Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 133. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 137  —  133. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum, og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum.
    

Flm.: Árni Þór Sigurðsson, Siv Friðleifsdóttir, Atli Gíslason,


Grétar Mar Jónsson, Höskuldur Þórhallsson.



Breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
1. gr.

    Við 12. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

2. gr.

    Við 1. mgr. 13. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

Breyting á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
3. gr.

    Við 4. mgr. 14. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Nú fær framboð sem fulltrúa á í sveitarstjórn ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í kjörstjórninni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á annars vegar lögum um kosningar til Alþingis og hins vegar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Gert ráð fyrir að framboð sem á fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn geti tilnefnt áheyrnarfulltrúa í landskjörstjórn og/eða yfirkjörstjórn eigi framboðið ekki kjörinn fulltrúa þar. Gengið er út frá því að strax eftir gildistöku geti framboð óskað eftir áheyrnaraðild að landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.
    Kosningarrétturinn er einn mikilvægasti rétturinn í lýðræðissamfélagi. En lýðræði er þó ekki tryggt þótt kosningarréttur sé til staðar. Mýmörg dæmi eru til um ríki þar sem aðeins einn flokkur hefur fengið að bjóða fram eða þar sem ríkjandi stjórnvöldum er tryggður sigur í kosningum með kosningasvindli. Kjörstjórnir gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja að kosningar fari rétt og eðlilega fram, þær séu leynilegar og úrslit kosninga séu í samræmi við það sem kjósendur hafa raunverulega kosið. Það má því aldrei verða þannig að kjörstjórnir verði lokaður hópur fulltrúa fárra stjórnmálaflokka, enda þótt þeir njóti stuðnings meiri hluta kjósenda. Starf kjörstjórna er heldur ekki flokkspólitískt, það er fyrst og fremst lýðræðislegs eðlis og því afar þýðingarmikið að tryggja hagsmuni og sjónarmið sem allra flestra innan þeirra. Eðlilegt hlýtur að teljast að allir flokkar eða framboðslistar sem eiga fulltrúa á Alþingi geti tekið þátt í störfum landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna. Hið sama á við við sveitarstjórnarkosningar.
    Eftir alþingiskosningar í vor fóru fram kosningar í landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir í hverju kjördæmi. Þar sem hlutfallskosningareglunni er beitt við kosningar af þessu tagi gat núverandi stjórnarmeirihluti á Alþingi tilnefnt fjóra af fimm fulltrúum í öllum kjörstjórnum. Tveir stjórnmálaflokkar hafa þannig 80% allra kjörstjórnarfulltrúa þótt þeir hafi „ekki nema“ 67% þingmanna á bak við sig. Þrír stjórnmálaflokkar, með um 33% þingmanna, hafa hins vegar aðeins 20% kjörstjórnarmanna og verða að skipta með sér einu sæti í hverri kjörstjórn. Þessi staða er vitaskuld óviðunandi og í sjálfu sér afar ólýðræðisleg. Nær hefði verið að flokkarnir tveir, með 67% fylgi, fengju þrjá af fimm kjörstjórnarmönnum, eða 60%. Því var hreyft við formenn þingflokka stjórnarflokkanna áður en til kosninga kjörstjórna kom, en því miður reyndist ekki áhugi á því að koma til móts við lýðræðisleg sjónarmið stjórnarandstöðunnar í þessu efni. Þetta er þeim mun sérkennilegra þegar haft er í huga hlutverk kjörstjórna: Að tryggja að kosningar fari lýðræðislega fram.
    Til að taka á þessum lýðræðishalla er vafalaust hægt að fara mismunandi leiðir. Ein leið væri að tryggja öllum flokkum að lágmarki einn fulltrúa í hverri kjörstjórn en þá þyrfti væntanlega að fjölga í kjörstjórnum til að tryggja um leið vissan jöfnuð milli flokka eftir stærð þeirra. Sú leið sem hér er lögð til kallar ekki á fjölgun í kjörstjórnunum sjálfum en gefur flokkum og framboðslistum sem fá kjörinn fulltrúa á Alþingi eða í sveitarstjórn, rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa til starfa með kjörstjórnum. Þannig er tryggt að rödd allra heyrist, og um leið viðurkennt að það er jafnmikilvægt að lítill stjórnmálalflokkur geti á lýðræðislegan hátt fylgst með gangi kosninga eins og stór flokkur.