Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 134  —  94. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vatnalögum, nr. 20/2006.

Frá iðnaðarnefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón A. Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti.
    Á 132. löggjafarþingi samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra vatnalaga, nr. 20/2006, og er þeim ætlað að leysa af hólmi gildandi vatnalög, nr. 15/1923. Við þinglega meðferð málsins varð samkomulag meðal allra flokka um að fresta gildistöku nýju laganna til 1. nóvember 2007 og jafnframt að sérstakri nefnd yrði komið á fót til að rannsaka lagasamræmi og yfirvofandi breytingar á sviði vatnamála.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku nýju vatnalaganna verði frestað enn um sinn eða til 1. nóvember 2008 þar sem ekki hefur orðið af skipun umræddrar nefndar.
    Nefndin leggur til að gildistöku laga nr. 31/2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, verði einnig frestað en þeim lögum er ætlað að taka gildi sama dag og nýju vatnalögunum. Því leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Á eftir 2. gr. komi ný grein er orðist svo:
    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum nr. 31/2007, um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti: Í stað „2007“ í 1. mgr. 2. gr. kemur: 2008.

    Guðni Ágústsson og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. okt. 2007.



Katrín Júlíusdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Einar Már Sigurðarson.



Álfheiður Ingadóttir.


Herdís Þórðardóttir.


Björk Guðjónsdóttir.



Grétar Mar Jónsson.