eftirlit heilbrigðisnefndanna með matvælum verði óbreytt en verði nú undir yfirstjórn Matvælaeftirlitsins sem tekur við hlutverki matvælasviðs Umhverfisstofnunar. Matvælaeftirlitið tekur að öðru leyti við hlutverki matvælasviðs Umhverfisstofnunar samkvæmt lagaákvæðinu. Þar sem Landbúnaðarstofnun fær nýtt nafn og tekur við starfsemi matvælasviðs Fiskistofu falla brott 2. og 3. mgr. 22. gr. matvælalaganna.

Um 43.–47. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laganna vegna tilfærslu málefna matvæla frá umhverfisráðuneyti til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Um 49. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði ný grein, 30. gr. a, sem er nýmæli. Greinin er sett til að tryggja að til staðar sé úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi um þau ágreiningsefni sem geta komið upp milli þeirra aðila sem fara með stjórnsýslu matvælamála. Hér er gert ráð fyrir að ráðherra fari með úrskurðarvald ef ágreiningur verður milli heilbrigðisnefndar og sveitarstjórnar um framkvæmd laganna. Sambærilegt ákvæði er í 32. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum. Eins og fram kemur í athugasemdum við það ákvæði í frumvarpi til laga nr. 7/1998, sbr. Alþingistíðindi A-deild, 122. löggjafarþing 1997–98, þskj. 197, 194. mál, eru heilbrigðisnefndir ekki settar undir vald sveitarstjórna og geta þær ekki ógilt eða breytt ákvörðunum heilbrigðisnefnda. Sætti sveitarstjórnir sig ekki við ákvarðanir heilbrigðisnefnda geta þær óskað eftir úrskurði ráðherra.

Um 50. gr.

    Gerð er breyting á 1. gr. laga nr. 90/2002, um Umhverfisstofnun, vegna tilfærslu málefna matvæla frá Umhverfisstofnun til Matvælaeftirlitsins.

Um 51.–53. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða vegna tilfærslu málefna matvæla frá Fiskistofu til Matvælaeftirlitsins. Einnig er þar að finna nýmæli um að ráðherra geti falið Matvælaeftirlitinu að gera samkomulag við aðrar ríkisstofnanir um að annast tiltekna þætti í starfsemi stofnunarinnar samkvæmt lögunum. Með því er t.d. átt við að ráðherra geti falið Matvælaeftirlitinu að gera samkomulag við Fiskistofu um að annast tiltekin verkefni ef það er talið hagkvæmt en hún hefur sinnt þessum verkefnum hingað til. Annars staðar í frumvarpinu er lagt til að sambærilegt ákvæði verði tekið upp í lög nr. 93/1995.

Um 54. gr.

    Með greininni er annars vegar lagt til að eldi nytjastofna sjávar flytjist til Matvælaeftirlitsins frá Fiskistofu en það er eðlilegt þar sem fiskeldi fellur undir matvælaframleiðslu og matvælalöggjöfin gildir bæði um lifandi eldisdýr og eldisafurðir eftir því sem við á, m.a. þær reglur sem gilda um meðferð, flutning, inn- og útflutning á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Hins vegar eru gerðar breytingar á tilteknum ákvæðum laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 55. gr.

    Gerðar eru breytingar á tveimur ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna flutnings matvælamálefna frá Umhverfisstofnun til Matvælaeftirlitsins.

Um 56. gr.

    Lagðar eru til breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna.

Um 57.–59. gr. og 61. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun. Gert er ráð fyrir því að Landbúnaðarstofnun fá nýtt heiti: Matvælaeftirlitið. Skv. 58. gr. fær Matvælaeftirlitið annað og meira hlutverk en Landbúnaðarstofnun hafði. Þannig bætast þrír nýir stafliðir, h-, i- og j-liður, við 2. gr. laga 80/2005. Skv. h-lið annast Matvælaeftirlitið eftirlit með meðferð fisks og framleiðslu sjávarafurða, sem Fiskistofu er falið samkvæmt lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, og skv. i-lið eftirlit með matvælum, sem matvælasviði Umhverfisstofnunar er falið samkvæmt lögum um matvæli, nr. 93/1995. Þá verður Matvælaeftirlitinu einnig falið skv. j-lið að hafa eftirlit með fiskeldi samkvæmt lögum nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, eins og Landbúnaðarstofnun hefur nú þegar, en eftirlit með eldi nytjastofna sjávar flyst jafnframt frá Fiskistofu til Matvælaeftirlitsins.
    Loks er gert ráð fyrir að ráðherra geti falið Matvælaeftirlitinu að gera samkomulag við aðrar ríkisstofnanir um að annast tiltekna þætti í starfsemi stofnunarinnar, en það er nýmæli.

