Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 86. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 151  —  86. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um uppbyggingu fjarskipta og háhraðanetstenginga.

     1.      Hvað líður framkvæmdum við að koma á háhraðafarsímaþjónustu og háhraðatengingum um allt land sem átti að standa öllum landsmönnum til boða á árunum 2006 og 2007 samkvæmt þingsályktun um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 sem samþykkt var á 131. löggjafarþingi? Upplýsingar um stöðu framkvæmdanna óskast sundurliðaðar eftir landsvæðum og einstökum byggðum og ástæður tilgreindar ef um seinkun á framkvæmdum er að ræða.
    Póst- og fjarskiptastofnun bauð út tíðnir fyrir þriðju kynslóð farsíma í samræmi við lög um þriðju kynslóð farsíma, nr. 8/2005, og voru tilboð í tíðniheimildarnar opnuð þann 12. mars sl. Í kjölfarið var tíðniheimildum úthlutað til þriggja fjarskiptafyrirtækja, Nova ehf., Símans hf. og Og fjarskipta ehf., og hafa þau fyrirtæki hafið uppbyggingu þriðju kynslóðar farsímaþjónustu í samræmi við útboðsskilmála.
    Varðandi framkvæmdir við að koma á háhraðanettengingum um allt land þá er undirbúningur að útboði á háhraðatengingum á þeim stöðum þar sem markaðsaðilar eru ekki eða ætla ekki að bjóða upp á háhraðatengingar á lokastigi en áætlað er að þeirri vinnu verði lokið í byrjun nóvember.
    Að öðru leyti er vísað til skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd fjarskiptaáætlunar sem lögð var fyrir á Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007 (þskj. 1063, 682. mál) varðandi stöðu framkvæmda við að koma á háhraðanettengingum og háhraðafarsímaþjónustu.

     2.      Er ráðherra kunnugt um hvort sveitarfélög hafi að eigin frumkvæði lagt í kostnað, sem fjarskiptasjóður hefði átt að bera, til að flýta fyrir uppbyggingu háhraðaþjónustu fyrir íbúa sína? Ef svo er, hvernig mun fjarskiptasjóður koma til móts við þau sveitarfélög svo að jafnræðis sé gætt?
    Erindi hafa borist fjarskiptasjóði frá einstökum sveitarfélögum sem ákveðið hafa að byggja upp háhraðatengingar innan síns sveitarfélags á undan uppbyggingu á vegum fjarskiptasjóðs. Fjarskiptasjóður starfar samkvæmt lögum um fjarskiptasjóð, nr. 132/2005, og reglugerð sem sett hefur verið á grundvelli þeirra laga nr. 588/2006, um stjórn fjarskiptasjóðs og verkefnisstjórnar um framkvæmd fjarskiptaáætlunar. Hlutverk hans skv. 2. gr. laganna er að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskiptaverkefna sem stuðla að öryggi og samkeppnishæfni þjóðfélagsins á sviði fjarskipta og annarra verkefna, enda sé kveðið á um þau í fjarskiptaáætlun og ætla má að ekki verði í þau ráðist á markaðsforsendum.
    Í 7. gr. reglugerðar nr. 588/2006, um stjórn fjarskiptasjóðs og verkefnisstjórnar um framkvæmd fjarskiptaáætlunar, er nánar kveðið á um verksvið og verkefni stjórnar fjarskiptasjóðs. Þar er meðal annars tekið fram að stjórnin skuli ákveða framlög úr sjóðnum í samræmi við hlutverk sitt og fjarskiptaáætlun að undangengnu útboði. Þá segir í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands: „Samgönguráðherra skipar verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar. Farin verður útboðsleið til að ná fram markmiðum áætlunarinnar og boðin verður út skýrt skilgreind þjónusta á afmörkuðum svæðum.“ Það frumvarp varð að lögum nr. 133/2005 en þar er kveðið á um að verja skuli 2.500 millj. kr. til uppbyggingar í samræmi við fjarskiptaáætlun, m.a. til uppbyggingar á háhraðatengingum.
    Með vísan til ofangreindra laga- og reglugerðarákvæða liggur fyrir að framlög úr fjarskiptasjóði til uppbyggingar á háhraðatengingum verða eingöngu veitt að undangengnu útboði þar sem meðal annars er gætt að EES-reglum eins og kröfum um tæknilega óháð útboð. Af þeim sökum er fjarskiptasjóði óheimilt að taka þátt í kostnaði sem sveitarfélög hafa lagt út í vegna uppbyggingar háhraðanettenginga og ekki standast skilyrði ofangreindra laga- og reglugerðarákvæða um framkvæmd útboða.

