Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 136  —  79. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar um sölu eigna ríkisins í Hvalfirði.

     1.      Á grundvelli hvaða heimilda eru auglýstar til sölu húseignir, tækjabúnaður og bryggja fyrrum olíubirgðastöðvar NATO í Hvalfirði ásamt lóð, sbr. auglýsingu Ríkiskaupa í byrjun september sl. sem fylgja sölugögn, m.a. kauptilboðsblað, skýrsla um mat á ástandi olíubirgðastöðvarinnar frá september 2004 o.fl.?
    Í 6. gr. fjárlaga 2007, lið 4.57, er heimild til að selja landspildur í eigu ríkisins í Hvalfirði. Auk þess hefur verið óskað eftir heimild í 4. gr. fjáraukalaga fyrir árið 2007, lið 4.60, til að selja fasteignir og landsvæði fyrrum olíustöðvar NATO í Hvalfirði.

     2.      Hvaða kvaðir fylgja þeim eignum sem til sölu eru og eru slíkar kvaðir skýrt tilteknar í sölugögnum?
    Umræddar eignir eru boðnar til sölu án kvaða.

     3.      Hefur fjármálaráðuneytið gengið úr skugga um að umræddar eignir séu skráðar í Landskrá fasteigna? Ef svo er ekki, telur ráðherra eðlilegt að auglýsa til sölu óskráðar eignir?

    Eignirnar eru ekki skráðar í Landskrá fasteigna enda voru fasteignir á fyrrum varnarsvæðum undanþegnar slíkri skráningu. Stofnskjal hefur verið gefið út fyrir umrædda lóð og liggur það hjá byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar til afgreiðslu.

     4.      Hefur við undirbúning sölunnar verið fylgt ákvæðum reglugerðar nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, og tilmælum umboðsmanns Alþingis nr. 3163 frá 2001?

    Við undirbúning sölunnar hefur verið fylgt ákvæðum reglugerðar nr. 206/2003 sem kom í stað eldri reglugerðar nr. 651/1994, um ráðstöfun eigna ríkisins, og tilmælum umboðsmanns Alþingis nr. 3163 frá 2001.

     5.      Hvað veldur því ósamræmi að í sölugögnum segir að um sé að ræða 47,3 ha landsvæði en í auglýsingu er það sagt 18,6 ha?

    Stærð lóðarinnar sem selja á var tilgreind 18,6 ha. í blaðaauglýsingum, á heimasíðu Ríkiskaupa, á tilboðsblaði og á hnitaskrá lóðarinnar sem var fylgiskjal með sölugögnum. Hins vegar kemur fram í matsskýrslu frá 2004 um ástand eignanna, sem var hluti sölugagna, að landsvæði (land, foreign base right) sé 47,3 ha. Upplýsingar þessar eiga við um allt það land sem áður tilheyrði fyrrum olíubirgðastöð NATO. Hins vegar er nú aðeins verið að selja 18,6 ha. svo sem söluauglýsing ber greinilega með sér.

     6.      Hver er staða aðalskipulags og deiliskipulags á því svæði sem fyrirhugað er að selja og hverjar eru heimildir til landnýtingar?

    Aðalskipulag og deiliskipulag eru á forræði viðkomandi sveitarstjórnar. Frumkvæði skipulagsgerðar og ábyrgð er einnig hjá henni. Væntanlegur kaupandi þarf að sjálfsögðu að fá samþykki viðkomandi yfirvalda fyrir þeirri starfsemi sem hann hyggst reka á svæðinu.

     7.      Hefur fjármálaráðuneytið fengið umboð hlutaðeigandi til að selja hús sem í sölugögnum er sagt metið ónýtt og „í eigu bónda í sveitinni og er ekki á skrá er fengin var frá verkkaupa“?

    Umrætt hús var selt til niðurrifs eða flutnings fyrir nokkrum árum og er ekki hluti þess sem selja á eins og kemur fram í sölugögnum. Húsið verður fjarlægt fyrir afhendingu hins selda.

     8.      Er ástand olíugeyma með þeim hætti að unnt sé að íslenskum lögum að nýta þá til geymslu á eldsneyti? Ef svo er ekki, hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til þess að geymarnir uppfylli ákvæði íslenskra laga til birgðahalds?

    Umræddar eignir ríkisins í Hvalfirði verða seldar í því ástandi sem þær eru í við afhendingu til kaupanda. Seljandi hefur hvorki látið kanna hvort umræddar eignir uppfylla skilyrði hlutaðeigandi stjórnvalda um geymslu á olíu né hvort leyfi fæst til að geyma olíu eða önnur mengandi efni í umræddum geymum.

     9.      Hver er ástæða þess að hluti ástandsskýrslu, m.a. að því er varðar kostnað við endurbætur, niðurrif o.fl., er ekki birtur í sölugögnum?

    Eins og kemur fram í sölulýsingu var ástandsskýrslan unnin árið 2004 og er nefnd „Mat á ástandi og valkostum“. Sá hluti sem snýr að mati á ástandi eignanna var birtur til fróðleiks fyrir væntanlega bjóðendur. Hinn hlutinn snéri að hugsanlegum nýtingarmöguleikum stöðvarinnar og kostnaði honum samfara. Telja verður óraunhæft að seljandi hafi á því skoðun hvernig væntanlegur kaupandi hyggst nýta eignirnar eða áætli kostnað við hugsanlegar endurbætur, sé þeirra þörf.

     10.      Er vitað um mengun í jarðvegi, olíu eða önnur mengandi efni, á því svæði sem fyrirhugað er að selja? Ef svo er, hvíla kvaðir á landeiganda varðandi hreinsun?
    Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja (varnarsvæði falla undir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja samkv. 3. gr. reglugerðar nr. 828/2003, um hollustuhætti og mengunarvarnir á varnarsvæðum) hefur upplýst að því hafi á sínum tíma verið gert viðvart um að lekið hafi úr hálfniðurgröfnum olíutanki á svæðinu fyrir nokkrum árum. Sýni voru tekin úr grunnvatni árið 2002 og greindist ekkert óeðlilegt í þeim. Það er afstaða Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að jarðvegs- og grunnvatnsmengun sé minniháttar. Heilbrigðiseftirlitið telur að það muni ekki á neinn hátt hamla nýtingu svæðisins, hvorki hvað varðar mannvirkjagerð í framtíðinni né nýtingu svæðisins til útivistar.