Um 60 gr.

     Um a-lið.
    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2008. Þó er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til að ákveða að flutningur verkefna frá Fiskistofu til Matvælaeftirlitsins komi til framkvæmda að hluta eða öllu leyti síðar, í síðasta lagi 1. janúar 2009. Eðlilegt þykir að ráðherra fái hér gott svigrúm til þess að unnt verði að flytja þau málefni sem um er að ræða með sem öruggustum hætti. Ekki er hægt að miða flutning viðfangsefnanna við tiltekið tímamark. Skilyrði þess að flutningur viðfangsefnanna frá Fiskistofu til Matvælaeftirlitsins komi til framkvæmda að hluta eða öllu leyti eftir 1. janúar 2008 er að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi birt um það auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
     Um b-lið.
    Ákvæðið tekur mið af flutningi verkefna til Landbúnaðarstofnunar er fær nýtt heiti og verður Matvælaeftirlitið. Til þeirrar stofnunar flytjast málefni sem hingað til hafa heyrt undir aðrar ríkisstofnanir eins og nánar er rakið í frumvarpinu.
    Ákvæðið gerir ráð fyrir því að starfsmenn, sem ráðnir hafa verið hjá matvælasviði Fiskistofu og matvælasviði Umhverfisstofnunar, haldi störfum sínum og óbreyttum starfskjörum hjá Matvælaeftirlitinu. Störf eru ekki lögð niður heldur flutt til Matvælaeftirlitsins með því að sú stofnun yfirtekur ráðningarsamninga. Starfsmönnum er þannig ekki sagt upp við yfirfærslu verkefna enda eru störfin ekki lögð niður. Þannig verður aðild að lífeyrissjóði óbreytt og laun fara eftir þeim kjarasamningum sem við eiga.
     Um c-lið.
    Þá er einnig talið nauðsynlegt með tilliti til aðstæðna að kveða á um tiltekinn aðlögunartíma til að flytja verkefni sem eru á verksviði matvælasviðs Fiskistofu við gildistöku þessara laga til Matvælaeftirlitsins. Með þessu ákvæði er gert ráð fyrir að það verði gert með samningum Matvælaeftirlitsins við Fiskistofu eftir því sem ástæða þykir til. Er gert ráð fyrir að til ársloka 2008 verði heimilt að gera samninga við Fiskistofu um að annast öll þau verkefni sem stofnunin hefur hingað til annast, þ.m.t. hvers konar ákvarðanir um þvingunarúrræði og viðurlög. Lagt verður mat á það á þeim tíma hvort og hvaða verkefni verða falin stofnuninni. Ákvarðanir sem teknar verða af Fiskistofu samkvæmt þessu ákvæði verða kæranlegar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis með sama hætti og ákvarðanir Matvælaeftirlitsins.

Um 62. gr.

    Gerðar eru breytingar á ákvæði 2. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, vegna flutnings matvælamálefna frá Fiskistofu til Matvælaeftirlitsins.

Um 63. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 64. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 65. gr.

    Lagðar eru til breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 66. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 67. gr.

    Lagðar eru til breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 68. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 69. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 55/2002, um útflutning hrossa, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 70. gr.

    Lagðar eru til breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 71. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 72. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 73. gr.

    Gerðar eru breytingar á 2. gr. laga nr. 67/1990, um Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 74. gr.

    Gerðar eru breytingar á tilteknum ákvæðum lyfjalaga, nr. 93/1994, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 75. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 15/1994, um dýravernd, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 76. gr.