     3.      Í hverju felst munurinn á kostnaði notenda eftir landsvæðum ef miðað er við sambærilega þjónustu við gagnaflutninga gegnum háhraðanet?
    Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar eru 91% heimila á höfuðborgarsvæðinu með ADSL-tengingar og 6% með upphringitengingu (venjulega símalínu eða ISDN) en 86% heimila á landsbyggðinni eru með ADSL-tengingar og 10% með upphringitengingu. Heimilin greiða sama verð fyrir þessar tengingar hvar sem er á landinu þar sem þær eru í boði, en þjónustan er ekki alls staðar sú sama, þ.e. ADSL-tenging er ekki alls staðar í boði og á ýmsum stöðum er hraði umfram 2 Mb/s ekki í boði af tæknilegum ástæðum.
    Fyrirtæki nota helst IP-gagnaflutningstengingar (IP stendur fyrir „Internet Protocol“-samskiptastaðal sem m.a. er notaður á internetinu) af einhverju tagi, svo sem ADSL eða IP-netsambönd. IP-sambönd eru ekki alls staðar í boði en verð getur verið allt að 20% hærra úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu.
    Fjarskiptafyrirtæki og internetþjónustuaðilar nota ýmsar tegundir gagnaflutningstenginga, eftir því hvaða fjarskipti þau bjóða upp á, t.d. leigulínur (stofnlínur), ljósleiðarasambönd og IP-netsambönd. Fyrir leigulínur er mismunandi leiguverð tekið eftir því hver flutningsgeta þeirra er. Verð fyrir gagnasambönd á landsbyggðinni um leigulínur og ljósleiðarasambönd með tryggða flutningsgetu miðast annars vegar við fastagjald og hins vegar vegalengd þeirra til Reykjavíkur, þ.e. fjölda kílómetra, þar sem tengipunkturinn fyrir gagnaflutning er í Reykjavík. Notendur á landsbyggðinni greiða því hærra verð en þeir sem eru á höfuðborgarsvæðinu.

     4.      Hvenær og hvernig hyggst ráðherra hrinda í framkvæmd þeim brýnu og aðkallandi aðgerðum sem þarf til að jafna kostnað landsmanna við gagnaflutninga og aðra fjarskiptaþjónustu?
    Eitt af markmiðum fjarskiptaáætlunar er að stuðla að því að jafna verð á fjarskiptaþjónustu um allt land. Samgönguráðherra hyggst halda áfram að vinna að þessu markmiði með þeim úrræðum sem ráðuneyti hans hefur lögum samkvæmt yfir að ráða. Þegar áform fyrirtækja á fjarskiptamarkaði liggja fyrir og útboði háhraðatengingar lýkur eru líkur til þess að samkeppni á þessum markaði aukist neytendum til hagsbóta. Vinna í þessum efnum mun m.a. taka mið af þessu, þ.e. að reyna eftir fremsta megni að efla og auka samkeppni á þessu sviði. Fyrsta skrefið er að koma á tengingum um allt land.

     5.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að þeir þræðir í ljósleiðaranum sem áður tilheyrðu NATO en nú íslenska ríkinu verði nýttir til að byggja upp að nýju grunnnet fjarskipta í samfélagseigu eða eru uppi áform um að einkavæða og selja þessa ljósleiðaraþræði eins og gert var með grunnnet símans?
    Þeir þræðir í ljósleiðaranum sem hér um ræðir heyra undir utanríkisráðuneyti en þeir eru á eignaskrá NATO sem kostaði lagningu þeirra og þeir verða því ekki seldir að óbreyttu. Að öðru leyti tekur samgönguráðuneytið þátt í starfshópi sem komið hefur verið á fót undir forystu utanríkisráðuneytisins með það hlutverk að kanna möguleika á hagnýtingu umræddra þráða í borgaralegum tilgangi. Búast má við að frekari ákvarðanir varðandi framtíð umræddra ljósleiðaraþráða muni bíða niðurstöðu þess starfshóps.