    Lagðar eru til breytingar á tilteknum ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 77. gr.

    Gerð er breyting á 6. gr. laga nr. 94/1962, um almannavarnir, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 78. gr.

    Gerðar eru breytingar á tilteknum ákvæðum laga nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 79. gr.

    Lagðar eru til breytingar á tilteknum ákvæðum laga nr. 58/2006, um fiskrækt, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Um 80. gr.

    Gerðar eru breytingar á tilteknum ákvæðum laga nr. 57/2006, um eldi vatnafiska, vegna breytinga á yfirstjórn matvælamálefna og heiti Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið.

Athugasemdir við 8. þátt, breytingar vegna flutnings Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
til iðnaðarráðuneytis.

Um 81. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um í 1. mgr. 1. gr. laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að yfirumsjón með sjóðnum sé í höndum iðnaðarráðherra í stað viðskiptaráðherra nú.

Um 82. gr.

    Hér er lagt til að ákvæðum 4. gr. um skipan stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði breytt þannig að það verði iðnaðarráðherra í stað viðskiptaráðherra sem skipi stjórnina. Áfram er gert ráð fyrir því að iðnaðarráðherra skipi einn mann án tilnefningar og að sami ráðherra skipi einn mann samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði. Einnig er lagt til að í stjórnina verði áfram skipaður einn stjórnarmaður eftir tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn stjórnarmaður eftir tilnefningu sjávarútvegsráðherra samkvæmt ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi og einn stjórnarmaður samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands.

Um 83. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Athugasemdir við 9. þátt, breytingar vegna flutnings Einkaleyfastofu
til viðskiptaráðuneytis.

Um 84. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á lögum um einkaleyfi vegna tilfærslu málefna Einkaleyfastofu frá iðnaðarráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Um 85. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á ákvæði sveitarstjórnarlaga um byggðamerki vegna tilfærslu málefna Einkaleyfastofu frá iðnaðarráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Um 86. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á lögum um hönnun, en þar er kveðið á um hönnunarvernd, vegna tilfærslu málefna Einkaleyfastofu frá iðnaðarráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Um 87. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á lögum um félagamerki vegna tilfærslu málefna Einkaleyfastofu frá iðnaðarráðuneyti til viðskiptaráðuneytis.

Athugasemdir við 10. þátt, breytingar vegna flutnings fasteignakaupa og fasteignasölu
til viðskiptaráðuneytis.

Um 88. gr.

    Í greininni eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa vegna flutnings málefna er varða fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu til viðskiptaráðuneytisins.

Athugasemdir við 11. þátt, breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.
Um 89. gr.

    Hér er tekið af skarið um að ljúka beri stjórnsýslumálum, sem hafin eru fyrir gildistöku flutnings málefnis en er ólokið við flutninginn, í því ráðuneyti sem við málefni tekur. Á það einnig við ef til þess kemur að breyta þurfi, endurupptaka eða afturkalla ákvörðun, sbr. VI. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Sama á við ef leysa þarf úr stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 90. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2008.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands í framhaldi af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og lögum nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969. Markmið þessara aðgerða er að laga stjórnsýsluna og verkefni ráðuneyta betur að þörfum nútímans og að ráðuneyti verði öflugar og skilvirkar einingar þar sem skyldum málaflokkum er skipað saman undir eina stjórn.
    Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Samkvæmt lauslegu yfirliti sem ráðuneytið hefur tekið saman kann þessi tilflutningur að snerta fjárveitingar um 200 viðfangsefna á fjárlögum og er áformað að flytja tillögur þess efnis við 2. umræðu fyrirliggjandi fjárlagafrumvarps. Í einhverjum tilvikum kann þó að koma til breytinga á kostnaði, svo sem vegna breytinga á starfsmannafjölda eða húsnæði, en komi til slíkra óvæntra útgjalda eða biðlauna verður að fjalla um það sérstaklega. Markmið ríkisstjórnarinnar í því sambandi er að þeim kostnaði verði haldið í lágmarki þannig að hann rúmist innan ramma viðkomandi ráðuneyta og stofnana.